Innanríkisráðherra, frú Ólöf Nordal, vígslubiskupar, prestar, djáknar, gestir. Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin við setningu prestastefnunnar í dag. Ég vil nota tækifærið og þakka fólkinu hér í Grafarvogskirkju fyrir fundaraðstöðuna og allan undirbúninginn, ég vil þakka sr. Vigfúsi Þór Árnasyni fyrir prédikunina við guðsþjónustuna og þeim er þjónuðu með einum eða öðrum hætti. Einnig vil ég þakka Synodusnefndinni, hvar í áttu sæti fulltrúi prófastsdæmisins hér og Prestafélagsins, starfsfólki Biskupsstofu fyrir þeirra framlag við undirbúninginn sem og þeim er erindin flytja, málstofunum og biblíulestrunum stýra.
Efni stefnunnar – biblían og samfélagið
Eftir að hafa beint sjónum okkar inn á við í kirkjunni undanfarnar tvær prestastefnur er nú skoðað það samfélag sem við þjónum ásamt þeim grundvelli er við stöndum á þegar við boðum. Fyrirlestur, pallborðsumræður og málstofur taka mið af því. Tilgangurinn er að gera okkur betur grein fyrir því hvaða samfélagi kirkjan er að þjóna, hvernig kirkjan ætti að haga starfi sínu og boðun með tilliti til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað. Þá er stutt í umræðuna um hvort hægt sé að aðgreina trúna frá samfélaginu, hvort hún sé einkamál og eða samfélagsmál og hvort og þá hvernig kristið fólk geti haft áhrif á samfélagið í ljósi síns kristna lífsviðhorfs. Í ár höldum við upp á 200 ára afmæli hins íslenska biblíufélags með ýmsum hætti. Í hverjum mánuði ársins eru greinaskrif og viðburðir tengdir Biblíunni, en félagið var stofnað í húsi þáverandi biskups Íslands, Geirs Vídalín að Aðalstræti 10 hér í borg. Að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni var gengið heim á biskupssetrið og félagið formlega stofnað. Um þetta má lesa í fróðlegri bók sr. Felixar Ólafssonar um Ebenezer Henderson, sem var frumkvöðull að stofnun félagsins. Þar segir m.a.: „Hið íslenska Biblíufélag var stofnað á prestastefnu í Reykjavík 10. júlí 1815, og er því elsta starfandi félag landsins“. „10. júlí 1815 var mánudagur. Prestastefnan hófst með guðsþjónustu í dómkirkjunni, þar sem dómkirkjupresturinn sr. Árni Helgason prédikaði. Svo virðist sem heldur fáir prestar hafi verið þar mættir til fundar, og biskup var hvergi sjáanlegur. Hann hafði veikst kvöldið áður, og gat ekki tekið þátt í prestastefnunni. Samt sem áður má gera ráð fyrir að fjölmennt hafi verið í dómkirkjunni þennan dag“. „Eftir messu komu prestarnir saman á heimili biskups til venjulegra fundarhalda“.
Stefnt er að því að þann 10. júlí næstkomandi, á afmælisdegi félagsins verði guðsþjónusta í Dómkirkjunni kl. 18 og síðan verði gengið að Aðalstræti 10 þar sem nýtt skilti verður sett utan á húsið þar sem m.a. verður getið um stofnun félagsins. Aðalhátíðin verður þó ekki fyrr en 29. ágúst í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Um viðburði og fleira gagnlegt má lesa á heimasíðu biblíufélagsins, biblian.is.
