Ólíkir hirðar

Ólíkir hirðar

Hugmyndin um hinn góða hirði er sígild. Hún birtist okkur í elsta sálmi Norðurlanda - þar sem skáldið ávarpar Guð sinn sem konung og talar frá hjartanu þaðan sem hann leitar hjálpar himnasmiðsins.

Hirðar eru til umfjöllunar í guðspjalli dagsins og eðli málsins samkvæmt, hjörðin sjálf. Líkingin af hirði sem leiðir sauðina áfram er sígild innan Biblíunnar. Hún er yrkisefni hins kunna 23. Davíðssálms sem hér var lesinn. Leitun er að texta sem er jafn kunnur og þessi hér. Yfirlýsing er gefin þegar í upphafi sálmsins um að þann sem eigi sér góðan hirði muni ekkert bresta. En eins og annað, þarf slíkt túlkunar við. Hvað merkir það að mann muni ekkert bresta? Vart er það svo að skáldið líti svo á að með Drottin í hirðishlutverkinu fari ekkert úrskeiðis í lífinu - sorgin þekkist ekki og bölið snerti þar ekki á. Sú er auðvitað fjarri því raunin.

Kjörlendi hirðis Þegar lengra er lesið í sálminum kemur og fram að í lífi skáldsins eru ógnanir, sorg og óvinir. Annað væri það nú líka. Hin sanna farsæld sem hann lýsir svo, byggist á þeirri afstöðu sem hann hefur og því trausti sem hann ber til Drottins. Boðskapur hins þekkta sálms er á þá leið að hverri manneskju er nauðsynlegt að eiga sér hirði, einhvern eða eitthvað það sem leiðir hana áfram, fyllir líf hennar tilgangi og gerir það þess virði að því sé lifað, svo vitnað sé í orð heimspekinganna.

Textinn er líklega sá sem mest er þekktur innan Biblíunnar, endurtekinn í kirkjugörðum, í tónlist, í bókmenntum, leikritum og kvikmyndum. Vinsældirnar eru ósviknar enda er sálmurinn raunsær að því leyti að hann fjallar um mótlæti lífsins. Hann talar um dalinn dimma og fjendurna sem við þurfum að takast á við og mæta. Já, mig mun ekkert bresta - en þarna er nú samt mótlætið og sorgin. Þau mæta þeim sem trúir rétt eins og öðrum. Það er í raun umhugsunarefni af hverju svo mikið er gert úr þeim þáttum í þeim sálmi sem fjallar um hirðinn góða. Er ekki raunin sú að leitun er að betri jarðvegi fyrir hirða og leiðtoga en einmitt þar sem við göngum um dimma dali og stöndum frammi fyrir andstæðingum? Er það ekki mitt í hinum dimma dal þar sem við þurfum að sönnu leiðsögn?

Í umhverfi sem einkennist af öryggi og velferð, er ólíklegt að leiðtogar rísi upp og beini sjónum fólks að ákveðnum markmiðum. Nei, kjörlendi þeirra og kjörtími er einmitt þegar myrkrið sækir að. Það kann líka að vera á tímum óvissu og þegar fólk og samfélag þess stendur á krossgötum.

Nú í síðustu viku var safnaðarheimili Neskirkju undirlagt af fólki sem vann að því hörðum höndum að vinna einum frambjóðanda til rektors Háskóla Íslands brautargengi. Af kappseminni að dæma má draga þær ályktanir að samfélag eins og háskólann þurfi öflugan leiðtoga. Hagur þeirra sem þar starfa og nema, er einmitt sá að hafa öflugan hirði. Skýringarnar liggja ekki eingöngu í þeim tækifærum sem bíða, heldur ekki síður í þeim hættum sem að steðja og þeim erfiðleikum sem mæta. Einmitt þá verður þörfin eftir öflugum leiðtoga hvað sterkust.

Hugarþel hirðis Og þegar við hugleiðum hvað það er, sem einkennir góðan hirði þá hugleiðum við vissulega hæfileikana og alla þá mannkosti sem þeir einstaklingar þurfa að hafa til að bera. Í raun er það þó ekki að endingu, það sem skiptir sköpum. Enn miklvægara er einmitt að skoða hvernig þeir hugsa, hvað það er sem varðar þá mestu, hversu annt þeim er um það samfélag sem þeir leiða, hvers eðlis sem það kann að vera.

