Trú og tjáningarfrelsi

Trú og tjáningarfrelsi

Í þessum greinarstúf er ætlunin að fjalla lítillega um trú og tjáningarfrelsi. Þeirri aðferð er beitt að gera fyrst stutta grein fyrir þeirri spennu sem ríkt getur milli persónu og skoðana.

1. Inngangur

Í þessum greinarstúf er ætlunin að fjalla lítillega um trú og tjáningarfrelsi. Þeirri aðferð er beitt að gera fyrst stutta grein fyrir þeirri spennu sem ríkt getur milli persónu og skoðana. Þá verður skoðuð umfjöllun heimspekingsins Jürgens Habermas – sem er vel kynntur á Íslandi[1] – um stöðu trúar og tjáningarfrelsis í vestrænum lýðræðissamfélögum. Og í lokin verður greint frá því hvernig stjórnmálafræðingurinn Volker M. Heins hefur fjallað um trú og tjáningarfrelsi í tengslum við fjölmenningarsamfélag nútíma þjóðfélaga.[2] Greiningar þeirra Habermas og Heins er vel hægt að yfirfæra á íslenskt samfélag sem og umræðuna innan þess um þessi efni.

2. Persóna og skoðun

Það liggur í mannlegu eðli að spyrða saman persónu og skoðun. Því þegar það er gert er auðvelt að dæma um hvað valdi því að viðkomandi er í þeirri stöðu sem hann er í, hvaðan málflutningur hans er kominn og af hverju viðbrögð hans eru almennt eins og þau eru. Þessi tilhneiging afmarkast ekki bara við mat okkar á öðrum, heldur er hún samofin sjálfsskilningi okkar. Ef við lítum í eigin barm, þá er ekki svo langt síðan að það eitt að láta bensín á bílinn – hjá BP, Shell eða Esso – var í augum Íslendinga játning og yfirlýsing um stöðu í stjórnmálum og hvaða hópi maður tilheyrði.

Ókostir þessarar tilhneigingar eru þekktir. Í hugmyndasögunni hefur lengi verið glímt við þennan vanda. Í vestrænni hugmyndasögu hafa helstu hugsuðir lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að greina á milli skoðana og persónu. Persónu mannsins megi ekki leggja að jöfnu við hugmyndaheim, kerfi eða sýn hans á veruleikann. Þrátt fyrir að allt slíkt sé manninum oft hans hjartans mál og jafnvel samofið sjálfsmynd hans, þá sé það eftir sem áður annað en sjálf persóna hans. Í evangelísk–lútersku samhengi er hér jafnan talað um nauðsyn þess að greina á milli trúar og verka, persónu og embættis (t.d. er á þýsku löng hefð fyrir að tala um Privatperson og Amtperson). Þegar þessi aðgreining er notuð á heildarveruleika manns og heims er talað um aðgreininguna í lögmál og fagnaðarerindi og útfærslu hennar í tveggja–ríkja–kenningunni. Í evangelísk-lúterskri guðfræði er Guði einum gefið að dæma persónu mannsins. Við aftur á móti getum dæmt um verk hvers manns, en þá í samhengi lögmálsins. Þ.e.a.s. í tenglum við þau lögmál sem ríkir almenn samstaða um og hvernig beri að túlka þau. Lúther vitnar til þessa í varnarræðu sinni í Worms með orðunum „Verði ég ekki sannfærður með skýrum rökum“ og vísar þar til hlutverks skynseminnar fyrir alla samræðu og ákvörðunartöku. Hann bætir síðan við þá áherslu með orðunum „því það er ekki heiðarlegt að ganga gegn samvisku sinni“ og dregur þannig fram mikilvægi samviskunnar fyrir manninn í sama samhengi.[3] Að mati Lúthers er það skynseminnar að greina – og það með gagnrýnum hætti – lögmálið. Um er að ræða hið flókna net lögmála sem tilveran öll og mannlegur veruleik lýtur. Erfiðasti hluti þess er að staðsetja manninn, stöðu hans og verk innan þess. Af þessu er ljóst að skynsemi og gagnrýnin hugsun eru tengdar órjúfanlegum böndum og mætti tala þar um tvær hliðar á sama veruleika. Í þessu samhengi ber að greina að persónu og skoðun – eða trú og kenningar um trúna – í allri umfjöllun um trú og tjáningarfrelsi.

