Dýpt mannlífsins

Dýpt mannlífsins

Myndu þá ekki stjörnulögfræðingarnir stíga fram, undirbúa meiðyrðamál, tengja það við pólitísk öfl og benda á alla þá sem eiga hagsmuna að gæta? Það er bara svo mikið í húfi þegar verið er að velta stjörnunum af stöllum, það eru svo margir sem missa spón úr aski sínum eða hvað?

predikun4.jpg Gamalt ár fellur frá og nýtt fæðist. Tímamót og einkum hinum fullorðnu verður tíðrætt um hversu hratt tíminn líður og fara að rifja upp minningarnar, gleðilegar sem sorglegar. Gamla árið er gert upp, hvað gerðist, hvernig má læra af þessu og hinu og hvað verður síðan? Allt eru það þekktar spurningar og pælingar við áramót og önnur tímamót í lífinu.

Reynslan kennir okkur sitthvað. Sumir eru móttækilegri en aðrir hvað hana snertir. Það er mikill lærdómur sem felst í því að læra af reynslunni, nýta sér lífsreynsluna til góðs. En torvelt getur það verið. Við þekkjum það öll. Þetta er svona eins og veiði, sem er sýnd en ekki gefin, þú lítur á það sem sjálfsagt mál að fanga reynsluna og afgreiða hana en síðan er hún allt í einu flogin frá þér og þú þarft að takast á við hana að nýju. En það má ekki hætta, það verður að halda áfram. Dæmisagan við áramót fjallar um nýtt tækifæri. “Herra, lát fíkjutréð standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð.” Viltu gefa mér og trénu nýtt tækifæri? Guð er þolinmóður og gæska hans umvefur ekki síst þá sem hrasa, þurfa á nýjum tækifærum að halda, og rísa svo jafnvel upp aftur. Jesús rétti fram ný tækifæri án afláts, postularnir Pétur og Páll gátu m.a. vitnað um það.

Ein kunnasta dæmisaga Jesú leggur áherslu á þessa þolinmæði Guðs föður þegar sonurinn hélt út í blekkingarheiminn og vaknaði ekki upp fyrr en hann var farinn að seðja hungur sitt á svínadrafi. Þá snéri hann heim og tók sénsinn á því hvort faðir hans tæki við honum aftur. Móttökurnar voru ekki minni en svo að heilum alikálfi var slátrað og faðirinn hjartanlega þakklátur fyrir það að týndi sonurinn skyldi finnast aftur. Dómur Guðs. Hvenær erum við svo búin með alla sénsana? Dæmisagan um fíkjutréð gefur það sterklega til kynna að það fyrirfinnist lokatækifæri. Það er ekkert ósennilegt að nokkuð sé til í því, það er segin saga að slíkar aðstæður koma upp þegar hverju tækifærinu er glutrað á fætur öðru. Þá er sérhverju mannsbarni hollt, hvort sem það trúir á Guð eður ei, að velta því fyrir sér hvort um sé að ræða útilokun Guðs eða jafnvel útilokun sem við sjálf erum höfundar að. Nú hefur verið minnst á þolinmæði Guðs og þar að auki höfum hvert og eitt frjálsan vilja þannig að niðurstaðan yrði væntanlega sú að sjálf hefðum við málað okkur út í horn og kallað á þann hátt dóminn yfir okkur. En biðjum góðan Guð að forða okkur frá því!

Ég tel þetta mjög þarfar vangaveltur þó þær séu ekkert endilega þægilegar eða alltof hressandi á áramótum þegar æði margir hugleiða einkum steikina, skaupið, og stjörnuljósin. En þegar áramótavíman rennur af má vera að þetta veki til umhugsunar og þá t.d. um þann algenga kvilla að vilja alltaf varpa ábyrgð sinni yfir á aðra. Ef ekki er hægt að varpa henni yfir á náungann, þá er Guð jafnan síðasta hálmstráið. Og vont er það þegar ábyrgðinni er varpað á þá sem þurfa að þola og líða. Nú eru ekkert mörg ár síðan íslenska dómskerfið sýknaði heimilisofbeldismann, vegna þess að sagt var að þolandi hans hafi reytt hann ítrekað til reiði. Meira en lítið undarlegt.

Og nú síðast steig svokallaður stjörnulögfræðingu fram til varnar nýjasta “siðapostula” nútímans Gillzenegger, er liggur undir grun að hafa beitt unglingsstúlku kynferðisofbeldi, og reynir að grafa undan trúverðugleika þolanda með því að benda á pólitísk fjölskyldubönd. Furðulegt. Án þess að ég sé nokkuð meira inni í því máli en aðrir þeir er lesa blöðin, þá er ekki hægt að gefa háa einkunn fyrir siðferðið í þessu sambandi og það er þyngra en tárum taki að upplifa það að þetta sama siðferði hafi heimsótt kirkjuna með kunnum afleiðingum. Það minnir áþreifanlega á það að á öllum vígstöðvum þurfum við að vanda okkur og berjast gegn þeim þjóðfélagskvilla sem það er að varpa ábyrgðinni yfir á aðra, ég tala nú ekki um þegar henni er varpað yfir á þolendur.

Jesús Kristur umbylti og bætti siðferði. Hann var vegvísir í þeim efnum. Hann benti fólki á að líta í eigin barm. Önnur kunn dæmisaga sem hann segir er hlaðin siðferðislegum vísdómi sem bæði börn og við hin fullorðnu mættum kynna okkur oftar og reglulega. Helst ætti sagan um miskunnsama samverjann að vera skyldulesning í skólum og í ótal öðrum stofnunum samfélagsins. Þar er nefnilega verið að tala um ábyrgð okkar gagnvart náunganum og þar er sömuleiðis verið að tala um mikilvægi þess að hlaupast ekki undan ábyrgð sinni, reyna ekki að forðast hana. Mér finnst það ögrandi og á vissan hátt sterk mynd í þessari sögu þegar tveir af siðapostulum samfélagsins í Ísrael til forna, prestur og levíti, ganga framhjá neyð náungans, það bendir á þann raunveruleika að enginn er undanþeginn, það þurfa allir að takast á við sig, hugsanir sínar, gjörðir og ábyrgð.

Og andlegir vegvísar geta meira að segja brugðist. Niðurlag samtals Jesú og lögvitringsins, þar sem Jesús segir honum söguna um samverjann góða, er augljós hvatning Jesú til sjálfsskoðunar, ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta: “Far þú og ger hið sama.” Ég myndi líta svo á að íslenskt þjóðfélag ætti að vera búið að læra meira eftir skellinn 2008. Nú er aðeins fjórða árið frá þeim ósköpum að renna upp en samt sem áður voru 5000 ferðir seldar til Boston í haust og Kertasníkir hefur verið að setja spjaldtölvur í skóinn hjá börnunum. Gæti verið að árið 2007 sé ekki liðið eða kannski bara komið aftur? En á sama tíma var hjálparstarf kirkjunnar að afgreiða um 1000 umsóknir í jólaaðstoðinni og þúsund matarpökkum var úthlutað af mæðrastyrsknefnd fyrir þessi jól, 2400 frá Fjölskylduhjálpinni, fyrir utan allar nafnlausu gjafirnar til bágstaddra sem ekki eru auglýstar. Fólksflutningar til annarra landa hafa verið miklir undanfarin ár og óvíst hvort brottfluttir komi nokkuð heim aftur þar sem efnahagskreppan hefur staðið þetta lengi yfir. En fulltrúi stjórnvalda virðist ekki hafa neinar sérstakar áhyggjur af fólksflutningum á meðan reynsluríkur fréttamaður í morgunútvarpi ætlar að missa sig yfir sama málefni, segir málið svo grafalvarlegt þannig að morgunkornið hrekkur ofan í mann. Hverju eða hverjum áttu svo að trúa? Við hljótum að verða sjóveik eins og börn sem eru að fara í gegnum erfiðan skilnað foreldra. Þarna sjáum við skakka mynd og ástæðan kann að vera sú að upplýsingar bæði frá stjórnvöldum og fjölmiðlum gefa misvísandi mynd af ástandinu, auk þess sem fólk talar ofan í hvert annað og varpar ábyrgð út og suður. Hvar er svo samstaðan?

Byltingin er búin, eggin hafa verið hreinsuð af Alþingi og Dómkirkjunni, reiðin hefur fengið sína útrás og hvað svo? Þreytumerki virðast töluverð hjá landanum og ef til vill líður bætt siðferði fyrir það. Gæti það verið að við nennum ekki lengur að takast á við dýpt mannlífsins? Getur verið að við látum okkur bara nægja stjörnulögfræðinga,Tobbu Marinós, og Gillzenegger sem siðferðispostula í íslensku þjóðfélagi? Eru þau kannski meira “inn” eins og unga fólkið segir heldur en Gideonmennirnir með Nýja testamentið? Er ekki líka miklu skemmtilegra að fá þau í skólana og ekki næstum því eins varasamt? En geta börnin orðið fórnarlömb Orðsins eilífa, verða þau ekki fremur fórnarlömb orðsins skammlífa? Orð móta og þau geta glatt en þau geta meitt alveg gífurlega. Ég tek sem dæmi að það er óvíst að Þórður nokkur Ingvarsson ritstjóri vefs Vantrúar hefði treyst sér til að skrifa þessi ummæli, hvað þá eftirmæli, sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum um Sigurbjörn heitinn Einarsson biskup t.d. um Gillzenegger eða aðra núlifandi íslendinga sem alltof stór hluti þjóðarinnar hefur verið að setja á stalla og í efstu sæti vinsældarlista.

Myndu þá ekki stjörnulögfræðingarnir stíga fram, undirbúa meiðyrðamál, tengja það við pólitísk öfl og benda á alla þá sem eiga hagsmuna að gæta? Það er bara svo mikið í húfi þegar verið er að velta stjörnunum af stöllum, það eru svo margir sem missa spón úr aski sínum eða hvað? Maður hristir bara höfuðið. En Þórði þessum datt í hug að minnast biskupsins sem hafði lagt meira til en margur annar svo þessi þjóð okkar mætti lifa með andlegri reisn. “„Sirka 1 ár liðið... frá því að þessi frathaus, prumpuhali, rugludallur, geðstirða gamalmenni, sérlegur aðdáandi hinna myrku miðalda og baráttumaður fyrir endurupptöku þeirra helgu daga, óskammfeilin karlremba, trúarbulla, andlegi ofbeldisseggur, fordómafulli drullusokkur og siðblindi síkópati féll frá.“ Þórður setti ekki einu sinni broskarl fyrir aftan þessi lítt jólalegu lýsingarorð en sú aðferð virðist vera á uppleið í umræðunni í dag. Nú skrifar fullorðið fólk, sem telur sig hafa eitthvað segja, allskonar hroða um hina og þessa opinberlega en setur svo broskarl fyrir aftan og þá heldur það að það þurfi ekki að taka neina ábyrgð á því sem það skrifar. Ég vona svo innilega að það verði ekki nýjasta siðferðið í opinberum skrifum í dag, ef siðferði er hægt að kalla. Nei, þetta er enn ein leiðin til þess að varpa ábyrgðinni eitthvert annað, horfast ekki í augu við sjálfan sig, gera ekki hið sama og miskunnsami samverjinn, kannski er bara búið að gera hann tortryggilegan eins og svo margt annað.

Það er að mínu mati mælikvarði um fremur hnignandi siðferði þegar kristinn boðskapur í kristnu þjóðfélagi, já þjóðfélagi sem dregur upp fána með krossi á tyllidögum, er gerður tortryggilegur og helst ekki haldið á lofti, já þegar myndast hefur eins og einhvers konar óttablandin feimni gagnvart honum. Fjölmörg rök hafa litið dagsins ljós með því að hlusta varlega á boðskapinn kristna eins og mannréttindi, trúfrelsi, fjölmenning. Þessum hugtökum er veifað í sífellu og um leið illa með þau farið. Það efast enginn um það að þau eigi ekki rétt á sér, þau eru í eðli sínu öllum þjóðfélögum brýn nauðsyn sé rétt á þeim haldið, séu þau ekki nýtt til þess að ryðja í burtu ákveðnum veruleika trúar og siðferðis. Íslensk þjóð veit innst inni að það er engin tilviljun að krosstákn sé í þjóðfánanum, að hér hafi risið kirkjur um allt land, að í vegköntum standi krossar til að minnast þeirra er látist hafa í umferðinni, að á jólum eru fluttir helgileikir um Betlehemsatburðinn hér og þar og allsstaðar, meira að segja í sumum skólum, að á yfir 90% leiða í landinu standi tákn vonar, krosstáknið. Ég virði trúfrelsi en einkum sem fyrirbrigði er vekur þá trúarafstöðu hjá hverri manneskju en ekki óttablandið hlutleysi ellegar afstöðuleysi. Það hlýtur að vera ónotalegur veruleiki. Þess vegna bendi ég á krosstáknið, því það hefur reynst vel þeim er sjá það í réttu ljósi, og ekki síst þar sem það er veruleiki íslensks samfélags. Það er von mín að sá veruleiki verði ekki frá þjóðfélaginu tekinn, vegna þess að hann bindur það á vissan hátt saman, trúarlega og siðferðislega, og virkar sem ljós í myrkri þegar áföll dynja yfir. Þann lærdóm má m.a. draga af reynslunni.

Jesús Kristur heldur áfram að styðja okkur í því að takast á við dýpt mannlífsins, hann heldur áfram að benda þér á að fara og gera slíkt hið sama, að styðja við neyð náungans og læra af reynslunni, viðurkenna þau mistök sem þú gerir, hann réttir þér ný tækifæri með Orði sínu og áfram mun hann kalla þig til samfélags við sig hvort sem þú heyrir, heyrir ekki, eða vilt ekki heyra. Hann bendir á nýtt ár 2012 og ólíkt völvunni sem gerir lítið úr framtíðinni með því að segja henni fyrir verkum, biður hann þig að hlusta á hjartað þitt á nýju ári og hugsa í takt við það því þá berðu virðingu fyrir því sem koma skal, fyrir lífinu, fyrir sjálfum þér, fyrir þeirri ábyrgð sem hver og einn þarf að axla til að efla heilbrigði samfélagsins. Guð gefi okkur gott og gleðilegt ár 2012. Í Jesú nafni. Amen.