Var þörf á nýrri biblíuþýðingu?

Var þörf á nýrri biblíuþýðingu?

Nú þegar lokið er nýrri þýðingu Biblíunnar allrar heyrist enn spurt hvort þörf hafi verið á nýrri þýðingu? Þannig var spurt þegar lagt upp í það þýðingarstarf sem nú hefur staðið í meira en hálfan annan áratug.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur A. Jónsson
10. febrúar 2007

Nú þegar lokið er nýrri þýðingu Biblíunnar allrar heyrist enn spurt hvort þörf hafi verið á nýrri þýðingu? Þannig var spurt þegar lagt upp í það þýðingarstarf sem nú hefur staðið í meira en hálfan annan áratug.Í grein sem ég skrifaði í Ritröð Guðfræðistofnunar árið 1990, um það leyti sem þýðingarstarfið var að hefjast, kom ég lítillega að þessari spurningu.

Sem svar við henni nefndi ég í fyrsta lagi að miklar breytingar á þýðingaraðferðum hefðu átt sér stað á undanförnum árum. Vísaði ég þar til þýðingaaðferða Eugene A. Nida sem sýndu hversu ófullnægjandi væri að þýða "orð með orði" en sú var yfirlýst stefna þeirra sem stóðu á þýðingunni 1908/12.

Í öðru lagi benti ég á að biblíuþýðing verði aldrei stunduð án ritskýringar. Nýr skilningur ritskýringarinnar kalli því gjarnan á nýja þýðingu. Í því sambandi nefndi ég líka að fornleifafundir frá þeim tíma sem liðinn var frá síðustu þýðingu hefðu leitt til þess að meira væri nú vitað um þann menningarheim sem Biblían er sprottin upp úr en nokkru sinni fyrr. Hvað Gamla testamentið snertir þá höfðu á tímabilinu meira að segja fundist textar við Dauða hafið (1947 og næstu ár) sem voru mörgum öldum eldri en þeir textar sem áður höfðu verið tiltækir. Dauðahafshandrit einstakra bóka Gamla testamentisins hafa oft að geyma texta sem eru að ýmsu leyti frábugðnir þeim textum sem áður voru kunnir. Til þessara nýju textavitnisburða þurfti að taka afstöðu.

Í þriðja lagi nefndi ég það sem flestir nefna raunar fyrst, þ.e. að íslenskt málfar hafi tekið breytingum á þeirri tæpu öld sem þá var liðin frá því að síðast var ráðist í nýja þýðingu Gamla testamentisins (1897). Biblían þarf að geta talað til hverrar kynslóðar. Um þetta atriði má hafa langt mál en flestir eru væntanlega sammála um það sem dr. Guðrún Kvaran, formaður þýðingarnefndar Gamla testamentisins, hefur orðað svo að biblíutextinn þurfi "ætíð að vera fyrirmynd annarra texta að orðfæri og vönduðum frágangi" og að þörf muni vera nýrra þýðinga á Biblíunni "á meðan bók verður lesin á þessu landi".

Nú þegar þýðingarstarfinu er lokið má halda því fram að íslenskt málfar hafi á þýðingartímanum jafnvel verið í meiri deiglu en flest okkar hafi séð fyrir í upphafi starfsins. Þegar talsvert var liðið á starfið komu fram óskir um að aukið tillit væri tekið til þess sem nefnt var "málfar beggja kynja". Það hefur orðið til þess að hvorugkyn kemur nú í stað karlkyns þar sem því verður við komið, eins og það er orðað í frétt Morgunblaðsins í dag. Er þar einkum vísað til texta sem hafi að geyma orð um eða til mannfjölda sem hafi samanstaðið af bæði körlum og konum þó að frumtextinn hafi aðeins notað karlkyn.

Þá er rétt að nefna þá ákvörðun að hafa hinar apókrýfu bækur með í hinni nýju útgáfu og sú ákvörðun ein og sér kallaði á samræmingu þýðinganna sem voru frá mismunandi tímum. Voru hinar apókrýfu líka þýddar að nýju.

Herra Karl Sigurbjörnsson biskup hefur á þessum tímamótum réttilega sagt að "margt bendir til þess að bilið breikki heldur milli talmáls og ritaðs máls um þessar mundir." Það breytir því ekki að full ástæða er til að ætla að íslenskar biblíuþýðingar muni halda áfram að hafa áhrif á og móta íslenskt málfar á komandi tímum.

Saga biblíuþýðinganna er hluti af menningarsögu hverrar þjóðar. Fyrir málsögu Íslands er til dæmis mjög forvitnilegt að bera saman Steinsbiblíu (1728) og Viðeyjarbiblíu (1841). Báðar eru þær til marks um að þýðingarnar endurspegla tungutak líðandi stundar og þau viðhorf sem helst voru þá uppi. Þannig er Steinsbiblía mjög dönskuskotin en Viðeyjarbiblía ber hins vegar sterk merki um þá málrækt og málhreinsun sem þá var mjög á dagskrá, ekki síst meðal þeirra sem að þýðingunni stóðu.

Kristin kirkja lítur á Biblíuna sem Guðs orð og mun ætíð leitast við að klæða það orð í þann búning sem því sæmir. Aldrei verður um endanlega þýðingu að ræða og vafalaust verður hin nýja þýðing umdeild eins og flestar hinna eldri þýðinga hafa orðið.