Nú stöndum við trúlaus á tæpustu nöf

Nú stöndum við trúlaus á tæpustu nöf

Það er von okkar að söfnuðir kirkjunnar vakni til vitundar og verði fararbroddi vakningar til viðbragða í loftslagsmálum á næstu árum. Hver leiðangur byrjar heima og með því að maður býr sig undir hann. Það …
fullname - andlitsmynd Einar Karl Haraldsson
08. október 2017

Næstkomandi sunnudag verður samkirkjuleg kraftbirting í Hallgrímskirkju. Klukkan hálftíu hefst guðþjónusta Rétttrúnaðarkirkjunnar sem prestar okkar hafa opnað dyrnar fyrir. Þar mun græni Patríarkinn, Hans heilagleiki Barthólemeus I vera í forsæti. Hann er andlegur leiðtogi 300 milljón manna í Rétttrúnaðarkirkjunni og er hér í sinni fyrstu heimsókn til Íslands í boði Þjóðkirkjunnar, Alkirkjuráðsins og Hringborðs Norðurslóða, Arctic Circle. Barthólemeus I er merkur maður, sem látið hefur umhverfismál og friðarmál til sín taka. Mörgum mun eflaust þykja forvitnilegt að kynnast messusiðum Rétttrúnaðarmanna. Við fáum stutta klukkutíma gerð af messu Rétttrúnaðarkirkjunnar en þær geta á góðum degi tekið nokkra klukkutíma.

Í stað venjulegrar messu kl. ellefu verður svo samkirkjuleg guðþjónusta í tilefni af ráðstefnu Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina sem haldin verður í vikunni í Digraneskirkju og lýkur á Þingvöllum nk. föstudag með samþykkt og lestri ályktunar ráðstefnunnar á Lögbergi. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir og Patríarkinn verða við guðþjónustuna en prédikari verður Peter Loy Chong, Erkibiskup kaþólskra á Fiji eyjum sem hefur að einkunnarorðum „Kirkjan er heimurinn“ og gengur í sínum prédikunum út frá fólkinu og kjörum þess.

Á ráðstefnu Alkirkjuráðsins, sem ýmsir merkir kirkjuleiðtogar sækja, verður leitast við að svara þremur spurningum: Hvernig geta trúarsamfélög brugðist við niðurstöðum vísindamanna um loftslagsvá og niðurbrot vistkerfa og hjálpað til við að sannfæra almenning um nauðsyn þeirrar umbreytingar sem Parísarsáttmálinn frá 2015 kallar eftir til þess að koma í veg fyrir ofhlýnun af mannavöldum? Í öðru lagi er spurt: Hvað getum við lært af siðfræði og heimspeki frumbyggjasamfélaga og hvernig getum við tileinkað okkur þá lærdóma í nútímasamfélagi? Og loks: Hvernig getum við brugðist við og stutt eyjasamfélög í Kyrrahafi og Atlantshafi sem er nú ógnað af fellibyljum og hækkandi sjávarstöðu vegna hlýnunar af mannavöldum og bráðnunar íss af pólunum?

Heimur á heljarþröm?

Heimurinn kemur til okkar í sjónvarps- og útvarpsfréttum á hverjum degi. Meðan við kyngjum kvöldmatnum dynja á sjónum okkar fréttir og myndir af hörmungum, náttúruhamförum, fátækt, hungri, sjúkdómum og spillingu. Af þessu gætum við dregið þá ályktun að heimurinn sé á heljarþröm. Nútíma fjölmiðlun færir okkur þó ekki endilega alltaf rétta heildarmynd. Það nægir að renna augum yfir Skýrslu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun frá 2016 til þess að sannfærast um að endurnýjuðum þúsaldarmarkmiðum um útrýmingu fátæktar og bjargarleysis miðar áfram þótt í alltof hægum skrefum sé.

Þannig hefur sárasta fátækt eins og hún er skilgreind minnkað um helming á árunum 2002 til 2012, þótt enn búi áttunda hver manneskja í heiminum við slík kjör. Þótt átta hundruð milljónir manna gangi hungraðar til hvílu á hverjum degi hefur hungri samt verið bægt frá dyrum mikils fjölda á mikilvægum hagvaxtarsvæðum. Í mennta og heilbrigðismálum hafa orðið verulegar framfarir með alþjóðlegri baráttu við farsóttir og malaríu og með skipulegri fræðslu. Barnadauði hefur minnkað um 44% frá 1990 til 2015. Og jafnvel þótt fréttir af stríðsátökum og hryðjuverkum teljist til okkar daglega brauðs þá er samanburður við fyrri tíma þannig að heimurinn sé í raun síst ófriðvænlegri en áður var.

En samt, samt er heimurinn á heljarþröm. Og þá á ég ekki við kjarnorkuvopnaskak Norður-Kóreu og orðastríð Kim Young-Un og Trumps forseta. Nei, það er ráðsmennska og drottnun mannsins yfir jörðinni og vistkerfum hennar sem er að koma mannkyninu í koll.
Í fyrra kom út á íslensku hjá Bjarti - Hafbókin eftir Morten A. Ströksnes sem hefur undirtitilinn „Listin að veiða risaháfisk á gúmmíbáti fyrir opnu hafi árið um kring“ í þýðingu Höllu Kjartansdóttur. Merkileg lesning fyrir okkur eyjarskeggja á norðurslóð.

Þar fjallar Ströksnes meðal annars um þá staðreynd að á síðustu 500 milljónum ára hafa fimm svokölluð aldauðaskeið gengið yfir jörðina af völdum loftsteina, stóreldgosa eða annarrar röskunar sem hefur sett vistkerfin úr skorðum. Við erum hér að tala í jarðsögulegum tíma, sem við skiljum raunar ekki, en í þeim tímaramma er þetta tiltölulega nýlegt þar sem jörðin er 4.5 milljarða ára gömul. Vondu tíðindin eru þau að vísindamenn sem skrifa í ritin Science og Nature segja að sjötti aldauðinn kunni að vera hafinn. Þannig hefur stjarneðlisfræðingurinn Stephen Hawking sagt nýlega: “Mannkynið verður að nema fjarlæg sólkerfi innan næstu 100 ára - að öðrum kosti mun það deyja út”.

Hafið tekur lengi við, en..

Ströksnes segir að sínu leyti: “Við vitum hvað orsakar sjöttu fjöldaútrýminguna. Við höfum aðeins verið hérna í fáein árþúsund en við höfum dreift okkur um alla jarðarkringluna. Við höfum verið frjósamir og okkur hefur fjölgað. Við höfum fyllt jörðina og lagt hana undir okkur. Við drottnum yfir fiskum hafsins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.”

Hann er fyrst og fremst að horfa á hafið sem þekur 70% af jörðinni og er ekki aðeins mikilvægasta súrefnisuppspretta okkar heldur dregur einnig í sig óheyrilegt magn af koldíoxíði og metangasi. Efnasamsetning hafsins er að breytast. Það súrnar. Víða á strandsvæðum þar sem áður iðaði allt að lífi eru steindauð og súrefnislaus svæði.

Þegar kolefnisdíoxíð leysist upp í vatni súrnar vatnið. Sýrustig hafsins er að nálgast þau hættumörk sem ógna lífi skelja og skeldýra, kóralrifja, ljósátu og svifdýra sem eru aðalfæða fiskanna. Margar tegundir eru að gefast upp og flýja norður til að hrygna. Yrði hafið of sýrt munu flest stærri lífsform sjávar deyja út – neikvæð kveðjuverkun hefst og allt vistkerfið hrynur. Svifið sem nærir allt lífið mun hverfa en hið eitraða mun lifa.

Deyi svifið, sem leggur okkur til helmings þess súrefnis sem við öndum að okkur, verður jörðin okkar óbyggileg. Hafið tekur lengi við en ekki endalaust. Losni metangasið sem liggur á botninum eru hamfarir framundan. Sýkingarferlið í hafinu er hægvirkt ferli. Hafið hefur um þrjátíu ára viðbragðstíma. Það getur því orðið of seint að grípa inní.

Við getum haldið áfram að bæta dráttum í þessa kolsvörtu mynd. Fjöldi villtra dýra – spendýra, fiska og fugla - hefur helmingast á síðustu 40 árum samkvæmt upplýsingum World Wild Life Fund – orsakirnar eru dráp til viðurværis og viðskipta, mengun eða eyðilegging á búsvæðum. Sérstaklega í ám og vötnum. Í dag hverfa tegundir á svo miklum hraða að vísindamenn líkja því við útrýmingu á öllum risaeðlunum sem gekk yfir á nokkur hundrað árum.

Kjósendur áhugalausir

Ég ætla ekki að halda svona áfram. En í ljósi þessa sem sagt var verður það að teljast fádæma sinnuleysi þegar háttvirtir kjósendur á Íslandi setja menningar- og umhverfismál í neðsta sæti sem áherslumál fyrir komandi kosningar - þegar öll okkar menning og allt umhverfið er í hættu. Við Íslendingar teljum okkur að vísu hafa úr háum söðli að detta í loftslagsmálum. Og vissulega eru 99% af þeirri orku sem við nýtum til húshitunar og rafmagnsframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum. En við stöndum ekki svo framarlega þegar losun gróðurhúslofttegunda er mæld eins og Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands gerir. Neysludrifið kolefnisspor Íslendinga reynist vera sambærilegt við ESB lönd. 71 % prósent útblásturs heimila á Íslandi er nefnilega vegna innflutts varnings og útblástursbyrðin er að mestu í þróunarlöndum. Kolefnissporið er 55% stærra en útblástursmælingar innan landamæra landsins gefa til kynna. Markmiðið sem íslensk stjórnvöld hafa sett um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030 nær því ekki utanum vandann.

Af hverju erum við svona værukær? Það er vegna þess að við skellum skollaeyrum við heimsendaspám og hræðsluáróðri. Ein af þeim stúlkum, sem hér voru virkar í æskulýðsstarfi Hallgrímskirkju, stundar nú rannsóknir í umhverfissálarfræði við Háskólann í Gautaborg. Hún tók m.a. þátt í rannsókn sem náði til 24 landa sem sýnir að almennt er fólk ónæmt fyrir því þótt spáð sé að illa geti farið í loftlagslagsmálum eftir 20 til 30 ár. Það sem virkar á fólk er ef því er sýnt fram á að mótvægisaðgerðum gegn ofhitnun jarðar fylgi hliðaráhrif sem séu jákvæð fyrir það sjálft í formi betra og vinsamlegra samfélags eða hafi í för með sér efnahagslegan eða félagslegan ávinning fyrir það persónulega. Dæmi sem Gró hefur tekið er þegar Reykjavíkurlistinn fékk almenning í Reykjavík til þess að fallast á holræsagjald rétt fyrir kosningar í því skyni að hreinsa strendur borgarinnar með því að lofa ylströnd í Nauthólsvík.
Þetta var einmitt atriði sem dr. Halldór Björnsson á Veðurstofunni hefur í vekjandi fyrirlestrum lagt áherslu á. Hann segir að það liggi ljóst fyrir í niðurstöðum vísinda að verði fyrirheitum Parísarsáttmálans (um að komið verði í veg fyrir að lofthjúpur jarðar hitni um meira en 2 gráður á þessari öld) ekki fylgt, sé voðinn vís. Við höfum hugsanlega 20 til 30 ár til þess að umbreyta lífsstíl okkar, framleiðsluháttum og orkunýtingu. Sumir segja meira, aðrir að engin loftslagsvá af mannavöldum sé fyrir hendi.

Því má líkja mannkyninu við þrjár mannverur sem berast með báti eftir straumhörðu fljóti. Sá sem rær í fyrirrúmi segir að lífshættulegur foss sé framundan, sá sem situr á miðþóftunni segir að ekkert liggi á því langt sé í fossinn. Þeir deila um hvenær séu síðustu forvöð að bregðast við og leggjast saman á árarnar til þess að ná landi. Sá þriðji situr í afturrúminu og segir að enginn foss sé framundan og hvort eð er sé hægt að bregðast við öllum hættum þegar þar að kemur. Lausnin á þessum lamandi ákvörðunarvanda hlýtur að felast í því að lokka alla þessa þrjá ræðara til þess að leggjast saman á árarnar og ná landi með fyrirheiti um að þar bíði betra líf heldur en ef látið er berast með hinum þunga straumi.

Hið góða líf er lausnin

Og það er einmitt mergurinn málsins að sé farið eftir Parísarsáttmálanum, loforðin hert og samdráttur í útblæstri gróðurhúsalofttegunda hafinn strax er þetta ekki tapað spil. Og aðgerðirnar sem grípa þarf til eru þess eðlis að þær boða betra samfélag. Hið góða líf. Það þarf m.a. að breyta kælikerfum og loftræstingum, verja regnskóga og líffræðilega fjölbreytni, flýta orkuskipum yfir í vind-, sólar- og vatnsorku, draga úr matvælasóun og neyta meiri matar úr plönturíkinu, auk þess sem stórauka þarf menntun stúlkna og kenna fjölskylduáætlanir. Allt þetta er jákvætt og til framfara fallið.

Hafa trúarsamfélög þá eitthvert hlutverk hér? Já, þau hafa djúpan skilning á manninum og eðli hans. Þau geta prédikað hið góða líf, náunganum, jörðinni okkar, til varnar. Þau hafa skyldur til þess að standa vörð um sköpunarverkið sem manninum var falin ráðsmennska yfir en ekki að drottna yfir.

