Gæti Silvía Nótt beðið?

Gæti Silvía Nótt beðið?

Guð sækist eftir samskiptum en Silvía Nótt krefst aðdáunar. Guð tjáir elsku, en Silvía Nótt vill bara vera súperstar. Silvía Nótt er boðberi lúkksins, Guð er veruleiki inntaks. Silvía vill þögla þjónustu, Guð vill ríkuleg samskipti og samstöðu. Bænadagsprédikun 21. maí, 2006 fer hér á eftir.

Guðspjall. Jóh.16.23b-30 Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn. Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður, því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn. Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins. Lærisveinar hans sögðu: Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði.

Guðbjörg litla var að biðja kvöldbænirnar sínar og hrópaði hátt: “Góði Guð viltu gefa mér fallega dúkku í afmælisgjöf. Hún fæst í dótabúðinni í Kringlunni. Amen!” Mamma Guðbjargar sagði við dóttur sína þegar bæninni var lokið. “Það er nú alveg óþarfi að hrópa svona. Guð heyrir ágætlega.” En dóttir hennar svaraði hiklaust: “Já, ég veit það, en afi heyrir ekkert vel. Hann er í næsta herbergi svo ég verð að tala hátt!”

Bænadagur kóngs og almennings Það er bænadagur þjóðkirkjunnar í dag, hinn almenni bænadagur. Fyrrum var hann oft kallaður kóngsbænadagur. Um aldir komu biskupar skilaboðum til landsmanna hvenær skyldi taka frá daga til bæna. En kóngarnir skiptu sér líka af trúarlífinu. Kristján 5. fyrirskipaði t.d. að almennur bænadagur skyldi vera fjórða sunnudag eftir páska. Af því að það var kóngurinn en ekki biskupinn, sem skipaði, festist nafn kóngs við daginn. Svo gleymdi fólk upphafi þessa bænadags og æ fleiri héldu, að á þessum degi ætti að biðja sérstaklega fyrir kónginum! En kóngsfyrirbæn var nú reyndar iðkuð á öllum helgum dögum meðan Ísland var hluti Danaveldis, rétt eins og beðið hefur verið fyrir forseta og ríkisstjórn á lýðveldistímanum. Árið 1951 óskaði biskup Íslands, að haldinn skyldi bænadagur að vorlagi og er hann síðan haldinn viku síðar en gamli kóngsbænadagurinn. Í dag, á fimmta sunnudegi eftir páska, er því hinn almenni bænadagur.

Biðjið... í mínu nafni Texti guðspjallsins varðar auðvitað bæn. Það er ekki kóngur eða biskup hér í norðri, sem skipar fólki að biðja, heldur kóngur og biskup kristninnar, Jesús Kristur, sem segir: “Biðjið og þér munuð öðlast. Biðjið..... í mínu nafni. ...því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.”

Þetta er samhengi bænarinnar, elskan og virðingin fyrir Jesú. Afstaðan til hans setur okkur í samband við Guð, gerir okkur kleyft að orða og bera fram það sem við höfum gert rangt og mistekist í. Við megum óska okkur, tjá vanda okkar, hugsa um gleðimálin, vera manneskjur. “Biðjið, og þér munuð öðlast...” segir Jesús og bætir við “...svo að fögnuður yðar verði fullkominn.” Við megum vita, að við munum gleðjast í þessu talsambandi. Bæn, gleði, elska, Jesús Kristur, Guð faðir og þú heyra saman og mynda lífshátt.

Bænin Hvað er bæn? Guðbjörg kallaði hátt til að afi heyrði. Sú stutta hafði á hreinu, hvernig Guð gæti notað afa til að svara stefnuföstum bænum. Var þetta bæn hjá henni eða kannski bara skilaboð eða skipun? Var hún bara að nota trúarlegt orðfæri til að koma dúkkuágirnd sinni á framfæri, nota bæn til að véla afa sinn með því að þykjast vera að tala við Guð? Var hún kannski að nota Guð? Getur verið að við líkjumst Guðbjörgu í því að misskilja bænina og eðli hennar?

