Ljómum af gleði yfir fögrum gjöfum Guðs

Ljómum af gleði yfir fögrum gjöfum Guðs

Ef við viljum hafa Guð sem fyrirmynd þá er útilokað fyrir kirkjuna að ætla sér að loka nokkra einustu manneskju úti, hún getur heldur ekki lokað sig af, einangrað sig frá samfélaginu. Leyfið börnunum að koma. Það er ekki spurt um aðgangsorð.

Skyldi Jeremía spámaður hafa átt við okkur þegar hann hvattir þjóðir til að hlýða á orð Drottins og kunngjöra það á fjarlægum eyjum? Það er eitthvað magnað við það að þetta orð skuli hafa borist hingað. Jeremía var uppi á síðari hluta sjöundu aldar og í upphafi þeirrar sjöttu f.Kr. Hann lauk ævi sinni í Egyptalandi. Við lesum spádóma hans hér í Árbæjarkirkju og í samkomusal íslensku þjóðarinnar, Ríkisútvarpinu, 2600 árum síðar. Þessi orð eru kærkomin í skammdeginu. Sannarlega veitir okkur heldur ekki af birtu von í þeirri efnahagslægð sem samfélagið okkar er að ganga í gegnum með tilheyrandi depurð og drunga.

Þarna er talað um að fagna, ljóma af gleði yfir hinum góðu gjöfum Guðs, korni, víni, olíu, sauðum og nautum. Meyjarnar stíga gleðidans og ungir fagna með öldnum. Sorg er breytt í gleði og þau sem harma eru hugguð. Það er iðandi gleði, ekta gleði, andinn og líkaminn nærður. Það eru allir með í þessari gleði, hún er ekki ætluð útvöldum. Við þurfum á slíku að halda. Ekki gerfigleði, misskiptingu og yfirsnúningi, heldur enlægri gleði yfir góðum gjöfum Guðs. Það er reyndar ein stétt sem er talin upp sérstaklega og ég fer aðeins hjá mér, en ætla láta mig hafa að endurtaka orð spámannsins: „prestum gef ég ríkulega af feitum fórnum“... Verðum við ekki að stóla á að prestum sé treystandi til að gefa með sér, deila út af sanngirni?

Hversdagslegir atburðir geta hrist hressilega upp í okkur. Þannig er ljós lifandi minning frá því á liðnu hausti, er ég sat í bílnum mínum og var að keyra Sundabrautina og var með útvarpið í gangi. Það var samtalsþáttur. Viðmælandinn, áheyrileg kona var að segja frá uppgangi í þróun á íslensku hugviti. Konan var svo áhugasöm og glöð. Ég smitaðist og varð svo innilega glöð. Svo varð ég hissa, þetta voru eiginlega frekar ýkt viðbrögð hjá mér. En svo skildi ég að það sem hafði gerst var það að loksins, LOKSINS heyrði ég jákvæða frétt af atvinnumarkaðinum.

Við getum talað okkur upp og endað í háloftunum í reiðuleysi einsog við þekkjum svo alltof vel. En á sama hátt getum við talað okkur niður. Þannig höfum við látið eins og hér sé allt á heljarþröm jafnvel þótt við séum enn meðal ríkustu þjóða heimsins. Hvorugt kann góðri lukku að stýra. Við þurfum að vera raunsæ. Tala um hlutina einsog þeir eru. Við eigum ekki að samþykkja að bil ríkra og fátækra breikki. Við eigum reyndar alls ekki að samþykkja að fátækt þekkist hér. En við eigum líka að sjá og tala um allt það góða sem þessi fjarlæga eyja hefur að geyma. Fögnum, ljómum af gleði yfir gjöfum Drottins sem birtast okkur í nægu vatni, hreinu lofti, fisk í sjó og svo mörgu öðru sem væri hægt að nefna. Förum vel með þessar gjafir. Heiðrum föður okkar og móður einsog Páll postuli hvetur okkur til. Það gerum við m.a. með því að fara vel með landið okkar, auðæfin sem þau hafa skilað okkur. Stígum gleðidans, fögnum saman, brúum bil kynslóða. Tökum utan um þau sem syrgja og harma.

Í guðspjalli dagsins heyum við kunnuglega frásögn. Frásögn sem lesin er í hvert skipti sem barn er borið til skírnar. Menn færðu börn til Jesú... Enn færum við börnin okkar til Jesú. Kirkjan tók á móti foreldrum mínum, tók á móti mér og börnunum mínum í skríninni. Kynslóðir koma – kynslóðir fara. Kirkjan var og er. Kirkjan getur ekki verið öðruvísi en opin og umvefjandi ætli hún að lifa eftir fyrirmyndinni, Jesú sjálfum. Við vitum ekki hvað lærisveinarnir voru að hugsa, vildu þeir hlífa honum við ágangi, töldu þeir að börnin skildu ekki hvað þessi mikli meistari sagði, eða trufluðu börnin þá sjálfa? Við vitum að þeir átöldu foreldrana sem vildu koma með börnin til Jesú. Honum sárnaði. Leyfið börnunum að koma til mín. Hann hastar ekki á börnin og hvetur þau til þess að haga sér eins og fullorðið fólk, þvert á móti hvetur hann okkur, hin fullorðnu ,til þess að verða einsog börnin. Hvað hafa börnin sem okkur skortir? Það getur auðvitað verið ýmislegt. Hæfni barna til að nema fegurð í augnaráði og launa með einlægu brosi er einstök. Börn treysta. Börn undrast yfir litlum hlutum. Þau eru okkur góðar fyrirmyndir á mörgum sviðum.