Guðfræðin er frjór akur til þess að ræða þessi mál eins og glöggt hefur komið fram á Grænum sunnudögum hér í Hallgrímskirkju. Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir leiddi okkur í ljós hvernig hægt er að nýtúlka hugtökin synd, iðrun og yfirbót inn í okkar aðstæður, þar sem syndin táknar rofin tengsl við náttúruna, iðrunin að gera sér ljósa ábyrgðina á framferði okkar við jörðina og yfirbótin felst í því að leiða þá umbreytingu lifnaðarhátta sem kallað er eftir. Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir leiddi að sínu leyti fram þá guðfræðilegu hugsun sem ríkt hefði í 1500 ár eftir Krist að jörðin væri lifandi og náungi okkar sem koma bæri fram við í ljósi Gullnu reglunnar. Þessi lifandi sýn á jörðina vék síðan fyrir vísindahyggju og einstaklingshyggju í kjölfar iðnbyltingarinnar og kannski átti Lúter þar sinn þátt með því að leggja áherslu á einstaklinginn, samviskufrelsið og ábyrgð hans gagnvart Guði. En það var ekki hans sök að við skulum hafa ræktað sérhyggjuna en gleymt ábyrgðinni frammi fyrir Guði og sköpunarverkinu. Hér eiga við sálmaorð Dr. Sigurbjörns Einarssonar: „Nú stöndum við trúlaus á tæpustu nöf í töfrum vors synduga valds, ó varna oss frekar að vinna það tjón sem verður ei metið til gjalds!“

Vísar siðfræði frumbyggja veginn?

Ég minntist á rannsóknir Gróar Einarsdóttur hér áðan og ein af niðurstöðum þeirra er að í þjóðfélögum þar sem jöfnuður og jafnrétti er mest, þar er mestur skilningur á ábyrgð okkar gagnvart jörðinni. Í þjóðfélögum þar sem ójöfnuður er mikill og hver vill vera sjálfum sér næstur, þar er tilhneigingin hvað mest til þess að líta á manninn sem drottnara jarðar með rétt að fara sínu fram.
Í frumbyggjasamfélögum skipti hópurinn jafnt aflanum úr veiðiskapnum. Það er merkilegt að lesa hina nýju Íslendingasögu, Geirmundar sögu heljarskinns eftir Bergsvein Birgisson. Þar er leitt fram að Geirmundur muni hafa verið sendur af víkingum í Dyflinni til þess að veiða rostunga og seli um Breiðafjörð og Vestfjörðu til þess að nýta skinn þeirra í reipi fyrir seglastög og blanda selalýsi í tjöru til þess verja hina stóru víkingaflota fyrir trjámaðki. Með í för Geirmundar, sem hafði her manns um alla Vestfirði við þessar veiðar, voru Bjarmar frá Hvítahafsströnd en Geirmundur var úr þeirra ætt og giftur Bjarmakonu. Þegar Geirmundur hafði gengið svo nærri stofnum að menn hans fóru deyðandi hendi um látur rostunga og sela, sögðu Bjarmarnir sig úr lögum við norræna menn á Íslandi. Það var rótfast í þeirra siðfræði að þú drepur aldrei dýr í látri eða grandar búsvæði þess. Það er siðfræði af þessu tagi sem m.a. verður skoðuð á ráðstefnu Alkirkjuráðsins í vikunni.

Biskup Íslands óskaði eftir því í fyrsta sinn nú í vor að haustmánuður yrði lýstur í kirkjunni sem Tímabil sköpunarverksins eins og gert er víða í kristnum söfnuðum erlendis og hér hefur verið gert í Hallgrímskirkju með Grænum sunnudögum. Við sem höfum undirbúið málið áttum m.a. hlut að því að Guðfræðistofnun og Nefnd um Lútersafmælið héldu velheppnaða ráðstefnu 8. september sl. um loftslagsbreytingar og umhverfisguðfræði. Þá hefur nefnd á vegum kirkjuráðs flýtt endurskoðun á umhverfisstefnu kirkjunnar, sem er orðin 10 ára gömul, og verður hún lögð fyrir kirkjuþing til samþykktar síðar í haust. Það er von okkar að söfnuðir kirkjunnar vakni til vitundar og verði fararbroddi vakningar til viðbragða í loftslagsmálum á næstu árum. Hver leiðangur byrjar heima og með því að maður býr sig undir hann. Það þurfum við að gera.

Í Markúsarguðspjalli lesum við að þegar Jóhannes skírari hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs og sagði: „Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Takið sinnaskiptum og trúið fagnaðarerindinu.“ Hvað er guðsríkið? Það er það sem er hugsað, sagt og gert þar sem við vinnum með Guði. Okkur ber að vinna með Guði að því að sköpunarverkið þrífist og dafni og umgangast það og elska eins og náunga okkar.

Erindi flutt á Grænum sunnudegi í Hallgrímskirkju 8. október 2017