Syfjuð eyru

Syfjuð eyru

Við höfum fengið að kynnast því, að “allt” þegar grannt er skoðað er ekkert þegar skortir á að horfa á hið smáa, fíngerða, þögnina, kyrrðina í umhverfi okkar og ganga til móts við það. Snerta það finna ilms þess og umvefja líkama og sálu. Allt þetta höfum við fengið í fangið um leið og við höfum misst “allt” hitt sem fyrir var og var ekki endilega gera okkur lífið bærilegra.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
21. desember 2008

Síðustu dægrin og vikurnar hefur “allt” fengið aðra merkingu í huga okkar íslendinga. Fyrir síðustu daga og vikur og mánuði var “allt” annað en það er í dag. “Allt” getur verið í dag að eiga fjölskyldu og vini og ekkert meira en það. “Allt” getur verið góð heilsa að vakna til nýs dags. “Allt” getur verið að hafa vinnu að eiga í sig og á. “Allt” getur verið það smáa í kringum okkur sem við höfum ekki haft fyrir að skoða vegna þess að við höfum verið upptekinn af því að horfa á “allt” hitt - stóru myndina utan rammans. Sannfærð um að það væri það eina rétta í lífinu. Við höfum fengið að kynnast því, að “allt” þegar grannt er skoðað er ekkert þegar skortir á að horfa á hið smáa, fíngerða, þögnina, kyrrðina í umhverfi okkar og ganga til móts við það. Snerta það finna ilms þess og umvefja líkama og sálu. Allt þetta höfum við fengið í fangið um leið og við höfum misst “allt” hitt sem fyrir var og var ekki endilega gera okkur lífið bærilegra.

Við eigum þessa dagana stefnumót við það sem hefur skort á hjá okkur sem héldum, að við ættum “allt.” Vissulega er það svo að við eigum allt en nutum einungis hluta þess. Við eigum stefnumót þessa dagana við það einfalda í lífinu. Það einfalda getur verið svo margt. Það einfaldasta af öllu er frásagan af fæðingu frelsarans. Öll umgjörð fæðingarinnar, frásagan “allt” er einfalt. Af öllum mönnum tignum sem lágum voru það hirðar á Betlememsvöllum sem fyrstir manna fengu að vita af fæðingunni á látlausum stað í gripahúsi og barnið nýfædda “var lagt í jötu” sem sagan segir og við höfum margoft hlustað á stundum “syfjuðum” eyrum æskunnar og hokinni reynslu þess fullorðna. Hugur allur fullur tilhlökkunar og spennings yfir hinu óræða sem jólahátíðin er.

* **

Það eru margar smáar hendur á lofti þegar við í Árbæjarkirkju spyrjum börnin sem koma í aðventuheimsókn í kirkjuna sína hvar litla Jesúbarnið fæddist. Skemmtileg er sagan af barninu um árið sem óðamála sagði að Jesúbarnið hafi verið svo fátækt að það fæddist í Lödu. Frásagan um fæðinguna er vissulega einföld og myndræn. Einföld í þeirri merkingu að það er ekki verið að flækja hlutina. Hún talar til okkar á þann hátt að við leggjum við hlustir, finnum til hluttekningar vegna aðstæðna foreldra og barns. Eða við leggjum ekki huga að því svona yfirleitt því það er annað og meira síðustu dagana fyrir jólin sem þarf að hlusta á og koma í framkvæmd.

