Geisli Guðs og María

Geisli Guðs og María

Stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú náði hámarki - María var ekki lengur mensk heldur komin út fyrir endimörk alheimsins. En María stígur nú af stalli.

Suma daga er Neskirkja rökkvuð, en aðra daga litrík. Aldrei þó ofurbjört, jafnvel á ljósum dögum. Altarisglugginn er við suðurgafl kórsins. Gluggaskipan hússins er slík að ljósgjafar, gluggar og lampar, eru faldir og fólk frammi í kirkjunni sér ekki stóra kórgluggann því hann er í hvarfi frá söfnuðinum. En þótt þessi risagluggi, sem er yfir fjörutíu fermetrar, sé utan sjónsviðs er hann aðalfarvegur dagsbirtu inn í kirkjuhúsið.

Fyrir nær tuttugu árum var í kórgluggann sett glerlistaverk Gerðar Helgadóttur (1928-1975). Þegar sólin kyssir skjáinn dansa síðan geislar, bláir, rauðir, grænir og ljósir á kórveggnum yfir altarinu. Litadýrðin verður oft stórkostleg. Gerður skrifaði ekkert um gluggann. Hann var gerður að henni látinni og með hliðsjón af skissum, sem hún skildi eftir. Engar skýringar eru til frá hendi höfundar. Því meir sem ég horfi á þennan blárisa, því sannfærðari verð ég um að þetta er Maríugluggi. Gerður var vel heima í túlkun lita og kunnug þeim áherslum í kirkjulistinni og trúarhefðum Evrópu og vissi að litur Maríu var blár og í mismunandi litatónum. Litaval gluggans á sér mun dýpri og fjölþættari skírskotun en að nota bara bláa fánalitinn. Auk Maríutilvísunar, sem jafnframt faðmar aðventu og jól, má einnig ímynda sér, að þessi bláskjár Neskirkju skírskoti til lífs fólks á Högum og Melum við ysta haf og undir stórum himni.

Glugginn er kyrrlátur, bljúgur og hógvær, en þegar skín á hann verður hann farvegur stórfengleika ljóss í heimi litríkis, fagnaðar og fegurðar. Er það þannig, sem við nálgumst kvenstjörnu kristninnar? Er hún hljóðlát og bíðandi - aðallega í hlutverki viðtökunnar, en skín vegna gegnsæis og hlutverks?

Maríudagur Í dag er Maríudagur, boðunardagur Maríu, móður Jesú. Hún hefur verið kölluð guðsmóðir, heilög María, himnadrottning, móðir María, stjarna hafsins og móðir kirkjunnar og raunar margt fleira. Hún hefur verið lofuð og líka tilbeðin. María gegnir einnig merku hlutverki meðal múslima. Kóraninn telur Maríu til spámanna. María hefur verið ofurkona í menningarsögu Vesturlanda og áhrif hennar hafa verið mikil. Margar Maríur hafa borið nafn hennar og María er þessa dagana tíunda algengasta aðalnafn íslenskra kvenna. Áhrifasaga Maríu er margslungin. Það kemur mörgum á óvart, að stjörnur Evrópufánans eiga sér fyrirmynd í Maríustjörnunum, sem mynda geislabaug hennar á helgimyndum. Blár litur fána Evrópusambandsins kemur eiginlega frá lit Maríumöttulsins og þeim himni, sem hún ríkir yfir og sést gjarnan blálitaður á myndunum líka. Maríuáhrifin eru mörg og sum óbein eða dulin.

Maríudagurinn, boðunardagurinn, er 5. sunnudagur í föstu í okkar kirkju og guðspjallstexti dagsins segir sögu af unglingsstúlku og reynslu hennar, sem er túlkuð svo að engill birtist og upplýsti, að hún hefði lent í úrtaki himinsins. Hún var valin til að verða farvegur fyrir hjálp Guðs mönnum í heimi. “Viltu það” var stóra spurning dagsins? Vil ég hvað? hefur hún væntanlega spurt. Að baki spurningunni var boðskapur um að Guð elskar, kemur, hjálpar og eflir rétt meðal manna. Hvernig svörum við? Hvernig kjósum við? Viljum við? Kunnum við já og nei í þeim efnum?

