Að hafa matarást á Jesú

Að hafa matarást á Jesú

Hefurðu séð einhver blóm á myndunum sem nú berast okkur úr borgarastyrjöldinni á Sýrlandi þessa dagana? Nei en þú hefur væntanlega séð myndir af húsarústum og særðum eða látnum börnum, af harmi slegnum foreldrum, og ráðvilltum gamalmennum, þarna hafa yfir 20 þúsund manns fallið á síðastliðnum 17 mánuðum
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
02. september 2012
Flokkar

Kæri söfnuður, kaffihúsasöfnuður, kirkjan er víða. Það er raunar mjög mikilvægt til að undirstrika eðli kirkjunnar að stíga reglulega út fyrir þröskuld hennar með nærandi boðskap Jesú Krists, ekki síst vegna þess að hann sjálfur var hvorki bundinn stað né stund, þar sem hann kom var alltaf staður og stund til að vera og íhuga. Þó verð ég að segja að fáir staðir fyrir utan kirkjubygginguna eru jafn vel til þess fallnir að hýsa messu og kaffihús.Í fljótu bragði sjá menn ekki líkindi en það er samt margt líkt með kaffihúsum og kirkju. Í grunninn leitum við þess sama, á hvorn staðinn sem við förum, við leitum að andlegri og félagslegri næringu og uppfyllum hana með því að finna fyrir hvert öðru og eiga borðsamfélag. Jesús Kristur var ekkert mjög upptekinn að helgisiðum, hann kenndi okkur eina bæn sem er Faðir vor, bænin sem fangar allt sem kemur mennskunni við, en þess utan gaf hann lærisveinum sínum fullt frelsi til að móta helgisiði kirkjunnar. Fyrir utan bænina gaf hann okkur reyndar fyrirmæli um það að þegar við kæmum saman í hans nafni, þá skyldum við borða og drekka, og um leið og við borðuðum þá skyldum við minnast hans, vegna þess að þá vissum við að hann væri kominn til að næra okkur og styrkja. Þið vitið að við tölum stundum um að hafa matarást á einhverjum og það er sko alls ekki yfirborðsleg ást heldur þakklát ást þar sem grunnlögmál kærleikans eru ofar öllu, þ.e. að gefa, þiggja og nærast. Það er fátt sem er eins táknrænt fyrir velvilja og væntumþykju eins og það að bjóða fólki í mat, ilmurinn í loftinu, er ekki bara blandinn jurtum og fersku hráefni heldur er hann líka ilmur fyrirhafnar og gestrisni, já þessara tveggja megin krydda sem þurfa að vera, svo bragð sé af hinum mannlegu samskiptum. Jesús vildi að við hefðum matarást á honum, hann vildi að við fyndum bragð fyrirhafnar og kærleika þegar við tækjum við brauðinu og víninu. Það er stundum talað um það í dag þegar heilsa og holdarfar er til umræðu og fólki gefin ráð til að bæta líkamsástand sitt, að það sé svo mikilvægt að vera meðvitaður um þá athöfn að borða. Ekki borða fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða í bílnum heldur við borð þar sem þú horfir á matinn og fylgist með næringarinntöku þinni. Þannig finnur þú betur hvað þú þarft mikið og nýtur þess í því samhengi. Ég hugsa að meðvitaðasta borðhald okkar fari fram í kirkjunni og ég held að það sé ekki bara vörn gegn offitu heldur vörn gegn því að fara á mis við það góða. Þetta er eins og að vera í hjónabandi en eyða aldrei neinum tíma saman, eiga eitthvað gott sem nærir en gleypa það bara í sig af því að það er þarna. Þegar við göngum til altaris erum við leidd til samfundar við Krist í orði, bæn og söng og við þiggjum þannig, meðvituð um hvert annað og nærveru Guðs. Og hér erum við stödd í dag á kaffihúsinu Björk í Lystigarðinum okkar fallega sem að gerir allar athafnir betri með umhverfinu einu. Kaffihúsið er frábært og hér er borið fram brauð og vín og kaffi í einhverri fallegusti náttúrukirkju bæjarins. Guðspjall þessa drottins dags fjallar í grunninn um þessi tvö megin krydd sem þurfa að vera svo bragð sé af mannlegum samskiptum, þ.e. fyrirhöfn og gestrisni og hráefnið er kærleikur. Guðspjallið er sem s.s. frásagan góða um miskunnsama samverjann. Aðdragandi þess að Jesús segir söguna er sá að lögvitringur nokkur sem vildi freista Jesú og klekkja á honum varpar fram eftirfarandi spurningu „Meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Og þá segir Jesús söguna af manninum sem varð fyrir árás á leiðinni ofan frá Jerúsalem til Jeríkó og um mennina þrjá, prestinn og meðhjálparann sem vildu ekki ómaka sig og um samverjann sem brást við með fyrhöfn og gestrisni er hann