Ég ætla að kaupa þessi augu!

Ég ætla að kaupa þessi augu!

Við ættum kannski að staldra við og íhuga skyldur okkar. Ef við kaupum ný rúmföt, nýjan bíl, ný húsgögn getur verið að við tökum þátt í að spilla lífsgæðum og heilsu fólks hinum megin á hettinum. Viljum við það? Nei, þess vegna ættum við að spyrja. Við viljum ekki rífa augun úr börnum?

Ný augu Ég man eftir bók á heimili foreldra minna. Kjölurinn brosti við heimilisfólkinu og á honum stóð titill bókarinnar Ný augu. Þetta var laðandi titill og hélt að okkur heimilisfólkinu vangaveltu um sjón og sýn. Svo var við eldhúsborðið rætt um hvaða augum menn litu gildin og hvort ekki væri nauðsynlegt að horfa með nýjum augum?

Ný augu. Hvar fær maður þau? Ég stóðst ekki augnaráð bókarinnar og las um Fjölnismenn, hvernig þeir breyttu heiminum og lífssýn landans. Hátíðir til heiðurs Jónasi og Tómasi eru haldnar nú þessa helgi til að minnast 200 ára fæðingarafmæla þeirra. Bókin var góð og titillinn lifir áfram. Ný augu - hvar fær maður þau? Þegar augu fólks opnast fyrir óréttlæti og nýjum möguleikum lærir það að sjá með nýjum hætti og fer að íhuga hvernig megi umstokka í samfélaginu svo það verði betra, hvaða lífshús þurfi að byggja.

Kristin kirkja starfar til að menn fái nýja sýn bæði í samfélagsefnum, fái líka rétta sýn á eigið líf, hvað má verða til góðs í einkalífi, opinberu lífi og svo líka í þeim efnum, sem við köllum eilífðarmál.

Guð eða Mammon Guðspjallstexti dagsins segir frá stórbónda, sem fékk svo mikla uppskeru að hann vildi byggja enn stærri hlöður en hann átti fyrir. En hlöðubyggingin er ekki aðalatriðið. Jesús sagði sögu til tilheyrendur hans hugsuðu um það, sem væri að baki hlöðufíkn, það sem fyllti hug manna sem væru haldnir fjársókn – hina innri sýn á sjálf, líf og gildi. Stefið, sem hann var að tala um, var um Guð eða mammon, Guð eða fjársókn – andstæðan er annars vegar að eiga eða hins vegar að vera. En Mammonsdýrkun er margt fleira en það að fletta upp gjaldeyrisstöðunni eða vaxtastigi dagsins. Jesús hafði ekkert á móti fjársýslumönnum, hafði ekkert á móti fjármunum sem slíkum, heldur því að menn gerðu gullið að heimilisaltari eða sálarmöndli. Hann varaði ákveðið við að öllum væri hætt í ríkidæmi: “Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera” (Matt. 6.21). Mammonsdýrkunin birtist með margvíslegu móti og nútíminn hefur sinn Mammonsvanda einnig.

Módelið Ég fór að velta vöngum yfir siðferði, peningum – og líka sýn - við lestur á bók Lars Såbye Christensen. Hún heitir Módelið og kom nýlega út í íslenskri þýðingu.

Bókin segir frá frægum myndlistarmanni. Í tilefni af fimmtugsafmæli hans er stefnt að sýningu á nýjum myndum, sem afmælisbarnið ætlar að mála af tilefninu. Svo segir frá hvernig málarinn missir sjón nokkrum sinnum, en þó aðeins í stuttan tíma í senn. Hann verður auðvitað hræddur og spyr sjálfan sig hvort hann sé að verða blindur? Hvernig getur hann, sem hefur atvinnu af augum sínum, lifað án sjónar? Lesendur fylgjast með líðan mannsins, konu hans, dóttur og líka gallerístans. Læknisskoðun leiðir í ljós, að málarinn verði örugglega blindur, spurningin sé bara hversu lengi hann muni halda sjón - kannski ekki nema örfáa mánuði.

Málarinn vill mála en getur ekki vegna skelfingar. Hann vill auðvitað bót meina sinna, en er strand í blindgötu. Svo hittir hann gamlan skólafélaga, augnlækni, sem segir honum að hann geti fengið lækningu, reyndar fyrir mikið fé og án þess að fá að vita hvernig meðferðin muni verða. Listamaðurinn ákvað að taka áhættuna og fór síðan til Tallinn í Eistlandi í læknisfræðilega óvissuferð. Við fáum að vita, að kannski hafi listamaðurinn ekki viljað vita nákvæmlega í hverju lækningin væri fólgin.

Augnarán Við lestur þessarar áhrifaríku sögu renna á mann tvær grímur og spurningar vakna. Hvernig getur leynileg og dularfull læknismeðferð í Eistlandi gefið betri árangur en besta hugsanlega augnmeðferð í Noregi? Getur hugsast, að ekki hafi verið reynt að lækna augu mannsins heldur hafi hann fengið ný augu? Rússabörn eru kynnt til sögunnar, sá hópur sem er lægst settur í þessu fyrrverandi Sovétríki. Grunur vaknar, að rússnesk barnsaugu séu notuð í norskan myndlistarmann. Getur verið að allt sé falt fyrir fé? Er jafnvel hægt að kaupa lifandi augu úr lifandi fólki?

Mikið rétt, augun voru úr fátæku barni, sem var rænt af því það átti ekkert annað en heilbrigð augu, sem pössuðu fjársterkum manni. Eru fjármunir það, sem skilgreinir líf, dauða og blinda jafnvel siðvit, deyfa samvisku gagnvart því að stinga augu úr munaðarleysingja og gefa ríkum manni? Hvaða lífsljós getur lifað í krafti morðs? Og það er áleitin spurning að spyrja sig: Hvaða list verður til af glæp? Hvaða líf sjá ránsaugu?