Öldin er nú önnur en árið 1815 og hefur samfélag okkar breyst mikið. Orð Guðs stendur þó stöðugt þá sem nú. Á þessari öld hafa verið miklir fólksflutningar, fyrst innanlands, þar sem fækkað hefur á landsbyggðinni en fjölgað á suðvesturhorni landsins. Síðustu ár hefur fólk flust til annarra landa í auknum mæli, einkum til Noregs og má geta þess að þar í landi eru nú hátt í 20 starfandi íslenskir prestar hjá norsku kirkjunni auk þess sem íslenskir prestar starfa einnig í Svíþjóð, Þýskalandi, Írlandi, Kanada og Sviss. Er ánægjulegt að prestar hafa aftur flutt heim og miðla nú reynslu sinni af þjónustunni á norskri grund. Skipulag Þjóðkirkjunnar tók mið af sjálfsþurftarþjóðfélaginu þar sem meginmarkmiðið var að fullnægja grunnþörfum fjölskyldunnar. Það skipulag getur ekki gilt í markaðsþjóðfélagi nútímans þar sem ekki er skipst á vinnu og vörum heldur vinnu og peningum. Þau tæki sem Þjóðkirkjan notar til boðunar í dag eru fleiri en prédikunarstóllinn og engum hefði dottið í hug þegar biblíufélagið var stofnað að ráðinn yrði vefprestur til að halda utan um boðunina á öllum þeim miðlum sem til eru í dag. Mörgum þykir þó ekki nóg að gert við miðlun upplýsinga og nýtingu á tækjum til boðunar og er þess ekki langt að bíða að úr því verði bætt.
Bættar samgöngur auðvelda skipulag kirkjunnar og eiga þær sinn þátt í því að sameiningar prestakalla og prófastdæma hafa verið talin heppileg leið til hagræðingar innan kirkjunnar. Það vinnulag hefur verið tekið upp að við sameiningar prestakalla hefur sóknarnefndum verið gefinn rúmur tími til að bregðast við hugmyndum um þær. Auk bréfaskrifta hafa verið haldnir fundir með sóknarnefndum, prófasti og biskupum til að sem flest sjónarmið komi fram og auðveldi ákvarðanatöku kirkjuþings þegar og ef til hennar kemur. Draumafyrirkomulagið væri að heimamenn ynnu meira með yfirstjórn kirkjunnar í sambandi við skipulagsmál og fjármál þeim tengdum. Sóknin er grunneining kirkjunnar en menn hafa velt fyrir sér í vinnu við ný þjóðkirkjulög að söfnuður komi í stað sóknar sem félagsleg grunneining þjóðkirkjunnar. Með því er félagsleg skilgreining tekin fram yfir hina landfræðilegu. Félagsleg skilgreining er ágæt þar sem það á við en getur aldrei komið í stað hinnar landfræðilegu skiptingar. Fyrst ný þjóðkirkjulög ber á góma þá er vert að minna á að í gildi eru lög um þjóðkirkjuna, lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78 frá 1997. Að mínum dómi er farsælla að endurskoða þau lög en að semja ný lög frá grunni. Sú endurskoðun er brýn. Það er farið að standa kirkjunni fyrir þrifum að grunnskjalið sem skipulag og fyrirkomulag kirkjunnar byggist á hafi ekki verið fært til betra horfs.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fjölmenningarsamfélagið hefur hafið innreið sína í íslenskt samfélag. Það minnir okkur á að við erum hluti af stærri heild, sem er heimurinn allur. Það er ekkert nýtt að þjóðflokkar búi saman, fólk af mismunandi þjóðerni með mismunandi tungumál. Heimsmyndin er breytt, hið íslenska þjóðfélag er breytt. Þeim fjölgar hér á landi sem aðhyllast aðra trú en kristna. Í tæpan áratug hefur samráðsvettvangur trúfélaga starfað hér á landi. Markmiðið með honum er að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Samtal er besta leiðin til skilnings og lausna. Þjóðkirkjan hefur lagt sig fram um að auðvelda innflytjendum lífið hér og hefur haft prest þeim til þjónustu um árabil. Einnig hafa margir söfnuðir landsins haft sameiginlegt starf og messuhald þar sem innflytjendur taka virkan þátt. Prestur innflytjenda hefur einnig stutt hælisleitendur hér á landi. Á prestastefnunni í fyrra var biskup hvattur til þess að standa fyrir ráðstefnu, þar sem fjallað yrði um málefni hælisleitenda. Yrði sú ráðstefna haldin í samvinnu við utanríkisráðuneytið, RKÍ og útlendingastofnun. Ég hefur falið Þjóðmálanefnd að vinna að málinu í samráði við ofangreinda aðila, ásamt presti innflytjenda og hugmyndasmið tillögunnar.