* * *

Jólaboðskapurinn snertir við strengjum í huga sem allra jafna fær ekki að hljóma vegna þess að við erum upptekinn af einhverju stærra og meira. Ef jólin ætti sér rödd þá er hún ekki einradda heldur fjölradda þar sem allir geta fundið sinn stað til að vera á. Sá staður þarf ekki að vera sá staður sem við óskum okkur helst að vera hverju sinni. Ekki frekar en foreldrar Jesú á sínum tíma rétt fyrir fæðingu frelsarans en sættu sig við það - því þau vissu að þau voru ekki komin til að vera. Sanna rödd eða tónn jólanna er rödd eða tónn hógværðar og auðmýktar og þess að við gefum gaum því smáa og einfalda í kringum okkur sem við allrajafna leggjum ekki hug að eða ómökum okkur til að sækjast eftir. Á jólum í aðdraganda jóla eigum við að leyfa okkur eða öðrum að komast að og slá á þessa strengi í hjörtum okkar og finna samhljóðan þess sem engu er líkt, “ekki þessa heims” eins og einhverjum var að orði. Þessvegna eru jólin, jólahátíðin, undirbúningur okkar fyrir hátíðina mikilvæg ekki aðeins hið ytra heldur og hið innra. Að við gefum okkur tima til að leyta inná við þessi jólin og uppgvöta það sem við höfum vanrækt í gegnum tíðina. Sú uppgvötun getur verið á ýmsa vegu, ein gæti verið sú að við höfum verið upptekinn við að uppgvöta allt annað en að slást í för með hirðunum sem fóru að sjá það sem englarnir boðu þeim að sjá. Við urðum eftir við varðeldinn. Þannig eru jólin sú hátíð sem hæst ber í hugum svo margra. Jólin kalla á okkur að koma og eiga hlutdeild eiga okkar pláss við jötu drauma okkar og væntinga í lífinu þrátt fyrir kvíða, ótta, depurðar, vonleysis svo marga í aðdraganda þessarar hátíðar.

* * *

Fjárhirðanir fóru og gættu að því sem englarnir sögðu þeim á Betlehemsvöllum. Þeir voru kvíðafullir að yfirgefa það sem þeim var treyst fyrir. Hlýja eldsins sem þeir ornuðu sér við hvarf að baki þeim í myrkrið uns það varð aðeins dauf skíma á völlunum. Þannig eru okkur mörgum innanbrjóst þessi dægrin. Hlýja þess sem hægt var að orna sér við hefur dofnað og gefur vart þann yl og birtu þá sem við erum vön og það setur að okkur kvíða, hvað tekur við? Fyrir hirðunum á Betlehemsvöllum var það sem tók við nýtt upphaf. Það gamla var að baki og “nýr tími” í reifum tók við úthýst af mönnum. Það sama má segja um þessa daga sem “myrkrið” allt um kring kann að halda og segja við okkur sem leggjum við hlustir að allt er búið og ekkert tekur við. Eins og hirðarnir forðum daga hefðu þeir getað setið við og hreyft sig hvergi, það getum við líka. Við vitum betur “ljósið” kom í heiminn og myrkrið varð ekki samt.

* * *

Jólahátíðin sem framundan er og við hvert með sínum hætti undirbúum komu hátíðarinnar þurfum að gera það þannig að við gerum það ekki aðeins ytra heldur og innra með okkur. Við getum staðið fyrir utan og virt fyrir okkur jólaljósin og jólaskrautið og það nær ekki lengra. Við getum líka tekið þá ákvörðun að veita því aðgang að okkur innra með og finna til friðar þess einfalda þeirrar myndar sem við fengum að gjöf sem börn. Kann að vera að einhver hugsi með sér að sú mynd er ekki lengur til. Ef ekki er búið að kasta henni þá er hún í besta falli falin undir kompudrasli áranna. Okkur gefst tækifæri aldrei sem nú um stundir að leita ef við höfum kastað henni í kompu fortiðar og draga hana upp með jólaskrauti liðinna ára og njóta þeirrar einföldu frásögu sem kallar fram í huga okkar allt það besta í lífinu, nýtt líf-nýja mynd af því sem við óskum okkur helst. Ekkert getur í raun gert okkur viðskila við þá frásögu, engum úthýst öllum boðið að vera viðstödd “sjá ég boða yður mikinn fögnuð” í þeim fögnuði skulum við hvert og eitt okkar ung sem eldri orna okkur við næstu dægrin.