Hinn viðkvæmi veruleiki

Hinn viðkvæmi veruleiki

Á námsárum mínum í guðfræði – fyrir rúmum áratug - var til þess ætlast að guðfræðinemar störfuðu sumarlangt á stofnun úti í þjóðfélaginu. Við Hildur vinkona mín völdumst inn á A2, geðdeild Borgarspítalans, sem svo hét þá. Frá unga aldri hef ég haft með höndum ein og önnur þjónustustörf, en ég þori að fullyrða að enginn starfsvettvangur hefur haft jafn rík áhrif á mig og störfin þarna á geðdeildinni.

Þegar Jesús hafði þvegið fætur lærisveinanna, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður? Jóh. 13.12

Á námsárum mínum í guðfræði – fyrir rúmum áratug - var til þess ætlast að guðfræðinemar störfuðu sumarlangt á stofnun úti í þjóðfélaginu. Við Hildur vinkona mín völdumst inn á A2, geðdeild Borgarspítalans, sem svo hét þá. Frá unga aldri hef ég haft með höndum ein og önnur þjónustustörf, en ég þori að fullyrða að enginn starfsvettvangur hefur haft jafn rík áhrif á mig og störfin þarna á geðdeildinni. Þar lærði ég að sýna umhyggju, einnig þeim sem ekkert hafa fram að færa í staðin. Þar skildi ég að ástúðar er þörf þegar sinnt er um viðkvæmustu þarfir vondaufs fólks. Þar laukst upp fyrir mér hinn sístarfandi kærleiki Krists, sem einskis krefst á móti.

Við umönnun á sjúkrastofnun, hvort sem hún er andleg eða líkamleg, reynir gríðarlega á þolinmæði beggja, sjúklings og þess sem hjúkrar. Viðkvæmir líkamshlutar sjúklingsins eru varnarlausir og sálarlífið sömuleiðis. Á skírdag þvoði Jesús fætur lærisveinanna. Fætur eru hluti þess sem við hyljum dags daglega, mikilvægur, en viðkvæmur hluti veru okkar. Fæturnir bera líkamann uppi og bera þess oft merki með snúnum tám og sprunginni húð. Ein hugdetta nútímans er að lögun og lengd tánna sýni persónuleika okkar. Sé svo er því meiri ástæða til að vernda þær fyrir átroðningi og augum annarra. Og hreinsunar er þörf.

Á tímum Jesú tíðkaðist að þjónar þvæðu fætur gestanna gangandi, rykuga og lúna. Svo er enn sumstaðar í heiminum, t.d. í Eþíópíu, þar sem sandurinn smýgur milli tánna. Það segja þeir sem reynt hafa að mikil lausn sé í því fólgin að finna líknandi hendur á fótum sér, sem þvoi í burt þreytu og skít, líkamlega og andlega talað.

Þetta fengu lærisveinanir að reyna, þegar Jesús gaf þeim þessa djúpu mynd þjónustunnar með fótaþvottinum. Þeir fóru hjá sér til að byrja með, fannst það ekki við hæfi að meistarinn og herran fengist við svo lítilmótlegt starf, en þar var Jesús ekki sammála. Með fótaþvottinum vann hann mikilvægt verk. Hann leysti lærisveinana undan lúnu og rykugu lífi og skóaði þá með fúsleiksanda til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.

Einmitt það gerir Jesús Kristur þann dag í dag. Hann leysir viðkvæman veruleika okkar undan hnútum og hnjóði, sprungum og siggi, ryki og rusli sem sest hefur að á milli dalanna í sálinni. Og hann spyr okkur: “Skiljið þið hvað ég hef gert við ykkur? Skiljið þið hvers vegna ég kem með lausn inn í líf ykkar?”. Við gætum svarað í þessa átt: “Þú þjónar mér, Jesú, af því að þú elskar mig. Þú sýnir ást þína til mín í verki, lætur þér annt um litlu mig og mínar þarfir. Þetta hefur þú gert og gerir hvern dag. Það er fyrir mig, en ekki síður fyrir þau hin, sem enn eru rykug og lúin í lífinu. Þú gefur hönd sem þvær og þurrkar tár, rödd sem huggar, faðm sem breiðir kærleikans hjúp yfir kvalinn huga. Þú hefur snert mína viðkvæmu veru svo ég geti veitt árstraumum ástar þinnar áfram – inn í viðkvæman veruleika veraldarinnar”.