Það hefur sett svip sinn á samfélag okkar undanfarin ár að fjöldamótmæli eru tíð miðað við það sem áður var. Fólk vill hafa meiri áhrif á þjóðfélagsskipanina en að kjósa á nokkurra ára fresti. Athygli vekur þó að sífellt fleiri kjósa að sitja heima á kjördag. Væntingar margra hafa ekki staðist og því grípa menn til ýmissa ráða til að láta það í ljós. Mótmælin eru leið til þess sem og úrsagnir úr þeim stofnunum sem hægt er að segja sig frá. Það eru eflaust margar ástæður fyrir því að fólk segir sig úr þjóðkirkjunni. Athygli vekur einnig að margt ungt fólk kýs að láta ekki skíra börnin sín. Ef ástæðan er sú að fólk hefur ekki nægan aðgang að upplýsingum um þýðingu skírnarinnar þá hefur Kirkjan ekki staðið sig á upplýsingaöld. Það er eitt af þeim verkefnum sem ekki má bíða með að sinna. Tölur segja okkur margt og gefa ákveðnar vísbendingar á hvaða leið við erum. Unnið er að því að bæta tölulegar upplýsingar Þjóðkirkjunnar og er eitt dæmi þess rafrænar skráningar skírna. Það er mikilvægt að nota nýja skráningarformið því um leið og við skilum því rafræna formi inn til Þjóðskrár þá erum við að skrá allar upplýsingar um skírnina inn í félagatal Þjóðkirkjunnar. Félagatalið varðveitir allar þær upplýsingar og eru þær tengdar hverri og einni kennitölu. Slíkt safn upplýsinga á eftir að nýtast kirkjunni á margvíslegan máta í framtíðinni. Við verðum öll að hjálpast að við þetta verkefni því mikilvægt er að hafa réttar upplýsingar sem gagnast okkur til framtíðar.
Þjóðkirkjan
Þjóðkirkjan á sér margar myndir í hugum fólks. Hún er að sönnu stofnun sem á að fara eftir lögum landsins og starfsreglum sem kirkjuþing setur. Stjórnsýsla hennar er flókin og erfitt að finna sambærilegar stofnanir hvað stjórnsýslu varðar nema þá helst Háskóla Íslands. Það er því aldrei hægt að stýra kirkjunni eins og fyrirtæki og heldur ekki eins og venjulegri stofnun því kirkjan á sér margar myndir. Í vísitasíum er áberandi hve vel sóknarnefndir, starfsfólk og prestar leggja sig fram um að hafa kirkjuhúsið og kirkjustarfið í góðu lagi. Þar mætir manni kirkja sem söfnuður Krists þar sem fagnaðarerindið er boðað í orði og í verki. Kirkja sem er sterk og er í miðju samfélagsins. Í fjölmiðlum mætir manni kirkja sem virðist vera allt önnur. Kirkja sem hefur ekki jafn sterka stöðu í samfélaginu og sóknarkirkjan. Það er þó ánægjulegt að skoðanakannanir sýna aukið traust til kirkjunnar. Það má geta þess að frá því þjóðkirkjan varð sjálfstæð árið 1998 hefur meðlimum hennar fækkað. Þeim fjölgaði um rúmlega 8000 fyrstu tólf árin en hefur fækkað um rúmlega 10000 á undanförnum árum. Niðurstaðan er heildarfækkun um 2150 meðlimi. Árið 2014 fækkaði um 714 manns í þjóðkirkjunni. Til samanburðar fækkaði um 60000 meðlimi í sænsku kirkjunni. Ef tekið er tillit til stærðar kirknanna þá er fækkunin hér á Íslandi tæpur þriðjungur af því sem er í systurkirkjunni. Þróunin í kirkjunum er samt svipuð: Meðlimunum fækkar. Við því þarf að bregðast og það gerist ekki nema við virkjum samtakamáttinn. Þar skipta mörg smáatriði máli. Eitt þeirra er að öll börn sem eru borin til skírnar séu jafnframt skráð í þjóðkirkjuna.
