Ég rakst á hugmynd um að gefa gjöf á hverjum degi í mánuð. Sá sem tæki áskoruninni gerði það fyrir sig og aðra, því sýnt hefur verið fram á að það að gefa öðrum er skemmtilegra en að gefa sjálfum sér. Í þessu lesefni sem ég sá var sagt frá tilraun með háskólanemum. Fenginn var dágóður hópur og honum skipt í tvennt. Hver og einn fékk fjárhæð að gjöf. Annar hópurinn átti að verja fénu í eitthvað handa sjálfum sér en hinn átti að nota peningana til að splæsa á aðra. Þar sannreyndist hið fornkveðna, að sælla var að gefa en þiggja.
En það er síður en svo leiðinlegt að þiggja. Svo þetta með að gefa eina gjöf á dag myndi vera „double happiness“ eins og Kínverjarnir leggja svo mikið upp úr. Gjafirnar geta verið þær að skilja eftir pocket-bók á bekk með skilaboðum til næsta manns um að taka hana með sér heim og njóta lestrarins. Það gæti verið að taka með sér bækling til einhvers sem þú veist að vantar upplýsingar. Eða skella hundraðkalli í stöðumæli þegar vörðurinn nálgast – verða „bjargvætturinn í malbikinu“. Þetta þarf s.s. ekki að kosta mikið en þú ferð að hugsa öðruvísi. Þú hugsar um aðra, þú hugsar um eitthvað gott, og um leið ertu búinn að taka upp heilmikið pláss í huganum sem annars hefði getað rúmað víl.
Það sem mér finnst skemmtilegur vinkill á þessu, akkúrat núna, er að hafa möguleika á að gefa eitthvað gamalt eða eitthvað notað þegar minna er um aurinn í samfélaginu. Ég held – og vona að nú sé kominn nýr tíðarandi. Nú sé hægt að gleðjast á einfaldari hátt. Ekki bara yfir því dýra, einstaka og sjaldgæfa (sem verður áfram hægt ;) heldur innihaldi eða útliti og huganum að baki. Það stendur allt fyrir sínu þótt einhver annar hafi notið þess á undan manni.
Hvað væri að því að gefa bók í afmælisgjöf sem maður hefði lesið? Hvað væri að því að gefa skál sem maður hefði átt, setja í hana konfekt og gefa hana öðrum? Gefa spil sem aðrir gætu haft jafngaman af og maður sjálfur? Er það óhætt núna? Eða verður spilið minna skemmtilegt af því einhver hefur spilað það áður? Verður skálin ekki eins falleg, af því hún hefur staðið á borðinu hjá mér? – Jú, jú, ég veit það. Þarna kemur skipti-elementið inn – sterkt. Það fer alveg fyrir bí þegar gefið er gamalt. En hvað er málið með gjafir? Eiga þær að vera viðbót við buddu viðkomandi þannig að hann geti fengið sér það sem hann velur sjálfur? Væri þá ekki einfaldast að fá bara reikningsnúmerið?
Er það kjarninn í gjöfinni eða að gefandinn hafi gefið sér tíma til að hugsa til viðkomandi, setja sig í hans spor og ímynda sér hvernig hægt væri að gleðja hann – og þiggjandans að njóta þess að hugsað var til hans, hann var settur í forgrunn hjá einhverjum sem mat hann þess að vilja gefa gjöf? Ég er sjálf forhertur skiptari. Og hef fyrir vikið velt þessum málum töluvert fyrir mér.
Mín tillaga er að hafa gjafahugtakið vítt og sveigjanlegt. Gefa oftar, notað og nýtt, og njóta betur umhugsunarinnar um hverja gjöf. Þá virkar gjöfin á báða vegu, hún verkar á gefandann og þann sem fær gjöfina. Hugurinn verður aðalatriði og hluturinn verður bónus. Ef okkur líkar hann, notum við hann, ef ekki, gefum við hann áfram. Því það er áreiðanlegt að ef gefandinn var ánægður með gjöfina sína, hlýtur einhver að verða ánægður með að fá hana.
Þannig fáum við bara óteljandi tækifæri til að gleðja fleiri og fleiri þegar gjöfin fer frá einum til annars. Er þetta brilliant eða er þetta brilliant? Svona geta allir gefið, ríkir og fátækir. Og maður væri alltaf að fá pakka!