Guðleg nálgun Um aldir hafa menn reynt að ímynda sér hvað þessi atburður þýðir. Hvernig lítur engill út? Var hann með lilju í höndum eins og miðaldamálverkin sýna eða er blómið tákn til að tengja huga við trúartúlkunina? Var María í bláum klæðum - litur Maríu er jú blár. Skiptir María, móðir Jesú, þig máli?

Siðbótarmenn tóku Maríu út af dagskrá vegna þess, að Rómarkirkjan hafði glennt guðfræði Maríu of rausnarlega. María hafði verið tekin út úr mannlífinu og sett upp á tilbeiðslustall. Hið kvenlega, mannlega, hafði þar með verið læst í fjötra, sem jafnframt urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. Maríu hefur væntanlega aldrei liðið vel á stalli. Við höfum engan hag heldur af henni þar, ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins, við höfum hag af konunni Maríu og þar með trú, sem tengist lífinu vel og þjónar því.

Maríuhlutverkin Hver er og jafnvel hvað er María? Eitt er hver hún var og annað hvaða hlutverki hún gengdi eða gegnir. Hún var móðir og átti fleiri börn en Jesú Krist. Fjórir bræður Jesú eru t.d nefndir í Mattheusarguðspjalli. Og kannski átti hann systur líka? María var eiginkona, húsmóðir og Gyðingur í Rómaveldi. Hún hefur væntanlega gegnt hlutverkum sínum í samræmi við venjur, siði og væntingar. Það, sem greinir Maríu frá öðrum konum heimssögunnar er að hún var móðir þess manns, sem mest áhrif hefur haft á þá sögu.

Gyðingar áttu ekki í neinum erfiðleikum með barnsgetnað og hvernig það undur lífsins verður og hverjir koma við sögu. Það voru og eru ekki tvö heldur alltaf þrír aðilar: Kona og karl - en líka hinn þriðji - Guð. Alltaf þessi þrjú. Samkvæmt hebreskri hugsun var Guð tendur öllu lífi, líka því fjölskyldulífi, sem fór fram á bak við luktar dyr. En í tvíhyggjusamhengi, ekki síst í hinum grísk-helleníska heimi, voru áherslur aðrar. Hið líkamlega var sett skör lægra en hið andlega. Þar með var ástalífið, hneigðir og hið líkamlega talið verra en hið háleita-andlega. Gat Guð verið á því sviði? Gyðingar sögðu já já, en Grikkir fremur nei, varla. Hvernig varð Jesús til? Var María einhvers konar staðgöngumóðir fornaldar? Væntanlega lagði hún sitt egg til, en svo sagði sagan - eða jafnvel krafðist - að barnið yrði til án aðkomu Jósefs, festarmanns hennar. Lúkasarguðspjall tjáir föðurlausn getnað og meyfæðingu.

Út fyrir endimörk alheimsins Við getum innlifast slíkri sögu, en ættum að setja hana í samhengi hennar, sem er tilbeiðsla og lofsöngur safnaðar, trú á vængjum ljóðsins. Við megum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og endurskrifa þurfi eftirá og eðlisbreyta verði aðdragandasögu stórmennis. Þar er ein skýring á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í sögu fornþjóða eru til fjöldi sagna, goðsagna, um meyfæðingar goða sem fæðast í heim manna. Tilhneigingin var alltaf í tvíhyggjusamhengi að reyna að hreinsa móður guðsins sem mest og gera úr henni flekklausa veru.

