Kristilegur kapítalismi?

Kristilegur kapítalismi?

Sú sýn á fjármunum sem hér birtist er í fyrsta lagi að allt sem við eigum sé frá Guði komið og í raun óverðskuldað. Það er grundvallarviðhorf Biblíunnar og ætti að vera leiðarþráðurinn í fjármálahugsun kristins fólks, vekja með okkur auðmýkt gagnvart eignum okkar og aflafé.

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.

Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.

Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.

Lúk. 12. 13-21

Er talað um peninga í Biblíunni? Hvaða sýn birtir Guðs orð á fjármunum og auðæfum? Hvaða leiðsögn sækjum við kristið fólk til heilagrar ritningar í peningamálum? Getur verið að Guð láti sig slík málefni varða?

Fyrstu og síðustu spurningunni má svara játandi. Það er ekki flóknara en svo. Rit Biblíunnar sneiða ekki hjá þessu mikilvæga málefni mannlífsins, frekar en öðru því sem daglegt líf snertir. Og Guð lætur sig varða um fjármál okkar, bæði afkomu heimilanna og eins hvernig við verjum launum og ágóða.

Það sem við lesum í bók bókanna um peningamál er af margvíslegum toga. Í Orðskviðum Salómons segir þannig: Blessun Drottins, hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana (10.22), en líka: Snauður verður sá, er með hangandi hendi vinnur, en auðs aflar iðin hönd (10.4). Í sama kafla, 10. kafla Orðskviðanna, er talað um hyggindi þess er á sumri safnar og blessunina sem kemur yfir höfuð hins réttláta (v. 5 og 6). Sjöunda versið safnar þessum hugsunum saman: Minning hins réttláta verður blessuð, en nafn óguðlegra fúnar.

Allt er frá Guði

Sú sýn á fjármunum sem hér birtist er í fyrsta lagi að allt sem við eigum sé frá Guði komið og í raun óverðskuldað. Það er grundvallarviðhorf Biblíunnar og ætti að vera leiðarþráðurinn í fjármálahugsun kristins fólks, vekja með okkur auðmýkt gagnvart eignum okkar og aflafé. Í öðru lagi er hnykkt á því að okkur ber að vera iðin og starfsöm, framsýn og dugleg til að missa ekki af þeim gæðum lífsins sem öruggur efnahagur er grunnur að. Sagt hefur verið að kapítalisminn, markaðshyggjan, eigi sér að einhverju leyti rætur í kristinni trú vegna þessa viðhorfs. Í þriðja lagi ber okkur samkvæmt Biblíunni að gefa öðrum hlutdeild í þeim fjármunum og veraldlegum eignum sem við kunnum að ráða yfir og hafa fallið okkur í skaut vegna eigin vinnusemi eða á annan veg. Vilja margir meina að þarna sé uppspretta félagshyggjunnar, að öll berum við sameiginlega ábyrgð á því að fólkið í þessari veröld geti lifað mannsæmandi lífi, líka þær manneskjur sem hafa enga möguleika á að afla eigin tekna.

Pollýanna

Um daginn sýndi RÚV sjónvarpsmynd frá 1960, sem gerð var eftir hinni dásamlegu bók Eleanor H. Porter um Pollýönnu (kom fyrst út 1913), sem við lásum mörg í bernsku. Eitt stef bókarinnar er hrokinn og kærleiksleysið sem stundum einkennir vel efnað fólk, sem aðeins hugsar um náungann að því marki sem það kemur því sjálfu vel og eykur þess eigin hróður. Það er jafnvel hægt að “eiga” heilt bæjarfélag, deila þar og drottna eftir eigin hentugleikum í skjóli auðæfa og ættarhroka. En sem betur fer getur enginn átt kirkjuna og litlu stúlkunni Pollýönnu tókst að fá prestinn í lið með sér til að opna augu bæjarbúa fyrir því sem rétt var að gera. Síðan rekur sagan sig eins og við þekkjum og Pollý frænka fær opnað hjartadyr sínar.

Nú er Pollý, hinn forríki erfingi Harrington auðæfanna, alls ekki alvond. Faðir hennar gaf hús til munaðarleysingahælis og hún segist vilja lagfæra það sem að er í gamalli byggingunni. En betra væri fyrir starfsemina að byggja hreinlega nýtt hús og það vill Pollý ekki sjá. Hún er upp að vissu marki góð við munaðarlausa systurdóttur sína, en þó ekki meira en svo að hún fær lélegasta herbergið í húsinu og í besta falli þurrt viðmót frænku. Hin ríka kona er þarna aðeins góðgjörn að því marki sem það hentar henni sjálfri og hróðri ættarinnar. Hún höndlar ekki kærleikann og vísar ástinni sinni, hinum myndarlega og réttsýna doktor Chilton, á bug.

Að höndla veraldlegar eigur

Sagan um Pollýönnu rúmar margar merkingar, ekki síst um að takast á við lífið og áföll þess með æðruleysi og gleði. Boðskapurinn um að leita hins góða í manneskjunni í stað hins illa á alltaf við og líka áminningin til okkar prestanna um að leggja nú út af hinum 826 gleði-stöðum í Biblíunni, vers þar sem manneskjurnar eru hvattar til að lofa Guð og vera glaðar!

