Fermingarstörfin hornsteinn

Fermingarstörfin hornsteinn

Hvað sem um kirkjuna verður í stjórnarskrá skiptir öllu máli hver staða hennar verður með fólkinu. Það ákvarðast ekki í þingsölum, heldur í kirkjunum og á heimilunum. Því er það að sérstaklega ber að huga að því að fermingarstörfin skili góðum áhrifum á hjörtu ungmennanna og fjölskyldnanna sem og á söfnuðina.
fullname - andlitsmynd Jakob Ágúst Hjálmarsson
28. ágúst 2012

Það er heldur svalara í dag en verið hefur hér í Reykjavík og Hlíðarfjallið hvítt niður í miðjar hlíðar yfir Akureyri. Það er að koma haust og vetrardagskrá kirkjunnar að hefjast, fermingarbörn á haustnámskeiði í sumum kirkjum á dögunum og dagskrá þeirra víðast að fara í gang.

Okkur kann að sjást yfir það í dagsins önn hvað fermingarstörfin eru mikilvægur þáttur í lífi kirkjunnar og hversu mjög á þeim veltur um samleið kirkju og þjóðar. Hvert ár verður til mikilvægt hópefli með árgangi þrettán ára barna og fjölskyldum þeirra sem nær fyllingu sinni í glaðlegum hátíðisdögum að vori. Hugsum okkur augnablik ef aðeins helmingur barnanna í hverjum árgangi kæmu eða þriðjungur jafnvel. Slíkt gæti alveg gerst og þróunin gæti verið í þá átt. Það kvarnast stöðugt úr árgöngunum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Félagsleg áhrif fermingarinnar yrðu til muna minni og ekki almenn eins og er enn. Færra yrði á kirkjubekkjunum og allt talsvert dauflegra. Það sem mestu varðaði yrði þá að líf fólks með kirkjunni yrði sérlegt, líkt og „sértrúarsöfnuðirnir“, ekki almennt í neinum skilningi. Kirkjan hefði misst fótfestu sína og fljótlega fækkaði skírnum einnig.

Í Englandi eru fermingar til marks um ákvörðun um það að lifa lífi sínu með kirkjunni og er tekin af fáeinum á aldrinum 8-80 ára. Það er allt önnur athöfn en við þekkjum þar sem Þjóðkirkjan fær að blessa vegferð þjóðarinnar um tímans veg. Þar hefur kirkjan „marginaliserast“, færst á útjaðra samfélagsins. Jafnvel snjallir boðendur, eins og erkibiskupar þeirra hafa ekki hljómgrunn í samfélaginu og það af því að aðeins fáir sjá þá sem sína menn.

Hvað sem um kirkjuna verður í stjórnarskrá að lokum skiptir öllu máli hver staða hennar verður með fólkinu. Það ákvarðast ekki í þingsölum, heldur í kirkjunum og á heimilunum. Því er það að sérstaklega ber að huga að því að fermingarstörfin skili góðum og jákvæðum áhrifum bæði á hjörtu ungmennanna og fjölskyldnanna sem og á söfnuðina. Fermingarbörnin verða fyrst og fremst að fara frá starfinu með góðar minningar um það, því annars getur trúarmótunin ekki náð árangri. Foreldrunum þarf að finnast börnin sín og þau sjálf hafa auðgast af jákvæðri reynslu af þessu móti við kirkjuna. Söfnuðurinn verður að öðlast fullnægju og stolti þeirra sem hafa verið með um gott verkefni.

Því er með þessum skrifum kallað á það að sérstök áhersla verði lögð á það að efla fermingarstörfin í Þjóðkirkjunni. Það má gera með gæðastjórnun, þar sem starfsaðferðir verði metnar og þróaðar, starfsfólk þjálfað sem best, hvatt á allan hátt og bestu fáanleg verkfæri lögð þeim í hendur. Þetta er m.a. kjörið verkefni fyrir samstarfssvæðin sem nú eru í mótun, og þau þar sem mestan áhuga hafa og lag á hlutunum ættu að vera í forystu fyrir samstarfinu. Eflum fermingarstörfin! Það er nauðsynjaverk!