Hvernig fyrirmyndir eru áberandi í samfélaginu okkar? Er það ekki allskonar fólk með stjörnutitil fyrir framan eða aftan starfsheitið? Kvikmyndastjörnur, íþróttastjörnur, fjölmiðlastjörnur, og er ekki talað um stjörnurithöfunda og jafnvel stjörnulögfræðinga? Stjörnupresta..? nei, enginn heyrt á þá minnst... Við sjáum á netinu, á ljósvakamiðlum og í glanstímaritum myndir af þessu fræga og fallega fólki. Hvaða möguleika á Guð í þessum stjörnufans? Það er enga mynd af Guði að finna á síðum glanstímarita. Hvernig getum við haft fyrirmynd sem við getum ekki einu sinni séð? Það er ögrandi verkefni kirkju 21. aldarinnar að miðla guðsorði, kunngjöra það í samfélagi tækni og hraða þar sem flestir vilja vera gordjöss og fabjúlöss. Hvað hefur Guð að segja hér í borginni okkar? Hvað þýðir Guð á Raufarhöfn eða á Kirkjubæjarklaustri? Hvað segir Guð utan þessa húss, helgidómsins?

Við finnum svarið í guðspjallinu. Guð þekkjum við í mennskunni, í manneskjunni, í Jesú Kristi bróður okkar. Að hafa Guð sem fyrirmynd þýðir einfaldlega að lifa í kærleika. Með Guð sem fyrirmynd erum við ekki að stefna að því að verða andlegar stjörnur, frómheitin uppmáluð. Það er í senn mun flóknara og mun einfaldara en það. Við þurfum að gefa rými fyrir kærleikann. Við þurfum að koma því þannig fyrir að kærleikurinn eigi fyrsta og síðasta orðið. Kærleikurinn þarf að móta samskipti okkar hvert við annað.

Þetta er vandi, þetta er vinna, þetta er æfing. Ef okkur tækist öllum allaf að gefa kærleikanum rými væri heimurinn öðruvísi. Við vitum að einelti þrífst í skólum og á vinnustöðum. Við vitum að fólk er niðurlægt og kúgað og gjarnan er illskan dulbúin sem góðmennska. Við vitum um stríð sem eru sögð eiga að stuðla að friði. Við eigum ekki að taka þátt. Það er áskorun dagsins.

Leyfum börnunum okkar að koma til Guðs, leyfum börnunum í okkur að koma til Guðs. Með Guð sem fyrirmydn látum við hann hafa áhrif á allt okkar líf. Guð er kærleikur. Kærleikur brýtur niður múra og byggir brýr. Kærleikur fyrirgefur, sætti, elskar og skapar nýtt líf.Það er margt sagt um kærleikann í Biblíunni.

Kærleikurinn er túlkunarlykill okkar til þess að skilja sköpunarverkið. Kærleikur er það sem við þurfum til þess að halda saman áfram fram á veginn. Við eigum að sýna landinu okkar, þessu fagra sköpunarverki, kærleika með því að umgangast það af virðingu. Við þurfum heiðarlegt jafnvægi nýtingar og verndunar.

Það sem er svo óendanlega fallegt við Guð sem fyrirmynd er að hann elskaði okkur fyrst. Þessvegna getum við elskað. Vegna þess að okkur er fyrirgefið getum við fyrirgefið.Hvatningin til okkar er sú að reyna að líkjast Guði hvað þetta varðar. Það er hlutverk okkar, hver sem við erum og hvar sem við erum. Það er gjöf: þú mátt vera einmitt einsog þú ert hjá Guði. Þetta er ekkert svo flókið. Ef við viljum hafa Guð sem fyrirmynd þá er útilokað fyrir kirkjuna að ætla sér að loka nokkra einustu manneskju úti, hún getur heldur ekki lokað sig af, einangrað sig frá samfélaginu. Leyfið börnunum að koma. Það er ekki spurt um aðgangsorð. Við vinnum okkur ekki rétt til þess að koma. Þegar Jesús er svona afgerandi, þá á kirkjan að vera það einnig. Það er blettur á kirkjusögu fortíðar og samtíma þegar einstaklingar eða hópar hafa verið lokaðir úti. Guð tekur á móti öllum, Guð býður inn, Guð umfaðmar.Tökum þetta alvarlega. Tökum það til okkar. Ljómum af gleði yfir hinum góðu gjöfum Guðs. Stígum gleðidans, saman!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen