Eilíf siðbót, byggð á orði Guðs

Eilíf siðbót, byggð á orði Guðs

Þessa dagana er ég reið. Mig langar svo að ekki bara heimta, heldur fá, sjóð, einskonar ofanflóðasjóð eða vanlukkutryggingar, viðlagasjóð, til að borga fyrir skaðann sem varð af óvissunni sem hrunið olli.
fullname - andlitsmynd Yrsa Þórðardóttir
21. febrúar 2010
Flokkar

Freistingin

„Þá leiddi andinn Jesúm út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans.“ Þannig er sagt frá því þegar Jesús hélt á fund freistinganna, það er þegar hann horfðist í augu við afleiðingar gerða sinna og þessa heims, sköpunarinnar, þessa slóttuga höggorms sem lýst var svo fjálglega og í löngu máli í upphafi þessarar messu.

Reyndar vorum við þá búin að gleðjast yfir því undri að lítið barn er fætt og skírt, svo að sorg föstunnar missti svolítið marks. En engu að síður er fastan að hefjast og við megum alveg við því að staðnæmast ögn í fótsporum meistarans. Hvað var andinn að leiða Jesúm út í óbyggð til að djöfullinn gæti freistað hans? Jesús hefur átt einhverju ólokið, hann varð að gera upp við sig hvaða ljón voru í veginum, hvað var í húfi, hver hans afstaða var. Var hann hinn nýi Adam sem átti að merja höfuð höggormsins og vinna fullan sigur á lyginni, dauðanum og syndinni ? Eða vildi hann kannski frekar vera óáreittur ? Kannski bara vera þjónað af englum ? Eða kannski frekar lúta djöflinum og eignast öll ríki heims ?

Við getum rétt ímyndað okkur að eftir fjörutíu daga og fjörutíu nætur án matar eða drykkjar, hafi Jesús verið orðinn svangur og einmana og frekar svona af honum dregið og þá réðust að honum alls kyns hugsanir. Auðvitað gat hann stytt sér leið og galdrað brauð úr steinum og verið ekkert að fást um náttúrulögmál og rök, mannleg kjör og vanda þessa heims. Ef hann nú var sá sem hann grunaði, sonur skapara þessa heims, sjálfur Guð á jörðu, gat hann svosem bara látið gossa og ráðið ríkjum og hætt að hlýðnast hjálpræðissögunni og biblíunni, þeirri sem við nú köllum gamla testamentið. Nei, hann sagði : maðurinn lifir ekki af brauðinu einu saman heldur af hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.

Þetta minnir svolítið á það sem Jesús sagði um hreina og óhreina fæðu, það er ekki það sem við látum ofaní okkur sem skiptir máli, heldur það sem sprettur fram úr huga okkar og hjarta og af munni okkar. Með vörum sínum játaði Jesús þarna trú á orðið sjálft, á Guð skapara og á sjálfan sig, orðið sem varð hold. Til að svara freistingunni : ef þú ert sonur Guðs.

Hvað átti djöfullinn svo sem með að skilgreina hvað það er að vera sonur Guðs ? En hann réðst beint á Jesúm aftur : ef þú ert sonur Guðs, kastaðu þér þá niður af brún musterisins og sýndu okkur að þú dettur ekki niður og deyrð, heldur ert yfir þetta allt hafinn og getur flogið og gert alls kyns kúnstir. Jesús vitnaði í ritningarnar : þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns. Með öðrum orðum : djöfull, þú ert að tala við sjálfan Guð, láttu þig hverfa, láttu mig í friði, þú ræður ekki yfir mér.

Sömu sögu var að segja með alla dýrð jarðar sem djöfullinn bauð að selja í hendur Jesú ef hann lyti sér í lotning, Vík burt, Satan, ritað er : Drottin Guð þinn skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum. Þá fór djöfullinn frá Jesú og englar komu og þjónuðu honum.

Orð Guðs

Ég valdi okkur að syngja eitt einasta siðbótarvers eftir Martein Lúther að lokinni þessari prédikun : þitt orð er Guð vort erfðafé, þann arf vér bestan fengum. Oss liðnum veit til lofs það sé, að ljós við þess við gengum. Það hreystir hug í neyð, það huggar sál í deyð, lát börn vor eftir oss það erfa, blessað hnoss, ó gef það glatist engum.

Þetta er arfur siðbótarinnar, að tönnlast á því síknt og heilagt : ritað stendur, já en orðið segir, Biblían er undirstaðan, við víkjum ekki frá boðskap orðsins, því að Jesús var orðið sem varð hold. Fyrst orðið var Jesú þetta haldreipi í óbyggðum, þegar hann var á bersvæði, berskjaldaður og óvarinn, þá erum við að sama skapi umvafin vernd orðsins í hverju því sem að höndum ber.

En mikil ósköp, okkur er boðið gull og grænir skógar ef við bara hættum að trúa þessu. Æ, látið ekki svona, treystið raunvísindum, gangið úr kirkjunni, hættið að byggja kirkjur og borga prestum laun, gerist veraldleg og upplýst, þetta hrópar fólk sem gengur um framhaldsskóla á milli og safnar eyðublöðum með undirskriftum til að fá ungmenni þessa lands til að ganga úr kirkjunni.

