Að taka mark á Maríu Magdalenu

Að taka mark á Maríu Magdalenu

Á þessum páskadagsmorgni langar mig að leggja til leið til að stíga stórtækt skref í átt að réttlátari heimi, leið sem ég trúi að muni bæta kjör, eyða átökum og auka velsæld okkar sem manneskjur og lífríki á þessari jörðu. Leiðin er að taka mark á konum á sama hátt og við tökum mark á körlum.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
20. apríl 2014

Hið virta tímarit London Review of Books heldur árlega fyrirlestraröð í British Museum þar sem framúrskarandi fræðimenn og fyrirlesarar fá vettvang til að setja fram hugmyndir sínar. Fyrirlestrarnir vekja jafnan athygli og í vetur flutti prófessor í klassískum fræðum við Cambridge háskóla, að nafni Mary Beard, fyrirlestur sem ber heitið Raddir kvenna í hinu opinbera rými. Þar rekur hún með hvaða hætti konur sem taka þátt í opinberri umræðu hafa frá forngrikkjum til Facebook verið sagt að þegja og dregið dár að röddu þeirra. Í fyrirlestri sínum rekur hún raddir kvenna í hinum forna heimi og tengir þær við kynsystur sínar sem hafa látið að sér kveða í nútímanum. Hún ber þess sjálf vitni að hafa þurft að takast á við fordóma í sinn garð á vettvangi fræðanna, þar sem karlar hafa kennivald framar konum.

Sú þöggun sem á sér stað birtist í þeim myndum að konur sem tjá sig opinberlega eru gerðar karllægar og þannig gert lítið úr kyngervi þeirra, sagðar tilfinningasamar eða kvartsárar, raddblær kvenna hefur í fjölmiðlum ekki sömu áhrif og djúp karlarödd og sjónarmið þeirra fá miklu minni athygli en karllæg. Alvarlegast er það ofbeldi sem konur í opinberri umræðu sæta, en Mary Beard varð fyrir miklum netárásum á samfélagsmiðlum í kjölfarið á því að hafa bent á jákvæð áhrif innflytjenda á breska menningu og breskt efnahagslíf. Árásirnar voru, eins og við þekkjum af íslenskum samfélagsmiðlum, flestar kynbundnar og kynferðislegar.

Í fyrirlestri sínum nefnir hún tvær undantekningar í hinum forna heimi, þar sem konum var leyft að tala óáreittar, annarsvegar til varnar fjölskyldu sinni frammi fyrir rétti og hinvegar við píslardauða, en mörg dæmi eru í rómverskum heimildum um að kristnar konur hafi borið trú sinni vitni áður en þeim var kastað fyrir ljónin. Að þeim undantekningum frátöldum ber heimildum saman um að konur eiga ekki heima í opinberri umræðu og að tilraunir þeirra til þátttöku hafa undantekningarlaust verið bældar niður.

Í frásögnum guðspjallanna af páskadagsmorgni er María Magdalena miðlæg, þó guðspjallamennirnir leggi mismunandi áherslu á þátt hennar sem upprisuvitni. María Magdalena er ein stærsta persónan í frumkristni og mikilvægi hennar er kirkjunni í senn nauðsynleg og neyðarleg. Í frásögn Jóhannesarguðspjalls er hún ein við opnu gröfina en í hinum guðspjöllunum er hún í fylgd kvenna, sem ekki eru nefndar annarsstaðar í frásögnunum. Í þeim öllum fær hún það hlutverk að bera upprisunni vitni til lærisveina Jesú. Auk Nýja testamentisins eru varðveitt frumkristin rit sem leggja áherslu á mikilvægi Maríu Magdalenu, m.a. guðspjall sem nefnist Maríuguðspjall, en þar er hún í aðalhlutverki og huggar hrædda lærisveinanna til trúar eftir að hafa fyrst orðið vitni að upprisuundrinu. Ágústínus kirkjufaðir kallaði hana réttilega apostola apostolorum eða postula postulanna.

Sú staðreynd að kona verður fyrst upprisuvottur er jafnframt bundin vandkvæðum, þar sem frásagnir kvenna voru ekki álitnar marktækar, og hjá kristnum, gyðinglegum og rómverskum höfundum er gert lítið úr henni fyrir vikið. Páll nefnir viljandi engar konur í upptalningu sinni á upprisuvottum (1Kor15) og guðspjallamennirnir eru mishrifnir af hlut hennar, sbr. höfund Lúkasarguðspjalls, sem byggir frásögn sína Markúsarguðspjalli en dregur úr hlut Maríu í frásögninni. Kirkjufeðurnir, þeir kristnu höfundar sem lögðu grunninn að kirkjunni sem stofnun, lögðu í vaxandi mæli áherslu á feðraveldishugsjónir í andstöðu við hlut kvenna í frumkirkjunni. Þá var það gert lítið úr mikilvægi Maríu með því að gefa í skyn að hún hafi verið vændiskona og þannig ekki jafngild körlum á borð við Pétur og hóp hinna 12 lærisveina.

