Græðgi

Græðgi

Segja má, að íslenskt samfélag sé markað græðginni á margan hátt og við séum fórnarlömb mammonsdýrkunar. Við erum svo miklir neytendur. Það er þessi ofboðslega neysla á öllum sviðum.

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.

Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.

Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.

En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði. Lúk. 12. 13-21

Í guðspjalli dagsins er Jesús ómyrkur í máli. Hann talar enga tæpitungu frekar en endranær. Orð hans eru varnaðarorð, sem eiga fullt erindi við samtíma okkar:

„Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“

Þessi orð sagði hann við mannfjöldann eftir að maður nokkur hafði leitað til hans og sagt:

„Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“

Jesús vissi, hvað til síns friðar heyrði í þessu sambandi, enda brást hann við með því að segjast vera hvorki dómari né skiptaráðandi, en bætti svo við þeim varnaðarorðum er nefnd voru hér að framan: Passið ykkur! Sækist ekki stöðugt eftir því sem þið eigið ekki. Lífið er ekki tryggt með eignum, jafnvel þótt miklar séu.

Þessi nafnlausi maður var í raun að biðja Jesú að tala við bróður sinn um að hann skipti arfinum jafnt á milli þeirra. Þessi maður hefur örugglega verið gyðingur og þekkt lögmálið. Samkvæmt því átti elsti sonurinn ávallt að fá tvo þriðju hluta arfs, en yngri bróðir eða bræður að skipta einum þriðja á milli sín. Það var því enginn vafi hér á ferð. Þess vegna var maðurinn að reyna að tæla Jesú að þessu leyti, enda vildi hann fá hann í lið með sér. Hann gat ekki sætt sig við hlut sinn. Þar af leiðandi var það fégræðgin ein sem stjórnaði gjörðum hans. Jesús skynjaði þetta og vissi hvað að baki bjó.

Í ljósi þessa varar Jesús við gróðafíkn og sagði í beinu framhaldi dæmisöguna af ríka bóndanum eða ríka heimskingjanum, eins og hún er víðast hvar kölluð í hinum kristna heimi. Þessi dæmisaga er afar lifandi og myndræn. Hún er tvö þúsund ára gömul og boðar sístæð sannindi:

Ríkur maður átti gott bú og fékk mikla uppskeru. Hlöðurnar voru yfirfullar, svo að hann kom ekki öllu fyrir. Hann hugsaði málið. „Nú veit ég hvað ég geri,“ sagði hann við sjálfan sig. „Ég ríf þessar hlöður og byggi aðrar stærri og þá verður nóg pláss! Eftir það fer ég mér hægt og segi við sjálfan mig: Jæja vinur, nú áttu birgðir til margra ára. Nú skaltu hvílast og njóta lífsins svo um munar.“

En Guð sagði við hann: „Heimskingi! Í nótt muntu deyja og hver fær þá allt sem þú hefur eignast?“

Þannig fer fyrir þeim sem safnar auðæfum, en er ekki ríkur hjá Guði.“

Ríki maðurinn í sögunni var sjálfhverfur, enda sagði hann sex sinnum ég. Hann hugsaði bara um sjálfan sig en ekki aðra – þar af leiðandi var hann ekki ríkur hjá Guði. Í raun var hann ekkert skárri en Ebenezar Scrooge í Jólaævintýri Dickens, en hann er tákn fyrir sjálfselsku og nísku í heimi bókmenntanna.

Í guðspjallinu er Jesús ekki að segja, að það sé rangt að eiga fé, og vera auðugur. Hann er heldur ekki að segja, að það sé ekki hægt að vera lærisveinn ef maður er ríkur. Það sem hann er að benda okkur fyrst og fremst á, er græðgin – hana ber að varast - að við tökum ekki meira en okkur ber, eða eins og Hallgrímur Pétursson orti eitt sinn:

Safna hóflega heimsins auð, Hugsýkin sturlar geð. Þigg af Drottni þitt daglegt brauð, Duga lát þér þar með.

Þessi hugsun birtist okkur einnig í frásögn af bandarískum bankamanni er stóð eitt sinn á bryggju í strandþorpi í Mexíkó. Lítill bátur var í þann mund að koma að landi með einn sjómann innanborðs. Í lestinni lágu nokkrir stórir túnfiskar. Bankamaðurinn ávarpaði manninn og óskaði honum til hamingju með aflann. Hann spurði síðan hvað hann hefði verið lengi í veiðiferðinni. -„Ja, svona tvo tíma,“ svaraði hann. - „Af hverjur varstu ekki lengur og fiskaðir meira?“ -„Þessi afli dugar mér til að framfleyta mér og fjölskyldunni.“ -„En hvað gerirðu svo annað en vinna?“ spurði bankamaðurinn -„Ég sef frameftir, veiði smávegis, leik við börnin mín, tek mér hvíldartíma eftir hádegið og labba svo inn í þorpið, fer á krána, fæ mér hressingu, spila á gítar og spjalla við vini mína. Trúðu mér, ég lifi góðu og innhaldsríku lífi,“ sagði sjómaðurinn. Bankamaðurinn var ekkert yfir sig hrifinn. -„Þú ættir að verja meiri tíma úti á sjó og veiða meira. Og með tímanum geturðu keypt þér stærri bát. Og seinna meir geturðu keypt fleiri báta og síðar heilan flota. Eftir það geturðu opnað frystihús og niðursuðuverksmiðju. Og þá muntu geta flutt héðan og til borgarinnar, síðan til Los Angeles og að loks til New York. Þaðan geturðu svo stjórnað fyrirtækinu.“ -„Og hvað tæki þetta langan tíma“ spurði sjómaðurinn. -„Svona tuttugu ár,“ svaraði bankamaðurinn. -„Og síðan hvað?“ spurði hann. -„Þegar rétti tíminn kemur geturðu sett fyrirtækið á markað, selt hlutabréfin og grætt milljónir dollara.“ -„Og eftir það?“ spurði sjómaðurinn. -„Þá geturðu sest í helgan stein og flutt í lítið sjávarþorp, þar sem þú getur sofið til hádegis, farið út á skak, leikið við barnabörnin, tekið þér hvíldartíma í eftirmiðdaginn, gengið á næstu krá og skemmt þér með vinum þínum.“ Hann starði forviða á banakmanninn og sagði -„Hvað heldurðu að ég sé einmitt að gera núna?“

Þessi frásaga minnir okkur á boðskap guðspjallsins. Við eigum ekki að taka meira en við þurfum. Sjómaðurinn var laus við alla græðgi. Hann tók aðeins það sem honum bar – ekkert umfram það, enda „safnaði hann hóflega heimsins auð.“

Hið sama getum við ekki sagt um samfélag okkar – því miður. Segja má, að íslenskt samfélag sé markað græðginni á margan hátt og við séum fórnarlömb mammonsdýrkunar. Við erum svo miklir neytendur. Það er þessi ofboðslega neysla á öllum sviðum. Nútímasamfélag er neytendasamfélag. Við erum allt lífið að kaupa einhverja hluti. Og stundum höfum við ekki beinlínis þörf fyrir þá.

Allt á þetta rætur sínar að rekja til þess að, verslunarhættir tóku að breytast upp úr miðri síðustu öld. Áður fyrr tíðkaðist að afhenda þá vöru yfir búðarborðið sem fólk óskaði eftir að kaupa. Þá keypti fólk viðkomandi vöru af því að það vantaði hana. Nú höfum við stórmarkaði þar sem allar vörur liggja frammi og eru hafðar til sýnis, og fólk getur skoðað þær í krók og kring, og þar með átt auðveldara með að gera upp hug sinn. Það var forstjóri Woolworths five and Dime í Bandaríkjunum sem datt þetta í hug á sínum tíma, að hafa allar vörurnar til sýnis. Það virkaði vel. Salan jókst um helming. Þetta kveikti löngunina hjá viðskiptavinum til þess að eignast hluti, sem áður voru oní skúffum, skápum eða inni á lager, og viti menn, græðginni óx ásmegin. Í dag þekkjum við ekki annað, enda erum við börn þessa tíma, þar sem efnisleg gæði skipta svo miklu máli. Við þurfum helst að eiga flatskjá, nýjasta farsímann, tjaldvagn og jeppa eða fimmtu kynslóð I-poda. Unglingarnir verða að tolla í tískunni og verða að eignast flottustu og dýrustu gallabuxurnar.

Auglýsingarnar spila allar inn á græðgina – að lífið verði ekki hamingjusamt nema fólk eignist þetta eða hitt. Það er fjármagnið sem stjórnar þessu samfélagi okkar. Í ljósi þess er mammonsdýrkunin upphafin. Þessu tengist ómæld virðing fyrir þeim sem eiga peninga – þeir eru taldir vera merkilegri af því að þeir hafa hagnast – eru í útrás – gera garðinn frægan á erlendri grund. Blöðin og fréttatímar ljósvakamiðlanna eru afar uppteknir af því að fjalla um þá sem eiga peninga. Græðgin er sett í fyrsta sætið í samfélagi okkar.

Það er vel skiljanlegt að fólk þrái fjárhagslegt öryggi í lífinu. Sumir eiga sér varasjóð, sem gott er grípa til ef erfiðleikar koma upp, heilsubrestur, atvinnuleysi eða eitthvað slíkt. Jesús er ekki að mæla á móti slíku í guðspjallinu. Það er beinlínis biblíulegt að spara til mögru áranna.

Jesús er ekki á móti eignum fólks, heldur þessu hugarfari sem getur heltekið það svo mjög, að það gleymir Guði. Græðgin segir ávallt: Mikill vill meira. Hún verður aldrei södd. Græðgin er eins og eldurinn. Því meiri eldivið sem þú bætir á hann því hungraðri verður hann.

Við finnum aldrei andlegt öryggi í peningum eða hlutum, enda sagði Jesús:

“Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir möl né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.”

Ágirndin og græðgin hafa ávallt verið fordæmdar af kristinni kirkju. Þeim var meira að segja skipað í flokk með dauðasyndunum sjö í guðfræði kirkjunnar á fjórðu öld.

Fyrrnefndum Hallgrími Péturssyni var þetta efni hugleikið á sínum tíma, enda segir hann í 16. passíusálmi:

Undirrót allra lasta Ágirndin kölluð er Frómleika frá sér kasta Fjárplógsmenn ágjarnir, Sem freklega elska féð, Auði með okri safna, Andlegri blessun hafna, En setja sál í veð.

Sagan geymir ýmsar frásagnir af fólki sem leitaði hamingjunnar í veraldlegum gæðum. Elvis Presley er gott dæmi um það. Hann var kóngurinn sjálfur – heimsþekktur listamaður. Er hann lést 42 ára að völdum fíkniefnaneyslu átti hann 8 bíla, sex mótorhjól, tvær þotur, sextán sjónvarpstæki, stóra glæsivillu, og fjölmarga stóra bankareikninga. Þrátt fyrir það var hann vansæll. Maður kaupir ekki hamingjuna fyrir peninga.

Það sem Jesús vill segja við okkur í guðspjallinu er þetta:

„Takið ekki meira en þið hafið þörf fyrir. Verið ekki frek og sankið ekki að ykkur eignum sem þið hafið enga þörf fyrir.“

Það er engin tilviljun, að í beinu framhaldi af guðspjalli dagsins segir Jesús við lærisveina sína: „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast...Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki.“

Þegar krákan gerir sér hreiður í skóginum, tekur hún bara eina grein trésins. Þegar hjartardýrið svalar þorsta sínum í ánni drekkur það aldrei meira en það þarf. Maðurinn hefur hins vegar tilhneigingu til að sanka að sér og hamstra hlutina. En við vitum, að það er einskis virði í augum Guðs.

Móðir Teresa er ein af merkilegustu einstaklingum tuttugustu aldar. Samt lifði hún í fátækt allt sitt líf og hvað eignir snertir, átti hann aðeins það allra nauðsynlegasta.

Hún safnaði andlegum verðmætum. Hún var rík hjá Guði. Og það eigum við líka að vera. Það er köllun okkar og lífstilgangur – að elska Guð og náungann – og láta alla gróðafíkn lönd og leið, en safna frekar fjársjóðum á himnum.

Takmark okkar allra ætti aðeins að vera eitt: Að verða rík hjá Guði. Það gerist aðeins með samfélagi við hann sem gefur okkur lífið. Það er þetta lifandi samfélag sem hann þráir að eiga við okkur öll. Líf okkar þarf að markast af því og mótast af þessu samfélagi. Við ræktum það og eflum með því að lesa orðið hans, biðja til hans og reyna okkar besta til þess að upphefja nafnið hans hverja stund lífs okkar – að við lifum í honum og hann fái að úthella náð sinni og blessun yfir okkur.

Þegar þetta gerist verðum rík hjá Guði – eigum þetta nána og innilega samband við hann – og lifum í anda hans og krafti. Við þurfum ávallt að setja Guð í fyrsta sætið í lífi okkar og lifa sem kristnar manneskjur í þessum heimi. Það er verkefni lífsins. Markmiðið kemur skýrt fram hjá Páli postula er hann tala um að öll eigum við að láta þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, þangað til við verðum einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.”

Vor auðlegð sé að eiga himnaríki, Vor upphefð breytni sú, er Guði líki, Vort yndi´ að feta í fótspor lausnarans, Vor dýrðarskrúði dreyrinn Jesú mæti, Vor dýrlegasti fögnuður og kæti Sé himinn hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.