Næðifæði takk – engan skyndibita

Næðifæði takk – engan skyndibita

Skyndimennskan er til dauða. Sorgarvinnu og uppeldi verður ekki rubbað af, ástin verður ekki afgreidd með skyndikynnum, lífið er ekki stuttur brandari. Nei. Trúin er stór, sálin er djúp, elska Guðs er löng!

Hvaða fæða verður þér til góðs og hver ekki? Sum okkar erum með óþol gagnvart ákveðnum mat og jafnvel ofnæmi. Við þörfnumst allra fæðuflokkanna til að stuðla að heilbrigði. Fæðan skiptir máli. Hvað við setjum ofan í okkur varðar vellíðan og heilsu.

Gæðastuðull fjölskyldunnar Hvernig borðar þú eða þín fjölskylda? Takið þið ykkur tíma til að elda eða er öllu rubbað af í snarhasti með því að skella tilbúnum rétti í örbylgjuofninn? Hefur þú og þitt fólk áhuga á hráefninu? Eruð þið saman í eldamennskunni? Notið þið tækifærið til að miðla upplýsingum um misgott hráefni og hagnýta heilsufræði? Deilið þið tíma og tilfinningum?

Borðhald og máltíðir fjölskyldna tjá oft lífshætti. Stíll máltíða er oftast gluggi að heimilislífinu og sýnir gæði fjölskyldulífsins, er jafnvel n.k. gæðavísitala fjölskyldu og einstaklinga.

Skyndibiti og næðifæði Fyrir 21 ári var matarhópur stofnaður á Ítalíu, sem varð að hreyfingu fólks er berst fyrir því sem kallað er á enskunni Slow food. Við þekkjum orðið og fyrirbærið skyndibiti. Slow food er andstæða skyndibitans og alls þess, sem honum tengist.   Skyndibitanum fylgir menningarlegur flumbrugangur. Flas er sjaldnast til fagnaðar minnir máltækið okkur á. Hráefni skyndibitans er oft lélegt, t.d. kjötið í hamborgurum er gjarnan ódýrt, af hraðöldum og mikið lyfjasprautuðum gripum og því ekki gott. Grænmetið er einnig snaralið með mikilli áburðargjöf og eiturefnanotkun til varnar skordýrum er stundum rétt undir leyfilegu hámarki. Allt er gert til að lágmarka kostnað, hámarka afrakstur. Eldamennska í framleiðslu skyndibitans er sjaldnast á Michelin-standard. Efni og vinna eru mörkuð flýti og lágmarks natni.

Öll fáum við okkur skyndibita þegar asinn nær tökum á okkur. En kvikmynd Morgan Spurlock Super Size Me, um áhrif hamborgaraáts vakti okkur mörg til vitundar um vanda þeirrar menningar og þess fólks, sem ánetjast skyndibitastílnum. Það fólk, sem temur sér skyndibitamenninguna og gerir allt í skyndi, verður fórnarlömb óhollustu og tapar heilbrigði. Verst er ef það verður tilfinningalegt og sálarlegt skyndifólk, skyndibiti sjálft í lífinu!

Slow food hvetur til, að notað sé hráefni sem hefur verið ræktað með heilsusamlegu móti og án óeðlilegrar hröðunar, meðhöndlað án æðibunugangs, þvegið, kryddað með slettu af umhyggju og eldað með blöndu af kærleika og tíma. Síðan er auðvitað skemmtilegast, að nokkrir komi saman og njóti samveru, tali, hlæi og deili tilfinningum - þetta sem okkur finnst vera eðlilegur þáttur í veislu.

Engin góð þýðing er til á hugtakinu Slow food en ég legg til að við köllum það næðifæði – og vísar til alls þess næðis, sem hráefni þarf í ræktun til að það verði gott, að fæðið sé unnið og eldað með kyrru og síðan borðað án asa, sem sé í næði gleði og góðs samfélags. Skyndibiti eða næðifæði – okkar er valið.

Biblíudagur og sáning Í dag er Biblíudagurinn og við íhugum fæðu trúarinnar, sem við getum unnið úr og kryddað líf okkar með til góðs. Guðspjallstextinn fjallar um sáningu. Jesús Kristur segir eina af þessum snjöllu sögum sínum. Jesúboðskapurinn hentar ekki sem skyndibiti og við þörfnumst næðis til að skilja djúp orða hans.

Af sögunni er ljóst, að Jesús taldi vaxtarstaður skipti máli, bæði fyrir plöntur og menn. Lífið vex ekki vel nema við kjöraðstæður. Það fræ, sem féll utan akursins og góðs vaxtarsvæðis gat einfaldlega ekki orðið að neinu. Fræið, sem féll á grjótið náði vissulega að lifna, það naut hitans um stund. En án rekju og rótfestu verður ekkert líf. Spírurnar voru dæmdar til að fölna og deyja. Allt líf krefst lágmarksgæða. En þar sem svo háttaði uxu jurtirnar eins og sáð hafði verið til.

Þegar Jesús var spurður um merkingu sögunnar túlkaði hann sumt en annað ekki. Jú, fræið, sáðkornið er Guðs orð. Það orð hittir fyrir mismunandi fólk í mismunandi aðstæðum:

Í fyrsta lagi er grjótfólkið, sem er svo upptekið af vitleysunni að það fyllir sál sína af grjóti. Líf þess verður steypa. Önnur týpan eru hin grunnhyggnu en spennusæknu. Trúartilraunir eru gerðar, en svo vantar natni og alúð. Svo er þistlafólkið, sem á nóg fé, en er áhyggjufullt og lýtur nautnum. En öll erum við kölluð til að taka við orðinu frá Guði. 

Í fyrsta lagi er grjótfólkið, sem er svo upptekið af vitleysunni að það fyllir sál sína af grjóti. Líf þess verður steypa. Önnur týpan eru hin grunnhyggnu en spennusæknu. Trúartilraunir eru gerðar, en svo vantar natni og alúð. Svo er þistlafólkið, sem á nóg fé, en er áhyggjufullt og lýtur nautnum. En öll erum við kölluð til að taka við orðinu frá Guði. 

Orðið frá Guði Já, orð frá Guði. Hvað merkir það orð? Hvenær talar Guð? Og þar erum við komin að frumafstöðu okkar til lífs. Orð Guðs er ekki smátt eða lítið eða aðeins að finna á blöðum helgirits. Bókstafstrúarmenn eru skyndibitamenn trúarheima ef þeir halda að Biblíuversin séu eina orð Guðs. En svo er ekki. Skyndibitinn er vissulega matur, en orð Guðs er fleira en biblíuvers og orð Guðs er meira en smæðarleg og einföld trúartúlkun. Nei, orð Guðs er margt, það kallar fram efnið, heldur vetrarbrautum á hreyfingu, hjálpar frumum að skiptast, vekur hrifningu í sálinni, kallar fram ástina milli einstaklinga – líka þeirra sem hafa enga trú aðra en á ástinni og sjálfum sér. Já, orð Guðs er kveikja og er hvati alls sem er.

Biblíuboðskapurinn er ein grein þess orðs, upplýsing, fræðsla og næring fyrir sálina. Biblían er margþætt. Það er ekki augljóst hvernig hún skuli skilin. Margt virðist stangast á. Marteinn Lúther var meðvitaður um margræðni Biblíuritanna, var gagnrýninn og benti á, að menn yrðu að lesa Biblíuna með ákveðnum hætti - eða eigum við að segja með ákveðnum gleraugum – með því að skilja hana út frá rauða þræðinum Jesú Kristi. Hann væri hið eiginlega orð Guðs, sem stillti ekki aðeins hjartslátt vetrarbrautanna, heldur hefði orðið maður eins og jólatextarnir minna okkur svo fallega á. Orðið varð hold segir Jóhannes guðspjallamaður.

Guð talar, leyfir orði sínu að lifa og virka. En okkar er að opna líf og veru okkar. Orð Guðs getur ekki notið sín nema þar sem við því er tekið. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af orði Guðs í vetrarbrautunum eða í frumskiptingum almennt. Við menn þurfum aðeins að íhuga hvort við erum grjót, gata, kaktusagarður eða frjósamt fólk.

Stundarfriður – aðgengi að ísskáp Aftur að næðifæði og heimilislífi. Of mörg heimili líkjast mest umferðarmiðstöð þar sem allir eru á sprettinum. Slík heimili má skilgreina, sem hóp fólks sem hefur sameiginlegan aðgang að ísskáp! Það er heldur nöturlegur lýsing skyndimennskunnar.

Guðmundur Steinsson skrifaði leikritið Stundarfriður á sínum tíma og leikritið var á ritunartíma fremur spádómur en samfélagsspegill þess tíma. Fjölskyldan í stykkinu er brotin, allir eru á fleygiferð, enginn hefur næði til að vera í sambandi hvorki við sig sjálfan eða aðra. Guðmundur dregur upp þessa fjölskyldumynd með því að sýna skortinn á máltíð. Fólk kemur og fer í látum, rétt hleypur í ísskápinn til að grípa skyndibita, og er svo rokið. Það hafði enginn tíma til að lifa, borða, tala, vera og hvað þá til að deyja.

