„Fauskarnir“ í Gamla testamentinu

„Fauskarnir“ í Gamla testamentinu

Ég held að með sanni megi segja að Heilög ritning hafni auðhyggju og ofgnótt. Þ.e. því að gera auðinn að takmarki i sjálfu sér, jafnvel megintakmarki lífsins. Sú ótrúlega skoðun hefur ósjaldan heyrst af munni fjármála- og viðskiptaspekinga undanfarin ár að græðgi sé góð, á endanum muni græðgi þess, sem kemst í álnir, verða samfélaginu til góðs.
fullname - andlitsmynd Jón Ásgeir Sigurvinsson
23. febrúar 2009

Spámenn og spekingar Gamla testamentisins þykja eflaust af mörgum hálfúreltir fauskar og hugsun þeirra lítt gagnleg fyrir póstmóderníska 21. öldina. En sé allrar sanngirni gætt verður að segjast að þeir voru nú sumir hverjir ansi róttækir – eins og þykir jú „korrekt“ að vera í dag – og skilaboð þeirra furðanlega í takt við aðstæður á Íslandi á okkar tímum, u.þ.b. 2600-2900 árum síðar. „Vei þeim sem bæta húsi við hús, tengja akur við akur þar til engin spilda er eftir og þér búið einir í landinu,“ segir Jesaja spámaður (Jes 5.8) Hér er lýst söfnun auðs á fárra hendur, fasteigna og jarðnæðis, sem er augljóslega sístætt vandamál í samfélagi manna.

SpámaðurÍ spakmælasafninu, sem kallast Orðskviðirnir, eru góð ráð sem samferðamenn Jesaja hefðu þurft að fylgja en gerðu vísast ekki. Þar er varað við auðhyggju og bent á hverfulleik auðsins sem margur Íslendingurinn hefur nú kynnst af eigin raun: „Leitastu ekki við að verða ríkur, hafðu vit á að gera það ekki. Beinir þú augum þínum til auðsins er hann horfinn. Hann á sér vængi sem örn og hverfur til himins.“ (Okv 23.4-5)

En ef auður er ekki það sem leita skal eftir, hvað þá? Í 22. kafla Okv ritar óþekktur spekingur: „Hneig eyra þitt og hlusta á orð hinna vitru, veit fræðslu minni athygli. Gott er að þú geymir þau í brjósti þér, að þau verði sífellt á vörum þér. Til þess að traust þitt sé á Drottni fræði ég þig í dag, já, þig.“ (Okv 22.17-19) Orð hinna vitru, þ.e. fræðsla og menntun, og traust á Drottni, þ.e. lifandi trú á hann, sem er grundvöllur lífsins, er það sem er eftirsóknarvert.

Ég held að með sanni megi segja að Heilög ritning hafni auðhyggju og ofgnótt. Þ.e. því að gera auðinn að takmarki i sjálfu sér, jafnvel megintakmarki lífsins. Sú ótrúlega skoðun hefur ósjaldan heyrst af munni fjármála- og viðskiptaspekinga undanfarin ár að græðgi sé góð, á endanum muni græðgi þess, sem kemst í álnir, verða samfélaginu til góðs eins og brauðmolarnir, sem falla af borðum húsbændanna, hundunum. Þessi skoðun var viðruð á svo eftirminnilegan hátt í kvikmyndinni Wall Street og hraut þar af vörum annarrar aðalpersónu myndarinnar, kaupsýslumannsins Gordon Gekko, en ef mig misminnir ekki voru þessi orð þar tákn um siðspillingu hans.

Það hefði líklegast orðið mörgum til meiri gæfu hefðu þeir haft spakmælið „gott mannorð er dýrmætara en mikill auður,“ (Okv. 22.1) að leiðarljósi. Það á þó ekki aðeins við um þá í atvinnulífi og stjórnmálum, sem mesta ábyrgð bera á því hvernig komið er í íslensku þjóðlífi. Þeir mættu t.a.m. einnig hugsa um mannorð sitt sem nú, á tíma hinnar réttlátu reiði, blogga athugasemdir við fréttir á vefmiðlunum, sem oftar en ekki geta vart talist annað en ómerkilegt níð og skítkast.

Altént held ég að það megi fullyrða að hverjum nútímaíslendingi væri hollara að hneygja eyra sitt að ýmsum af orðum fauskanna í Biblíunni en flestu því sem ritað er í nútímaspekiritum þeim, sem kallast fjölmiðlar, því að breyttu breytanda voru hinir gömlu ansi „up to date“ eða í það minnsta sígildir.