Brotin veröld barna

Brotin veröld barna

Móðir deyr af slysförum fyrir framan augun á manni sínum og syni. Faðirinn, upptekinn af eigin missi og sektarkennd, getur ekki séð um soninn. Hann getur ekki sýnt honum blíðu. Hann getur ekki snert hann. Sonurinn reynir ítrekað að nálgast föður sinn og fá hann inn í raunveruleikann en allt kemur fyrir ekki.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
07. október 2009

Fjölskyldan í kvikmyndinni Sammen Fjölskyldan í kvikmyndinni Sammen

Móðir deyr af slysförum fyrir framan augun á manni sínum og syni. Faðirinn, upptekinn af eigin missi og sektarkennd, getur ekki séð um soninn. Hann getur ekki sýnt honum blíðu. Hann getur ekki snert hann. Sonurinn reynir ítrekað að nálgast föður sinn og fá hann inn í raunveruleikann en allt kemur fyrir ekki. Faðirinn hefur skipt á hlutverki við soninn. Hann er orðinn að barni og sonurinn er orðinn sá fullorðni.

Sautján ára drengur getur ekki talað við móður sína. Hann ber ekki virðingu fyrir henni. Hann segir henni ekkert sem skiptir máli. Móðirin virðist, í gegnum tíðina, hafa lagt meiri áherslu á að vera vinur hans en móðir. Drengurinn getur ekki borið virðingu fyrir móður sem bara vildi vera vinur. Hann getur ekki borið virðingu fyrir móður sem ekki þorði að vera móðir. Hann elskar hana út af lífinu en hann getur ekki talað við hana. Móðirin í sínum háu rúllukragabolum, elskar drenginn sinn út af lífinu en skilur lítið í flóknu tilfinningalífi hans.

Ung eigingjörn móðir hefur lítinn áhuga á syni sínum. Hún er óhamingjusöm, skeytingalaus og getur hvorki sett drengnum mörk né sýnt honum athygli. Hegðunarvandamál drengsins eru skiljanleg og virðast væg í samanburði við hegðunarvandamál móðurinnar. Stjúpfaðirinn reynir að af öllum mætti að ná athygli móðurinnar en dómgreind hans er lituð af afbrýðisemi gagnvart drengnum..

Hámark stjórnseminnar og bilunarinnar kemur fram hjá grísku hjónunum sem séð hafa til þess að börnin þeirra hitti aldrei annað fólk. Þau eru lokuð inni á fallegu og stóru heimili þeirra og garði sem er umkringdur hárri girðingu. Foreldrarnir koma inn undarlegum hugmyndum hjá börnum sínum um heiminn. Börnin eru nafnlaus. Þau eru á aldursbilinu 18-25 ára en hegða sér eins og lítil börn. Þeim er refsað og umbunað eftir kerfi sem foreldrarnir hafa búið til. Allt líf þeirra einkennist af lygum og ofbeldi. Þau lifa í paradís lyginnar sem kannski er hin sanna martröð.

Þetta eru dæmi úr nokkrum kvikmyndum sem sýndar voru á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RIFF sem haldin var hér í september mánuði.

Ég velti fyrir mér ástæðu þess að svo margar kvikmyndir fjalla um brotin samskipti foreldra og barna. Hvers vegna þetta efni er höfundum og leikstjórum svo hugleikið?

Kannski eru þau að segja okkur sögur sem þau þekkja persónulega. Að öllum líkindum eru þau að klæða raunveruleika margra í búning kvikmyndarinnar. Því miður vitum við að allt of oft eru þessi samskipti brotin og þá alltaf á kostnað barnsins.

Fá hlutverk eru mikilvægari í þessu lífi en hlutverk foreldra. Það er óheyrilegt vald sem fylgir þeirri ábyrgð að ala upp barn svo það verði „heilbrigður“ einstaklingur.

Fæstir foreldrar þurfa að ganga í gegnum persónuleikapróf, könnun á félagslegri hæfni eða stöðu áður en þau eignast börn. Þarna eru þó foreldrar ættleiddra barna undantekningin. Það er ekki sjálfgefið að allir frjóir einstaklingar verði góðir foreldrar.

Sögurnar fjórar bera þó allar með sér von. Þær gefa auk þess von um það að flestum foreldrum er þrátt fyrir allt viðbjargandi. Þær gefa von um undankomuleið barna sem búa við erfiðar aðstæður.

Sögurnar minna okkur þó kannski fyrst og fremst á ábyrgð okkar gagnvart náunganum og þá fyrst og fremst gagnvart börnum þessa heims. Þær minna okkur á að líta aldrei undan þegar brotið er á barni.