Auðvitað höfum við ekkert með ríkiskirkju að gera sem viðheldur kerfi þar sem styttur og líkneski eru tilbeðin og hefðin ríkir, gamlar kreddur, aflátssala, hræðsluáróður um vítiskvalir og hreinsunareld. En frjáls félagasamtök sem rekin eru án gróðavonar, heldur bjóða fram þjónustu nótt sem nýtan dag, endurgjaldslaust, af fólki með margra ára guðfræðimenntun, það er nokkuð sem við Íslendingar höfum gert kröfu um og haldið okkur við um aldir. Hvers vegna ? Jú, það bara hreinlega borgar sig að athuga okkar erfðafé, í yfirfærðri merkingu. Þitt orð er Guð vort erfðafé. Sá arfur er það sem við ætlum að varðveita handa okkur núna og komandi kynslóðum.

Sálgæsla og fyrirbæn

Þessa dagana er ég reið. Mig langar svo að ekki bara heimta, heldur fá, sjóð, einskonar ofanflóðasjóð eða vanlukkutryggingar, viðlagasjóð, til að borga fyrir skaðann sem varð af óvissunni sem hrunið olli. Græðgi og miskunnarleysi drengja á öllum aldri, sem fóru illa með almannafé og urðu freistingunni að bráð og skelltu skollaeyrum við orði Guðs, þessi græðgi er að skila sér í áhyggjum, kvíða, ótta við atvinnumissi og síðast en ekki síst, er að ganga af hverju hjónabandi á fætur öðru dauðu. Við fáum fólk til okkar í sálgæslu þessa dagana sem bara getur ekki meira. Og lái því hver sem vill. Ég hitti vin minn um daginn sem biður fyrir fólki sem leitar fyrirbæna eftir samkomu í söfnuðinum hans. Við vorum að ræða bænina, við ræddum það hvort ég bið fyrir fólki á sálgreiningarstofunni minni, í sálgæslutímum eða í messu. Svarið er nefnilega það í mínu tilfelli að ég bið fyrir öllum en fólk veit ekki endilega af því, því að ég segi ekki frá því. Fyrr má nú vera tillitssemin hjá mér, að fara með það eins og mannsmorð að ég bið og bið. Í hans tilfelli kemur fólk fram í samkomulok, af því að það er vaninn, og biður um fyrirbæn og býst við því að Guð grípi inn í. Og eins og við vitum, svarar Guð. Af hverju gerum við þetta ekki hér ? Kannski í mánaðarlegu kvöldsamkomunum, við gítarslátt í bænastund, þá bjóðum við fram til fyrirbænar og sýnum að við kunnum þetta alveg, þetta á alveg við, ekkert mál. En, Gud bevare os, ekki í messu klukkan ellefu. Ég get vottað það að við öll þrjú, prestarnir ykkar, trúum því að Guð gerir kraftaverk fyrir tilstilli bænarinnar og orðsins, sem fram gengur af Guðs munni. Við gerum engin kraftaverk sjálf, en við erum eins og ljósmæður, við erum viðstödd fæðingu breytinganna, við getum auðveldað flæðið, við getum hjálpað fólki að þora út á sitt bersvæði til að takast á við sínar efasemdir og freistingar. Af því að við erum ekki í framboði, við erum ekki í vinsældakapphlaupi, við erum bara að vinna vinnuna okkar og hún er, að þjóna Guði, veita brauð og orð, tilbiðja Guð og þjóna honum einum. Það er nokkuð sem þessi söfnuður þarf að halda áfram að móta. Hvernig er raunhæft að sinna því daglega að virða hvert orð sem framgengur af munni Guðs ? Hvernig eigum við að ávaxta okkar pund, erfðaféð sem er orð Guðs ? Með iðkun mannréttinda, réttlætis, með því að virða lög hvort sem sést til okkar eða ekki, með því að sjá til þess að ekkjan og munaðarleysinginn, ellihrumir, deyjandi, sjúkir, heilbrigðir og börn fái það sem til þarf til að lifa, þroskast, gleðjast og losna við kvíða og ónot. Ég ólst upp við samkomur þar sem fólk stóð með gítar uppi á palli og söng um ferð sína til himins. Við vorum öll á sömu leið, með í þeim skara sem fagnandi fer í hin sælu og dýrlegu lönd. Þegar svo mamma tók upp á því að skipta út hjálpræðishersbúningnum fyrir hempu, fylgdi ég með en finn einhvern veginn ekki sömu söngvana í sálmabókinni, þótt ágæt sé. En fólk er svo misjafnt, það þrá ekki allir það sama og ég. Verkefnið er samt það sama, að tryggja það að litla stúlkan sem ég skírði hér áðan, hún Elínbjörg Anna, fái að lifa í réttlátu ríki, þar sem lög eru virt, þar sem hún er frjáls að því að trúa því sem hún vill, hafa hvaða skoðun sem er á hverju sem er, halda henni á lofti, berjast fyrir henni í ræðu og riti án þess að verða fyrir ofsóknum, atvinnumissi eða öðrum árásum. Ef við ætlum að ná því held ég að við þurfum að arka út í okkar óbyggð og hugsa þessa hugsun til enda : vænti ég þess þegar ég kem til Guðs, að orðið snerti við mér og breyti einhverju? Getur Guð gert eitthvað í mínu lífi ? Þjóna ég Guði einum? Mótum saman stefnuna Segðu svo okkur Magnúsi, Gunnari og mér hugrenningar þínar næstu vikurnar. Við erum reiðubúin til þess að ræða við þig um hvað við öll viljum gera svo að kirkjan svari þinni trúarþörf, því að ef okkur er alvara, þarf siðbót, eilífa byltingu, eins og þá sem Jesús hratt af stað endur fyrir löngu með því að þora að horfast í augu við sín hinstu rök.