Bartímeus, Melkísedek og fermingarbörnin

Bartímeus, Melkísedek og fermingarbörnin

Biblían er í mínum huga eins og gimsteinn. Boðskapurinn er ómetanlegur og dýrmætur. Kærleikurinn laðar jafnframt fram aðra mikilvæga eiginleika, eins og mildi í garð annarra. Við þurfum að rækta með okkur meiri mildi í samfélaginu, bæði í eigin garð og annarra, að mínu mati.

Æskulýðsdagurinn í Grensáskirkju

2. sd. í föstu, 5. mars 2023

 

2.Mós.33-12-14

Heb. 5:7-10

Mk. 10:46-52

 

Biðjum:

 

Góði Guð!

Þakkir fyrir hvern fagran morgun,

þakkir fyrir hvern nýjan dag.

Þakkir, þú vilt mér lýsa, leiða lífs um æviveg. (Sálmur 717:1) Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Biblían

 

Í kirkjunni lesum við úr bókum Biblíunnar. Biblían er s.s. safn bóka sem ritað var á 1500 ára tímabili, í þremur heimsálfum, af yfir 40 höfundum.

 

Biblían miðlar okkur visku kynslóðanna sem getur haft jákvæð og góð áhrif á líf okkar í dag.

 

Gimsteinninn og sólarljósið

 

Biblían er í mínum huga eins og gimsteinn. Boðskapurinn er ómetanlegur og dýrmætur.

 

Þið þekkið hvað gerist þegar sólarljósið brotnar í gimsteini, er það ekki? Þá bera fyrir augu nýjar, litríkar og dansandi myndir.  

 

Slíkt gerist einnig þegar sólin skín inn um eldhúsgluggann hjá mér í Fagrahjallanum í Kópavoginu, þar sem ég bý, þar sem lítill kristall hangir stundum í glugganum, þá speglar hann litríkum myndum á hvítan eldhúsvegginn eða í andlitum einstaklinganna sem sitja við eldhúsborðið. 

 

Eins er það í mörgum kirkjum þar sem sólin skín inn um steinda gluggana að nýjar og nýjar myndir og tákn, sögur og litir bera fyrir augun.  

 

Við sjáum slíkt einmitt hér í fallegu gluggum Grensáskirkju, sem Leifur Breiðfjörð listamaður, hannaði og gerði.

 

Við sjáum slíkt í fjölmörgum öðrum kirkjum og hafa Leifur og aðrir listamenn þjóðarinnar gefið okkur mikla dýpt og merkingu með þeirri listsköpun sinni.  

 

Hefur þú leikið þér með sólarljósið á þennan máta, með kristal eða öðrum hlutum sem brjóta sólarljósið? 

 

Sögur

 

Sögur geta einnig virkað svona.  

 

Manstu eftir einhverri sögu sem þú heyrðir þegar þú varst yngri, svo rifjar þú hana upp síðar og skilur hana með öðrum hætti? Þá er eins og sagan sé að spegla til þín nýrri mynd, eins og þegar sólarljós brotnar í gimsteini, eitthvað nýtt verður til, nýr skilningur kviknar. 

 

Þannig er það með frásögur Biblíunnar, sem varðveist hafa í mörg þúsund ár, þær geta birt okkur nýjar og nýjar myndir og upplýsingar, allt eftir því hvaða viðfangsefni við erum að fást við í lífinu, hverju sinni.  

 

Það er líkt og Biblían sé gimsteinn sem birtir okkur nýjar, litríkar og dansandi myndir, þegar við leyfum lífsljósi okkar að lýsa í gegnum sögur Biblíunnar og heimfærum þær upp á okkar eigið líf, þ.e.a.s. skiljum líf okkar í samhengi við þær sögur sem Biblían geymir. 

 

Bænheyrsla

 

Textar æskulýðsdagsins í dag eru úr Annarri Mósebók, Hebreabréfinu og Markúsarsguðspjalli.

 

Það sem textarnir eru að segja okkur er að Guð heyrir bænir og svarar bænum.

Frásögurnar sem textarnir geyma eru frásögur af bænasvörum.

 

Bænirnar sem verða bornar fram hér á fram eru unnar upp úr bænarorðum fermingarbarna, sem þau settu á blað í vikunni, í fræðslunni.