Skoðanir þarf að skoða í tengslum við það hugmyndakerfi sem þær styðjast við. Athuga verður hvort þær standist gagnrýni, þar sem jafnt er tekið tillit til röklegrar framsetningar og sögulegrar tilurðar. Hugmyndakerfin sem sannfæring manna byggir á krefjast gagnrýninnar skoðunar, greiningar og jafnvel uppgjörs. Þetta er ferli, sem skoðanir manna þurfa oft að ganga í gegnum, en það getur reynst erfitt og gengið nálægt fólki. Þessu veldur að oft er erfitt að greina skoðun frá persónu, einkum þegar eigin persóna á í hlut. Það getur verið sársaukafullt, sérstaklega þegar í ljós kemur að sá táknheimur sem menn styðjast við – til að fóta sig í tilverunni og móta sjálfmyndina – reynist brotakenndur.

Menn þurfa þá að temja sér það sem ég vil kalla ígrundaða afstæðishyggju en hún einkennir mjög svo vestræna menningu. Samkvæmt henni er gerð krafa um (a) að öll umræða einkennist af því að hún sé skiljanleg. Í því felst að ef skiljanleiki staðhæfingar er dreginn í efa kallar það á að fólk geri betur grein fyrir máli sínu. Einnig verður (b) umræðan að vera heiðarleg, þ.e. að blekkingum og mælskubrögðum sé ekki beitt til þess að koma einhverju fram. Þá gerir hin ígrundaða afstæðishyggja (c) sömuleiðis kröfu um sannleika, þ.e. að hafa það sem sannara reynist.[4]

3. Heilagleiki skoðana

Algeng aðferð til að koma sér undan þessu vandamáli er að grípa til hugtaksins um helgi (og mætti í raun segja að það væri misnotkun á því hugtaki) eða að eitthvað sé heilagt og sé því handan þess sem á og má ræða um á þann gagnrýna máta sem áður var lýst. Í raun sé það einungis á valdi og á verksviði örfárra að fjalla um viðkomandi svið mannlegs lífs en ekki allra. Ef einhver virðir ekki þann heilagleika sem varpað hefur verið yfir málefnið og um leið túlkunarvald viðkomandi aðila á veruleika þess, er helgin ekki einungis rofin, heldur telst athæfið sem slíkt móðgun og þá bara það eitt að vilja athuga hér skoðanir manna á gagnrýninn máta. Í þessari orðræðu er helgin og móðgunin í raun tvær hliðar á sömu valdakröfu. Þessi aðferð er mjög skilvirk – ef koma á í veg fyrir opna umræðu og gagnrýna úttekt. Ástæðan er augljós, þó að reynt sé að hylma yfir hana. Með þessu er reynt að grafa undan túlkunarvaldi og völdum viðkomandi á þessu sviði mannlegs lífs. Innan samfélagsins er túlkunarvaldið grundvallandi fyrir áhrif og valdastöður. Þess vegna hefur t.d. þótt hentugt að hafa trúarlega texta á tungumáli sem fáir hafa vald á, því sá sem getur ekki lesið grundvallartexta er háður þeim sem það gera og útleggingu þeirra. Túlkunarvald og einokun kallast á, enda hafa verið háðar styrjaldir til að tryggja það.

