Má bjóða þér afrit?

Má bjóða þér afrit?

Búðin opnaði fljótlega eftir sunnudagaskólann. Eldhúskollarnir voru dregnir fram og skellt saman. Dýrindis varningur var tíndur til og lagður á búðarborðið. Búðarkassinn gerður klár með nóg af skiptimynnt því búist var við mikilli sölu. Allt hafði sinn verðmiða, en matchboxbíllinn var mun ódýrari en sólgleraugun enda sumarið á næsta leiti.
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
12. júní 2009

Sumarblóm.

Búðin opnaði fljótlega eftir sunnudagaskólann. Eldhúskollarnir voru dregnir fram og skellt saman. Dýrindis varningur var tíndur til og lagður á búðarborðið. Búðarkassinn gerður klár með nóg af skiptimynnt því búist var við mikilli sölu. Allt hafði sinn verðmiða, en matchboxbíllinn var mun ódýrari en sólgleraugun enda sumarið á næsta leiti. Þau sem ætluðu sér að gera góð kaup í búðinni byrjuðu á því að búa sér til peninga, 10, 100 og jafnvel 500 krónur voru skrifaðar á blað. Þá var hægt að kaupa hvað sem var sérstaklega eftir að verslunarfólkið brá á það ráð að skella á útsölu til að auka söluna. Allt var þetta gert af mikilli alvöru og þjónustulundin í fyrirrúmi, enginn fór úr búðinni án þess að vera boðið afrit.

Mér varð hugsað til þess þegar ég horfði á leik barnanna að sem áhorfandi að öðrum leik hin síðustu ár hafði ég oft fengið sömu tilfinningu, að fjármunirnir sem fóru manna á milli væru aðeins tilbúnir peningar á blaði. Ég áttaði mig aldrei á hinum raunverulega verðmætum sem voru þar að baki, ekki þegar eignir voru taldar með skuldum og hægt var að teljast með ríkustu mönnum landsins út frá hlutabréfaeign sem sífellt fór hækkandi. Þegar svo allt hrundi þá komumst við fljótt að því að það þarf að vera innistæða fyrir öllu, jafnvel tilbúnum peningum á blaði. Þar greinir á milli búðarleik barnanna og raunveruleika okkar.

Í dag er sumarsins bjarta tíð. Dagur til að gleðjast og njóta þess sem við eigum. Sumarið krefst þess af okkur. Það ætlast til þess að við horfum á hlutina í björtu ljósi sumarnáttanna þegar engu er hægt að leyna í skuggamyndum. Fyrir mig skiptir þá ekki máli hver gerði hvað og hvernig heldur það eitt að hin tilbúnu verðmæti voru ekki hluti af mínum leik eða minna barna og því er ég ekki tilbúin að taka til eftir hann. Ég er hins vegar tilbúin að vinna landi mínu og þjóð allt hið besta og ég veit um þann fjársjóð einan sem hvorki mölur né ryð fær grandað. Hann veitir okkur þau raunverulegu gæði sem lífið þarfnast og meira en það, því í honum er að finna allt það sem við þörfnumst til þess að eiga líf í fullri gnæð. Þetta er fjársjóður trúarinnar á hinn upprisna Drottinn Jesú Krist, frelsarann og endurlausnarann. Hann er sá sem leitt getur okkur í gegnum alla erfiðleika af hvaða toga sem þeir eru og hann er sá Guð sem ber okkur uppi þegar birgðarnar sem lífið leggur okkur á herðar reynast okkur um megn. Í trú á hann verður veruleikinn annar en hann var því hann er litaður af kærleika Guðs til okkar og skilyrðislausri elsku hans. Við megum treysta þessum kærleika og lifa í honum. Við megum láta hann hugga okkur, styrkja okkur og gefa okkur kjark og þol til þess að standast allar raunir. Jesús segir við okkur í Matteusarguðspjalli að líkt er himnaríki fjársjóði sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann (Matt. 13:44). Við eigum sama möguleika, grípum hann og varðveitum, því hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera (Matt. 6:21).