Um þessar mundir er verið að frumsýna hér á landi kvikmyndin Da Vinci lykillinn sem byggir á metsölubók Dan Browns. Bókina og efni hennar er óþarfi að kynna. Hún hefur vakið mikla umræðu og það mun kvikmyndin örugglega líka gera.
Í bókinni er sett fram hörð gagnrýni á kirkjuna og því haldið fram að sú saga kristninnar sem við teljum okkur þekkja, sé ekki annað en blekking kirkjumafíu fjórðu aldar. Þar er einnig sagt að Nýja testamentið sé tilbúningur sömu mafíu, að María Magdalena hafi verið eiginkona og barnsmóðir Jesú og að leyniregla hafi varðveitt þessa þekkingu gegn ofríki kirkjunnar í gegnum aldirnar. Það er ekki ætlun mín að ræða þessar kenningar hér, en þau sem áhuga hafa geta komið á kvöldvöku í Hafnarfjarðarkirkju að kvöldi uppstigningardags þar sem fjallað verður nánar um þetta mál.
En hver var eiginlega María Magdalena? Hvar kemur María Magdalena við sögu? Oft í gegnum tíðina hafa menn spunnið upp sögusagnir í kringum Maríu Magdalenu, meðal annars haldið því fram að hún hafi verið gleðikona, þvert á guðspjöllin. Það sem mestu máli skiptir nú þegar deilt er um sögu Maríu Magdalenu er þó þessi spurning: hvenær verður hennar saga að okkar sögu? Af hverju skiptir hún okkur svona miklu máli? Það var einn dapran morgun að María Magdalena og nokkrar konur voru á leiðinni að gröf einni til að smyrja líka látins manns, manns sem þær höfðu haldið að væri frelsarinn, Messías.
Þessi maður var hinn krossfesti Jesús Kristur frá Galíleu. Hvernig leið Maríu Magdalenu á göngunni? Allar vonir hennar voru að engu orðnar um þennann mann. Hún hefur kannski hugsað til þeirra daga sem hún hafði átt með Jesú, þegar hann rak úr henni illann anda eða þegar hún fékk að sitja við fætur hans með hinum lærisveinunum og hlusta á hann.
Kannski var hún enn í áfalli eftir föstudaginn þegar maðurinn sem hún hafði trúað á var hæddur, hýddur og síðan krossfestur í smán. Enginn veit hvað hún hugsaði um á meðan hún gekk með vinkonum sínum í átt til grafarinnar að smyrja líkið eins og siður var. En hún hefur örugglega verið að hugsa um hin sorglegu endalok meistara síns.
Hvað sem hún var að hugsa um þá breyttist allt er hún kom að gröfinni. Hún varð fyrir mesta undri lífs síns, sem um leið var undur lífsins. Enginn líkami var í gröfinni. Jesús var á lífi. Guð hafði reist hann upp frá dauðum til nýrrar tilveru til að sýna henni og okkur leiðina til lífsins.
María Magdalena mætti honum, fyrst allra, upprisnum. Og María Magdalena var fyrst til að flytja gleðiboðin um upprisuna. Þar með varð hennar saga að okkar sögu.
Jesús Kristur, hinn upprisni, hann var lykillinn að dulmáli lífsins og dauðans. Úr leyndardómi dauðans kom líf því Guð hafði opnað dyrnar til lífsins með Jesúlyklinum. María Magdalena var ekki kona Jesú. Hún var svo miklu, miklu meira. Hún var postuli postulanna, lærisveinn Jesú sem sýndi öllum öðrum leiðina, líka okkur.
Að leita að lyklinum að Da Vinci lyklinum er að leita að lyklinum að því hver Jesús Kristur var- og er. Sem vitni að upprisunni, fyrsta vitnið, sem sú fyrsta er skildi hvað Guð er að gera fyrir okkur í Jesú Kristi, er María Magdalena svo miklu dýrmætari en ef hún væri aðeins einhver meint kona Jesú.
Því hún og vitnisburður hennar er lykillinn að allri sögunni.
Að eiga þá trú, með Maríu Magdalenu og ótölulegum fjölda kristinna karla og kvenna aldanna það er að eiga nýtt líf í samfélagi við hinn lifandi Jesú Krist. Það er að eignast eilíft líf eins og María Magdalena vill benda okkur á. Það er hinn sanni lykill tilverunar.