Í dag er enn kallað til hátíðar í Hallgrímskirkju. Við minnumst af þakklæti þess, sem við eigum að arfleifð í orðum og bænum Hallgríms Péturssonar. Og hvílíkur fjársjóður er þar á blöðum þeirra bóka, sem bera nafnið hans. Hvílíkur fjársjóður er geymdur í hjörtum okkar, sem eigum bænir hans ritaðar í brjósti okkar, - hjartans mál, sem við megum vitna til og styrkjast af og biðja með, sífellt, alla daga, allt til enda lífsins. Margir eru þeir, sem hafa kvatt þetta líf með bænarorð hans á vörum sér. Og margir hafa hvíslað bænarorðin hans við sjúkrabeð og dánarbeð og vætt þau tárum sínum í ákalli og von.
Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér, vaka láttu mig eins í þér. Sálin vaki þá sofnar líf, sé hún ætíð í þinni hlíf. (Ps.4:24)
Bænir Hallgríms eru bænir lífsins, andardráttur þess manns, er skilur takmörk sín, en heldur í von trúarinnar. Í þeim gengur okkur betur að mæta öllu því sem fyrir ber, jafnvel dauðanum. Við erum þakklát fyrir þennan fjársjóð og þessi kirkja vitnar best um það, helgidómurinn, sem þjóðin byggði til þess að varðveita þennan fjársjóð, svo að hann mætti gefa bestan arð í mannlífinu öllu, vera heill í stríði lífsins, líkn í sálarneyð, styrkur í andstreymi og vonarljós í sorg.
Í lífsbaráttu sinni auðnaðist Hallgrími að leggja eyru við kalli Drottins og íklæðast brúðarklæði, sem tilheyrði. Við njótum þess með honum enn. Hefur þú, góði kirkjugestur, ekki verið með í því, þegar fjölskyldan undirbýr skírn nýfædds barns og borinn er fram skírnarkjóllinn fallegi, dýrdripur fjölskyldunnar, sem áreiðanlega var gerður af listfengi, natni og alúð. Saumaður, heklaður, jafnvel balderaður og skatteraður. Síðan umvafinn litlum kroppi, sem iðaði af eftirvæntingu, eftir því að fá að vaxa og dafna. Ef til vill hafði einhver annar úr fjölskyldunni eða vinahópi einhvern tíma áður verið íklæddur þeim sama skírnarskrúða, jafnvel margir. Það ríkir tilhlökkun og það kvikna björt bros og það býr mikil von í því atferli öllu. Hinn hvíti skírnarkjóll er játning fólksins gangvart því, sem aldrei verður útskýrt til fulls, heldur aðeins meðtekið í trú og þakklæti. Hann minnir okkur á fyrirheit Drottins Jesú, leiðsögn hans og fylgd í lífinu, og von eilífs lífs í dauða hans og fyrir upprisu hans. Skírnarkjóllinn er í sjálfu sér ekki sáluhjálp barnsins, heldur augljós hvatning og staðfesting fyrir þá sem umvefja það elsku sinni og heita því að fylgja barninu eftir, koma því til manndóms og gefa því með bænum sínum, og í fyrirheiti Guðs, hlutdeild í arfleifðinni. Og í því ljósi, þakkargjörðar og bænar, verður það hvíta klæði barninu sálarheill. Kynslóðir koma og kynslóðir fara.
