Við erum kölluð

Við erum kölluð

Við erum öll kölluð. Annars værum við ekki hér. Köllun okkar er heilög köllun, köllun til himinsins og á að birtast í lífi okkar öllu. Hún er grunntónn lífs okkar, fremri allri köllun til starfa, sem þó er raunveruleg og mikilvæg.

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum. Ef 4.1-6

Kæri árdegissöfnuður. Skilaboðin til okkar í dag eru þau að við eigum að hegða okkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem við höfum hlotið. Köllun okkar, hin andlega staða okkar, á að hafa áhrif á hegðun okkar. Líklega finnst okkur flestum þetta liggja í augum uppi, en ekki er vanþörf á að minna á augljósar staðreyndir svo þær gleymist ekki í annríki daganna.

Við erum kölluð Kannski erum við feimin að tala um köllun. Köllun er stutt orð yfir stóran veruleika. Ef til vill finnst okkur það tilheyra kristniboðum og prestum og öðrum þeim sem sinna sérstakri þjónustu í guðsríkinu. Við prestar erum kallaðir til starfa, söfnuðirnn kallar okkur og vegna þeirrar köllunar erum við vígð til þjónustunnar. Á undan þeirri köllun kemur köllun frá Guði, köllun til að þjóna og breiða út ríki hans sem prestur eða kristniboði eða djákni.

En á undan þeirri köllun er sú köllun sem okkur öllum, kristnu fólki, er sameiginleg, köllunin að vera Guðs barn og bera honum vitni í lífi okkar öllu. Sú köllun hlýtur að vera grunnur hinnar sérstöku köllunar til starfa, sem kemur fram á ólíkan hátt hjá hverjum og einum.

Við erum kölluð til að vera Guðs börn Þú ert kölluð, þú ert kallaður til að vera Guðs barn. Það er ekki að þínu frumkvæði, þú fannst ekki upp á þessu sjálf/sjálfur. Þetta er ekki staða sem þú tekur þér. Köllunin er staða sem þú þiggur. Kannski varstu leitandi, fórst á stúfana, fórst að sækja kirkju, opnaðir eyru þín fyrir kalli Guðs á margvíslega vegu.

En það er alltaf Guð sem kallar. Frumkvæðið og krafturinn er Guðs, eins og segir framar í Efesusbréfinu (2.8): því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Sama hugsun er einnig 2Tím 1.9: Hann hefur frelsað okkur og kallað heilagri köllun, ekki vegna verka okkar heldur eftir eigin ákvörðun og náð sem okkur var gefin frá eilífum tímum í Kristi Jesú.

Við erum kölluð til að líkjast Jesú Kristi Okkar er að þiggja og kosta kapps um að gera köllun okkar og útvalning vissa (2Pét 1.10), sem er einmitt það sem pistillinn okkar í dag fjallar um. Köllun okkar er að hafa Jesú Krist að fyrirmynd, jafnvel þegar við líðum illt þó við höfum gert rétt (sjá 1Pét 2.21). Við höfum fengið köllun til himinsins og eigum samkvæmt henni að horfa til Jesú, postula og æðsta prests trúar okkar, eins og segir í Hebreabréfinu (3.1).

Sú fyrirmynd sem Jesús Kristur gefur okkur er einmitt lýst í Filippíbréfinu með svipuðum orðum og hér í Efesus 4.2:

Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. 5Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. (Fil 2.1-5)

Og svo er því lýst hvernig Kristur Jesús svipti sig öllu og lægði sjálfan sig (Fil 2.6-8).

Við erum öll kölluð Annars værum við ekki hér. Köllun okkar er heilög köllun, köllun til himinsins og á að birtast í lífi okkar öllu. Hún er grunntónn lífs okkar, fremri allri köllun til starfa, sem þó er raunveruleg og mikilvæg. Lúther leit svo á að köllun næði yfir öll heiðarleg störf, já, líka starfsemi barnsins sem leikur sér. En fremsta köllun lífs okkar hvers og eins er að vera Guðs börn þar sem við erum, hvar sem við erum, að Jesús Kristur sé okkar fyrirmynd hvert andartak, fyrirmynd í lítillæti, hógværð, þolinmæði, langlyndi, umburðarlyndi og elskusemi.

Og síðari hluti pistilsins minnir okkur á að þessi köllun er ein og hin sama fyrir allt mannkyn, köllun til að vera í einum líkama, einum anda, einni von. Því Guð vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum (1Tím 2.4). Okkar sem höfum tekið á móti er að breiða út köllun Guðs með lífi okkar öllu, sem góðilmur Krists, hvar sem við erum, 2Kor 2.14-16:

En Guði séu þakkir sem fer með mig í óslitinni sigurför Krists og lætur mig alls staðar breiða út þekkinguna um sig eins og þekkan ilm. Því að Guði til dýrðar er ég ilmur sem flyt Krist bæði til þeirra sem frelsast og til þeirra sem glatast. Þeim sem glatast er ég banvænn daunn til dauða, hinum lífgandi ilmur til lífs.