Tölulegar upplýsingar gefa einnig til kynna að traustið á kirkjunni er að aukast eins og áður sagði. Það mælist nú 36%. Hæst hefur það mælst rúm sextíu prósent árið 1999 og lægst 28% árið 2012. Síðan þá hefur það aukist. Við vitum af öðrum könnunum að meira traust mælist til sóknarpresta og starfsins í sóknum þjóðkirkjunnar. Traustið skilst kannski best með því að skoða það í samhengi. Þjóðkirkjunni er treyst betur en Borgarstjórn Reykjavíkur, Seðlabankanum og Alþingi. Það erum við þakklát fyrir.
Skoðanakönnun sem fram fór fyrir rúmum tveimur árum sýndi líka að meiri hluti þjóðarinnar vill að hún sé hér eftir sem hingað til vernduð og studd af ríkisvaldinu. Öflug kirkja er ekki endilega kirkja sem telur marga félaga. Öflug kirkja er kirkja sem vandar sig við boðunina og brennur í andanum. Sú kirkja er líkleg til að laða fólkið að. Þjóðkirkjan þjónar öllum ekki bara meðlimum sínum, þess vegna er hún Þjóðkirkja og hefur mikið samfélagslegt hlutverk. Hún er enda eina trúfélag landsins sem skuldbindur sig til að þjóna í nærsamfélaginu. Þjónar hennar eru því dreifðir um byggðir landsins og ekki er alltaf auðvelt að jafna þjónustubyrðina. Um það þarf að nást sátt. Gæði þjónustunnar skipta máli og prestar og söfnuðir þurfa að eiga þess kost að breyta til ef þeir vilja og þurfa. Eins þarf að festa djáknaþjónustuna í sessi til að allir landshlutar geti haft djákna í þjónustu sinni. Rödd kirkjunnar þarf að heyrast vegna þess að boðskapur hennar er byggður á bjargi sem bifast ei þó í móti blási. Hann skapar festu og hann vísar veginn.
Siðareglur og siðanefnd
Siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar tóku breytingum á kirkjuþingi árið 2013. Breytingin fólst í því að bætt var við hvert vísa ætti málum grundvölluðum á siðareglunum. Þar stendur nú að „Hver sá sem telur að vígður þjónn eða annar starfsmaður þjóðkirkjunnar hafi brotið framangreindar siðareglur getur leitað til biskups Íslands eða kært eftir atvikum“. Óskað hefur verið eftir því að siðanefnd taki mál fyrir telji menn á þeim brotið. Slík nefnd hefur ekki verið skipuð. Á meðan Alþingi hefur ekki afgreitt tillögu um breytingu á lögunum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar, þar sem meðal annars er lagt til að fella niður úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd hefur ekki verið talið ráðlegt að skipa siðanefnd. Líklegt er að Alþingi fallist ekki á að fella niður úrskurðarnefndina en skilgreining á hlutverki siðanefndar tekur mið af þeim úrræðum sem þegar eru til staðar í kirkjunni. Málið er sem sé til skoðunar en niðurstaða verður ekki fengin fyrr en Alþingi hefur afgreitt breytingartillöguna um lögin.
Tjáningarfrelsi
Með fjölgun þeirra miðla er prestar og djáknar nýta sér hafa komið upp spurningar um tjáningarfrelsið, sem svo mjög hefur verið til umræðu í heimi okkar. Skerðir vígslan tjáningarfrelsið? Siðareglurnar svara þessu að einhverju leyti. Úrskurðarnefnd hefur fjallað um eitt slíkt mál og komist að þeirri niðurstöðu að siðareglur hafi verið brotnar þegar færsla var rituð á fésbókarsíðu en hún var hluti af umræðu sem átti sér stað á síðunni. „Úrskurðarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að það bryti gegn 2. og 13. grein siðareglna þjóðkirkjunnar að vígður þjónn bæri á borð óstaðfestan orðróm.“ Hér túlkar úrskurðarnefndin siðareglurnar með skýrum og leiðbeinandi hætti.
