,,Pétur minn keyrðu varlega yfir hæðina. Ekki keyra hratt“. ,,Sólveig! það er engin brekka framundan, engar áhyggjur.“ Ég saup hveljur innra með mér. Jú, það var gríðar brött brekka framundan, ég hafði oft farið hana á leið minni austur í sveitir. Ég var nýlega komin með bílpróf og fór afar varlega í umferðinni svo ég lifði mig ennþá betur inn í aksturinn hjá sr. Pétri Sigurgeirssyni. Þarna var ég á ferðinni með prestshjónunum í Akureyrarkirkju á leið í sumarbúðirnar á Vestmannsvatni þar sem Pétur ætlaði að segja prestunum í Hólastifti frá ferð sinni til landsins helga og ég fékk að sitja í enda foringi í sumarbúðunum og þurfti að komast til vinnu. Þrátt fyrir að Pétur sæi engar brekkur og hindranir á veginum kom hann okkur heilum og höldnum á áfangastað á Volvo-drossíunni sinni. Svo sat ég, unglingurinn, með þessum prestakörlum allt kvöldið og horfði á myndir frá landinu helga og einu myndirnar sem ég veitti sérstaka athygli voru af frú Sólveigu því mér fannst hún fallegasta kona sem ég hafði kynnst með sitt síða þykka og fallega hár og mildu andlistsdrætti og það var svo auðfundið hvað Pétur var líka hrifinn af konunni sinni þegar hann var að sýna myndirnar. Það var einstakur ljómi yfir þeim hjónunum og sem unglingur fannst mér þau eins og kvikmyndastjörnur. Ég gleymi heldur aldrei hans skapandi hugsun og óttaleysi við að fara nýjar leiðir. Mér fannst sunnudagaskólinn hjá honum pabba mínum ágætur, en það var samt ennþá skemmtilegra í Akureyrarkirkju hjá Pétri af því að þar voru stundum sýndar teiknimyndir, já skyndilega var allur hópurinn komin í bíó og stemmningin frábær og það vafðist ekkert fyrir Pétri að vera svo með útleggingu út frá öllu saman. ,,Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Við skulum fara aftur til sumarsins 1975 eða 1976. Vinur minn og samstarfsmaður Jóhann Baldvinsson síðar organisti var þá átján ára gamall. Hann er sjö árum eldri en ég og var á þessum tíma einn af þessum eðal æskulýðstöffurum kirkjunnar sem ég ásamt fleirum litum hrikalega upp til, hann gat spilað á píanó og gítar og haldið upp stuðinu. Þetta sumar var hann svo heppinn að fá vinnu í raflagnadeild KEA og eitt sinn þegar hann mætti til vinnu sá hann hvar Gunnar Austfjörð deildarstjóri er á spjalli í símanum og yfir andlit hans hefur breiðst mildur svipur og auðfundið að hann kunni að meta viðmælandi sinn. Allt í einu réttir hann símann í áttina að unga starfsmanninum og segir: ,,Það er síminn til þín Jói minn.“ Pilturinn hváir við og tekur tólið og þá heyrir hann fallegu röddina hans sr. Péturs: ,,Jóhann minn, ég var að velta því fyrir mér hvort þú kæmir ekki með mér á föstudaginn á fermingarbarnamót í Hrísey, ég þarf svona skemmtilegan æskulýðsleiðtoga eins og þig til að fara í leiki og halda upp gleðinni með unga fólkinu.“ Jóhann verður eilítið stressaður og lítur yfir til yfirmannsins og segir svo við Pétur ,,Veistu, ég get því miður ekki gert þetta, ég er í vinnu og kemst ekki frá.“ Þá svarar presturinn: ,,Elsku Jóhann minn, ekki hafa neinar áhyggjur af þessu, ég er búin að ræða við hann Gunnar og þú færð frí og svo heyrði ég líka í honum Vali Arnþórssyni kaupfélagsstjóra og þú verður á fullum launum á meðan á fermingarbarnamótinu stendur, svo engar áhyggjur vinur minn.“ Þetta voru aldeilis ekki slæm býtti í huga unga mannsins sem fannst heldur meira gaman að sinna æskulýðsstarfinu en raflagnadeildinni með fullri virðingu fyrir því góða starfi. Enda hefur Jóhann Baldvinsson helgað kirkjunni krafta sína frá unga aldri til dagsins í dag. Endurgjaldið var líka mikið sem hann fékk frá leiðtoganum Pétri sem var fullur af þakklæti að hafa þennan hæfileikaríka mann með sér að sinna unga fólkinu. Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Faðir minn Bolli Gústavsson var alinn upp á Akureyri. Fjölskylda hans sótti lítið kirkju og í móðurætti hans höfðu margir lítið álit á Þjóðkirkjunni og prestastéttinni. En um fermingu kynnist hann sr. Pétri og því öfluga æskulýðsstarfi sem hann rak við Akueyrarkirkju. Faðir minn heillaðist af samfélagi kirkjunnar og tók miklu ástfóstri við Pétur. - Raunar svo miklu að hann lét einn sona sinna heita eftir honum. Faðir minn sagði mér oft að það hefði verið vegna trúarlegra áhrifa gegnum sr. Pétur að hann hefði ákveðið að fara í guðfræðideildina og þótti mörgum í hans fjölskyldu valið undarlegt á framhaldsnáminu. En það reyndist gæfuspor fyrir föður minn, hann var leitandi sál á háskólaárunum og vissi ekki alveg hvert lífið myndi leiða hann. Hann tók þá ákvörðun þegar hann þáði prestsvígslu að snerta aldrei áfengi framar og við það stóð hann og það var mikilvægt skref fyrir hamingju hans. Sem prestur í Laufási við Eyjafjörð fékk hann tækifæri til að láta styrkleika sína blómstra sem nýttust bæði fyrir hann persónulega og kirkjuna alla. Hann vann þar einnig við myndlist, fjölmiðlun og skriftir sem gáfu honum mikla næringu og aldrei horfði hann með eftirsjá á starfsval sitt en oft heyrði ég hann blessa sr. Pétur fyrir handleiðslu hans og kærleika alla tíð. Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna. “ Ég gleymi því aldrei þegar við hjónin tókum þá ákvörðun fyrir mörgum árum að vera með samtalspredikun í útvarpsmessu á jóladag. Við vorum ung og fannst mjög töff að brjóta þetta verulega upp. Ræðan var ágæt og við höfðum gaman af því að gera þetta saman. Að lokinni messu á jóladag þá hringir síminn og þar er Pétur biskup í símanum. Fyrst byrjaði hann að segja mér hversu mjög hann hefði kviðið því að hlusta á messuna þegar í ljós kom að við ætluðum að fara spjalla saman á svona stórum degi á kirkjuárinu. Bara spjalla saman! Honum hefði í raun ekkert litist á þetta. En svo hefði hann verið svo glaður hvað þetta tókst vel, það hefðu verið margir góðir punktar í ræðunni og það besta hefði verið að hann hefði fundið að við bárum virðingu fyrir viðfangsefninu. Hann fékk að ræða við okkur bæði og svo endaði samtalið eins og ævinlega þegar hann talaði við mig á því að blessa pabba og dásama hann og þakka fyrir þeirra löngu og kærleiksríku samleið. Við Jóhann Baldvinsson organisti eigum reynslu af því á mikilvægum stundum í starfi okkar eftir að Pétur hafði látið af störfum sem biskup að hann hafði samband til að athuga um okkur af því að hirðishjartað hans kallaði eftir því og við urðum ríkari á eftir, þetta kom eitt sinn í ljós þegar við fórum að deila reynslu okkar af samstöðu hans og umhyggju. Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Ákall Jesú Krists til kristinnar kirkju er að hún hafi hirðishjarta. Kristið fólk er fólk á ferð, fólk á samleið sem gætir hvert að öðru. Við erum öll hirðar sem leiðum, hlúum að og valdeflum hvert annað í þjónustunni við lífið eftir hæfileikum og styrkleikum. Við eigum að rækta þetta með okkur, auðvitað kemur fram fólk sem hefur þetta sem ríkan eðlisþátt í persónu sinni og eru hirðar af Guðs náð. Ég hef verið svo lánsöm um ævina að þekkja slíkar manneskjur en engan mann í íslensku þjóðkirkjunni þekki ég sem átti slíkt hirðishjarta eins og sr. Pétur Sigurgeirsson. Hann var eins og Símon Pétur, klettur í kirkju Krists. Hann var, líkt og nafni hans, kallaður til forystu með alveg sérstökum hætti og þrátt fyrir að glíma við sykursýki alla sína ævi þá hafði hann ótrúlegt starfsþrek og lifði alltaf í æðruleysinu. Eigimaður minn Bjarni Karlsson á margar fallegar minningar um sr. Pétur frá því að hann var æskulýðsfulltrúi hjá Biskupsstofu í biskupstíð Péturs en Bjarni var þá rétt tvítugur að aldri. Hann tók eftir því að Pétur kom alltaf með sama nestið til að snæða í hádeginu; normalbrauð með osti sem frú Sólveig hafði smurt handa honum, skorið í tvennt og pakkað í bréf. Allir á Biskupsstofu vissu að herra Pétur mátti til að gæta að mataræði sínu vegna sykursýkinnar og hafa reglu á öllu sem hann setti ofan í sig. Þó brást ekki ef svo vildi til að fólk sat á kaffistofunni og Pétur tók upp nestið sitt að hann tæki annan hlutann af samlokunni og byði hann yfir borðið ef einhver kynni að vera svangur. Guð blessi minningu hirðisins Péturs Sigurgeirssonar og allra annarra sem hlýtt hafa kalli frelsarans Jesú og verið hirðar kristinnar kirkju í okkar landi. Guðspjall: Jóh 21.15-19 Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“