Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda. 1. Pét. 3:18
Laugardagurinn eftir föstudaginn langa og fyrir páskadag hefur alltaf haft svolítið tómlegt yfirbragð í mínum huga. Á föstudag minntumst við þjáningar Krists og dauða, á sunnudag fögnum við upprisunni. En hvað með laugardaginn?
Hjá fyrstu lærisveinunum var þetta sorgardagur, dagur vonbrigða og uppgjafar. Leiðtogi þeirra hafði verið krossfestur. Karlar og konur sem fylgt höfðu Jesú voru óttaslegin. Þau hittust á laun. Hrukku við í hvert sinn sem einhver bankaði á hurð hjá þeim. Var þetta vinur eða óvinur? Var komið að þeim? Það krafðist hugrekkis að vera í hópi Jesú daginn eftir föstudaginn langa. Það var ekki fyrr en eftir upprisuna að þau öðluðust djörfung að nýju.
Fyrstu lesendur Pétursbréfs, þekktu óttann líka. Þeir þurftu að svara fyrir trú sína, að líða fyrir trú á hinn upprisna. Þeim þótti skiljanlega oft erfitt að þola háð að ósekju fyrir það eitt að í hópi fylgismanna Krists, í hópi fólks sem reyndi af fremsta megni að hegða sér vel og gjöra gott. Það krafðist hugrekkis að vera kristinn. Orðin úr bréfi Péturs hér að ofan voru þeim huggun. Því að Kristur sjálfur sem var góður þekkti þjáninguna af eigin raun. Hann leið saklaus og dó fyrir aðra, réttlátur fyrir rangláta.
Vorið er tími ferminga í kirkjum landsins. Ungt fólk heitir því að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Það er næsta víst að ef þau halda fast við þetta heit gætu þau síðar orðið fyrir stríðni félaga, eða þrýstingi til að gera eitthvað sem stríðir gegn trú þeirra og sannfæringu. Þá reynir á heitið og staðfestuna. Því að þó að ógnin breytist þá þarf alltaf hugrekki til að fylgja Kristi.
Þau eiga líka eftir að mæta mótlæti á æfinni, þetta unga fólk sem nú heitir Kristi eftirfylgd. Því mætum við öll. Og þau sem þekkja Krist vita að hann er nálægur þeim sem þjást því að þjáninguna þekkti hann sjálfur.
En texti dagsins endar ekki í dauðanum og þjáningu föstudagsins langa. Hann horfir fram til páskadags. Með gjörðum sínum leiðir Kristur okkur til Guðs, til lífs með Guði. Það er lífið sem þau fengu að reyna sem höfðu hugrekki til að þreyja laugardaginn eftir krossfestinguna og verða vitni að upprisu páskanna.