Íslensk arfleifð er íslenskur siður. Hann á sér rætur hvaðanæva úr veröldinni og hefur sitt sérlega yfirbragð í þessu landi, frá upphafi landsbyggðar. Þræðir þess siðar liggja til heimsmenningarinnar og sögunnar allrar. En íslenskur siður er sá siður, sem hefur orðið til og veðrast og vaxið á meðal þjóðarinnar frá upphafi hennar. Þjóðin bar gæfu til þess að sameinast um einn sið. Þar eru lögin efst, því að öllum ber að gangast undir landslög, til þess að friður megi haldast. En þau lög byggja á trú og siðferðisgrunni, sem er fyrst og fremst sú arfleifð, sem við eigum í viðhorfi Jesú Krists til mannlífsins og þeirri afstöðu, sem hann auðsýndi sjálfur gagnvart hverjum og einum, sem hann átti samskipti við og urðu á vegi hans. Þar eru í gildi viðhorf, sem varða jafnræði, tillitssemi og réttlæti. Þau byggjast einmitt á hinni gullnu reglu Jesú Krists. Sú regla var til löngu fyrir daga Ingólfs Arnarsonar, löngu fyrir Jesú Krist, en í neikvæðri mynd. ‘Allt sem þú vilt ekki að aðrir menn gjöri þér, skalt þú þeim ekki gjöra’. Þessi gamla regla leiðir til sinnuleysis og afskiptaleysis. - Láttu mig í friði og ég læt þig í friði -. En Jesús segir: “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.” Mt. 7:12. Í þeirri gullnu reglu felst köllun. Stíg fram, hjálpar þinnar, afskipta þinna og umhyggju er þörf. “Hafið því nákvæmar gætur á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir, .. reynið að skilja hver sé vilji Drottins”. (Ef. 5). Hér er köllun til þjónustu. Umburðarlyndis. Meðaumkvunar. Kærleika. Já, hér er köllun til hjálpræðis. Og við erum fyrir kall Drottins fulltrúar hans í því verki. Sá sem er íklæddur hinum hvíta skírnarkjól, er ekki aðeins umvafinn elsku Guðs og fyrirheitum, heldur mun sá og “...íklæðast hinum nýja (manni), sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns”. (Kol. 3:10).
Jesús höfðar sjálfur til arfleifðar sinnar þjóðar, þegar hann líkir himnaríki við konung, sem gjörði brúðkaup sonar síns. Hann skírskotar til Jesaja, sem hann þekkti vel úr eigin helgihaldi: ´”Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu.” (Jes. 61:10).
Ég óttast mest, um þessar mundir, að samtíminn sé að verða ólæs á arfleifðina. Það ríkir hér, nú orðið, sorglegt ólæsi á heilaga ritningu og allt það góða sem hún hefur fært þessari þjóð. Hvernig eigum við, sem höfum fengið að erfðahlut svo mikilvægt kall til heilbrigðrar samfélagsstefnu, sem kristindómurinn færir okkur, að geta skilið, hver sé grundvöllur siðgæðis og þekkingar og mannskilnings, ef við kunnum ekki að lesa einföldustu tákn trúar og um leið menningar. Ef við horfumst í augu við samtímann, verður okkur ljóst, að hann getur ekki einu sinni skilið helstu bókmenntir vestrænnar menningar, af því að hann þekkir ekki táknmál arfleifðarinnar, trúarinnar, Biblíunnar.
Erum við þá eitthvað vitlaust klædd? Erum við t.d. ekki íklædd ótta og vantrú, þegar við lokum okkur inni í ráðleysinu yfir ofbeldi götulífsins, í stað þess að þyrpast út á göturnar og mæla gegn ógninni, sameinuð og af skilningi, þekkingu, kjarki - og réttvísi. Gildir ekki einmitt að skilja eymd þeirra, sem beita ofbeldinu,- að þeir ráfa um í vansæld fávísi og stjórnleysis, úr takti við raunsæja sjálfsmynd og mannlífsmynd og hafa misst fótfestuna í heimsku sinni. Það er eiginlega ekki rétt orð, heimska, heldur færi betur að líkja því við sjúklegt ástand. Aukinn skilningur á hugsunarhætti ofbeldismannsins, og vilji samfélagsins til að bæta þar úr, getur eitt ráðið við slíkan þríhöfða þurs. Það heitir á táknmáli Biblíunnar að íklæðast hjálpræði, réttlæti og miskunnsemi. Neyðaróp fórnarlambanna eru há, en hlustum við nógu vel á þau? “Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við!” (Jes.55).