En þetta er ekki eitthvað sem er bara bundið við trúarlega sviðið og valdakröfur hinna ýmsu klerkavelda. Tilhneigingin er nefnilega mjög almenn og á ég þá ekki aðeins við átökin um vörslu eða úrvinnslu rafrænna upplýsinga, heldur deilur innan fræðasamfélagsins. Þannig snérist kæra á hendur stundakennara við HÍ, sem skók háskólasamfélagið hér í nær þrjú ár, um hverjir mættu fjalla um – og það á gagnrýnin máta – vissar stefnur og viss rit. Merkilegt er að ekki mátti vera á verksviði guðfræðings að túlka texta og brot úr kveðskap – þó að þekktum og viðurkenndum aðferðum væri beitt. Þetta voru „helgir textar“ sem vissir aðilar máttu bara fjalla um.[5]

 

4. Umfjöllun Habermas um trú og tjáningarfrelsi

Í eldri og yngri ritum Habermas gætir nokkurra áherslubreytinga varðandi vægi trúarinnar fyrir nútíma samfélag. Mætti jafnvel tala hér um hinn unga og gamla Habermas í því samhengi.

 

4.1 Mörk trúar og tjáningarfrelsins hjá hinum unga Habermas

Habermas fylgir grunnáherslum upplýsingarinnar og útfærslum upplýsingarmanna innan kantíanskrar heimspeki. Þær mynda grundvöll vestrænna lýðræðissamfélaga. Hér er ekki bara um að ræða vægi gagnrýninnar hugsunar fyrir vísindasamfélagið, heldur þá grundavallar rökstuddu sýn og sannfæringu að allir menn séu jafnir. Þetta má nefna siðferðilega alheimshyggju (þ. Moralischer Unviversalismus). Ekki er um áunnin réttindi eða stöðu að ræða, heldur veruleiki sem er gefinn með tilvist einstaklingsins og mennsku mannsins. Það er hlutverk stofnana samfélagsins að standa vörð um þennan rétt og skapa farvegi sem tryggja að hann sé virtur. Hann gildir undantekningalaust eins og kemur m.a. vel fram í Mannrétttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.[6]

Að mati Habermas skiptir sköpum að hér sé greint á milli annars vegar samfélagsins og stjórnmálalegrar þátttöku innan þess og hins vegar menningarlegra þátta, þ.a.m. hugmynda um þjóðerni, trúaskoðanir o.fl. Habermas kveður skýrt á um að borgarar lýðræðislegs nútímasamfélags verði að geta greint á milli og fjallað á gagnrýninn og gagnsæan máta um hvert svið fyrir sig. Borgarar eiga að taka þátt í opinni og gagnrýninni umræðu um málefni samfélagsins og á þetta líka við um þátt hinnar trúarlegu arfleifðar þess. En að mati Habermas eru trúarlegar skoðanir og sannfæring hluti af menningararfleið sem er annars eðlis en sá veruleiki sem mótar ramma samfélagsins og réttarkerfi þess. Rammi þess verður að byggja á skýru kerfi, á hlutverkaskiptingu á milli stofnana, og tryggja verður skilvirkni þessara kerfa. Þetta svið hins opinbera er annars eðlis en menningin. Hún mótast af margbreytileika, þverstæðum og andstæðum milli hinna ýmsu menningarkima. Ef við styðjumst hér við tveggja ríkja kenninguna, þá tilheyrir menningarleg arfleið og sjálfsmynd einstaklingsins hinu andlega sviði eða innri veruleika mannsins. Hin lýðræðislega uppbygging samfélagsins er aftur á móti á hinu veraldlega sviði eða lögmálsins. Skynseminnar er að greina það og útfæra þá greiningu í opinni umræðu. Hið veraldlega svið snýr að ytri veruleika mannsins, þ.á.m. opinberu rými. Habermas greinir sem sé á milli ríkisins, borgaralegra réttinda eða stjórnmála, og þeirrar sjálfsmyndar sem mótar fólk en undir hana fellur innri veruleiki mannsins sem menning og trú tilheyra.

Áhugi Habermas beinist fyrst og fremst að ytri veruleika mannsins eða samfélagsgerðinni, en þar er ég að vísa til uppbyggingar þess, hvernig hægt sé að tryggja öllum hlutdeild að opinni eða gagnrýninni umræðu og skilvirkni hennar.

Í framsetningu sinni er Habermas Evrópumiðlægur, enda er það álit hans að þar hafi lýðræðisþróun náð hvað lengst. Þessu valdi m.a. „sekúlaríseringin“ eða veraldarvæðing í formi afhelgunar samfélagsins. Hún kemur í kjölfar áherslu siðbótarinnar á aðgreininguna í andlegt og veraldlegt vald en hún verður sérstaklega allsráðandi í kjölfar upplýsingarinnar og með iðnbyltingunni. Afleiðing hennar er að hægt og sígandi afmarkaðist þáttur hins trúarlega við heimilið. Trúin verður loks að einkamáli, þrátt fyrir eða einmitt vegna vægi kristninnar í almennu námi. Í þeim löndum Evrópu sem siðbótin festist í sessi varð afhelgunin hluti af eðlilegri þróun. Hún varð önnur í Frakklandi en þar tók sekúlaríseringin á sig mynd laizisma (gr. λαός þ.e. fólk). Hann kvað á um algjöran aðskilnað ríkis og kirkju eða þess sem stjórnvöld líta sem trúarbrögð, þar sem trúarlegum áhrifum og táknum bæri að halda frá opinberu rými og þ.a.m. skólum. Í kjölfar Dreyfuss málsins 1905 voru sett lög um þetta sem kváðu á um að trúin skyldi vera einkamál. Einstaklingar geta að vísu stofnað félag um hana en þau urðu að lúta reglum félaga sem byggja á lýðræðislegum grunni, t.d. með kjöri í embætti, nefndir, stjórnir og þing. Þetta var eitthvað sem mótmælendur fögnuðu en gekk þvert á kirkjuskilning rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Laizismi er því annað en veraldarhyggja í formi afhelgunar. Afhelgunin byggir ekki endilega á hugmyndafræðilegri andstöðu milli trúar og skynsemi eða lýðræðislegrar uppbyggingar samfélagsins og kirkjunnar. Laizisminn er aftur á móti slík hugmyndastefna (þ. Ideologie). Fulltrúar hans vilja gera heimsmynd pósitívisma eða vísindahyggju að grundvelli samfélagsins.[7] Þetta er áhersla sem nú er nokkuð áberandi í samfélagsumræðunni á Íslandi sem kemur m.a. fram í kröfunni um að trú og trúarleg tákn eigi ekki erindi inn í opinbert rými.

Samkvæmt hinni klassísku útfærslu kenningarinnar um veraldarhyggju í formi afhelgunar – en Habermas byggir á henni – hefur margt af því, sem borgaralegt samfélag áður studdist við, misst vægi sitt og horfið. Að hluta til var ástæðan sú að vissir þættir í menningunni eða heimsmynd hennar stóðust ekki gagnrýna skoðun eða samræmdust ekki kröfum um grundvallarmannréttindi. Stóru kirkjudeildirnar urðu að laga sig að þessum veruleika. Táknheim trúarinnar varð setja fram með málfari er samræmdist gangrýninni hugsun og niðurstöðum sögulegra rannsókna svo eitthvað sé nefnt. Þess vegna var og er ekki lengur hægt að halda fram skoðunum í kristinni siðfræði sem ganga gegn almennum mannréttindum.[8]

Í samhengi þessa áleit Habermas að trú og trúarbrögð þróuðust að mynd nútímans og það sem ekki samræmdist henni myndi missa vægi og hverfa.

 

4.2. Endurskoðun Habermas

Í greinasafni sínu Zwischen Naturalismus und Religion tekur Habermas fyrri greiningar sínar til endurskoðunar. Ástæðan fyrir þeirri endurskoðun er endurkoma trúarbragða inn á svið stjórnmála sem mótandi afls.[9] Hugmyndir manna um stigvaxandi afhelgun samfélagsins var nú tekin til endurskoðunar. Afhelgunin reyndist vera sér evrópskt fyrirbrigði. Í þessu samhengi telur Habermas því ekki lengur réttlætanlegt að túlka trú sem hliðarafurð menningar. Taka beri tillit til trúar og trúarbragða, því trúin móti manninn frá hjartans grunni. Nauðsynlegt sé aftur á móti fyrir nútímasamfélag að táknheimur trúarinnar sé túlkaður yfir á tungumál samfélagsins alls. Til þess að það takist verði trúarleg orðræða að lúta þeim reglum sem opin, lýðræðisleg umræða styðst við. Samkvæmt Habermas er því nauðsynlegt að trúarbrögð séu tvítyngd. Inn á við þurfi þau að þróa tungutak sem mótist meira af þeirra „afmarkaða“ hugmyndaheimi en út á við tungutak sem þau deila með nútíma samfélagi en í því felst, eins og áður hefur hefur minnst á, krafan um skiljanleika, heiðarleika og sannleika. Aðgreining ríkis og trúarbragða krefst þess að lög og reglur séu á máli sem allir meðlimir samfélagsins hafi jafnan aðgang að. Það sé því ómögulegt að lög og reglugerðir samfélagsins byggi á trúarlegum grunni. Þetta eigi við um öll lög, líka þau sem snúa að t.d. fóstureyðingum eða guðlasti.

Í þessu samhengi segir Habermas að greina beri á milli afhelgunar og laizisma sem hugmyndastefnu.[10] Samband nútímans og trúabragða er ekki einstefnugata, heldur er hér um gagnvirkni að ræða. Afhelgað samfélag samtímans getur sótt margt í arfleið trúarinnar til að styrkja bæði innviði og ramma samfélagsins. Þess vegna á ekki að útiloka trúna í opinberu rými, en til þess að það geti orðið skilvirkt, verði fulltrúar trúarbragða að temja sér málnotkun sem allir meðlimir samfélagsins skilja.[11] Þeir verði að fóta sig innan þeirra reglna sem málsamfélag nútímans hefur sett og handan þess hugtakaheims sem trúarsamfélagið hefur sérstaklega tileinkað sér.[12] Ein af grundvallarreglum eða málreglum nútímasamfélags er að greina á milli persónu og skoðana. Það er að segja að inn á við verður trúarsamfélagið að greina á milli trúar og kenninga eða kennisetninga um trúna. Af því leiðir að aldrei má hefja trúarsamfélagið yfir þau grunnréttindi sem lýðræðissamfélagið hefur tryggt einstaklingnum í krafti kennisetninga og þarfa tiltekins hóps innan þess. Út á við getur nútímasamfélag hins vegar almennt lært ýmislegt af hinni trúarlegu sýn. Habermas nefnir í þessu samhengi boðun Martin Luther Kings um augljóst óréttlæti kynþáttahyggju.[13]

Á hinn bóginn þýðir þetta að ríkisvaldið eða opinber umræða eigi ekki að meðhöndla trú og trúarhópa líkt og um sé að ræða dýrategundir í útrýmingarhættu. Trú og trúarbrögð er ekki eitthvað sem verður að vernda eða þarfnast sérstakrar meðhöndlunar.[14]

Í fjölmenningu samtímans verða trúarlegir minnihlutahópar, að mati Habermas, að taka það skref sem kristindómurinn í Evrópu hefur tekið. Innan stóru kirkjudeildanna voru siðferðilegar áherslur kristninnar lagaðar að grundvallarþáttum og gildum vestræns lýðræðilegs samfélags m.a. með því að nýta aðferðir sögurýninnar í rannsóknum á trúartextum sínum.

5. Trú og tjáningarfrelsi

Volker M. Heins sem er prófessor í stjórnmálafræði og hugmyndasögu í Bochum útfærir hugmyndir Habermas í bók sinni um sögu og veruleika fjölmenningar samtímans.

Heins varar við þeiri tilhneigingu í orðæðunni um fjölmenningu að líta á hina ólíku menningarhópa og trúarhópa sem lokaðar heildir. Það gerist ef menn gefa trú og uppruna eðlislægt vægi og líta á uppruna, menningarlega arfleið og trú sem óumflýjanleg örlög einstaklinga. Afleiðing þess er að einstaklingurinn er skilgreindur út frá hópi sem hann á að tilheyra, en ekki öfugt.[15] Hætta slíkrar sýnar er að líta á menningarheima eða menningarkima sem lokuð fyrirbrigði sem þurfi að vernda. Hér á landi kemur þessi áhersla vel fram í umræðu um „verndun íslenskrar menningar“ í stað þess að rækta hana og nýta.

Þegar þessi póll er tekinn í hæðina er erfitt að koma að gagnrýni. Sérstaklega varðandi þá hópa sem eigna sér túlkunarvaldið yfir hefðinni og heimfærslu hennar, innan menningarkima, trúarhóps eða samfélagsins. Ósjaldan verður þá ein túlkun algild. Dæmi um slíka tilhneigingu er ekki bara að finna meðal svo kallaðara fundamentalista eða bókstafstrúarmanna.

Vandinn sem menn glíma hér við er að í samfélagi nútímans er ómögulegt að yfirfæra sýn viss trúarhóps eða hugmyndastefnu yfir á allan veruleikann og krefjast þess að samfélagið lúti henni – þ.e. sýn viss trúarhóps eða hugmyndastefnu – og samfélagið verði að taka tillit til hennar. Hér erum við aftur komin að ábendingu Habermas um nauðsyn tvítyngi trúarsamfélaga.

Í annan stað ber að greina á milli einstaklingsins og trúarsamfélagsins, trúarinnar og kenningarinnar um trúna. Þannig getur hópur ekki krafist ritskoðunar á umræðu með vísun í hugmyndaheim sem einungis meðlimir hans fylgja.[16]

Í þessu samhengi má nefna að árið 2006 voru lögin Racial and Religious Hatred Act sett í Bretlandi gegn hatursorðræðu. Markmið þeirra og slíkra laga almennt er að vernda mannlegt samfélag óháð tilfinningum einstaklinga. Í þeim er hatursáróður gegn einstaklingum og trúarhópum gerður refsiverður. En í lögunum er tekið fram að gagnrýni sem byggir á „andúð, óánægju, háði, móðgunum og skömmum, [gegn trú og trúarkenningum] sé leyfileg og ber að tryggja að hún sé möguleg og sé virt“.[17] Hér er með skýrum hætti greint á milli persónu og kenninga, andúðin sem er leyfileg beinist að kenningum eða umfjöllunum um hugmyndir. Slíkt er einmitt markmið skopteikninga.

Í þessu samhengi bendir Volker M. Heins á hvernig hugmyndinni um heilagleika og móðgun hafi verið beitt til að koma í veg fyrir að stöðu þeirra sem hafa túlkunarvaldið innan vissra trúarhópa eða stefna sé haggað. Og þar með komið í veg fyrir eðlilega endurnýjun, þróun og gagnrýni innan samfélagsins.[18]

Þetta er eitthvað sem við þekkjum vel úr okkar arfleið. Nægir hér að minna á að Kristur Jóhannesarguðspjalls á í áköfum deilum við samtímamenn sína um vægi fyrsta boðorðsins og þá guðsmynd sem það hefur að geyma. Á einfaldan máta má segja að þar var um að ræða átök milli Guðsmyndar sem leiðir til verkaréttlætingar og Guðsmyndar er byggir á skilyrðislausri náð og fyrirgefningu Guðs í Kristi. Í þeirri deilu kallaði Jesús guðsmynd andstæðinga sinna djöfullega og þá afkvæmi djöfulsins. Við sjáum að hér eru átökin um vægi kenningar háð með sterkum orðum og hér er auðvelt að móðgast. Ég þarf því ekki að minna á að Jesús frá Nasaret var tekin að lífi fyrir guðlast. Það eitt ætti að nægja til að minna á að innri rök kristins trúarsamfélags styðja ytri kröfur nútímasamfélags um að ekki eigi að vera hömlur á tjáningarfrelsi um málefni og um trúmál eiga ekki að gilda aðrar reglur en um önnur samfélagsleg málefni.[19] Það mætti orða þetta svo að skotleyfið er á skoðanir og hugmyndir en ekki á einstaklinga.

Tilvísanir

[1] Skýrt dæmi um áhrif kenninga Habemars er m.a. að finna í bók Vilhjálms Árnasonar, Farsælt líf, réttlátt samfélag – kenningar í siðfræði, Reykjavík 2008.

[2] Jürgen Habermas, Zwischen Naturalismus und Religion – Philosophische Aufsätze, Frankfurt am Main 2008. Volker M. Heins, Der Skandal der Vielfalt – Geschichte und Konzepte des Multikulturalismus, Frankfurt am Main 2013.

[3] WA 7, 838.

[4] Vilhjálmur Árnason, Farsælt líf, réttlátt samfélag, 337-338.

[5] Bjarni Randver Sigurvinsson, Svar við kæru Vantrúar – Greinargerð lögð fyrir Siðanefnd HÍ í maí 2010, 27–58. Guðni Elísson, „,Britney fokkíng Spears´– kæra vantrúar og innhaldsgreining í hugvísindum“ STI 29. Sjá: https://www.academia.edu/10192947/_Britney_fokkíng_Spears_-_Kærur_Vantrúar_og_innihaldsgreining_í_hugvísindum_Ritröð_Guðfræðistofnunar_2_2014_bls._17_31._ Guðni Elísson, „Fúsk, fáfræði, fordómar? – Vantrú, Háskóli Íslands og akademísk ábyrgð. Ritið 3/2014, 135–189. Sjá: https://www.academia.edu/11290859/Fúsk_fáfræði_fordómar_Vantrú_Háskóli_Íslands_og_akademísk_ábyrgð_Ritið_3_2014_bls._135_189.

[6] Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna – Samþykkt á alherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10 des. 1948: „1. grein Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan. 2. grein Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu. 3. grein Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. […] 7. grein Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar. Ber öllum jafn réttur til verndar gegn hvers konar mismunun, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áeggjan til slíkrar mismununar. […] 18. grein Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu og helgihaldi. 19. grein Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.“ Heimild http://vefir.nams.is/kompas/pdf_klippt/vidaukar/3.pdf.

[7] Roger Mehl, „Laizismus“, TRE 20. bindi, 404–409.

[8] Volker M. Heins, Der Skandal der Vielfalt, 169.

[9] Jürgen Habermas, Zwischen Naturalismus und Religion, 119–122.

[10] Jürgen Habermas, Zwischen Naturalismus und Religion, 123, 147 nmgr. 48.

[11] Jürgen Habermas, Zwischen Naturalismus und Religion, 319–323

[12] Jürgen Habermas, Zwischen Naturalismus und Religion, 133–137.

[13] Jürgen Habermas, Zwischen Naturalismus und Religion, 130.

[14] Jürgen Habermas, Zwischen Naturalismus und Religion, 307–311.

[15] Volker M. Heins, Der Skandal der Vielfalt, 157–167.

[16] Volker M. Heins, Der Skandal der Vielfalt, 160.

[17] Volker M. Heins, Der Skandal der Vielfalt, 164.

[18] Volker M. Heins, Der Skandal der Vielfalt, 162

[19] Ég þakka Haraldi Hreinssyni, Vigfúsi Ingvari Ingvarsyni og Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir yfirlestur og góðar ábendingar.