Ef við hugsum ekki um hvað við setjum í okkur er líklegt, að við séum skeytingarlaus um lífshætti okkar. Ef við látum ytri eignir okkar stjórna miklu af lífi okkar er jafnlíklegt að við skeytum lítt um að rækta okkar innri mann. Ef við erum full æsings yfir spennumálum lífsins er hið andlega líklega á undanhaldi í lífi okkar.

Næðifæði lífsins Af hverju er borð í miðju kirkjunnar? Ekki er það tilviljun, því svona háttar til í flestum kirkjum heimsins. Borðið er raunar tákn um inntaksríkasta næðifæði veraldar, veisluna þegar matur lífs er borinn fram.

Trúin verður ekki ræktuð í skyndi heldur í næði. Skyndimennskan er til dauða. Skyndibitar eru ágætir til hóflegs brúks, en engin ástæða til að skyndibitamenningin nái völdum hið innra sem ytra. Skyndihugsunin hentar innri sálarvinnu illa. Þess vegna verður heldur aldrei nein skyndikirkja eins og Spaugstofan lagði til. Kirkja í skyndi er ekki kirkja. Sorgarvinna verður ekki unnin með látum, uppeldi verður ekki rubbað af, ástin verður ekki afgreidd með skyndikynnum og “shortara,” lífið er ekki stuttur brandari. Nei. Trúin er stór, sálin er djúp, elska Guðs er löng!

Orð Guðs er vissulega alls staðar en með ákveðnu móti talar  Guð í þínu lífi. Orð Guðs er í líkama þínum, í kærleiksverkum þínum, í litbrigðum daga og dynjandi veðurbylmingnum úti, í fólkinu sem talar fallega og styðjandi við þig. Já kristnin er veruleiki næðis við borð. Jesús var veislukarl og lagði upp úr, að fólk snæddi og væri saman við borðið. Lífið er partí, sem okkur er boðið í og megum njóta alls, sem Guð hefur planað, sáð í lífinu, talað í veröldinni. Þar er næðifæði án rotvarnarefna, án lyfjameðhöndlunar, án dýramisþyrmingar, án gróðafíknar.

Okkur er boðið að pæla eigin frjóakur sálarinnar. Veislan í veröldinni vísar til veruleikans í eilífðinni. Orð Guðs er við borð Guðs. Og svo lýkur texta dagsins með þessu mikilvæga: “En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.”

Í Jesú nafni, amen.

Prédikun í Neskirkju á Biblíudegi 2008 A-textaröð.

Lexía: Jes 55.6-13 Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Hinn guðlausi láti af breytni sinni og illmennið af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum, til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega. Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn. Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni eru mínir vegir hærri yðar vegum og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum. Eins og regn og snjór fellur af himni og hverfur ekki þangað aftur fyrr en það hefur vökvað jörðina, gert hana frjósama og gróandi, gefið sáðkorn þeim sem sáir og brauð þeim er eta, eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því. Já, þér skuluð fara burt fagnandi og örugg verðið þér leidd af stað. Fjöll og hæðir ljósta upp fagnaðarópi frammi fyrir yður og öll tré á sléttunni klappa saman lófum. Í stað þyrnirunna skal kýprusviður vaxa og myrtusviður í staðinn fyrir netlur. Þetta verður Drottni til dýrðar, ævarandi tákn sem aldrei skal afmáð.

Pistill: 2Kor 12.2-9 Ég þekki kristinn mann. Fyrir fjórtán árum var hann hrifinn burt allt til þriðja himins. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Og mér er kunnugt um að þessi maður var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð sem engum manni er leyft að mæla. Hvort það var í líkamanum eða utan líkamans veit ég ekki. Guð veit það. Af slíku vil ég hrósa mér en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér nema þá af veikleika mínum. Þótt ég vildi hrósa mér væri ég ekki frávita því að ég væri að segja sannleika. En ég veigra mér við því til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir. Og til þess að ég skuli ekki ofmetnast af hinum miklu opinberunum er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig til þess að ég skuli ekki líta of stórt á mig. Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér. Og hann hefur svarað mér: „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika.“ Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

Guðspjall: Lúk 8.4-15 Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“

En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.

En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.