 

Það var svolítið gaman fyrir okkur prestana að sjá og finna hvað fermingarbörnin eru vel hugsandi og meinandi.

 

Textinn í annarri Mósebók segir frá samtali Móse og Guðs. Við gætum auðvitað staldrað lengi við þetta atriði og velt fyrir okkur innihaldi þeirra orða, þ.e. að Guð og Móse hafi átt í svo nánu sambandi. En ef við skoðum þennan texta, sem þið eruð með í höndunum, fyrri textann, þá sjáum við að Móse þurfti ennfrekari svör. Hann þurfti enn frekari staðfestingu þess að Guð væri með honum. Þarna er jú Móse búinn að leiða fólkið út í eyðimörkina, burt úr þrældómnum í Egyptalandi, þar sem þjóðin þjáðist lengi, í fjölda ára.

 

Móse var leiðtogi þeirra, bar því mikla ábyrgð, og lagði allt sitt traust á Guð. Það sem við tók var ekki beint glæsilegt, það var löng eyðimerkurganga, og Móse þurfti staðfestingu þess að Guð væri enn með honum. Honum fannst sem Guð væri að reyna hann.

 

Slík eyðimerkurganga getur verið lýsandi fyrir mannlegt lífshlaup þar sem gjarnan skiptast á slík tímabil. Öll þekkjum við án efa slíkan reynslutíma í okkar lífi, þar sem hlutirnir eru ekki alveg að smella, þar sem við þurfum að sýna þrausegju, þolinmæði og dugnað til að komast í gegnum erfiða tíð.

 

Biblían er full af svona vitnisburði og frásögum.

 

Frásögum af fólki sem er í sömu stöðu og við, sem glímir við þetta, sér kannski ekki endilega að Guð sé nærri, þannig frásögur eru margar. En hinar frásögurnar einnig, þar sem Guð svarar bænum, líkt og hann staðfesti við Móse.

 

Með Guð í vasanum

 

En Guð verður ekki settur í vasann.

 

Það er nefnilega þannig að við setjum Guð ekki í vasann. Guð er ekki eins og sjálfsali þar sem við nefnum bara það sem okkur langar í og þá dettur það fyrir fætur okkar.

 

Ég var nefnilega fyrir framan sjálfsala um daginn og setti kortið í, sló inn númerið 22 og niður datt þetta ljómandi góða kaffisúkkulaði, sem ég gaf vini mínum sem lá þurngt haldinn á Landspítalanum.

 

Sjálfsalinn er einmitt þar í anddyrinu.

 

Nei Guð er ekki sjálfsali.

Við erum ekki með Guð í vasanum.

 

En Guð er samt til.

 

Það er nefnilega svo merkilegt að Guð skuli vera til. Og Guð er ekki bara vera til heldur er hann nálægur okkur, og ekki nóg með það, hann er kærleikans kraftur, sem vill okkur öllum vel.

 

Bænheyrður sakir trúar

 

Seinni texti Æskulýðsdagsins, úr Hebreabréfinu, er áminning þess að Jesús er sonur Guðs. Textinn fjallar einnig um bænheyrslu, þar sem segir að Jesús hafi borið fram bænir með sárum andvörpum og tárum fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og var hann bænheyrður sakir trúar sinnar – eins og segir í textanum.

 

Síðan segir að „þegar hann hafi fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.“

 

Þar er verið að vísa í fyrstu Mósebók er friðarkonungurinn Melkísedek blessaði Abraham og færði honum brauð og vínberjasafa, og er fyrirmynd af þjónustu Jesú í heiminum.

 

Hebreabréfið lýsir því nefnilega, að kristindómurinn á rætur í gyðingdómi, en gerir einnig grein fyrir mismuninum á þessum trúarbrögðum tveimur. Það, sem helst skilur að kristnina og gyðingdóminn, er sjálfur Jesús Kristur. Hann er æðsti presturinn, sem bar sjálfan sig fram sem syndafórn í eitt skipti fyrir öll (9.23-10.18). Hann dó og var grafinn og reis upp aftur. Með því greiddi hann öllum mönnum veg inn í sjálfan himininn (4.14-5.10; 7.1-8.13). Eins og segir á öðrum stöðum í Hebreabréfinu.

 

Það er svona kjarnaboðskapurinn.

 

Höfundurinn segir Jesú jafnframt meiri en nokkurn af englum Guðs (1.5-14), meiri en nokkurn spámann, jafnvel meiri en Móse og Jósúa (2.1-4.14). Fyrirgefningu syndanna og lífið nýja sem Jesús færir öðlast mennirnir aðeins fyrir trú. Og trúin veitir lærisveinum Jesús fullvissu um það sem þeir vona og sannfæringu um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá (11.1), eins og segir á öðrum stað í ritinu.

 

Beiningamaðurinn blindi

 

Þriðji texti dagsins er síðan úr guðspjalli Markúsar. Þar er kraftaverkafrásaga af Jesú. Það segir frá því er Jesús gefur blindum manni sýn.

 

Þarna er aftur einstaklingur sem biður Jesú. Bartímeus, sem var blindur, vildi ná sambandi við Jesú, sem var þarna á ferð.

 

Hann biður þessarar fornu bænar um að honum verði miskunnað. „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús er sagður af Davíðs ætt, þ.e. sem sagt Davíð konungur, sem Davíðssálmarnir eru kenndir við, eins og Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta, og svo framvegis.

 

Fyrst vilja viðstaddir þagga niður í manninum. Vilja ekki að hann sé með þessi háreysti, að hann sé ekki að trufla Jesú. En Jesú segir þeim síðan að kalla á hann og spyr hann síðan: „Hvað viltu að ég geri fyrir þig?“

 

Var það ekki nokkuð augljóst? Hann var blindur.

 

Jesús spyr samt og vill heyra hvað maðurinn segir og biður.

 

Ég hef reynt það á eigin skinni að munur er á því hvernig bænarsvörin berast manni, eftir því hvernig við berum bænirnar fram. Erum við nákvæm í bæninni, þ.e.a.s. biðjum við skírt, eða biðjum við kannski bara ekki neitt.

 

Það er þá ekki skrýtið að bænasvörin standi á sér, ef einskis er beðið.

 

Ef Bartímeus hefði ekki svarað, ef Bartímeus hefði ekki kallað og beðið, verið alveg með á hreinu hvað það var sem hann vildi að Jesús gerði fyrir sig, þá er ekki víst að hann hafi fengið sjónina aftur.

 

Trúin flytur fjöll, segir á einum stað.

Og svo segir Jesús á öðrum stað: Biðjið og yður mun gefast. Leitið og þér munuð finna. Knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.

 

Þar er miklu lofað, en á sama hátt og auglit Guðs fylgdi Móse, fylgir Guð okkur einnig í dag. Hann birtist okkur hvað skýrast í orðum Jesú og frásögum og einnig í andanum heilaga sem er nærri, hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í hans nafni, líkt og hér í dag.

 

Sjónin

 

Við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvaða merkingu sjónin hafi í þessari frásögu. Var Bartímeus alveg blindur, eða var hann blindur á einhverja mikilvæga eiginleika lífsins?

 

Stundum er talað um hin sjö undur veraldar. Í því samhengi er gjarnan talað um Píramíta Egyptalands, Miklagljúfur, Kínamúrinn, Taj Mahal, Péturskirkjuna í Róm, Panamaskurðinn og Empire State bygginguna.

 

Einhver dró fram önnur undur og sagði að hin sjö undur veraldar væru ekki svo langt undan, því þau væru eftirfarandi:

 

Að sjá, að heyra, að snerta, að finna bragð, að finna til, að hlæja og að elska.

 

Kærleikurinn

 

Það er einmitt það sem kirkjan boðar og stendur fyrir, það er elskan. Elska Guðs til mannanna og það að minna okkur á að við eigum að elska Guð og hvert annað.

 

Kærleikurinn laðar jafnframt fram aðra mikilvæga eiginleika, eins og mildi í garð annarra. Frið, auðmýkt og hógværð.

 

Mér finnst eins og mildin sé sá eiginleiki sem sé hvað mikilvægastur í samtímanum. Við þurfum að rækta með okkur meiri mildi í samfélaginu, bæði í eigin garð og annarra.

Kannski að það ætti að vera eitt af bænarefnunum sem við tökum með okkur út í daginn.

Mildi og friður.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegi kveðju. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Flutt í æskulýðsmessu í Grensáskirkju 5. mars 2023.