Hvað gerum við?

Hvað gerum við?

Fólkið á Austurvelli sem lemur í skaftpotta og sendir stjórnvöldum tóninn kann að nefna ýmsar ástæður fyrir reiði sinni. Mögulega má flétta öll þau svör saman svo að þau leiði til þessarar spurningar.

Eitt sinn heyrði ég sögu af manni nokkrum, eiganda bifreiðaverkstæðis. Hann var óbilandi áhugamaður um að efla starfsfólkið sitt og greip hvert tækifæri til að mennta það og fræða. Þannig fór hópurinn árlega út úr bænum þar sem mannskapurinn mátti sitja undir fyrirlestrum og námskeiðum áður en fólk settist að borðum og lyfti sér upp.

Hvað gerum við? Eitt skiptið voru þau saman komin á sveitahóteli og allir þóttust vita hvað var í vændum. Makar biðu á veitingastaðnum og gæddu sér á pinnamat en starfsfólkið sat í fyrirlestrasal. Að þessu sinni var enginn fyrirlesari mættur. Þarna var bara eigandinn og hann færði þeim þau ánægjulegu tíðindi að nú yrði engin dagskrá. Þau gætu farið í matsalinn til maka sinna, fyrst vildi hann bara fá svar við einni sakleysislegri spurningu. Og hver var hún? Jú, hún var á þessa leið:

Hvað gerum við í þessu fyrirtæki?

Eftir að hann hafði borið upp spurninguna kom vandræðaleg þögn en hún varði ekki mjög lengi, því einn úr hópnum rétti upp hönd og svaraði glaður í bragði - í þessu fyrirtæki er gert við bíla. En áður en hann og hópurinn allur náði að standa upp og halda inn í matsal, greip eigandinn fram í sagði: ,,Já, takk fyrir þetta, hárrétt, hárrétt svar - en samt langar mig að fá örlítið betri lýsingu á því sem við sinnum hér. Ég meina, hvað gerir þetta fyrirtæki?” Þau settust aftur og nokkur gáfu sín svör, en þau voru lítið annað en fyrsta svarið umorðað. Allt satt og rétt, en augljóslega var eigandinn að fiska eftir einhverju öðru og jafnvel dýpra en þessu.

Þetta var ekki eins auðvelt og einhverjir höfðu ímyndað sér. Þarna sat hópur starfsmanna, ók sér til í sætunum, kliður færðist um salinn, menn vildu geta sest að borðum með mökum sínum en komust hvorki lönd né strönd því enginn virtist geta svarað því almennilega hvað þau raunverulega gerðu í þessu fyrirtæki.

Þangað til einum datt snjallræði í hug. Hann kvaddi sér hljóðs og svaraði að bragði - ,,Við leysum samgönguvanda fólks.” Þögn sló á hópinn. Af viðbrögðum eigandans að dæma var loksins komið svarið sem hann hafði beðið eftir. Og ekki bara hann. Það var eins og allir starfsmennirnir hefðu fengið nýja sýn á störf sín og verkefni. Já, í hvert skiptið sem við lögum biluð farartæki, smyrjum, stillum, endurnýjum og hreinsum, já skúrum gólfin, gerum bókhaldið, hellum upp á kaffi og setjum pappír í ljósritunarvélina, erum við ekki að gera við bíla. Við erum að gera fólki kleift að ferðast örugg á milli staða. Við leysum samgönguvanda fólks.

Tilgangurinn með störfum þeirra opnaðist eins og i einni andrá og breytingin stóra var sú að það rann upp fyrir fólki að það hafði áhrif. Aðrir átti mikið undir því komið að þeir sinntu sínum störfum af kostgæfni. Þessi saga endar því ekki þarna. Á komandi tímum spruttu fram hugmyndir um það hvernig betur mætti sinna þessu verkefni. Sum verkefnin reyndust of umfangsmikil en öðrum mátti sinna af meiri kostgæfni.

Tilgangur samfélags Og þessi saga er auðvitað saga hvers samfélags sem á sér tilgang og hefur forystusauði sem eru vissulega mishæfir í að hjálpa því að rækja hann og sinna. En áttum okkur á því að hæfnin og færnin er í raun ekki það sem skiptir sköpum, heldur sú sýn sem þeir hafa. Hvert er markmið starfa þeirra og hvaða vandi er það sem þeir leitast við að leysa?

Fólkið á Austurvelli sem lemur í skaftpotta og sendir stjórnvöldum tóninn kann að nefna ýmsar ástæður fyrir reiði sinni. Mögulega má flétta öll þau svör saman svo að þau leiði til þessarar spurningar. Hvað gera stjórnvöld? Tilgangur þeirra er alls ekki sá að hefja sig yfir okkur hin, búa sér önnur skilyrði, reikninga í fjarlægum löndum á meðan allir aðrir norpa með sín lán og þennan ótrausta gjaldmiðil? Markmið stjórnvalda er alls ekki að skapa sjálfum sér forréttindi, nei við viljum einmitt að þau svari þessari spurningu á sömu forsendum og bifvélavirkjarnir gerðu - hver er sá vandi sem þau leysa og hvert er það ástand sem þau vilja koma á?

Svona spurning er einkar gagnleg fólki sem stendur á tímamótum. Eins og sagan ber með sér, þá minnir hún okkur á það að við höfum einhvern tilgang með störfum okkar. Leiðum við hugann að því dags daglega? Ekki endilega. En tilgangurinn er þarna samt. Það er ótrúlegt hvað það breytir miklu í lífi okkar þegar við opnum augun fyrir þeirri staðreynd.

Ólíkir hirðar Og nú hlýddum við á lestur guðspjalls um ólíka hirða. Hverjir þurfa hirða? Jú, fólk sem er á ferð, er á leiðinni eitthvert. Fólk sem leggur í tilgangsríka göngu. Hópur sem stendur kyrr í sömu sporum þarf ekki að spyrja sig hvert leiðin liggur og hann þarf engan hirði. En við eigum okkur stefnu, við mennirnir, og hversu meðvituð sem við kunnum að vera um það, þá á líf okkar að sönnu ríkulegan tilgang. Þegar Kristur dregur upp mynd af góðum og slæmum hirðum dregur hann saman hlutverk sitt og í raun tilgang allra þeirra sem eru hluti af liðinu hans.

Góði hirðirinn setur ekki eigin hagsmuni ofar hag annarra. Ef þeir stangast á við hag heildarinnar, þá hljóta þeir að víkja. Slík forysta byggir á þeirri sannfæringu að hann hafi þá frumskyldu að þjóna samfélaginu sem hann leiðir. Hlutverk leiðtogans er því það að styrkja þá og efla sem í kringum hann starfa í eigin leiðtogahlutverki. Hann sækist ekki eftir völdum og áhrifum, þjónustan við samfélagið skiptir höfuðmáli í hverju því verkefni sem ráðist er í. Og besti mælikvarðinn er einmitt sá hvort fólkið er heilbrigðara, frjálsara og hæfara í dag en í gær.

Biblían er óður til þeirrar hugsunar að sönn forysta felist í þjónustu, að öll hagkvæmustu ytri skilyrði séu forsenda þess að geta lifað góðu lífi. Hún boðar ekki að hagur okkar felist ekki í því að yfirskyggja aðra og sanka að okkur sem mestu af takmörkuðum auðæfum jarðar

Spurningin er því ekki sú hvort veskin okkar tútna út eða hvort myndir af okkur fylla opnur fjölmiðlanna. Ekki hvort við skráum nöfn okkar á spjöld sögunnar. Nei, gjörðin sjálf stendur algerlega fyrir sínu og við finnum þegar fyrir því hvernig samviska okkar bregst við. Við styrkjum hinn þreytta og við eflum þá sem eru máttvana.

Hvað gerir þessi hópur? Já, kæru vinir, hvað gerum við? Hvernig myndum við svara slíkri spurningu yfir væri borin upp við borðstofuborðið í kvöld þegar fjölskyldan sest saman að snæðingi? hvað gerir þessi fjölskylda? Hvað gerir þessi vinahópur? hvað gerir þessi þjóð? Já, hvaða tilgang höfum við, hvað gerist ef við vöndum okkur sérstaklega við það sem okkur er ætlað að gera og hvað ef við vanrækjum það? Hvað er það sem dafnar og hvað drabbast niður. Getum við greint vandann sem hóparnir í kringum okkur eiga að leysa - og sjáum við þau verðmæti sem þeim er ætlað að efla? Um leið og við leitum svara við henni kann það að renna upp fyrir okkur að við sjálf erum í því hirðishlutverki sem Kristur lýsir svo vel í guðspjalli dagsins.