Agi og fræðsla

Agi og fræðsla

Sá boðskapur sem Biblían flytur okkur er almennt mjög styrkjandi fyrir sjálfsmynd barna sem fullorðinna, að Guð elskar þig eins og þú ert og kallar þig til ábyrgðar á lífi þínu. Það er einmitt þetta sem heilbrigður agi ætti að gefa okkur á hvaða aldri sem er, að við séum mikils virði sem einstaklingar og höfum miklu að miðla til heimilisfólksins, vinanna og samfélagsins alls.

Börn, hlýðið foreldrum ykkar vegna Drottins því að það er rétt... Ef. 6.1 Og feður, reitið ekki börn ykkar til reiði heldur alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin. Ef. 6.4
Þessi uppeldisfræði Páls postula er afar skynsamleg. Fyrst ávarpar hann börnin og ráðleggur þeim að hlýða foreldrum sínum. Röksemdin er að það sé rétt – og svo kemur nánari útlistun: „Heiðra föður þinn og móður“- það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: „til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni“ (Ef 6.2-3). Að hlýða foreldrum sínum og heiðra þau er einfaldlega skynsamlegt og kemur sér vel þegar til lengri tíma er litið. Við, fullorðnu börnin, getum áreiðanlega flest litið til baka og séð hvernig ráð foreldra okkar komu sér vel – og í sumum tilfellum hvernig okkur vegnaði ekki eins vel þegar við hunsuðum tilmæli þeirra. Þegar allt er með felldu eru ráðleggingar og fyrirmæli foreldra bornar fram af reynslusjóði þeirra sjálfra og eru í langflestum tilfellum börnunum fyrir bestu.

En postulinn lætur ekki staðar numið við skyldu barna gagnvart foreldrum sínum. Foreldrum leyfist heldur ekki allt gagnvart börnunum. Tilmæli þeirra eiga að vera þannig fram sett að þau valdi ekki óþarfa uppnámi eða reiði. Það höfum við séð að þegar foreldrar gera óraunhæfar kröfur til barna sinna eða setja þeim óþarflega þröngar skorður geta viðbrögð barnanna orðið mótþrói og uppreisn.

Gæfulegt uppeldi Strangar skipanir og einhliða boð eru ekki gæfulegt uppeldi. Það hafa t.d. kannanir dr. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur (1998) sýnt. Hún hefur – ásamt fleirum – rannsakað hvernig uppeldishættir foreldra tengjast áhættuhegðun barna þeirra þegar kemur á unglingsárin. Í stuttu máli – og minni endursögn - er niðurstaðan sú að of strangt uppeldi þar sem allt er vaðandi í boðum og bönnum auki líkurnar á áhættuhegðun ungmenna. En það er athyglisvert að kæruleysislegir uppeldishættir eru þó enn verri þegar kemur að áhættuhegðun. Það barn sem fær þau skilaboð að það megi hegða sér eins og það vill, þurfi engu að hlýða, það skipti foreldrana engu hvenær það kemur heim frá vinum sínum eða hvað það geri yfirleitt er í mikilli hættu þegar kemur að reykingum, drykku og annarri áhættusamri hegðun. Sama á við um barn sem fær allt sem það bendir á. Markaleysi upplifir barnið sem kæru-leysi, það er ástleysi.

Eins og í mörgu öðru er það millivegurinn sem bestu áhrifin hefur. Foreldrar sem setja einfaldar en skýrar reglur, gjarnan í samráði við börnin og innan þess ramma sem þau ráða við, eru samkvæmt könnunum bestu uppalendurnir. Börnin þurfa að finna til þess öryggis sem reglur veita en um leið að þjálfa sig í ábyrgð á sjálfum sér og heimilislífinu. Traust og samtal milli foreldra og barna er þarna lykilatriði og að börnin finni að það skipti foreldrana máli hvernig þau haga sér. Það er í góðu samræmi við ráðleggingu postulans þar sem hann segir: „...alið þau upp með aga og fræðslu um Drottin“.