Andstæðingar kristindómsins voru sammála kirkjufeðrunum í kvenfyrirlitningu sinni. Jósefus, hinn gyðinglegi sagnritari sem fjallar um upphaf kristninnar, segir að konur eigi ekki að vera marktækar sem vitni, frekar en þrælar (Ant. 4:219) og rómverski læknirinn Celsus, sem gerði lítið úr kristindóminum, tekur Maríu sérstaklega fyrir sem óáræðanlegt vitni á grundvelli kynferðis síns. Hann segir um upprisuna: ,,En hver sá þetta? Móðursjúk kona, eins og sagt er, og kannski fleiri sem voru undir áhrifum af þessum töfrum, sem annaðhvort dreymdu sig í eitthvert hugarástand eða með óskhyggju höfðu ofskynjanir byggðar á ranghugmyndum.” (Origenes, C. Cels. 2.22, 59)

Sú staðreynd að konur voru fyrstu upprisuvitnin gerði áræðanleika frásagnarinnar minni í hugum allra sem hlýddu á og sú staðreynd gerir sagnfræðilegan áræðanleika þess sterkari. Upprisa Krists á páskadag er grundvallandi atburður í kristinni kirkju, eða eins og Páll orðar það ,,ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar.” (1Kor 14) Upprisa Jesú er táknmynd fyrir sigur lífsins yfir dauðanum og fyrir getu mannsins til að breytast. Sú mannsmynd sem lítur manninn í gegnum augu upprisunnar, sér að hann er ekki bundinn í fjötra syndar, heldur frjáls til að breytast og helgast fyrir kraft Guðs. Það fyrirheiti er grundvöllur kristinnar kirkju og kraftur þess fagnaðarerindis sem kirkjan boðar einstaklingum og samfélögum.

Synd er hver sú hugmynd, hver sá hvati og hver sú aðgerð sem sundrar manninn frá sjálfum sér, Guði og umhverfi sínu. Synd er ástand og því er ekki hægt að útfæra endanlegan lista yfir réttar og rangar aðgerðir, svarta og hvíta heimsmynd. Þannig getur nær allt sem við höfum áhrif á verið notað til góðs eða ills, allt eftir því hvernig því er beitt og hvað liggur þar að baki. Í þessari framsetningu er ekki fólgin siðferðisleg afstæðishyggja, heldur siðferðisleg ganghyggja, eða með orðum frelsarans ,,af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá”.

Þegar litið er yfir ástand heimsins er auðvellt að fallast hendur gagnvart því ranglæti og þeirri illsku sem manneskjan er fær um en augu trúarinnar sjá möguleika mannsins til að breytast. Á páskadagsmorgun birtist okkur sýn um betri heim og möguleika manneskjunnar til að breytast og sú sýn er samtímis persónuleg og varðar alla heimsbyggðina. Breytingar hefjast heima og það er okkar að taka á móti þeim fagnaðarboðskap og trúa því að kraftur Guðs geti helgað og bætt, jafnvel þau sem telja sig handan hjálpar. Aðferðin er aldagömul og felur í sér iðrun og afturhvarf, þau einföldu verkfæri að horfast í augu við okkur sjálf, í þeim breiskleika sem sálarlíf okkar birtir, og þiggja upprisukraft Guðs sem reisir þann við sem felur sig honum.

Engin fögnuður er meiri en að brjótast úr viðjum vanans og ná tökum á eigin lífi, með hjálp Guðs og trúsystkina sinna, og það fagnaðarerindi er kjarninn í upprisu Krists. Manneskjan á sér viðreisnar von og við getum breytt þessum heimi með því að endurspegla í lífi okkar því ljósi og þeim krafti sem frá gröfinni tómu streymir. Þann boðskap var okkur fluttur af Maríu Magdalenu fyrir 2.000 árum og líkt og lærisveinunum forðum reynist það okkur erfitt að meðtaka nema með því að reyna sjálf.

Á þessum páskadagsmorgni langar mig að leggja til leið til að stíga stórtækt skref í átt að réttlátari heimi, leið sem ég trúi að muni bæta kjör, eyða átökum og auka velsæld okkar sem manneskjur og lífríki á þessari jörðu. Leiðin er að taka mark á konum á sama hátt og við tökum mark á körlum. Að við horfumst í augu sem manneskjur og hættum að gera lítið úr eða draga dár að þeim systrum okkar sem taka þátt í opinberri umræðu, vitandi að þær munu mæta aðkasti og dómhörku á samfélagsmiðlum. Máli mínu til stuðnings get ég bent á þá blessun sem fylgdi því að taka mark á Maríu Magdalenu og það ranglæti sem hamlað hefur kirkjunni þegar hún hefur haldið konum frá ábyrgðarstöðum.

Konur sem orða ofbeldi í sinn garð eru ekki kvartsárar, þær eru spámenn. Konur sem andmæla þeim stofnunum sem hamla þeim eru ekki frekar, þær eru siðbótakonur. Konur sem ljá opinberri umræðu röddu sína eru ekki mjóróma, þær eru rödd hópandans í eyðimörkinni, og karlar sem leggja við hlustir heyra fagnaðarboðskap og öðlast trú á betri heim.

Gleðilega upprisuhátíð.