Játning kvennanna

Játning kvennanna

Ég trúi á GUÐ, skapara heimsins og alls sem er, sem skapaði konur og karla í mynd sinni og líkingu, sem skapaði heiminn og fól báðum kynjum ráðsmennsku jarðarinnar.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
08. mars 2013

Ég trúi á GUÐ, skapara heimsins og alls sem er, sem skapaði konur og karla í mynd sinni og líkingu, sem skapaði heiminn og fól báðum kynjum ráðsmennsku jarðarinnar.

Ég trúi á JESÚ, son Guðs, hinn útvalda Guðs, sem var fæddur af konu, hlustaði á konur og kunni að meta þær, gisti í heimilum þeirra og talaði við þær um Guðsríkið, sem átti konur að lærisveinum, sem fylgdu honum og lögðu honum lið.

Ég trúi á Jesú sem talaði við konuna við brunninn um guðfræði og treysti henni, fyrst af öllum, fyrir því að hann væri Messías, og hvatti hana til að fara í þorpið og segja fagnaðarerindið – hún var fyrsta konan sem prédikaði fagnaðarerindið.

Ég trúi á Jesú, sem konan hellti ilmsmyrslum yfir og smurði hann sem Guðs útvalda í húsi Símeons, sem skammaði mennina sem gagnrýndu hana, sem læknaði konu á hvíldardeginum og gerði hana heila af því að hún var manneskja.

Ég trúi á Jesú sem líkti Guði við konu sem hafði tapað peningi og hreinsaði húsið allt í leit að honum.

Ég trúi á Jesú sem sá í meðgöngu og fæðingu líkingu fyrir breytingu, nýja fæðingu frá sársauka til gleði.

Sem var svikinn, krossfestur, yfirgefinn, og dó til að allt sem lifir mætti eiga líf í fullri gnægð.

Ég trúi á hinn upprisna Jesú, sem birtist fyrst konunum sem komu saman með Maríu Magdalenu, fyrsta postulanum, og sendi þær til að bera áfram boðskapinn undursamlega: „Farið og segið …“

Ég trúi á HEILAGAN ANDA, sem sveif yfir vötnunum við sköpunina og yfir jörðinni.

Ég trúi á heilagan anda, helgandi anda Guðs, sem leiðir okkur saman, safnar okkur og verndar, eins og hæna umvefur kjúklinga með vængjum sínum.

Þessa trúarjátningu er að finna í litúrgíu sem Lútherska heimssambandið tók saman til notkunar á Alþjóða baráttudegi kvenna 8. mars.