Við gleðjumst yfir frjálshyggju samtíðarinnar. Með því viljum við gjarnan vera fullgildir veislugestir í brúðkaupi lífsins, klædd réttum klæðum, en eru það föt keisarans? Frelsishugtak samtíðarinnar er fyrirbæri, sem þarf að skoða og skilgreina, mun betur en gert er. Frelsi gengur ekki út á það að gera hvað sem er. Ef frjálshyggja miðar að því að kasta arfleifðinni á glæ, megum við gæta þess, að slík stefna verði okkur ekki “fótakefli til hrösunar”. Frelsi mannsins miðar að því að verða frjáls frá eymdinni, óöldinni, ógninni, heimskunni, og hafa vilja og þor til þess að takast á við ósköpin, óttalaust, sameinuð, - og í nafni Drottins. Ekki til að drottna, heldur til að þjóna og elska náungann..
Mörgum er í nöp við þjóðkirkjuna. Þeir hamast linnulaust á því, að hún sé helsi á vitsmunalegt mannlíf. Það er auðvelt að hafa uppi hróp, en afleiðingar slíkrar niðurrifsstefnu geta orðið alvarlegar. Þessi þjóð er smá og þarf á samheldni að halda. Dæmisaga Jesú, í dag, lýsir útkastinu og talar um grát og gnístran tanna. Er það ekki einmitt raunveruleiki hörmungarinnar, sem sýnir sig, ef við höfnum boðinu, sem kallar okkur til ábyrgðar og hlýðni við þau siðferðislegu grundvallarsjónarmið, sem felst í kærleiksboðum kristninnar og vestræn menning stendur á?
“Vinaleið” kristinnar, arfleifðarinnar, er ekki mjög flókin í reynd, þó tortryggnisraddir heyrist:
“Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. ... En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans. ... Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir. ...Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann.” (Kol. 3).
Hallgrímur færir arfleifðina fram og opinberar hana sinni kynslóð og komandi kynslóðum fram til þessa. Hann byggir auðvitað á orði Drottins Jesú. Marteinn Lúter var forgöngumaður, öldinni á undan. Hann kenndi okkur að lesa Heilaga ritningu. Hann opnaði okkur leið að fjársjóði hennar með þekkingu, þýðingu og þrotlausri baráttu gegn fastheldni lögmálsins og þjónkun kerfisins við rangláta túlkun og ígangsklæði þröngsýni og afneitunar, sem ekki áttu við. Fyrir honum var viðmiðunin Drottinn einn, Jesús Kristur, lífið og ljósið í öllu því sem varðar manneskjuna, þig og mig. Barátta hans hefur verið kölluð siðbót. Og allur hinn vestræni heimur hefur reyndar viðurkennt að það eru ígangsklæði, sem hæfir vitsmunalegri veröld í samhljóðan við kærleika Guðs. Það merka og yndislega málþing, sem haldið var hér í kirkjunni í gær undirstrikar það.
Arfleifð þjóðmenningar okkar er dýrmæt. Þar mætast lög og trú í hlýju og þéttu handtaki. Hér er rúm fyrir alla þá, sem fylgja vilja lögum landsins. Og lögin byggjast á gullnu reglunni, ennþá að minnsta kosti. Látum vísdómsorð Hallgríms fylgja okkur héðan í dag. Þau orð hans eru líka yfirskrift þessa predikunarstóls og valinn til að vera þar af þeim boðbera fagnaðarerindisins, sem stóð á óbyggðum grunni þessarar kirkju fyrir rúmum 60 árum og hvatti til byggingar þessa guðshúss. Í dag er það þjóðarhelgidómur.
Láttu Guðs hönd þig leiða hér, lífsreglu halt þá bestu: Blessuð hans orð, sem boðast þér, í brjósti og hjarta festu. (Ps. 44:10)
Amen.