Aðventa og jólafasta — auðmýkt og þakklæti

Aðventa og jólafasta — auðmýkt og þakklæti

En aðventan 2008 er öðruvísi! Kreppa og niðurskurður einkenna umræðu og framtíðarhugsun. Það er eins og birta aðventunnar hafi orðið fyrir spennufalli! Það er eins og við séum tekin kverkataki og áminnt um að lífið er ekki aðeins velgengni. Lífsvegurinn er ekki aðeins bein braut upp á við í vellystingar og unaðssemdir.
Stína Gísladóttir
22. desember 2008

Aðventan er yndislegur tími, fullur af undirbúningi, annríki og eftirvæntingu. Aðventa, sem þýðir koma eða tilkoma, kemur með blíða tóna, góða tilfinningu og dýrmætan boðskap um komu Guðs í mannheim í jólabarninu Jesú Kristi. Allt frá bernsku hefur aðventan verið mér eins og bjart vor! Eins og lífið sjálft sé að fæðast! Ljósadýrð, kökuilmur, jólagjafir og hugsun um að gleðja aðra, aðventukrans með kertunum, sem fjölgar hvern sunnudag. Lestur aðventutexta, spádóma um komu frelsarans, aðventusögur og aðventusálmar með uppörvandi boðskap og ljúfum tónum.

Dauðinn hefur oftar en einu sinni knúð dyra í lífi mínu á aðventu og höggvið nærri. Sorg og myrkur dauðans hefur þó ekki náð að kaffæra birtu og eftirvæntingu aðventunnar. Þvert á móti. Við ástvinamissi á aðventu hefur himinninn og dýrð hans komið nær, birtan aukist og horfnir ástvinir einmitt sameinast birtu aðventu og jóla. Þannig hefur dauðinn orðið til þess að mér finnst ég eiga stærri hlut í dýrð himnaríkis!

En aðventan 2008 er öðruvísi!

Kreppa og niðurskurður einkenna umræðu og framtíðarhugsun. Það er eins og birta aðventunnar hafi orðið fyrir spennufalli! Það er eins og við séum tekin kverkataki og áminnt um að lífið er ekki aðeins velgengni. Lífsvegurinn er ekki aðeins bein braut upp á við í vellystingar og unaðssemdir.

Aðventan heitir líka jólafasta. Það minnir átakanlega á nauðsyn aðhalds. Fastan sem undirbúningur stórhátíðar er mikilvæg. Það er yndislegur siður að ganga að jólahlaðborði allsnægtanna! En ..... Nú erum við stöðvuð á þeirri göngu og áminnt! Áminnt um nauðsyn föstunnar. Aðhald og fasta hefur það hlutverk að minna okkur á að gæðin eru ekki sjálfsögð. Í aðhaldi og föstu er fólgin auðmýkt. Og auðmýktin leiðir til þakklætis.

Við undirbúning stórhátíðar og gleðihátíðar, er mikilvægt að gleyma ekki föstunni, aðhaldi, - auðmýkt og þakklæti. Þau orð gera okkur hljóð og fá okkur til að hugsa okkar gang. Þau fá okkur til að líta í eigin barm og finna okkar eigin ábyrgð og skyldur. Allsnægtirnar gera okkur svo undarlega kröfuhörð og frek!

Auðmýktin gerir okkur að betri mönnum. Hún kennir okkur að við erum þiggjendur og að við höfum þegið lífið og lífsgæðin að gjöf. Því ættum við að vera ákafari að þakka.

Boðskapur aðventu og jólaföstu felur í sér mikla gjöf, sem við getum aðeins tekið við í auðmýkt.

Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt. Þú, Herrans kristni, fagna mátt, því kóngur dýrðar kemur hér og kýs að eiga dvöl hjá þér.

Guð sjálfur mætir okkur með gjöfina himnesku, sem gerir stóru gjafirnar smáar og litlu gjafirnar stórar, nægtaborðin lítils virði og brauð fátæklingsins að hátíðarmat. Í návist Jesú umbreytast verðmæti lífsins. Mætti aðventan og jólafastan verða okkur hjálp til að sjá hin eiginlegu verðmæti lífsins, meðtaka þau í auðmýkt og þakklæti, svo líf okkar allt verði okkur sjálfum og samfélagi okkar til hjálpar og Guði til dýrðar.

Ég opna hlið míns hjarta þér, ó, Herra Jesús, bú hjá mér, að fái hjálparhönd þín sterk þar heilagt unnið náðarverk. (Sálmabók nr. 59, v.1 og 7)