Saga er alltaf áhrifasaga, viðmið og stýringar laumast í tíma. Þegar Maríudýrkun óx á fyrstu öldum kristninnar varð hún fyrir áhrifum frá kvenskilgreiningum umhverfisins, t.d. frá Artemisdýrkun, frá Vestalíum Rómar, frá Isisdýrkun. Menningarlegar og þar með trúarbragðastýringar höfðu áhrif á og stjórnuðu eiginlega hvernig María var skilgreind og tilbeðin. María varð ekki lengur gyðingakonan María, heldur var henni lyft upp úr heimi hins venjulega lífs manna og upp í heim tilbeiðslunnar. Móðirin varð að meyju ofar tíma og lífi. Maríudýrkun óx stöðugt þegar leið á fyrsta árþúsundið og kenningaflækjan þróaðist og gildnaði. Löng saga trúarhugsunar endaði síðan með, að kaþólska kirkjan fékk yfir sig ákvörðun um að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú náði hámarki - María var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins!

Andleg tiltekt – María til manna Hver er þörf nútímatrúmanna fyrir hugmyndafræði upphafningar og sögubreytingar? Við megum gjarnan ganga hægt og fallega í návist Maríu, en ættum alls ekki - og megum ekki - þrengja lífi hennar og veruleika inn líkamshrædda fordóma. Við höfum enga þörf fyrir tvíhyggjuaðgreiningu milli raunveruleika okkar annars vegar og trúar hins vegar. Pólitík okkar kemur Guði við.

Eins og við þurfum að skúra gólfin og hreinsa reglulega heima hjá okkur ættum við a.m.k. árlega að gera hreint í hugarheimi og hreinsa kenningakerfin. Það varðar m.a. að leyfa Maríu að koma til sjáfrar sín og án allra kvaða margra alda efnishræðslu. María á ekki að vera á stalli ofar mannlífi. Kristnir menn eiga ekki að rugla saman ólíkum þáttum þótt tengdir séu, frelsun og mannhugmyndum, kristsfræði (Jesús frelsar) og uppeldisfræði (María sem fyrirmynd). María er ekki frelsari mannkyns heldur mikilvæg ímynd mannlífs og kirkju. Nú er komið að því að María stigi af stalli og taki þátt í hreingerningum.

Meyjartignun og þjónandi forysta Franski höfundurinn Simone de Beauvoir hélt fram fyrir sextíu árum í bók sinni um “hitt kynið” að María væri sú fyrsta í mannkynssögunni, sem hefði lotið syni sínum og viðurkennt, að hún væri undir hann sett og þar með viðurkennt sigur karlaveldisins, sem síðan hefði verið þróað og útfært í útgáfu meyjartignunar. Kvennahugsuðir - og kvennaguðfræðingar þar með talið - hafa bent á að myndin, sem aldirnar hafa búið til af meyjunni Maríu séu tæki í þágu karlstýringar.

Fyrirmyndir hafa áhrif eins og allir vita, sem sjá barnaherbergin skreytt ofurhetjum úr heimi kvikmynda, poppkúltúrs og fótbolta. Blóðlaus María á stalli elur á þegjandi og víkjandi kvenímynd, sem ekki gerir konum, körlum né kirkju gott.

Vert er síðan að benda á María sé ekki aðeins þiggjandi, heldur hafi hún haft raunverulegt val þegar engillinn kom til hennar með blómið fagra. Hún hafi ræktað með sér öfluga þjónustuafstöðu, sem hún síðan miðlaði til Jesú, sem vissulega túlkaði og iðkaði þjónandi forystu. Leyfum Maríu að stíga af stalli og lifa meðal manna.

