Tilveran er full af þverstæðum. Margt í umhverfi okkar og lífi sem virðist vera einfalt reynist þegar betur er vera margbrotið og flókið. Við þekkjum það hvernig heimsmynd hefur breyst með nýjum uppgötvunum. Hvar liggur miðja alls? Er hún í okkar eigin hjarta í tíma og rúmi eða erum við eins og rykkorn í óendanleikanum, svo smá en samt rúma hugsanir okkar og draumar svo margt?
Reiðin er orkulind Þverstæður eru bæði óþægilegar og gagnlegar, þetta tvennt fer jú svo oft saman því það kostar fórnir að breyta hugsum. Þegar hörmulegir atburðir verða eins og nú á föstudagskvöldið í Parísarborg, reynir á þessa þætti í sálu okkar. Hver verða viðbrögð okkar? Jú við verðum öll sorgmædd, finnum til með fórnarlömbum og fyllumst ótta fyrir hrelldum heimi. En það reynir einnig á hugmyndir okkar um hin maklegu málagjöld þegar slíkir atburðir eiga sér stað.
Verðum við reið? Vonandi. Það er sannarlega ekkert að því að reiðast. Reiðin er orkulind sem í okkur býr og getur hjálpað að komast frá einum stað til annars. En hvernig viljum við reiðast?
Svarið við þeirri spurningu skiptir öllu máli. Mannkynssagan er uppfull af hörmungum sem áttu rætur að rekja til þess að einhver reiddist, vildi gjalda líku líkt og koma skikk á ódæðismenn. Eftir árásina á tvíburaturnana réðust Bandaríkjamenn inn í Írak. Þó var enginn tilræðismannanna íraskur og tengslin þangað voru í besta falli óljós. Þær hörmungar sem fylgdu í kjölfar þeirra átaka leiddu af sér samtök á borð við ISIS, þeirra sömu og stóðu að baki tilræðunum í París. Jafnvel réttlát reiði getur leitt af sér mikið ranglæti.
Að reiðast rétt En reiði sem byggir á kærleika og umhyggju stuðlar að bættum heimi. Var það ekki reiði sem gaf blökkufólki Vestanhafs hugrekki til að mótmæla því misrétti sem það mátti þola? Hörundsdökk börn mættu til náms í skólum sem eingöngu voru ætluð hvítum. Fólk settist á bekki í görðum og strætisvögnum sem fráteknir voru fyrir fólk með annan húðlit. Með sama hætti hafa múrar verið felldir, för skriðdreka verið stöðvuð og samfélög manna leidd áfram á friðarveg. Þau sem þar virkjuðu reiði sína, unnu verk sín með friðsamlegum hætti og án þess að skaða aðra.
Norðmenn brugðust að sama skapi, reiðir við þegar Breivik framdi sín hryðjuverk. Sannfærðir um að viðbrögðin þyrftu að verða sterk og afdráttarlaus lögðu þeir sig alla fram um að treysta stoðir samfélags og fjölmenningar í landi sínu. Þá skyldi engur afsláttur veittur af þeim réttindum sem fjöldamorðinginn fékk fyrir dómi. Þeir fyrirlitu verk hans og hugmyndir og því vildu á engan hátt gefa sig á vald þess haturs sem bjó þar að baki.
Aristóteles segir í siðfræði sinni að hver og einn geti reiðst, til þess þurfi hvorki siðvit né færni. En að reiðast réttum aðila, á réttum tíma, af réttu tilefni og á réttan hátt, það er ekki hverjum manni gefið.
Þverstæður, já, þær fá okkur til að hugleiða þann heim sem við erum hluti af og það sem meira er, þær geta ögrað hugmyndum okkar og heimsmynd, og birta okkur lífið í öðru ljósi.
Öllu snúið á hvolf
Guðspjall dagsins er sótt til orða Krists þar sem hann að sönnu horfir djúpt og vítt. Texti þessi á sér hliðstæðu í sjálfri Fjallræðunni þar sem hin hrjáðu og hröktu eru sögð vera sæl. Ritningin snýr stundum öllu á hvolf, sá snúningur er jú forsenda þess að við tökum að hugsa lífið upp á nýtt, breytast, þroskast og læra.
Hér segir Kristur, Guð á himnum hafa veitt smælingjum þá opinberun sem spekingum og hyggindamönnum var hulin. Hvað er það sem hinir hyggnu ekki vita en þeir smáu eiga að þekkja? Um leið og við spyrjum okkur getum við litið í kringum okkur og spurt hvernig hyggindamenn í samtíma okkar leita sinna opinberana. Hvernig kryfja þeir þau mál sem Kristur ræðir í ávarpi þessu?
Fátt einkennir fremur verk Krists en sú viðleitni að benda á tvöfeldni þeirra sem með lögmálið að vopni, ákærðu þau sem lifðu ekki því lífi sem þeir mátu verðugt. Þekkjum við hliðstæður þeirrar hugsunar á okkar dögum einnig? Þar sem menn æða áfram í heilagri vandlætingu og skeyta engu um afleiðingar verkanna.
Ok og byrði
Þetta lesum við um í bók Mikaels Torfasonar sem kom út nýverið þar sem hann lýsir ólýsanlegri grimmd innan trúarhóps Votta Jehóva. Og það svíður undan þeim orðum hans að boðun þjóðkirkjunnar sé aðeins stigsmun frá ofstæki þessara samtaka og sé í raun jarðvegurinn sem það vex upp úr. Sé litið yfir hlutfall slíkra hópa í íslensku samfélagi verður ekki séð að fótur sé fyrir þeirri ásökun. Hér hefur kristin kirkja starfað kynslóð fram af kynslóð og þó telja meðlimir slíkra samtaka vart nema fáein prómill af þjóðinni. Mikilvægari er sú staðreynd að eðlismunur á þeirri blindu lögmálstrú sem þar er boðuð og því fagnaðarerindi sem kirkjan vill miðla. Það er einmitt einkenni á hinu síðarnefnda að endurskoða stöðugt þá háttu og þann boðskap sem fluttur er. Um það eru mörg dæmi. Nei, fagnaðarerindi og lögmál eru ekki það sama. Skilyrðisaus kærleikur og eilífðarfjötrar eru af gerólíkum toga.
,,Ok mitt er ljúft og byrði mín létt” segir Kristur. Hvert er það ok og hver er sú byrði sem hann talar um? Er það ekki einmitt okið sem trúarbrögð í ákveðinn mynd leggja á fólk? Talar Kristur ekki um byrðina, þar sem lífs mannsins er fjötrað niður í strangar reglur lögmálsins? Þar sem sífelldar kröfur þjaka samvisku mannsins, kröfur sem standa í engu sambandi við tengsl hann við sjálfan sig og náungann? Þetta kemur og heim og saman við baráttu Krists gegn þeirri trúarlegu elítu sem dæmdi fólk og flokkaði. Ok trúarbragðanna getur blandast við beiskju fátæktar og ósigra. Lýsir það ekki innræti morðingja fólksins í París?
Gegn þeim hörmungum ættum við að halda okkur við fagnaðarerindið um hina skilyrðislausu ást Guðs á manninum. Já, ekki krafa um takmarkalausa hollustu við strangar reglur, sumar hverjar fjandsamlegar öllu lífi. Heldur ást sem við mætum í auðmýkt og trú. Ok mitt er ljúft og byrði mín létt, segir Kristur. Það þýðir ekki að við látum hvað sem er yfir okkur ganga, nei við höfum hin háleitu viðmið og hina sönnu fyrirmynd. Sjálfur brást Kristur reiður við þegar hann horfði fram á ranglætið.
Réttlát reiði
Í réttlátri reiði yfir hörmungum síðustu daga, í allri vandlætingu yfir ofríki, kúgun og rangsleitni, hvar sem hún fer fram og hvernig sem hún birtist eigum við að vinna ljóssins verk. Mögulega er það sú þverstæða sem við stöndum frammi fyrir á tímum óvissu og ofbeldis. Þar fylgjum við fordæmi þeirra sem vissulega voru reið en áttu um leið barmafull hjörtu af kærleika og löngun til að bæta heiminn.
Við skulum með sama hætti ganga fram í bæn og góðu fordæmi fyrir bættum heimi. Við skulum leita réttlætis og verja samfélag okkar fyrir ódæðisfólki. Og munum það í þeirri sístæðu viðleitni okkar, að allar góðar dáðir hefjast á sama stað: Í hjarta hvers og eins okkar. Þar sem við þeytumst um í endaleysum tíma og rúms býr engu að síður í okkur það afl sem kærleikurinn er. Vel má vera að hann eigi sér enga hliðstæðu í öllum alheiminum.