greiddi fyrir dvöl mannsins á gistihúsinu. Samverjinn þekkti það að tilheyra þjóð sem var fyrirlitin og afskipt en það er líka ein tegund ofbeldis. Þetta er saga sem við þekkjum vel, ekki bara úr sunnudagaskólanum, heldur úr fréttum, af heimilum, skólum og vinnustöðum. Ég er sannfærð um að einhver hér inni þekkir þessa sögu og sjálfan sig í einhverri þeirra persóna sem greint er frá. Þetta er sagan um það besta og það versta í mannlegu eðli, þetta er saga um ofbeldi, þöggun, ótta og óvænt hugrekki, vanlíðan og samlíðan. Þetta er ein af þessum sögum Biblíunnar sem eru svo góðar til að fjalla um afleiðingar ofbeldis og þöggunar, ábyrgð okkar sem samfélags, mikilvægi þess að láta aðstæður annarra sig varða, hvort sem fólk er tengt manni nánum böndum eður ei. Þetta er saga um það hvað það merkir að vera manneskja. Þetta er stutt og einföld saga sem hljómar frekar spennandi þegar maður er 5 eða 10 ára þ.e.a.s ef maður hefur ekki þá þegar orðið fyrir einhvers konar ofbeldi eða vanrækslu og finnur hana tala inn í það, og hún er áleitin og óþægileg þegar maður er orðin eldri og veit að leiðin grýtta frá Jerúsalem til Jeríkó er lífsleið alltof margra, kannski þín og kannski mín? Þegar við göngum hér um lystigarðinn á sólbjörtum sumardegi og flóra blómanna blasir við í sinni viðkvæmu fegurð, virðist ofbeldi og stríð eitthvað svo fjarstæðukennt. Það er einmitt það sem gerir ljóðið hans James Thurber um Síðasta blómið sem ég las hér áðan, svo áhrifaríkt. Eftir heimsku og hörmungar styrjalda, vaknaði vonin um nýtt upphaf, með einu, stöku blómi. „Ein síns liðs á víðavangi, vorkvöld eitt var telpa á gangi, og hún fann á sínu sveimi: Síðasta blóm í heimi., Saman forðuðu sveinn og meyja, síðasta blóminu frá að deyja“ Já með því að hlúa að lífinu getur eitthvað stórt og merkilegt kviknað af litlu blómi, því svo urðu blómin, „ bráðum tvö og blómin tvö að fjórum, fimm sex, sjö....og síðast breiðum stórum. Er þetta kannski ástæða þess að við þurfum svo mikið á náttúrunni að halda, blómunum og trjánum sem minna okkur á að þrátt fyrir allt þá lifum við frið, við getum síður merkt það á mannfólkinu en við getum merkt það á því hvort blómin standa óáreitt í beðunum og breiða út litfögur krónublöð sín. Hefurðu séð einhver blóm á myndunum sem nú berast okkur úr borgarastyrjöldinni á Sýrlandi þessa dagana? Nei en þú hefur væntanlega séð myndir af húsarústum og særðum eða látnum börnum, af harmi slegnum foreldrum, og ráðvilltum gamalmennum, þarna hafa yfir 20 þúsund manns fallið á síðastliðnum 17 mánuðum, hermenn, óbreyttir borgarar, erlendir fréttamenn ofl ofl. Umhverfið hérna í Lystigarðinum er ekki bara fallegt, það er líka táknmynd friðar, óstnortin náttúra landsins er ekki bara falleg eða þá arðvænleg hún er staðfesting þess að lifum við mestu gæði mannlegrar tilveru, sem er friður. Innra með okkur getur legið grýttur vegur frá hjarta til hugar, þar getur geysað stríð sem skekur lífslán einstaklinga og fjölskyldna og birtist í alkóhólisma og tilfinningalegri vanrækslu, en sem samfélag lifum við engu að síður eftirsóknaverðustu gæði veraldar, við lifum við frið. Og sá friður á að vera okkur hvatning til að huga að aðstæðum annarra þjóða. Sá friður sem við lifum er einhver merkilegasta auðlind landsins. James Thurber höfundur ljóðsins hafði þá náðargjöf að geta tjáð sterka ádeilu með húmorískum hætti bæði í orðum og myndum. Textinn er áreynslulaus en birtir ákveðna reiði og fyrirlitningu á stríðsrekstri og valdníðslu, fljótt á litið virðist Thurber ekki hafa mikið álit á mannskepnunni en hann hefur hins vegar mikla trú á ástinni og lífinu. Í ljóðinu um síðasta blómið sigrar nefnilega lífið erkióvin sinn sem er græðgi og stríðsþorsti mannsins, það sigrar dauðann. Og í tilfelli ljóðsins er það eitt blóm sem birtir mátt lífsins þrátt fyrir allt, samanber lokaorðin, „ ekki neitt lifði af þann lokadóm, nema einn piltur, nema ein telpa, nema eitt blóm.“ Höfum það hugfast þegar við göngum um þennan garð sem stendur með táknrænum hætti fyrir miðju bæjarins, eins og sameiginlegt hjarta okkar allra, að eitt lítið blóm getur tjáð bestu frétt lífs okkar, sem er að við lifum við frið.