En í dag eru það fjármunirnir og hvernig manneskjan höndlar veraldlegar eignir sínar sem eru í brennidepli. Pollý frænka á það sameiginlegt með ríka bóndanum í dæmisögu Jesú – eða ríka heimskingjanum eins og erlendar biblíuyfirskriftir hljóða – að hugsa aðeins um eigin hag, ekki hag annarra. Tökum eftir því að ríki maðurinn notar sex sinnum orðið “ég” og samtal hans er við eigin sál, hvorki Guð né samferðafólkið.

Ég um mig frá mér til mín. Það er að þessu hugarfari sem ádeila Jesú beinist. Hann gagnrýnir ekki auðinn sem slíkann. Það er allt í lagi að eiga eitthvað. Jesús boðar ekki alræði öreiganna. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við að vera ríkur eða eiga land sem ber miknn ávöxt. Það er heldur ekki ámælisvert að leggja fyrir og eiga til mörgu áranna. Eins og fram kom hér í upphafi er iðnin og forsjálnin lofuð í Biblíunni.

Það sem er athugavert við hegðun ríka heimskingjans í dæmisögu Jesú er tvennt, nátengt hvort öðru: • Í fyrsta lagi gleymir hann að ávextir landsins eru gjöf Guðs, ekki eign manna. Hann þakkar ekki skaparanum gjafirnar. • Í öðru lagi gleymir hann að gefa með sér. Við eigum að miðla gjöfum Guðs, sem vegna hagstæðra aðstæðna okkar eða eigin dugnaðar hafa fallið okkur í skaut, miðla þeim til samferðafólksins.

Að bera ábyrgð á hag heildarinnar

Ef við nú heimfærum þetta til eigin lífs gæti hugsanaferlið verið eitthvað í þessa veru: Við búum flest við öruggan fjárhag. Sum okkar hafa e.t.v. fengið allt upp í hendurnar, önnur þurft að hafa mikið fyrir því að eiga til hnífs og skeiðar, hvað þá að geta safnað til mögru áranna. Væntanlega höfum við, sem sækjum kirkju reglulega, flest hugsun á því að þakka Guði fyrir afkomu okkar – að við höfum haft heilsu og aðstæður til að afla heimilum okkar tekna. Kannski höfum við gleymt því og þá er tækifærið núna. Þetta hugarfar, að þakka Guði gjafir hans, er hugarfar auðmýktar og samstöðu með veröldinni allri, að finna sig hluta sköpunarverks Guðs og bera með honum ábyrgð á hag heildarinnar.

Líklega höfum við öll í gegn um tíðina styrkt ýmsa aðila með fjármunum okkar. Við höfum keypt happadrættismiða og tombóluvinninga, stutt bágstödd börn og tekið þátt í símasöfnunum. Kannski er Hjálparstarf kirkjunnar fastur liður á beingreiðslum mánaðarins. Allt er þetta sannarlega gott og blessað og skylda okkar hér á Íslandi sem búum við bestu kjör í heimi að leggja okkar að mörkum, ekki síst í alþjóðlegu samhengi.

En Guð spyr líka að hugarfarinu, ekki bara verkunum, þó mikilvæg séu. Ágirndin er lúmsk, græðgin oft undirliggjandi, og smáaurarnir sem við gefum hinum þurfandi eins og sárabót fyrir sálina, plástur á samviskubitið gagnvart umheiminum. Ég hvet okkur því til að skoða huga okkar. Finnst okkur raunverulega að við þiggjum allt af Guði? Stýrir sú grundvallarsýn heilagrar ritningar að Guð sé gjafari allra hluta verkum okkar?

Í lexíu dagsins hjá Míka spámanni (6.6-8) segir:

Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa? Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar? Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

Hinn sanni auður

Eins og alltaf höfðar Jesús til hugarfarsins, til hjartalagsins. Það er ekki nóg að gefa á sínum eigin forsendum eins og Pollý frænka. Við eigum að leggja allt sem við teljum okkar í hendi Guðs og fylgja hans ráðum, í fjármálum jafnt sem öðru. Við eigum að leggja hart að okkur til að gera þennan gráðuga heim betri, með því að hafa auðmjúkt hjarta, vera fátæk í anda og þakka Guði allt. Þannig erum við rík hjá Guði, þegar við munum að allur okkar auður, andlegur og veraldlegur, er frá honum kominn. Með því hugarfari, sem er hugarfar Jesú Krists, líf hans gefið okkur, kemur gjafmildin af sjálfu sér. Þannig megnum við að leggja stund á kærleikann, vera virkir gerendur elskuseminnar, lítillát frammi fyrir Guði og mönnum. Guð lætur okkur allt ríkullega í té til nautnar, segir postulinn. Örlætið, fúsleikinn til að miðla öðrum er afleiðing þess hugarfars.

Verum rík hjá Guði, rík af bæn, rík af samfélagi andans, rík af auðmýkt. Það er hinn sanni auður, eins og segir í pistli dagsins:

Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar. Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf
1. Tím. 6. 17-19