Hvað er agi? Agi er orð sem stundum fær á sig neikvæðan blæ. Við höfum kannski verið of hrædd við einhverja tengingu við harðneskju og strangar refsingar. Það þarf alls ekki að vera inntak agans. Agi er að kenna börnum sínum kurteisi og almennar umgengnisreglur, hjálpsemi og virka þátttöku í heimilislífinu. Agi er ekki að börnin þori ekki að opna munninn eða fyllist skelfingu ef þau sulla óvart niður mjólkinni sinni. Agi er að læra að bíða þangað til röðin kemur að manni, fylgja reglum í skólanum, grípa ekki græðgislega það sem að manni er rétt.

Og samfara hinum almenna aga hvetur postulinn foreldra til að fræða börn sín um Drottin, Jesú Krist sem er fyrirmynd hógværðar og lítillætis (Matt 11.29), þjónustu og hlýðni (Fil 2.7-8, Róm 5.19) en líka réttlætis og sigrandi hugarfars (Sak 9.9, 1Jóh 2.1). Sá boðskapur sem Biblían flytur okkur er almennt mjög styrkjandi fyrir sjálfsmynd barna sem fullorðinna, að Guð elskar þig eins og þú ert og kallar þig til ábyrgðar á lífi þínu. Það er einmitt þetta sem heilbrigður agi ætti að gefa okkur á hvaða aldri sem er, að við séum mikils virði sem einstaklingar og höfum miklu að miðla til heimilisfólksins, vinanna og samfélagsins alls.

Leyfið börnunum... Guðspjall dagsins, sem sótt er í Mark 10.13-16, bregður upp velþekktri mynd – sem er eitt fegursta altaristöflumótíf sem hugsast getur, myndin af Jesú með börnin í fanginu.

Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.
Fólkið vissi sem var að blessun Jesú myndi hafa djúpstæð áhrif til góðs fyrir börnin og vildi því stuðla að því að þau kæmust í návígi við hann. Þegar lærisveinarnir af misskilinni hlífð við meistara sinn vildu meina börnunum að koma til hans sárnaði Jesú og hann sagði þessi kunnu orð: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki“.

Mér er minnisstætt nokkuð sem sagt var á málþingi í Kennaraháskólanum við Stakkahlíð sem Reykjavíkurprófastsdæmi vestra stóð að ásamt fleiri aðilum fyrir nokkrum árum. Umræðuefnið var samskipti kirkju og skóla og einn fyrirlesaranna spurði hvort það gæti virkilega verið svo að fólk áliti það hættulegt börnum að syngja um Jesú, besta vin barnanna sem aldrei færi frá þeim? Þessi athugasemd rifjaðist upp fyrir mér í haust þegar umræðan stóð sem hæst um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sem miðar að því að afmá helst með öllu ummerki kristinnar trúar í skólalífi borgarinnar. Ekki er séð fyrir endann á því máli en tillögurnar runnu ekki jafn greitt í gegn og málflutningsfólkið virðist hafa haldið. „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi...“.

Nú er það hárrétt að skólinn hefur ekki boðunarhlutverki að gegna. Hann er fræðslustofnun. Og engum dettur sem betur fer í hug að hætta að miðla upplýsingum um trúarbrögð og kristna trú. En markmið grunnskólans er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda, velferð og menntun og efla „skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum“ svo nokkuð sé nefnt og starfshættir grunnskólans skulu m.a. mótast af „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“ (sjá lög um grunnskóla nr. 91/2008, gr. 2). Að láta sér detta í hug að hægt sé að sterilísera, sótthreinsa, skólaumhverfið af öllu því sem minnir á okkar kristnu menningu finnst mér og mörgum fleirum með öllu óhugsandi og hreinlega brot á lögum um grunnskóla. Foreldrar og aðrir uppalendur ættu að láta meira í sér heyra varðandi stöðu kristinnar trúar innan grunn- og leikskóla.

