G8 - „Vér mótmælum“ - málþing á Sólon

G8 - „Vér mótmælum“ - málþing á Sólon

Hvar erum við? Því miður er svarið að verða nokkuð ljóst. Við erum í skuldafangelsi. Það er staða sem fáir gátu gert sér í hugarlund að kæmi hér upp. Þjóðin á erfitt með að ímynda sér hvernig það gat gerst, harðduglegt, óspillt og heiðarlegt fólk!

G8 hópurinn

Í fyrri greinum okkar höfum við fjallað um þá óvissu sem ríkir í samfélaginu eftir hrun fjármálakerfisins og spurt á hvaða leið við séum sem einstaklingar og þjóð. Auðvitað spyrjum við líka: Hvar erum við? Því miður er svarið að verða nokkuð ljóst. Við erum í skuldafangelsi. Það er staða sem fáir gátu gert sér í hugarlund að kæmi hér upp. Þjóðin á erfitt með að ímynda sér hvernig það gat gerst, harðduglegt, óspillt og heiðarlegt fólk!

Nú vitum við að bankar og fjármálafyrirtæki stunduðu fjárhættuspil á alþjóðlegum fjármálamarkaði og náðu að skapa skuldir í erlendum gjaldeyri sem svarar margföldum árstekjum allra íslenskra launþega samanlagt. Spuni, hönnuð hugmyndafræði, sem var skrumskæld mynd af veruleikanum, gerði þetta mögulegt. Of margir kjörnir fulltrúar, stjórnmálamenn og embættismenn léku með í farsanum sem nú hefur snúist upp í harmleik.

Þjóðfundur þá og nú

Spurningin um sjálfstæði Íslands gerist nú æ áleitnari. Það er ekki aðeins að afstaðan til Evrópusambandsins veki upp þessa eldfimu spurningu. Þar vegur allt eins þungt svokölluð samvinna okkar við Alþjóðagjadleyrissjóðinn og samningarnir um ICESAVE. Samningsstaða okkar er veik ef nokkur. Við hljótum að spyrja hvort það sé valmöguleiki fyrir Ísland að einangra sig taka ekki þátt í efnahagssamvinnu annarra þjóða,

Þjóðfundurinn 1851 markar þáttaskil í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Því var ekki óviðeigandi að efna til þjóðfundar nú með það í huga að marka rétta stefnu, spyrja þjóðina hvað henni finnist, hvert hún vilji fara. Það var gert á viðurkenndan vísindalegan máta og slembiúrtak úr þjóðskrá valið eins og gert er í stöðluðum markaðs- og viðhorfskönnunum. Úrtak sem myndaði smækkaða mynd af þjóðinni bar saman bækur sínar og tjáði sig um grundvallargildi. Niðurstaðan er sú að heiðarleiki er langmikilvægasti eiginleikinn í augum þjóðarinnar, það sem henni er hugleikið á þessum erfiðu tímum, leiðarljósið sem treyst er á við uppbyggingu Nýs-Íslands.

Sá sem er heiðarlegur segir satt, er sjálfum sér samkvæmur og horfist í augu við veruleikann. Þetta er það fyrsta sem við reynum að kenna börnum okkar. Næst í röðinni af grunngildum Þjóðfundarins 2009 er virðing, réttlæti og jafnrétti. Síðarnefndu gildin gefa heiðarleikanum inntak og merkingu. Frekari stoðum er skotið undir þetta ákall þjóðarinnar með gildunum sem koma næst í röðinni, en það eru kærleikur, ábyrgð og frelsi.

Fjölskylda og opinbert samfélag

Hér að framan eru talin kærkomin fjölskyldugildi í nútímalegu þjóðfélagi. Þessi gildi eiga þó ekki aðeins við um samskipti fólks í fjölskyldum og í nærumhverfi heldur eru þau traustur grunnur að samfélaginu í heild . Þetta er ekki nýjungagirni eða hagkaup þjóðar í kreppu heldur endurómur manngildishugsjóna sem sumar hafa vakað með þjóðinni frá upphafi, aðrar, eins og jafnrétti og frelsi, mótast í lífsbaráttu hennar og fyrir áhrif út í frá. Þessi gildi verða öll að ná festu í stofnunum Nýja-Íslands. Þegar skýrsla rannsóknarnefndar alþingis birtist verður tekist á um þetta. Túlka má Búsáhaldabyltinguna sem ákall um endurfæðingu þjóðarsálarinnar, að hún verði endurheimt úr viðjum þess óheiðarleika, vanvirðingar, ranglætis, misréttis, eigingirni og áþjánar sem hér hefur vaðið uppi að undanförnu.

Endurteknar alþjóðlegar samanburðarkannanir staðfesta að fjölskyldubönd eru sterk á Íslandi. Flestum er í blóð borið að styðja sína nánustu, standa með þeim og búa í haginn fyrir þá. Þetta er kærleiksríkt, kristilegt atferli sem skapar heilbrigða, dugmikla og frjálsa einstaklinga. Þessar sömu dyggðir og grunngildi geta hins vegar snúist upp í andhverfu sína þegar þær eru yfirfærðar í pólitískt samhengi. Kristur lagði áherslu á það þegar hann var genginn inn í opinbert hlutverk. Þá lagði hann þau sem ókunn voru að jöfnu við móður sína, bræður og systur. Einkavinavæðingin var honum framandi. Fyrir honum voru allir jafnir.

Hvaða erindi á kristinn boðskapur við Nýja-Ísland? Höldum áfram að ræða saman og leitum lausna. Til þess bjóðum við til málþings á Sólon í dag kl. 17.00.

Anna Sigríður Pálsdóttir Arnfríður Guðmundsdóttir Baldur Kristjánsson Hjalti Hugason Pétur Pétursson Sigrún Óskarsdóttir Sigurður Árni Þórðarson Sólveig Anna Bóasdóttir