Aðventan hefur sinn tíma

Aðventan hefur sinn tíma

Okkur er boðið í þann dans að læra meðan við lifum, að njóta og lifa hvern dag og jafnframt vita að dagurinn líður, tilfinningarnar verða að minningu og reynslan og minningin getur tekið á sig nýjan lit sem regnbogi Drottins gefur.
fullname - andlitsmynd Arna Grétarsdóttir
06. desember 2012

Klukkan á Eyrarbakka

Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Préd. 3.1 (Gefðu þér endilega tíma til að lesa framhaldið Préd. 3.1-15).

Þetta eru góð orð úr predikaranum sem skrifuð eru í Gamla testamentinu.

Þetta eru góð orð því þau miðla sannleika um það líf sem við lifum. Hér er miðlað af raunverulegri reynslu af því að lifa í þessum heimi. Lífi sem predikarinn sjálfur hafði lifað og reynt. Þessi orð um að allt hefur sinn tíma er sammannleg reynsla sem við getum hvert og eitt fundið okkur í. Burt séð frá kyni, menntun, stöðu, stjórnmálaskoðunum, eða hvað við glímum við hér og nú þá er þetta sameiginleg reynsla mannlegrar tilveru að:

Allt hefur sinn tíma.

Tilfinningar okkar og hugsanir hafa mismunandi liti og leiðir sem finna sér farveg. Það koma dagar, jafnvel vikur þar sem tárin lita tilveru okkar og sorgin í sínum gráu tónum fær og þarf sinn tíma. Það koma líka dagar og vikur þar sem hláturinn, dansinn og gleðin fær sitt rými í sínum regnbogans litum. Reiði og hatur þurfa sinn tíma og sinn farveg líka. Já, öll mannleg tilvera eru lituð af því að:

Allt hefur sinn tíma.

Það er Skaparinn sjálfur sem gaf okkur regnbogann í öllum sínum fallegu litum sem hefur lagt okkur í hjarta misjafnar gáfur til að sjá og nema fegurð heimsins. Misjafnlega skýrt auga fyrir listum og fegurð lífsins, misjafnt næmi fyrir leik og trúarfegurð. Ólíkan áhuga á tengslum himins og jarðar. Um leið og við erum ólík þá erum við lík að því leiti að öll erum við sköpuð til að mæta augnaráði hvers annars, gjafmildi og gæsku. Það er vegna þess að við eru gerð til að vera í samfélagi við aðra menn, í félagskap sem auðgar og blessar bæði á tímum sorgar og gleði. Við erum sköpuð af Guði kærleikans með afmarkaðann tíma í þessum heimi, sem afmarkar um leið upplifanir, reynslu og tilfinningar okkar.

Okkur er boðið í þann dans að læra meðan við lifum, að njóta og lifa hvern dag og jafnframt vita að dagurinn líður, tilfinningarnar verða að minningu og reynslan og minningin getur tekið á sig nýjan lit sem regnbogi Drottins gefur.

Allt hefur sinn tíma.

Hvernig tími verður þessi aðventa í þínu lífi?