Ég man eftir að nokkrir Norðmenn stofnuðu fyrirbænafyrirtæki fyrir rúmum þremur áratugum. Þeir fullyrtu, að þeir væru svo bæn heitir, að þeir gætu tryggt þeim, sem þeir bæðu fyrir nýtt hús, nýja vinnu og auðlegð. Vissulega urðu þau, sem réðu þá til bænavinnunar, að borga ríflega, en fullyrt var að útgjöldin væru smámunir miðað við eftirtekjuna. Þetta var auðvitað ekkert annað en fjárplógsstarfsemi með frómu yfirbragði. Bænatæknarnir voru ekki í sambandi við Guð, heldur aðeins við eigin ágirnd, eigin spillingu, syndina. Þeir ætluðu að nota Guð. Ef við umorðum ábendingu úr siðfræðinni getum við sagt: Guð verður aldrei verkæri, getur ekki verið tæki, heldur er og verður aðeins markmið. Guð er ekki tæki heldur markmið - og við getum bætt við - upphaf líka.

Hvað erum við? Bænadagurinn er stundum daginn eftir úrslit Eurovisjón-keppninnar! Við, Íslendingar, höfum alltaf orðið að staldra við og ná okkur eftir að uppgíraður spenningur hefur sprungið með skelli vonbrigða. Silvía Nótt stóð ekki undir væntingum. Hún var trú sinni sjálfhverfu yfirborðsmennsku og óbilgirni. Hún einbeitti sér að lúkkinu og úthúðaði öllum, sem ekki hlýddu grímulausri sjáfsdýrkun hennar.

Ég dáist að hinu hugsaða dárhlutverki Silvíu Nætur. Ágústa Eva Erlendsdóttir og meðskapari hennar, Gaukur Úlfarsson, hafa mótað ýkta yfirborðsveru sem skrumskælir efnishyggju, efnissókn og sjálfhverfu nútímalífsins. Við tökum öll þátt í dansinum um hin yfirborðslegu gildi. Í Staksteinum Morgunblaðsins var í fyrradag réttilega minnt á, að við öll erum í Silvíu. Við erum öll sek um að detta í for hennar. Við höfum gott af því að horfa í hinn ýkta spéspegil Silvíu til að sjá í hvaða dansi við tökum þátt.

Í Aþenu ýkti Silvía Nóttt mannskilning útlitsins, lúkksins, sjálselskunnar og mannfyrirlitningar. Ég held, að Silvía Nótt sé ljómandi dæmi um mannveru, sem skortir allar forsendur til mennskrar tjáningar og samskipta. Hún er ekki persóna, á sér ekkert inntak, er ekkert annað en sókn í dúkkur lífsins, hvort sem það er aðdáun annrara, glamúr eða verðlaun. Hún getur ekki unnið Eurovisjón vegna heilindaskorts. Það vantar ekki, að hlutverkið er hugsað, lúkkið er flott, klæðin sláandi, en það bara vantar ástríðu, sem músík nærist á og þegar dýpst er skoðað vantar persónu.

Bæn og Silvía Gæti Silvía Nótt beðið bæn? Nei, hún hefur enga möguleika eða forsendur til þess. Til að biðja verðum við að vera mennsk, persónur, og tjá úr djúpi lífs okkar þrá okkar eftir því sem skiptir máli, viðurkenna takmarkanir okkar, leita að þeirri elsku, sem er annað og meira en lúkk og hlutir. Silvía Nótt er dyngja lastanna sem er andhverfa mennskunnar. Í hana vantar fjölvíddir. Hún er aðeins einvíddarvera, sem aðeins sölsar undir sig, sýgur til sín, ásælist og gefur ekkert. Slík vera getur ekki beðið bæn. Það er svo allt annað og óskylt mál með Ágústu Evu og hennar bænalíf.