Við skulum minnast þess þegar við látum frá okkur texta að „grundvallarregla mannlegra samskipta er gullna reglan: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.” (Matt. 7,12) Starfsfólk og vígðir þjónar kirkjunnar hafa þá reglu umfram allt að leiðarljósi“ eins og segir í formála að siðareglunum. Prestum ber auk þess að virða siðareglur presta, sem minna á að gæta virðingar í samskiptum sín í milli. Prestar eru þjónar og þó þeir skipuleggi þjónustuna og leggi áherslu á að fylgja hefðum kirkjunnar og hrynjanda kirkjuársins mega þeir ekki gleyma þjónustuhlutverki sínu. Prestar verða að leggja sig fram um að þjóna í auðmýkt og koma til móts við vilja sóknarbarnanna eftir því sem hægt er. Dæmi um þetta er þegar prestar neita að ferma á degi sem forverinn hefur fermt á. Það þurfa að vera ríkulegar ástæður fyrir því að verða ekki við þeim óskum. Það er óþarfi að ýta undir óánægju ef hægt er að koma í veg fyrir hana.
Þróunarverkefni
Eitt af því sem mikilvægt er að huga að til að efla starf þjóðkirkjunnar enn frekar er starfsumhverfi presta Þjóðkirkjunnar. Ákveðið hefur verið að fara í þróunarverkefni á því sviði. Fyrir liggur að ýmislegt má betur fara í þeim efnum, en nauðsynlegt er að gera ítarlega og faglega greiningu á því hvað sérstaklega brennur á prestunum og hvaða orsakir liggja þar að baki.
Markmið Könnun á starfsumhverfi presta þjóðkirkjunnar hefur að markmiði að fá fram viðhorf presta til starfs síns og starfsumhverfis. Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar til að setja fram áætlun í mannauðsmálum varðandi þá þætti sem brýnast er að þróa og breyta í starfi og starfsumhverfi. Þá nýtast niðurstöðurnar jafnframt sem viðmið þegar mat er lagt á hvernig til hafi tekist að ná settum markmiðum. En gert er ráð fyrir að könnunin verði endurtekin reglubundið.
Um framkvæmdina Biskupsstofa hefur fengið Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til liðs við sig til að framkvæma könnunina. Þá er gert ráð fyrir nánu samstarfi við fulltrúa Prestafélags Íslands sem og aðra sérfræðinga á vettvangi verkefnisstjórnar sem starfa mun náið með Félagsvísinda¬stofnun á meðan á vinnslu verkefnisins stendur.
Lykil verkþáttur í framkvæmdarferlinu er hönnun spurningalista með hliðsjón af sérstöðu prestsembættisins á meðal annarra embætta og starfa. Mögulegt verður að nýta spurningar úr Könnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna sem lögð var fyrir 16000 starfsmenn hjá 144 stofnunum á haustmánuðum 2006. Aðrar spurningar verður að móta sérstaklega í þessum tilgangi. Við þá mótunarvinnu verður m.a. litið til kirkna nágrannalandanna og kannanna sem gerðar hafa verið í sambærilegum tilgangi.
Undirbúningur þróunarverkefnisins stendur yfir. Framundan er að setja saman verkefnisstjórn og hefja undirbúning að hönnun spurningalistans í samstarfi við Félagsvísindastofnun. Stefnt er að því að spurningalistinn liggi fyrir í lok sumars þannig að hægt verði að leggja könnunina fyrir á haustmánuðum. Þátttaka presta þjóðkirkjunnar í þessu verkefni er mikilvægur svo marktækar niðurstöður fáist og sameiginlega verði hægt að bregðast við þeim.
Ég ber þá von í brjósti að þetta þróunarverkefni efli kirkjunnar þjóna og þar með Þjóðkirkjuna og þjónustu hennar um land allt.
Synodusárið
Á synodusárinu hafa 8 prestar vígst og 5 djáknar. Einnig hafa nokkrar breytingar orðið í skipan embætta. Nývígðir prestar Cand. Theol. Oddur Bjarni Þorkelsson var vígður 27. júlí 2014. Hann var skipaður prestur í Dalvíkurprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 15. júlí 2014. Cand. Theol. Davíð Þór Jónsson var vígður 14. september 2014 og skipaður héraðsprestur í Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2014. Cand. Theol. Ólöf Margrét Snorradóttir var vígð 14. september 2014 og skipuð prestur í Egilsstaðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. nóvember 2014. Mag. Theol. Sveinn Alfreðsson var vígður 14. september 2014 til þjónustu safnaðarprests í Lindaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Cand. Theol. Elín Salóme Guðmundsdóttir var vígð 28. september 2014 og skipuð prestur í Patreksfjarðarprestakalli, Vestfjarðaprófastsdæmi frá 1. október 2014. Cand. Theol. Eysteinn Orri Gunnarsson var vígður 14. desember 2014 til þjónustu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Cand. theol Salvar Geir Guðgeirsson var vígður 14. desember 2014 til þjónustu í Hamar biskupsdæmi í Noregi. Mag. Theol. Ása Laufey Sæmundsdóttir var vígð 22. febrúar 2015 til þjónustu í íslenska söfnuðinum í Noregi.
