Þakklætið – móðir allra dyggða

Þakklætið – móðir allra dyggða

Með þakklætinu fer hugurinn að vera vakandi yfir því góða sem við höfum og fáum. Við komum auga á það sem við þegar höfum og njótum þess frekar. Þakklætið gerir okkur opnari fyrir því sem gerist í samskiptum og við berum jákvæðan hug gagnvart þeim sem gera okkur gott.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
19. maí 2008

Þakklátur einstaklingur er sterkur og yfirvegaður, þess vegna er erfitt að gera honum mein. Því þakklátari sem við erum þeim mun meira höfum við til að vera þakklát fyrir. Við höfum lífið að láni. Það er lán að lifa. Förum vel með það sem okkur er trúað fyrir og njótum þess.

Þannig eru lokaorðin í magnaðri bók sálfræðinganna Braga Sæmundssonar og Jóhanns Inga Gunnarssonar Með lífið að láni. Þeir komast að þeirri niðurstöðu að þakklætið sé kölluð móðir allra dyggða vegna þess að þakklætið, líkt og kærleikurinn, tengist öllum dyggðum.

Með þakklætinu fer hugurinn að vera vakandi yfir því góða sem við höfum og fáum. Við komum auga á það sem við þegar höfum og njótum þess frekar. Þakklætið gerir okkur opnari fyrir því sem gerist í samskiptum og við berum jákvæðan hug gagnvart þeim sem gera okkur gott.

Þakklæti er einn máttarstólpanna í kristnu lífsviðhorfi. Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu segir víða í Gamla testamentinu. Jesús gjörði Guði þakkir og frásagan af Samverjanum sem var sá eini sem kom tilbaka til Jesú af þeim tíu sem hlutu lækningu, minnir okkur á hversu auðvelt er að gleyma því að þakka, jafnvel fyrir hið stóra.

Páll postuli gengur þó lengst í fullyrðingum sínum er hann segir: Þakkið alla hluti því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú.

Þessi orð; þakkið alla hluti, lukust upp fyrir mér fyrir tveimur árum, þegar ég tók viðtal við Sigurbjörn Einarsson biskup vegna lokaritgerðar, í lok fundar okkar sagði ég við hann:

,,Nú hlýtur að vera erfiður tími hjá þér, nýbúinn að missa tvo syni úr erfiðum sjúkdómi og konan þín svona veik. Þetta er mikil raun.”
Með rósemd gamallar sálar og einlægu trúartrausti sagði hann:

,,Maður má nú vera þakklátur fyrir það að hafa átt eitthvað til að missa, hitt eru öllu fátæklegra að hafa ekkert átt til að missa”

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að heyra þessi orð og eiga þessa stund. Þakklætið er leyndardómur eins og Gunnar Hersveinn heimspekingur segir svo fallega í bók sinni Gæfuspor:

Þökkin geymir leyndardóm ekki síður en gjöfin og í henni felst máttur. Þakklætið veitir gleði þeim sem finnur til þess og þeim sem þiggur það. Þakklætið fullgerir verkið með með þeirri gleði sem það kallar fram. Ekkert er þó sjálfgefið í lífinu; enginn dagur, enginn vegsemd, enginn dauði. Til eru menn sem þakka allt, bæði það sem þeir fá og það sem þeir missa, jafnt gæfu sem ógæfu. Þeir þakka það fyrir að hafa fengið að eiga það áður en þeir misstu það og þeir þakka jafnvel kvölina því hún veitti þeim innsýn og dýpkaði lífsskilning þeirra og gerði þá auðmjúka.