Silvía Nótt leitar í það sæti, sem Guð skipar, hún vill vera miðpunktur tilverunnar. Guð sækist eftir samskiptum en Silvía Nótt krefst aðdáunar. Guð tjáir elsku, en Silvía Nótt vill sannfæra alla um, að hún sé súperstar. Silvía Nótt er boðberi lúkksins, Guð er veruleiki inntaks. Silvía vill þögla þjónustu, Guð sækist eftir ríkulegum samskiptum og samstöðu.

Góða persónan í lífi þínu Það skiptir máli hvers konar mótun við höfum hlotið og hvað við erum. Til að ná sambandi við Guð skiptir líka máli, að við tölum við réttan Guð. Ranghugmyndir um Guð er ein af ástæðum þess, að fólk á erfitt með að biðja. Guð er ekki sjálfsali, sem dælir út vöru, ef þú segir rétt orð eða reiðir fram rétta upphæð. Guð er ekki heldur eins og tölva, sem tekur við skipunum þínum og framkvæmir þær. Guð er ekki kenjóttur yfirmaður, sem kannski er hægt að smjaðra eða dekstra til athafna og sinnir beiðni þinni, ef þú hittir á hann í góðu skapi á góðum degi. Hugmynd okkar eða ímynd um Guð getur hindrað eðlileg samskipti okkar við Guð.

Temdu þér að hugsa um Guð, í mynd þess aðila, sem hefur reynst þér best í lífinu, hvort sem það er móðir eða faðir, systir, bróðir eða einhver annar vinur. Við erum, hugsum og lærum einfaldlega þannig, að við byrjum í því, sem við þekkjum og getum síðan séð nýjar víddir og ný mál í framhaldinu. Hver hefur verið þinn besti viðræðufélagi í lífinu?

Lífsstíll Ég hef rætt við mörg hjón og hjónaleysi á liðnum mánuðum - séð undur og áföll hjúskapar frá mörgum sjónarhólum. Tjáskipti eru mikilvæg í hjónalífinu, þetta að fólk geti rætt saman um mál samskipta, langana, frístunda, heimilislífs, verkefna, vinnu, uppeldis, kvíðaefna, gleðimála – sem við lifum í erli og gleði daganna. Ég get ekki annað en staðfest það, sem hjúskaparsérfræðingarnir hafa lengi sagt, að samræður séu meginatriði góðs hjúskapar. Örugg afkoma er mikilvæg, kynlífið líka, heilbrigði heimilisfólks og almenn velferð. En ef hjón geta ekki talað saman fer illa, vanlíðan læðist að, óhamingjan skýtur rótum og svo kemur framhjáhald í einhverri mynd og líka sjúkdómar. “Hvernig getum við iðkað hamingjuna?” er hin mikilvæga spurning í lífi hjóna.

Ég minni gjarnan pör á mikilvægi þess, að tjá hið jákvæða í fari maka síns eða sambúðaraðila. Þetta vill fólk gera, en svo þegar hversdagslífið, annir og áhyggjur hellast yfir gleymist gjarnan að hrósa. Af hverju? Jú, vegna þess að það er ekki hluti af lífsstefnu viðkomandi að tala, vera jákvæður og tjá það, segja maka sínum hvað gleður. Það þarf ekki að vera stórkostlegt, jafnvel það hvernig hann eða hún tannburstar sig getur hrifið þig eða pirrað. Þetta má tjá! Það er ekki nóg, að ætla sér að hrósa einu sinni á dag ef hrósið er aðeins aðferð, skylda. Hrós þarf að spretta af löngun til að efla maka sinn, þarf að vera hluti af lífsstíl viðkomandi. Hrifning á öðrum deyr fljótt, ef hún nýtur ekki stuðnings í lífsstefnu, lífshætti. Hjónalíf, sem ekki nærist á lífsstíl umhyggju, virðingar, trúmennsku og elsku veiklast og deyr að lokum. Ég er farinn að spyrja fólk um hvort það hafi vilja til að gera það að lífsstíl að elska konuna sína eða karlinn sinn. Ef það er ekki tilbúið til þess og vill ekki læra kúnstir þess lífsmáta er það ekki fært um að elska eða lifa í sambúð.

Lífsstíll Guðstalsins Hvernig tengsit hjónalíf bæn? Að biðja er ekki það, að biðja um ríkidæmi, ekki það að koma fram fyrir Guð og biðja um bíl, hús eða vinnu, heldur er bæn lífsstíll samskipta. Guð er eins og ástmögur sem við eigum samskipti við. Guð eigum við að í lífsstíl okkar. Við Guð tölum við af því að það er okkur eiginlegt og tamt. Við Guð ræðum við af því að það gerir okkur gott, að eiga náin samskipti við besta vin okkar.

Vissulega biðjum við vini okkar, börn, foreldra, maka og vini stundum ákveðinnar bónar. Við biðjum um greiða, stuðning, biðjum um upplýsingar eða aðstoð. Kunningjar okkar verða vinir okkar af því að við höfum ræktað samband við þá og því hægt að biðja um einstök og ákveðin atriði. Þannig er það líka í samskiptum við Guð. Það er ekkert óeðlilegt, að við biðjum Guð um aðstoð, þegar við finnum að hjartaverkur er byrjaður að hrjá okkur, að við eigum orðið erfitt með vinnu okkar, að fólkið okkar á í erfiðleikum. En af því samband er fyrir hendi verður bónin raunveruleg. Bæn er bæði einstök efni en líka samband. Bæn er ekki orð og verkefni heldur perónumál. Bæn er samskipti, geta varðað einstök efni en á grundvelli þroskaðs sambands.

Þegar dýpst er skoðað er lifandi manneskja samfelld bæn. Ekki eitt augnablik getum við lifað án þess, að Guð gefi okkur lífsmátt og lífsmöguleika. Ekki eitt augnablik getum við staðið utan við lífsnet Guðs. Líf okkar er ekki lokað heldur opin spurn, hreinn lífsþorsti - og er það ekki frumbæn?

Vöxtur eða dauði Í samskiptum við fólk vöxum við eða deyjum. Í samskiptum við Guð vöxum við aðeins og þroskumst. Eðli mannsins er ekki að fleyta kerlingar á yfirborðshafi hluta, sjáfshyggju og sjálfsdýrkunar eins og Silvíu Næturheimurinn tjáir okkur, heldur að leita dýptar, leita hamingju, leita samskipta við elskubú alheimsins, Guð. Þrá okkar hið innra er að eiga ástvin í Guði. Við finnum elskuna og jafnframt okkur sjálf, þegar við náum að kyrrast frammi fyrir undri lífsins, Guði. Þar megum við hlusta og nánd Guðs mun umlykja okkur og færast upp í vitundina líka. Eins og í ástalífinu þjálfumst við til ástríkis og næmi. Við lærum að treysta og hvíla í elskufaðmi Guðs. Þegar við færumst nálægt Guði fjarlægjumst við ekki fólk, heldur verðum nánari bæði sjálfum okkur og næmari á þarfir, líðan og þrá annarra. Þegar við hvílum í Guði fáum við líka betri sýn gagnvart verkefnum, lífsmynstrum, fíknum okkar, vörnum og löstum, sem við getum síðan unnið með og jafnvel á. Bæn til Guðs gefur sjónarhól og bænalíf er hreinsunarferli sálarinnar. Bæn vinnur á áhyggjum, veitir slökun og eykur lífsgæðin.

Hvar og hvenær á maður að biðja? Svarið er einfalt: Hvar og hvenær sem er. Þegar þú er að keyra í vinnuna og stoppar á rauðu ljósi getur þú beðið. Líka þegar þú gengur á milli búða í Kringlunni. Bæn er ekki lúkk heldur lífsstíll. Guð er ekki aðeins í kirkju á sunnudögum, heldur nær þér en lífsandi þinn, nær þér en tíminn. Viltu dúkku eða dýrmæti lífsins?

Amen

Prédikun í Neskirkju á bænadegi 2006

Lexía. Jer. 29.11-14a Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður segir Drottinn -fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður. Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta, vil ég láta yður finna mig segir Drottinn.

Pistill. 1.Tím. 2.1-6a. Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús, sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla.