Vanafesta er nokkuð, sem tilheyrir aðventu og jólum. Vanafesta getur bæði fallið fólki vel í geð, en líka valdið pirringi. Þó er það nú almennt þannig að hún þykir kærkomið fyrirbrigði á þeirri hátíð, sem framundan er. Það eru margvíslegir siðir og venjur, sem einkenna jólatímann, siðir og venjur sem fólk hefur skapað og kynslóðir hlotið í arf og gert að sínum.
Ég man eftir því sem krakki að hafa setið yfir laufabrauðsskurði á aðventu með Bing Crosby á fóninum, þar sem hann söng White Christmas af mikilli innlifun, ég heyri enn óminn. Ég man eftir því sem krakki þegar faðir minn las jólaguðspjallið og fjölskyldan hlustaði andaktug á, áður en rjúpan var snædd á aðfangadagskvöld.
Eftir hátíðarkvöldverðinn las faðir minn síðan á gjafirnar, það voru magnaðar stundir, þrungnar vissri spennu, honum tókst að skapa andrúmsloft eftirvæntingar. Ég man að mér þótti það ægilegt þegar hann var leystur af hólmi í gjafaupplestrinum, það var mér hreint og beint áfall, viss missir og nýr gjafaupplesari gat fengið verulega óvægna gagnrýni. Þú átt ekki að lesa svona, heldur hinsegin.
Rjúpna og laufabrauðsilmur, angan af rótgrónum siðum og venjum og nú leggur maður sig allan fram um að skapa og veita fjölskyldu sinni svipuð jól, það er meira að segja skakklappast upp á heiðar til þess að ná í nokkrar grunlausar rjúpur, en þó einkum til þess að fá ilminn í húsið.
Og þá er ég svo lánsamur að eiga tengdafjölskyldu, sem tekur laufabrauð og ekki nóg með það heldur var það þannig þegar ég tók fyrst laufabrauð með tengdaforeldrum mínum, að á fóninn var settur Bing Crosby, sem söng White Christmas af sömu innlifun og áður og ég var leiddur inn í Paradís.
Með öllu undansögðu er ég að leggja áherslu á tvennt. Annars vegar þá staðreynd að lífið er breytingum háð, við förum frá einu æviskeiði til annars og með það í huga erum við hvert og eitt með reglulegum hætti að upplifa vissan missi, en að sama skapi erum við að eignast nýja hluti með hverjum þeim breytingum, sem við reynum.
Dæmi um þetta er þegar fólk tjáir sig um yfirstandandi kreppu með þeim hætti að þegar peningavélin hefur nú bilað, eignumst við á sama tíma ný viðhorf og ný gildi, sem eru á margan hátt hollari en áður. Nýtt skeið hefur tekið við í sögu þjóðar.
Vanafestan sem slík fær okkur til þess að finna vel fyrir öllum þeim breytingum, sem lífið hefur upp á að bjóða, og hún er að ákveðnu leyti sáluhjálp við þeim breytingum. Við höldum í jólasiðina og fleiri siði, sem vekja þannig upp minningar, Bing Crosby yfir laufabrauði er t.d. ómissandi þáttur við undirbúning jóla í mínu tilviki, hvað er það í þínu tilviki?
Þetta með minningarnar er reyndar seinna atriðið sem ég bendi á með þessari hugvekju, þar vil ég vekja athygli á þeirri stóru gjöf, sem minningarnar eru manni og hversu mikilvægt það er að skapa sterkar og jákvæðar minningar handa afkomendum okkar, sem þeir geta síðar ornað sér við þegar við erum ekki lengur til staðar.
Minningin sem slík getur verið drifkraftur í því samhengi að hún fær okkur til þess að halda áfram, hún þarf ekki endilega að skilja eftir sig tóm, heldur getur hún hlúð að því að það verður áframhald á siðum og venjum sem við tengjum við ástvini okkar.
Jólatíminn er í þessu sambandi sérlega mikilvægur, sú hátíð er með sanni fjölskylduhátíð, er snertir á margvíslegan hátt hjartans hörpustrengi, sumir tala um hinn kristna kærleiksboðskap sem meginástæðu fyrir sterkum tilfinningum, barnið litla og fátæka sem fæddist í Betlehem, aðrir hugsa um eitthvað allt annað, jafnvel inntak hátíðarinnar áður en Jesúbarnið leit þessa veröld þ.e.a.s. jólin sem forn vetrarsólstöðuhátíð.
Burtséð frá því þá er það tilfellið að jólin eru mjög mörgum djúpstæður tilfinningatími, þar sem fjölskyldan kemur saman eða ekki og ég þykist vita af þeirri reynslu, sem ég hef hlotið á starfsvettvangi mínum, að það eru margir sem minnast sérstaklega jólahátíðarinnar, þegar verið er að rifja upp minningar um látinn ástvin.
Þá búa sömuleiðis ýmsir við það að hafa ekki upplifað og hlotið þau gæði, sem jólin geta vissulega veitt, og í því felast sterk særindi og dýpri sorg en nokkurn getur grunað.
Það er nefnilega þannig að við syrgjum líka það, sem við töldum okkur eiga rétt á að eignast. Barnið, sem eyðir jólum með drukknum foreldrum er að fara á mis við mjög margt, ekki hvað síst vegna þess að það kann að hafa jafnframt myndina af eðlilegum jólum, hvað þau geta verið gefandi og björt.
Ég hef ósjaldan tekið eftir jólasögum, sem draga fram mjög dramatíska mynd af jólum og birta erfiðar stundir fólks yfir jól og hvernig það virðist vera eitt í heiminum á þeirri hátíð. Þar er fjallað um fátækt, einmanaleika, köld hjörtu, sorg og óréttlæti. Jólasagan frá Betlehem fjallar líka um þetta og hið breiða litróf mannlegra tilfinninga og breytinga í lífi manneskjunnar.
Ein af þessum dramatísku jólasögum, sem hefur snert fólk á einstæðan hátt er saga H.C. Andersen um litlu stúlkuna með eldspýturnar. Sagan sú er gimsteinn, því hún dregur fram svo marga þætti, sem ég hef þegar komið inn á hér rétt eins og gildi minninga, það að syrgja það sem þú taldir þig eiga rétt á að öðlast og sömuleiðis kemur hún inn á þær stóru breytingar sem verða á lífi og æviskeiði stúlkunnar er hún gengur til móts við eilífðina með ömmu sinni, sem var eini aðstandandi stúlkunnar, sem látið hafði sér annt um hana.
Við höfum mörg fellt tár yfir þessari sögu, enda aðalpersónan fyrir það fyrsta barn, sem á allt gott skilið, en þarf að horfast í augu við miskunnarleysi veraldarinnar og það meira að segja á sjálfri jólahátíðinni.
Það er fleira, sem kemur fram í þessari mögnuðu sögu Andersen, og er vert athygli, og sem má hnýta við þann boðskap sem jólin innifela. Rifjum aðeins upp. Litla stúlkan með eldspýturnar gekk um á gamlárskvöldi og seldi eldspýtur, sem enginn vildi kaupa af henni. Þannig þorði hún ekki heim til sín, vegna þess að þar bjóst hún við óblíðum móttökum föður síns. Hún skyldi selja og færa björg í bú.
Stúlkan tók það til bragðs að tendra ljós á nokkrum eldspýtum til þess að hlýja sér. Hún kveikti á fjórum eldspýtum alls, sem er á margan hátt táknrænt, því talan fjórir vísar til höfuðáttanna og þar með til heimsins, sem leggur áherslu á það að þarna var stúlkan að takast á við blákaldan raunveruleika þessa heims, sem getur reynst heldur óvinsamlegur.
Bjarminn af þeim ljósum, sem hún tendraði, birti það sem hún þráði, þætti sem okkur finnst á margan hátt svo sjálfsagðir. Fyrsta ljósið birti ofn, þar sem litla stúlkan hitaði sér. Annað ljósið birti veisluborð, þar sem fyllt gæsasteik kom vaggandi til hennar með hníf og gaffal í bakinu. Þriðja ljósið birti skrautlegt jólatré, sem af skein undursamleg birta og fjórða ljósið birti litlu stúlkunni látna ömmu hennar, sem var stúlkunni sérlega kær.
Með ömmu sinni fór stúlkan, þangað sem enginn var kuldinn, ekkert hungur og ekkert volæði, þær voru saman hjá Guði. Litla stúlkan með eldspýturnar varð úti síðasta kvöld ársins og fólk gekk framhjá og sá litla líkið með roða í kinnum og bros á vörum.
Stúlkan þráði öryggi, hún þráði athvarf, þar sem hún gat yljað sér, þar sem hún gat fengið mat að borða, þar sem hún gat notið birtu og síðast en ekki síst þar sem hún gat notið væntumþykju, en þannig þrífumst við best þegar við eigum hlýjar tilfinningar frá öðrum.
Það er stór þáttur þess þegar við tölum um jólin sem sterkan sess í hjörtum okkar, það er það sem gerir jólin oft svo erfið þegar ástvinar nýtur ekki lengur við. Gleymum því ekki að stærsta ógn litlu stúlkunnar og þar af leiðandi hennar mesta ógæfa, var það að hafa ekki aðgang að ástvinum sínum, geta ekki snúið aftur heim, það minnir okkur á það hvað það er dýrmætt að eiga góð samskipti við fólkið sitt og koma auga á þann munað að geta komið heim til sín, eða komið í fjölskylduboðin og látið sér líða vel á þeim vettvangi, umvafinn góðri nærveru þeirra, sem þar eru.
Í því ljósi sýnir það styrk kærleikans þegar litla stúlkan kveður þennan heim eftir að hafa tendrað ljósin fjögur og fylgir kærri ömmu sinni, það segir okkur ennfremur að sá kærleikur, sem af Jesúbarninu skín, skilur okkur aldrei frá ástvinum okkar, hvort sem þeir eru enn samferða okkur hér í heimi eða hafa verið kallaðir burt til æðra hlutverks.
Í þessu hvílir raunverulegt öryggi okkar, í kærleiksríkum samskiptum, samheldinni fjölskyldu, sterku fjölskylduneti. Hugum að því sem varð Jesúbarninu sjálfu til bjargar þegar það var borið inn í þennan heim, þegar það fæddist við mjög svo erfiðar og ógnvænlegar aðstæður.
Það var trú, það var gagnkvæmt traust og ást fjölskyldunnar, sem með Guðs hjálp komst undan kulda og grimmd heimsins, sem Heródes konungur var fulltrúi fyrir. Manneskjan getur lifað af hinar verstu aðstæður í veraldlegum skilningi, en síður andlega vannæringu, hatur, grimmd ellegar tilfinningalegan kulda.
Þess vegna erum við hvött til þess að stuðla að ríkidæmi í samskiptum okkar við fjölskyldu og vini? Hvenær gafstu þér síðast tíma til þess að hlúa að og rækta tengsl þín við foreldra, maka, systkini, ömmu eða afa og aðra ástvini?
Í þeirri umræðu hafa jólin svo skýrt og sterkt eðli og innihaldsríka merkingu. Það má fagna jólum sem gamalli vetrarsólstöðuhátíð eins og ýmsir vilja gera, en með fullri virðingu fyrir því þá felur það ekki í sér þau heilögu samskipti og tengsl á meðal manna, sem frelsarinn leggur svo ríka áherslu á og það meira að segja í sínu helsta boðorði, þar sem hann segir:
„Elska skaltu Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“
Guð gefi ykkur öllum gleðiríka og gefandi aðventu og jólahátíð.