Dögun – Ný dögun

Dögun – Ný dögun

Þannig vill til að Ný dögun er ekki nýtt nafn heldur hefur loðað í aldarfjórðung við samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Og þessi samtök ræða ... um þá sammannlegu reynslu sem sorg heitir og missir. Þetta eru samtök fólks sem hefur misst og syrgir og þess fagfólks sem af veikum mætti reynir að styðja syrgjendur á sorgargöngunni.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
29. mars 2012

Það var sagt frá því nýlega að nýtt stjórnmálaafl væri orðið til. Dögun heitir það en einhverjir fjölmiðlungar skröfuðu um nýja Dögun væntanlega í þeim dúr að hér væri nýtt stjórnmálaafl á ferðinni.

Þannig vill til að Ný dögun er ekki nýtt nafn heldur hefur loðað í aldarfjórðung við samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Og þessi samtök ræða aldeilis ekki um pólitík, heldur ekki um trúarpólitík heldur þá sammannlegu reynslu sem sorg heitir og missir. Þetta eru samtök fólks sem hefur misst og syrgir og þess fagfólks sem af veikum mætti  reynir að styðja syrgjendur á sorgargöngunni.

Og þó getum við sagt að jafnvel á þeim vettvangi þar sem syrgjendur og fagfólk sameinast um að styðja aðra í sorginni fylgi líka pólitík. Pólitík fjallar nefnilega um það hvers konar þjóðfélag við byggjum. Pólitík snýst m.a. um það hvort okkur beri sem samfélagi að styðja þau sem orðið hafa fyrir áföllum – eða hvort við skiljum fólk eftir í sárum sínum og göngum fram hjá.

Hér má minna á að pólitíkin þessa daga er mjög upptekin af því að styðja við fólk sem hefur orðið illa úti í hruninu og er það vel. Missir þeirra sem hafa séð á eftir nánum ættingjum eða ástvinum í gröfina ótímabært, jafnvel á snöggu augabragði er langtum meiri en þeirra sem aðeins hafa misst fjármuni. Reynsla þeirra sem hafa misst hvoru tveggja kennir okkur það. Og sorgin bakar þeim sem eftir lifa oft heilsutjóni, jafnvel örorku og atvinnumissi ofan í kaupið. Þar fyrir utan hafa syrgjendur sjaldnast mátt til að berjast fyrir málstað sínum um stuðning – um hjálp okkar hinna við að reisa líf sitt við á nýjan leik.

Ég óska Dögun sem og hverju því stjórnmálaafli sem lætur sér annt um velferð náungans alls hins besta. Um leið minni ég þau sem helga krafta sína pólitíkinni á grunngildi náungakærleiks og umhyggju sem eru kannski mikilvægustu gildin í okkar samfélagi þegar dýpst er skoðað.

Höfundur er prestur og formaður Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð