Undanfarið hafa komið fram fullyrðingar í fjölmiðlum, hafðar eftir presti Fríkirkjunnar í Reykjavík um að Þjóðkirkjan fái frá ríkinu árlega hátt í fjóra milljarða króna en önnur trúfélög hafi bara sóknargjöld. Framsetning þessa máls í fjölmiðlum hefur valdið ákveðnum misskilningi. Hér er ekki um að ræða fé sem Þjóðkirkjan tekur við til viðbótar við sóknargjöld. Sóknargjöld eru innifalin í þessari tölu, sem og greiðslur til kirkjugarða en starfsemi þeirra er aðskilin frá annarri starfsemi Þjóðkirkjunnar og þjónar öllum landsmönnum, burtséð frá trúfélagsaðild. Má benda á að Fríkirkjan í Reykjavík á aðild að stjórn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.
Til að leiðrétta hugsanlegan misskilning vil ég gera grein fyrir því hvernig fjármálum Þjóðkirkjunnar er háttað og bendi jafnframt á að nánari upplýsingar um þau má fá á vef kirkjunnar, www.kirkjan.is.
Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir öll skráð trúfélög miðað við fjölda skráðra meðlima 16 ára og eldri. 1. desember 2004 voru skráðir meðlimir Þjóðkirkjunnar alls 250.661. Í öðrum skráðum trúfélögum samkvæmt upplýsingum Hagstofu voru 26.753 einstaklingar. Samkvæmt fjárlögum ársins 2005 eru sóknargjöld til Þjóðkirkjusókna um 1.485 milljónir og til annarra trúfélaga 151 milljón.
Greiðslur til almenns reksturs kirkjugarða voru tæplega 715 milljónir króna árið 2005. Þær renna til kirkjugarða um allt land og þjóna fólki án tillits til trúfélaga og trúarbragða.
Til viðbótar sóknargjöldum fær Þjóðkirkjan 1.729 milljónir króna í gegnum fjárlög ríkisins árið 2005.
Af þeim eru tæp 1.162 milljónir króna laun sem eru ígildi arðgreiðslu samkvæmt samningi um eignir kirkjunnar sem hafa verið afhentar ríkinu. Fram á síðustu öld stóður eignir og tíundir undir öllu starfi kirkjunnar í landinu. Árið 1907 tók ríkið að sér umsjón kirkjujarðanna og skuldbatt sig í staðinn til að greiða laun presta. Þetta samkomulag var staðfest með lögum árið 1997. Samkvæmt lögunum og samkomulagi tengdum þeim greiðir ríkið laun 139 presta, biskupa og átján starfsmanna kirkjunnar.
Það sem útaf stendur þá eru greiðslur til ákveðinna sjóða kirkjunnar samkvæmt lögum og sérstakar fjárveitingar til einstakra verkefna samkvæmt ákvörðun Alþingis.
Saga sjóðanna og hlutverk er mismunandi en þeim er ætlað að inna af hendi lögbundin og skilgreind verkefni og skyldur vegna stöðu Þjóðkirkjunnar og hlutverks. Þetta eru samtals 512 milljónir árið 2005. Þar vegur þyngst Jöfnunarsjóður sókna sem hefur meðal annars skyldum að gegna við viðhald og endurbyggingu yfir 200 friðaðra kirkna. Einnig kosta sjóðir kirkjunnar margvíslega sérþjónustu, fræðslu og menningar- og hjálparstarf.
Rúmlega 50 milljónir eru svo sérframlög á fjárlögum ákveðin af Alþingi vegna sérstakra verkefna, svo sem uppbyggingar í Skálholti og á Hólum, áfengis- og vímuvarnastarfs.
Engin stofnun á Íslandi getur sýnt fram á annað eins samhengi í þjóðarsögunni og Þjóðkirkjan. Þéttriðið net sókna um land allt tryggir að þjónusta hennar nái til landsmanna allra, óháð búsetu, aldri og efnahag. Þjóðkirkjan hefur með höndum margskonar félagslega þjónustu, kærleiksþjónustu safnaða og neyðaraðstoð innanlands og þróunar og neyðarhjálp á alþjóðavettvangi um farveg Hjálparstarfs kirkjunnar. Prestar og djáknar í sóknum og á stofnunum veita fólki stuðning, ráðgjöf og sálgæslu auk leiðsagnar í andlegum efnum. Stuðningur við fólk í hjúskaparerfiðleikum er umtalsverður þáttur í starfi presta og með Fjölskylduþjónustu kirkjunnar er veitt þjónusta til stuðnings fjölskyldum, óháð trúfélagi. Þjóðkirkjan vill stuðla að góðum samskiptum við aðrar kristnar kirkjur og trúarsamfélög í landinu og vinna að skilningi og virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum sem festa rætur hér á landi.
Þjóðkirkjan hefur ávallt viljað stuðla að trúfrelsi og virðingu fyrir ólíkum skoðunum og trú og vill vinna að auknu jafnræði varðandi stöðu trúfélaga. Kirkjuþing 2005 ályktaði um stöðu annarra trúfélaga og taldi rétt að söfnuðir nytu jafnræðis. Kirkjuráð, sem er framkvæmdastjórn Þjóðkirkjunnar, hefur samþykkt ályktun til stjórnvalda um þetta mál.
Það er ljóst að Þjóðkirkjan nýtur sérstöðu í íslensku þjóðfélagi. Að hluta til er það vegna sögu hennar og stöðu og einnig skapar stærð hennar sérstöðu. En því fylgja líka skyldur og ábyrgð, langt umfram þær kröfur sem gerðar eru til annarra trúfélaga.
Þegar rætt er um sérstöðu Þjókirkjunnar er afar mikilvægt að byggt á réttum upplýsingum og að tillit sé tekið til hlutverks hennar og ábyrgðar.