Nývígður djákni
Dóra Sólrún Kristinsdóttir, var vígð 14. september 2014, til djáknaþjónustu í Langholtspestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir, var vígð 14. september 2014, til djáknaþjónustu í Glerárprestakalli, Eyjafjarðar- og þingeyjarprófastsdæmi. Linda Jóhannsdóttir, var vígð 14. september 2014, til djáknaþjónustu í Ásprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Kristín Kristjánsdóttir, var vígð 28. september 2014, til djáknaþjónustu í Fella- og Hólabrekkusóknum, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Anna Elísabet Gestsdóttir, var vígð 22. febrúar 2015, til djáknaþjónustu í Útskálaprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi. Við bjóðum þau velkomin til þjónustu í kirkjunni og biðjum Guð að blessa þau og leiða.
Skipanir í embætti
Séra Bryndís Valbjarnardóttir, var skipuð sóknarprestur í Skagastrandarprestakalli, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi frá 1. ágúst 2014. Séra Þorgeir Arason, var skipaður sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi frá 1. ágúst 2014. Séra Eiríkur Jóhannsson, var skipaður prestur í Háteigsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. september 2014. Séra Kristín Þórunn Tómasdóttir, var skipuð sóknarprestur í Laugarnesprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. september 2014. Séra Arna Ýrr Sigurðardóttir, var skipuð prestur í Grafarvogsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. september 2014. Séra Ólafur Jóhann Borgþórsson, var skipaður sóknarprestur í Seljaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. september 2014. Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, var skipaður sóknarprestur í Hrunaprestakalli, Suðurprófastsdæmi frá 1. september 2014. Séra Sveinn Valgeirsson, var skipaður prestur í Dómkirkjuprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. september 2014. Séra Jón Ómar Gunnarsson, var skipaður prestur í Glerárprestakalli, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi frá 1. september 2014. Dr. Sigurður Árni Þórðarson, var skipaður sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. desember 2014. Séra Bryndís Malla Elídóttir, var skipuð prestur í Seljaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. desember 2014. Dr. Skúli Sigurður Ólafsson, var skipaður prestur í Nesprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 15. febrúar 2015. Séra Irma Sjöfn Óskarsdótti, var skipuð prestur í Hallgrímsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. apríl 2015. Séra Þráinn Haraldsson, var skipaður prestur í Garðaprestakalli, Vesturlandsprófastsdæmi frá 1. maí 2015. Séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir, tók við þjónustu sem héraðsprestur II í Kjalarnessprófastsdæmi frá 1. ágúst 2014. Séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson, tók við þjónustu sérþjónustuprests á sviði sáttamiðlunar og sálgæslu frá 14. október 2014.
Nýjir prófastar
Tveir nýir prófastar voru settir inn í embætti Séra Þórhildur Ólafs, prestur í Hafnarfjarðarprestakalli, Kjalarnessprófastsdæmi var skipuð prófastur í Kjalarnessprófastadæmi frá 1. febrúar 2015 Séra Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur í Háteigsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra var skipuð prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. apríl 2015.