Sannarlega eru hirðarnir ólíkir og ekki taka allir þeirri áskorun með sama hætti. Sjálfsagt þekkjum við flest, dæmi um fólk sem er í hirðishlutverki en lætur sér í léttu rúmi liggja sinn eigin hag og hag hópsins sem þeir eiga að leiða. Leiðtogum er hætt við því að brenna út, missa neistann, hverfa niður í tóm athafna- og aðgerðarleysis og allt drabbast niður í kringum þá. Stjórnleysi ríkir og upp úr þeim jarðvegi vex ýmislegt misjafnt þar sem jafnvel ofbeldi þrífst og ójöfnuður.

Eins geymir sagan mörg dæmi um hirða sem báru enga ást til samfélagsins og höfðu óseðjandi þorsta til þess að stjórna og láta menn kenna á valdi sínu. Slíkir hirðar hafa litið svo á að hlutverk þeirra sem þeir leiða sé væri að þjóna sér. Einræðisherrar koma upp í hugann, þeir sem teyma hjörðina út í ógöngur og skapa þjáningu og þrautir.

Svo ættum við að kannast við þá sem ala að sönnu önn fyrir samfélaginu sem þeir leiða, en setja því skýr mörk, leyfa engum að vaxa lengra og hærra en nemur hæð þeirra sjálfra. Hinir föðurlegu leiðtogar eru víða og við þekkjum þá af því að í kringum þá ríkir röð og regla en um leið og fólkið sem þeir leiða áfram, vill sjálft láta til sín taka og komast til forystu, bregðast þeir ókvæða við og hindra vöxt þess og framgang. Eigingirnin, er þar yfirsterkari umhyggjunni fyrir fólkinu.

Ærlegur hirðir vinnur með þeim hætti að allir njóta með. Sá sem kann að leiða samfélagið áfram, með hag þess að leiðarljósi er hinn ákjósanlegi hirðir. Sannarlega er það ekki sjálfgefið að unnið sé eftir þeim aðferðum. Gildir einu hvert það samfélag er sem sá eða sú í hirðishlutverkinu á að sinna. Getur verið hópur launaðra starfsmanna, sjálfboðaliða, jafnvel fjölskylda eða annar hópur. Hugarþel leiðtogans skiptir sköpum um það hvernig til tekst og hvernir þau vaxa, þroskast og eflast sjálf sem í hópnum eru.

Kristur, lýsir sjálfum sér sem góðum hirði og aftur kunna myndir að kvikna í huganum. Einhverjum detta í hug fréttamyndir hér um árið, af frostbörðum björgunarsveitarmönnum sem óðu skafla og ófærð til að bjarga kindum sem hafði fennt í kaf í ægilegu veðri sem skall á fyrirvaralítið í fyrrahaust. Ef Jesús væri uppi á okkar dögum í okkar samfélagi, væri reyndar líklegra að hann tæki líkingu við björgunarsveitir fremur en fjárhirða. Ekkert kallar fram sterkari myndir af skilyrðislausum kærleika, ósérhlífni og auðvitað hjálpræði en þessir sjálfboðaliðar sem bjóða hverri hættu byrginn til að bjarga þeim sem lenda í ófærum.

Samlíkingin við hirðinn er þar að auki svolítið sérstök, og já, þessar aðgerðir hér um árið voru það líka, því féð fór jú beina leið úr sjálfheldunni í skaflinum - í sláturhúsið. Er það ekki tilgangurinn með að halda búsmala, húsdýr - við nýtum afurðirnar og sumar eru þess eðlis að dýrið getur ekki haldið lífi, ef eigendur þess eiga að fá að nýta afraksturinn. Það er auðvitað eðli allrar búfjárræktar og tilgangur hennar og því var lífsbjörg sauðanna skammvinn. Verra er það þegar vondur hirðir leiðir fólkið til slátrunar?

Þar kemur aftur fram hugarþelið sem skiptir að endingu sköpum um það hvers eðlis leiðtoginn er. Er munur á þessum hirði og hinum hefðbundnu sem gæta hjarðarinnar í mjög ákveðnum tilgangi og ef enginn markaður væri fyrir kjötið þá væri öll umhyggjan tilgangslítil.