...geisli smýgur um gler Íslenska hómilíubókin er merkilegt ræðusafn frá miðöldum. Í henni er m.a. rætt um guðskomuna í heiminn með fagurfræðilegu móti. Þar er vísað til þess sem gerist þegar birta lýsir upp efni: “Eins og þegar geisli smýgur um gler” segir í þessu forna stólræðusafni um undrið þegar Guð vitjaði Maríu. Þegar sólin lýsir og skín verður undur, nýr veruleiki. “Eins og þegar geisli smýgur um gler.” Þegar Guð er nálægur og verður ljós og allt verður öðru vísi en áður.

Tími Maríu er þegar Guð kemur og María gegnir hlutverki. Tími kvenna er kominn í kirkjum heimsins og öllum samfélögum manna. Kirkjur hafa um stallsett konur og takmarkað frelsi þeirra. Kynhlutverk hafa því brenglast, lífsskilningur ruglast og líf okkar allra skaddast. Guð kemur í heim til að hjálpa.

Miklaljóð Þegar engillinn kynnti Maríu erindi Guðs spratt fram á varir hennar Miklaljóð, Magnificat. Hvert er inntak þess máttuga söngs? Það er að minna á, að Guð vinnur máttarverk hins góða í veröldinni, úthellir umhyggju og elsku, lagar réttinn og eflir hið góða. Miklaljóð er viðbragð manna í heimi, viðbragð tilbeiðslunnar, söngur gleðinnar. Það sprettur fram þegar lífið blómstrar og fólk kemur til sjálfs sín, samhengis síns, fær að upplifa hið stórkostlega og nær að lifa vel. Þá birtir þegar Guð kemur með ljós sitt og lífið verður litríkur dans. “Eins og þegar geisli smýgur um gler.”

“Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum” ljóðaði María. Guð kom og Guð heldur áfram að koma til að skapa, efla lífið, gleðja, hjálpa okkur til að segja nei gagnvart vitleysum og já gagnvart lífinu. Guð er geisli þinn, er alls staðar, í siðklemmum, í rúmum fólks, í samskiptum og í náttúrunni. Til okkar skín, til okkar er komið, lilja himins er rétt fram, boð engilsins varðar öll börn jarðar, allan heiminn. Og er svar þitt já eða nei?

Amen – í Jesú nafni Amen

Lexía: 1Sam 2.1-10 Hanna bað og sagði: Hjarta mitt fagnar í Drottni. Horn mitt er upphafið af Drottni. Ég hlæ að fjandmönnum mínum því að ég gleðst yfir hjálp þinni. Enginn er heilagur sem Drottinn, enginn er til nema þú, enginn er klettur sem Guð vor. Hreykið yður ekki í orðum, sleppið engum stóryrðum af vörum því að Drottinn er vitur Guð, hann metur verkin. Bogi kappanna er brotinn en örmagna menn gyrðast styrkleika. Saddir selja sig fyrir brauð en hungraðir þurfa þess ekki. Óbyrja elur sjö börn en barnmörg móðir visnar. Drottinn deyðir og lífgar, sendir menn til heljar og leiðir þá upp þaðan. Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá, hann niðurlægir og upphefur. Hann lyftir hinum auma úr duftinu og hefur hinn snauða úr skarninu, leiðir hann til sætis hjá höfðingjum og skipar honum í öndvegi. Stoðir jarðar eru eign Drottins, á þeim reisti hann heiminn. Hann ver fætur sinna réttlátu en ranglátir þagna í myrkrinu því að enginn er máttugur af eigin afli. Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum, Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim. Drottinn dæmir alla jörðina. Hann eflir konung sinn að mætti og hefur upp horn síns smurða.

Pistill: Róm 8.38-39 Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall: Lúk 1.46-56 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum. Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja. Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert og heilagt er nafn hans. Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns. Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað. Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara. Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn, eins og hann hét feðrum vorum, Abraham og niðjum hans, eilíflega.

María, drottins móðir kær, merkir guðs kristni sanna: Undir krossinum oftast nær angur og sorg má kanna. Til hennar lítur þar herrann hýrt, huggunarorðið sendir dýrt og forsjón frómra manna. HP-PSS 37,6