Lausn frá embætti
11 prestar fengu lausn frá embætti á synodusárinu. Þau eru Séra María Guðrún Gunnlaugsdóttir, fékk lausn frá embætti prests í Patreksfjarðarprestakalli, Vestfjarðaprófastsdæmi frá 1. júlí 2014. Séra Valgeir Ástráðsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Seljaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. ágúst 2014. Séra Anna Sigríður Pálsdóttir, fékk lausn frá embætti prests í Dómkirkjuprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. ágúst 2014. Séra Bjarni Karlsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Laugarnesprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. september 2014. Séra Gunnar Björnsson, fékk lausn frá embætti sérþjónustuprests frá 1. nóvember 2014. Séra Jón Dalbú Hróbjartsson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Hallgrímsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá 1. nóvember 2014. Séra Lára G. Oddsdóttir, fékk laun frá embætti sóknarprests í Valþjófsstaðarprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi 1. nóvember 2014. Séra Lena Rós Matthíasdóttir, fékk lausn frá embætti prests í Grafarvogsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. janúar 2015. Dr. Gunnar Kristjánsson, fékk lausn frá embætti prófasts í Kjalarnessprófastsdæmi og sóknarprests í Reynivallaprestakalli frá 1. febrúar 2015. Séra Gunnar Jóhannesson, fékk lausn frá embætti sóknarprests í Hofsós- og Hólaprestakalli, Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi frá 1. mars 2015. Séra Birgir Ásgeirsson, fékk lausn frá embætti prófasts í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og prests í Hallgrímsprestakalli frá 1. apríl 2015. Séra Sigrún Óskarsdóttir, fékk lausn frá embætti prests í Árbæjarprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra frá 1. apríl 2015. Er þeim öllum þökkuð þjónustan í kirkju Krists. Guð blessi þau.
Andlát
Prestar séra Baldurs Vilhelmsson, fyrrv. sóknarprestur í Vatnsfjarðarprestakalli og prófastur í Vestfjarðarprófastsdæmi, lést 26. nóvember 2014. Bald¬ur var fædd¬ur 22. júlí 1929. Lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1956 og fór þá vestur í Vatnsfjörð og þjónaði þar alla tíð. Hann tók virkan þátt í mannlífinu við Djúp og setti svip á umhverfið. Auk prestsstarfanna kenndi hann í mörg ár við skólann í Reykjanesi og rak bú um tíma í Vatnsfirði. Hann var þjóðþekktur maður og margar sögur af honum sagðar enda hnyttinn í tilsvörum og hugmyndaríkur í frásögnum.
Kona séra Baldurs var frú Ólafía Salvarsdóttir, er lést einnig á árinu, þann 21. júlí 2014. Hún tók virkan þátt í kirkjustarfinu og þjónaði prestsheimilinu með mikilli reisn. Við þökkum Guði fyrir trúa þjónustu þeirra hjóna í kirkjunni og biðjum Guð að helga minningu þeirra og blessa ástvini þeirra. Rísum úr sætum og lútum höfðum í hljóðri bæn.
Nútíðin - framtíðin
Í nútímasamfélagi er spurt hvað fæ ég í staðinn? Hver er ávinningur minn? Við getum spurt hvað hefur kirkjan að bjóða? Hvað bíður kirkjan umfram allar aðrar stofnanir samfélagsins, umfram öll félög landsins? Á tímum hraða og spennu þyrstir margan manninn í kyrrð og innri frið. Margir leita eftir stað sem það bíður. Í kirkjum landsins er hægt að finna þann frið sem er æðri öllum skilningi. Kirkjan býður fyrirbæn og blessun. Hún bíður sálgæslu og helgihald sem er hlaðið merkingu og lífsfyllingu. Hún býður fræðslu og mót Guðs og manns á stórum stundum lífsins. Hún flytur boðskap sem er lífgefandi hér og nú og um eilífð alla. Þessu þurfum við að koma enn betur á framfæri. Þessu þurfum við að miðla. Trúin mótar manninn, sem miðlar kristnum gildum í samfélaginu og hefur þannig mótandi áhrif á það. Aðrir vilja sem minnst af trúnni vita. Hvernig svo sem viðhorfið er til kirkjunnar í samtímanum megum við ekki gleyma því að okkur er falið mikið hlutverk í heimi sem Guð elskar, það er að boða Orðið sem hann sendi í þennan heim til að gera heilt það sem sundrast hefur. „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Bræður og systur. Megi vinátta okkar styrkjast og samheldni okkar aukast.
Göngum með gleði til starfa á þessari prestastefnu. Göngum með gleði til þjónustunnar í kirkju Krists. Prestastefna Íslands árið 2015 er sett.