Hversdagsleiki illskunnar og einelti

Hversdagsleiki illskunnar og einelti

Krafa Jesú um starf í þágu þeirra sem standa á jarðinum brennur á okkur sem viljum fylgja honum og samfélag okkar þarf sárlega að heyra af þeim fagnaðarboðskap. Í dag munu kirkjur landsins sameinast í bæn í samstöðu með þeim sem sæta ofbeldi og mæta einelti og baráttu gegn þeirri ofbeldismenningu sem fylgt hefur samfélagi okkar frá því fyrir daga Jesú.

Klukkan eitt í dag verður bjöllum og kirkjuklukkum hringt í sjö mínútur um allt land í samstöðu með baráttunni gegn einelti og kynbundnu ofbeldi. Dagurinn, 8. nóvember, er alþjóðlegur dagur gegn einelti en þessi siður hefur fest sig í sessi hérlendis að frumkvæði Helgu Bjarkar Magnúsdóttur Grétudóttur en hún hefur lagt mikið á sig til að efla umræðu um einelti í samfélaginu.

Einelti er alvarlegt vandamál, jafnt meðal fullorðinna og í umhverfi barna og unglinga, og rannsóknir sína að tíðni eineltisofbeldis er hátt hér á landi, þó samanburður milli landa sé flókinn sökum ólíkra skilgreininga og mismunandi rannsókna á þessu fyrirbæri í mannlegri hegðun.

Í vinnu þriggja ráðuneyta um aðgerðir gegn einelti, sem fylgt var úr vör 2009, var unnið með einfalda skilgreiningu sem hljóðar: Einelti er ,,endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur.”

Á þessari öld hefur verið lyft grettistaki í eineltismálum í íslensku skólakerfi, bæði er varðar aðgerðir til að bregðast við eineltismálum og stuðningi við þau sem eru fórnarlömb eineltis. Ber þar hæst að nefna Olweusaráætlunina, sem er aðgerðaráætlun og forvarnarstarf að norskri fyrirmynd og hefur verið innleidd í yfir 80 skóla frá því verkefnið hófst 2002, fyrrnefnd samþætting ráðuneyta við heilbrigðis- og skólakerfi og vinnueftirlit sem hófst 2009 og Þjóðfélagssáttmála gegn einelti sem var gerður á fyrsta baráttudegi gegn einelti á Íslandi, þann 8. nóvember 2011.

Verkefnið er brýnt þar sem fórnarlömb eineltis sitja eftir með djúp ör, sem geta haft áhrif á lífsgæði fólks ævina á enda. Einelti er víðtækur og alvarlegur heilbrigðisvandi sem krefst aðgerða frá samfélaginu öllu, stofnunum, fjölskyldum og einstaklingum.

Það sem gerir einelti svo erfitt viðureignar er sú staðreynd að það einelti sem birtist í samskiptum barna í leikskólum og skólum er spegilmynd þeirrar samfélagsgerðar sem við búum þeim. Vísindamenn hafa á víxl lagt fram kenningar um erfðaþætti og uppeldi, sem stuðla að eineltishegðun, en hvort sem tilhneigingin til að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra er meðfædd eða lærð hegðun, þá er hún sammannlegt fyrirbæri og órofahluti menningar okkar.

Það er óþægileg en óvéfengjanleg staðreynd að ofbeldi viðist gegnsýra menningu okkar frá vöggu til grafar. Teiknimyndir barna byggja margar á ofbeldi, frá Tomma og Jenna til ofurhetjusagna, og skáldsögur og kvikmyndir sem segja sögur af ofbeldisverkum eru vinsæl afþreying. Þar gilda þau lögmál að hinn sterki sýnir vald sitt á kostnað þeirra sem eru veikbyggðari.

Sú umræðuhefð sem birtist í innlendum sem alþjóðlegum fjölmiðlum byggir jafnframt á átökum og svo virðist sem að umræðuhefð samfélagsins verði æ óvægnari. Fréttamiðlar og ummælakerfi keppast við að gera lítið úr einstaklingum, skoðunum og þjóðfélagshópum í krafti tjáningar- og skoðanafrelsis.

Ofbeldisverk og ofsóknir eru sannarlega ekki nýtt fyrirbæri í mannlegu samfélagi og 20. öldin hefur með réttu verið kölluð öld öfganna, vegna þeirra ofsókna og átaka sem henni fylgdu. Ein af merkari hugsuðum síðustu aldar, Hannah Arendt, var þýskur gyðingur sem fjallaði í verkum sínum um eðli valds og ofbeldis í ljósi þeirra ofsókna sem alræðisstefnur Evrópu leiddu af sér. Arendt bendir á að ofbeldi sé svo inngróið í samfélagsgerð okkar og samskipti að eðli ofbeldissamskipta hafi verið merkilega lítið skoðuð í vestrænni hugsun. Í uppgjöri sínu við réttarhöldin yfir Nasistaforingjanum Adolf Eichmann nefndi hún það ofbeldi sem þar birtist hversdagsleika illskunnar, eða The Banality of Evil.

Eineltishegðun er svo inngróin í samfélagsgerð okkar að hún er með orðfæri Arendt hversdagsleg og er af þeim sökum svo sjálfsögð að hún reynist okkur hulin. Börn og unglingar hafa hvorki sama umburðalyndi fyrir ofbeldishegðun og fullorðnir né sömu getu til að dulbúa ofbeldið og því verður vandinn augljósari og afleiðingarnar sýnilegri. Einelti meðal barna og unglinga er hinvegar spegilmynd af samfélagi fullorðinna.

Með sama hætti og einelti í hópi barna byggir á því að upphefja sig á kostnað annarra og sýna vald sitt með meiðandi hætti, byggja samkipti fullorðinna að miklu leita á því að upphefja sig og niðra aðra. Forsenda þess að hægt sé að breyta samskiptum og samfélagsgerð barna og unglinga í skólakerfinu er að við horfumst í augu við þá staðreynd að hún endurspeglar þá samfélagsgerð sem börnin eru alin upp í.

Fá umfjöllunarefni fá meira vægi í umfjöllun Nýja testmentisins en einelti, þó það hugtak komi hvergi fyrir. Ekkert viðfangsefni var Jesú hugleiknara í frásögnum guðspjallanna en að rétta hlut þeirra sem urðu fyrir ofbeldi og stóðu á jaðrinum og hin frumkristnu bréf Biblíunnar fjalla ítarlega um hvernig bregðast skuli við ofsóknum, sem voru daglegur veruleiki þeirra sem snérust til kristni.

Í guðspjalli dagsins fylgist Jesús með valdasýningu samborgara sinna þar sem auðmenn samfélagsins eru að upphefja sig með framlagi sínu til musterisins. Um þessa skattakónga síns tíma segir Jesús ,,Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum”. Eins og svo oft í frásögnum guðspjallanna er það hinn lægsti sem Jesús upphefur en þar segir ,,Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna [...]hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“

Einelti byggir á valdaójafnvægi og í samfélagi okkar getur það valdaójafnvægi birst í líkamlegum styrk eða vopnavaldi, þjóðernislegum eða kynbundnum forréttindinum, og í félagslegri eða efnahagslegri stöðu. Sá sem beitir valdi gerir það í krafti þess að hafa efni á því.

Það gildismat sem Jesús boðar er grundvallarviðsnúningur á gildismati samfélagsins og um leið andóf gegn allri valdníðslu, í hvaða formi sem hún birtist. Í guðspjalli dagsins er hin fátæka upphafin til jafns við hinn auðuga og í starfi sínu upphefur Jesús sjúklinga og fatlaða, útlendinga, konur, og þau sem að samfélagið hefur útskúfað.

Fordæmi Jesú boðar samfélagsviðmið sem krefst þess ekki að upphefja sig á kostnað annarra. Þessvegna þarf samfélag okkar svo sárlega að heyra boðskap Jesú og eineltisandóf biblíunnar birtist hvað skýrast í þeim örlögum sem hann mætti sjálfur. Jesús var fórnarlamb eineltis og mætti örlögum sínum sem eineltisþolandi.

Andspænis einelti, andspænis ofbeldi, andspænis ofsóknum segir Jesús í fjallræðu sinni: Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.” Í þeirri afstöðu felst ekki samþykki á ofbeldi og einelti, þvert á móti er vítahringur ofbeldishegðunar stöðvaður með því að rétta hlut þeirra sem sæta ofbeldi án þess að gera það á kostað þess eða þeirra sem ofbeldinu beittu.

Krafa Jesú um starf í þágu þeirra sem standa á jarðinum brennur á okkur sem viljum fylgja honum og samfélag okkar þarf sárlega að heyra af þeim fagnaðarboðskap. Í dag munu kirkjur landsins sameinast í bæn í samstöðu með þeim sem sæta ofbeldi og mæta einelti og baráttu gegn þeirri ofbeldismenningu sem fylgt hefur samfélagi okkar frá því fyrir daga Jesú.

Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.