Já, þetta er myndlíking, dregin upp vegna þess að þegar almættið er annars vegar þurfum við að leita á svið sem við þekkjum og eigum orð yfir. Þegar Jesús lýsir sínu hirðishlutverki þá rekur hann ekki hæfileika sína og kosti. Hann talar um afstöðuna og þar kemur fram hvað það er sem mestu skiptir í huga þess sem leiðir samfélagið áfram. Lykilorðið í því sambandi er sjálfur kærleikurinn, það sem guðspjöllin setja í öndvegi í samskiptum mannsins við Guð og gagnvart umgengninni hvert við annað. “Elskar þú mig?” spyr Jesús og við sjáum hvað það er sem mestu varðar í hlutverki hirðisins.

Kristið hirðishlutverk Jú, hið kristna hirðishlutverk grundvallast á þessum þætti. Þar setur leiðtoginn sjálfan sig skör neðar því samfélagi sem hann leiðir. Hann er í hlutverki þjónsins og leggur jafnvel líf sitt í sölurnar fyrir fólkið, eins og Kristur lýsir hlutverki sínu og átti svo eftir að koma í ljós. Hinn góði hirðir birtir okkur mynd af leiðtoga sem lítur svo á að hann eigi að vinna að framgangi þeirra sem með honum standa. Þegar einstaklingar vaxa honum upp yfir höfuð, er það ekki ógn, ekki til marks um að forystan hafði brugðist - heldur þvert á móti - staðfesting á því að hirðirinn hefur unnið sitt verk. Markmiðið er móta sjálfstæða einstaklinga, farsæla, heilbrigða, gagnrýna og sjálfa líklega til þess að verða góðir hirðar yfir þeim hópi sem þeir leiða.

Kristur felur Símoni Pétri að leiða hjörð sína og þar spyr hann lykilspurningarinnar - hvort hann byggir forystu sína á kærleikanum eða hvort það eru aðrir þættir sem hafa þar áhrif. Elskar þú mig, spyr hann og svo þýðingarmikil er spurningin að hann endurtekur hana. Og svo sígild er spurningin að hún opinberar okkur eðli þeirra þeirrar forystu sem er við lýði á hverjum tíma. Hvar slær hjarta leiðtogans? Enn spyrjum við okkur þeirrar spurningar. Setur hann sjálfan sig í öndvegi, er það hégóminn sem ræður, valdafíknin, bónusarnir? Við finnum hversu illa fer fyrir því samfélagi sem á sér slíkan hirði.

Félagsfræðingurinn Max Weber talar í þessum anda um þær forsendur sem valdið byggir á. Er það hefðin, lýðhyllin eða byggja þær á lögmætum yfirráðum þar sem höfðað er til sameiginlegra hagsmuna allra hirðis og hjarðar? Aftur er það afstaðan sem skilur á milli feigs og ófeigs. Og góðir hirðar geta unnið með ólíkum hætti, þeir eiga það sammerkt að rödd þeirra verður áhrifameiri þegar umhverfið er erfitt og háskalegt. Nú á dögunum kvöddum við einn slíkan, þýski rithöfundinn Gunther Grass. Af því tilefni höfum við rifjað upp störf hans í þágu betra samfélgs í Þýskalandi eftirstríðsáranna. Þorum að ástunda lýðræði - sagði hann og við skynjum áhrifamátt þeirra orða.

Hugmyndin um hinn góða hirði er sígild. Hún birtist okkur í elsta sálmi Norðurlanda - þar sem skáldið ávarpar Guð sinn sem konung og talar frá hjartanu þaðan sem hann leitar hjálpar himnasmiðsins.

Drottinn er minn hirðir - orð þessi eru í eyrum hins trúaða eins og hvíslað sé hlýlega í eyru þeirra, huggunarorðum og hvatningu. Í huga hins trúaða er Drottinn sá leiðtogi sem vert er að fylgja. Þar mætum við umhyggjunni, lönguninni til að reisa upp og efla, kærleikanum sem leiðir okkur út úr dimmum dal og býr okkur borð frammi fyrir óvinum okkar. Hinn góði hirðir leiðir ekki hjörðina inn í sláturhúsin. Margir aðrir eiga sér þau markmið. Hinn góði hirðir þjónar hjörðinni, leiðir hana á rétta vegu og það er mikil blessun að ganga í gegnum lífið með slíka leiðsögn.