Allt er falt eða hvað? Við getum væntanlega öll verið sammála um að augnstuldur sé slæmur. Við getum ekki rænt augum úr fólki til að bæta líðan þeirra sem eru að verða blindir. En þessi saga Christensen, Módelið, er ekki einföld saga, heldur hefur dýpt dæmisögunnar. Kona mannsins vildi ekkert vita. Hann vildi ekkert vita heldur um hvernig hann fékk augu. Hann vildi bara sjá og borgaði reikninginn.

Ríki maðurinn í guðspjallstextanum hirti ekki um neitt annað en tryggja sig, efla sinna hag og stöðu, hugði á það eitt sem gæti gert afkomu hans enn betri. Leiðir sjálflægt þröngbýli til lífs eða dauða? Er hægt að týna sér í eigin heilbrigðissókn? Er hægt að tapa sjálfum sér við hina skefjalausu sókn í ríkidæmi. Leiðir starsýni á eigin hag kannski til altækrar blindu?

Já, rán á augum er óverjandi, en hvað kemur slíkt okkur við? Ekki förum við illa með aðra? Viljum við nokkuð vita af barnaþrælkun við framleiðslu á fötum, sem við getum keypt? Viljum við nokkuð vita af þeim sjúkdómum, sem fólk verður fyrir við framleiðslu á þeim vörum sem við jafnvel kaupum?

Viljum við vita? Þegar við girnumst torfengið parket viljum við kannski minnst heyra um að skógar eru ruddir í fjarlægum löndum með skelfilegum afleiðingum fyrir lífríki. Hvernig er með fínu rúmfötin okkar eða góðu handklæðin, sem okkur þykir gott að þurrka okkur með eftir baðið?

Í vetur sýndi ríkissjónvarpið norræna heimildamynd um bómullarrækt og litun í Indlandi. Þar kom fram að víða eru margfaldir skammtar skordýraeiturs úðað yfir akra, margir bændur veikjast, sumir fá krabbamein ungir og alltof margir deyja fyrir aldur fram? Lita- og efna-meðferðin er víða slík, að fólk líður húðsjúkdóma og alls konar kvilla af? Öryggismál og losunarmál margra verksmiðja er slík að grunnvatn á stórum svæðum er mengað. Viljum við nokkuð vita um líðan og kjör fólksins, sem framleiðir bómullina í textílnum okkar? Er kannski eitthvað af fæðu okkar framleitt við ómennskar aðstæðum? Er kaffið, sem við kaupum ræktað af blásnauðu fólki sem fær sem næst ekkert fyrir framleiðslu sína en milliliðirnir bróðurpart teknanna? Það er ástæðan fyrir að kirkjur heimsins vilja það sem kallað er Fair Trade – sanngjörn kjör og sanngjarna viðskiptahætti.

Erum við kannski bara sakleysingjar, n.k. listamenn, sem viljum bara sjá, hafa góða sjón, til að geta haldið áfram að horfa á jákvæðar bíómyndir, sjá fallega garða okkar, sjá jákvæða heimsmynd – og forðumst að sjá skuggahliðar veraldar.

Líf en ekki dauða Við ættum kannski að staldra við og íhuga skyldur okkar. Ef við kaupum ný rúmföt, nýjan bíl, ný húsgögn getur verið að við tökum þátt í að spilla lífsgæðum og heilsu fólks hinum megin á hettinum. Viljum við það? Nei, þess vegna ættum við að spyrja. Við viljum ekki rífa augun úr börnum? Við viljum ekki að húðkrabbi lami fólk, við viljum ekki að börn framtíðar drekki mengað vatn, sem drepur á nokkrum árum. Við viljum líf, en ekki dauða, já fremur blindu eigin augna en að börn láti lífið fyrir okkar sjón - eða hvað?

Maðurinn vildi stórar hlöður fyrir lífsgæði sín, en gleymdi aðalatriðinu, hafði tapað sjálfum sér. Jesús lauk sögunni skýrt: “Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.” Hvernig lyktaði sögu Lars Såbye Christensen um augun og listina? Endirinn er dramatískur og verður ekki upplýstur hér, en endurómar boðskap Jesú með sérstæðu móti. Það er meðmælanlegt að lesa Módelið, en mikilvægara að íhuga skyldurnar og mikilvægast að fá sjón lífsins, sjá með augum sem Guð gefur. Ránsaugu sjá ekki lífið, en Guðsaugun sjá mannafólk og skyldur til góðs. Á hverju degi þurfum við að velja milli Mammons og Guðs. Ekki fyrirlíta fjármuni, en farðu vel með þá og í samræmi við vilja Guðs. Vertu ekki heimskingi. Horfðu vel í kringum þig.

Amen

Prédikun í Neskirkju 10. júní, 2007.

Textar 1. sd. e þrenningarhátíð 2007

Lexían; Míka 6.6-8 Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa? Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar?

Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?

Pistillinn: 1. Tím. 6. 17-19 Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar. Bjóð þeim að gjöra gott, vera ríkir af góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.

Guðspjallið: Lúk. 12. 13-21 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði. Með hvað á ég að koma fram fyrir Drottin, beygja mig fyrir Guði á hæðum? Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir, með ársgamla kálfa? Hefir Drottinn þóknun á þúsundum hrúta, á tíþúsundum olífuolíulækja? Á ég að fórna frumgetnum syni mínum fyrir misgjörð mína, ávexti kviðar míns sem syndafórn sálar minnar?Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.