Í vikunni las ég viðtal við íslenskan tónlistarmann, Páll Ragnar Pálsson, fyrrum meðlim hljómsveitarinnar Maus, en nýtt sálmalag eftir hann er einmitt frumflutt í Dómkirkjunni í messu í dag. Páll Ragnar hefur búið í Eistlandi um nokkurra ára skeið og segir: „Það að hafa búið í landi þar sem allt sem viðkom trú var lengi vel bannað setur hlutina í samhengi. Mér hefur þótt umræðan um íslensku þjóðkirkjuna upp á síðkastið ósköp kjánaleg, það verður bara að segjast, og einkennast af óþarfa sefasýki“, sagði Palli í Maus (Fréttablaðið 7.1.11 bls. 16). Fleiri gætu líklega tekið undir að það sé gott að koma til Íslands þar sem kristin trú er samofin menningunni á svo margan hátt eftir að hafa kynnst því að trúin sé ekki velkomin í hinu opinbera rými.

Skírnarfræðslan En auðvitað er það fyrst og fremst ábyrgð foreldranna, ekki skólans, að kenna börnum sínum að iðka þá kristnu trú sem þau eru skírð til. Foreldrarnir koma með börnin til Jesú, bera þau til skírnar, og ábyrgðin er þeirra. Í þessu verkefni vill kirkjan vera þeim stuðningur og því býður Þjóðkirkjan til sunnudagaskóla víðast hvar á landinu flesta helga daga. Dagskrá fyrir eldri börn og unglinga stendur líka víða til boða og er hluti af þeirri víðtæku þjónustu sem Þjóðkirkjan sinnir.

Hvað með heima? Hvernig getum við, foreldrar ungra barna, eldri barna, unglinga, rækt hlutverk okkar sem uppalendur í kristinni trú? Fyrst er auðvitað að nefna breytni okkar sjálfra. „Líf þitt lætur svo hátt að ég heyri ekki hvað þú segir“, sagði prófessor Jónas Gíslason stundum við okkur nemendur sína. Börn eru afar næm á að fullorðna fólkið sé samkvæmt sjálfu sér og fari eftir sínum eigin reglum. Ég segi stundum að kristið siðgæði hafi tvær hendur. Önnur er full af kærleika og hin af réttlæti. Önnur getur fátt án hinnar, aðeins saman koma þær góðum hlutum til leiðar. Þannig þarf líf okkar, fullorðna fólksins að vera, fullt af kærleika og réttlæti, í löngun til að helgast, líkjast Kristi meir og meir, bæta okkur í ljósi Hans, ekki í samanburði við annað fólk. Uppeldi í aga og fræðslu um Drottin gildir líka um okkur sjálf.

Og börnin geta verið eðlilegir þátttakendur í trúariðkun okkar heima, í morgunbæn, borðbæn, kvöldbæn, ferðabæn, fyrirbæn fyrir þeim sem eiga erfitt. Heima er líka hægt að syngja saman sálma og vers og lesa saman í Biblíunni og bókum um kristilegt efni. Við kennum þeim um fyrirgefningu Guðs með því að stunda sjálf fyrirgefandi hugarfar og innprenta þeim hið sama. Og við gætum þess að tala ekki illa um annað fólk þó við samþykkjum ekki alla hegðun sem góða fyrirmynd.

Þannig er kristin trú samofin lífi kristins fólks og trúaruppeldið fléttað inn í daglega lífið. Fyrir unga foreldra sem koma með barnið sitt til skírnar hljómar orðið trúaruppeldi ef til vill flókið en það er það ekki. Biðjum með barninu, höfum gott fyrir því, förum með því í kirkju. Það er á allra færi.

Kæru vinir hér í Ássöfnuði. Mætti hin gleðiríka mynd úr Jer 31.10-14 verða okkar þegar við hlýðum á orð Drottins, börn sem fullorðin:

Komum og fögnum, ljómum af gleði yfir hinum góðu gjöfum Drottins, sem safnar okkur saman, gætir okkar eins og hirðir gætir hjarðar sinnar, leysir okkur, frelsar... Þá verðum við eins og vökvaður garður og missum aldrei framar mátt. Þá munum við stíga gleðidans og ungir fagna með öldnum. Guð breytir sorg okkar í gleði, huggar og gleður og seður.