Nýárspredikun í Dómkirkjunni

Nýárspredikun í Dómkirkjunni

Nýja árið, árið 2022 heilsar okkur á áttunda degi jóla. Birtan frá ljósi jólanna lýsir enn og daginn er tekið að lengja þar sem vetrarsólhvörf urðu fyrir um 10 dögum þegar sólin var lægst á lofti á norðurhveli jarðar og dagurinn stystur.

Prédikun flutt á nýársdag 2022 í Dómkirkjunni. Ps. 90:1b-4; Gal. 3:23-29; Lúk. 2:21.   

 

Guð, um aldir hefur ljósið þitt ljómað af ásjónu nýfædds barns í Betlehem sem tákn elsku þinnar og návistar mitt í ógn og illsku heimsins.  Við biðjum þig: 

Láttu ljósið þitt lýsa okkur enn.  Leið okkur frá dauða til lífs, frá lygi til sannleika, frá vanmætti til vonar, frá ótta til trausts, frá hatri til kærleika, frá stríði til friðar.  Hjálpa okkur að tendra ljós fremur en að formæla myrkrinu og lát frið þinn fylla hjörtu okkar, allra manna, alheims.  Í Jesú nafni.  Amen.  

 

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen. 

 

Nýja árið, árið 2022 heilsar okkur á áttunda degi jóla.  Birtan frá ljósi jólanna lýsir enn og daginn er tekið að lengja þar sem vetrarsólhvörf urðu fyrir um 10 dögum þegar sólin var lægst á lofti á norðurhveli jarðar og dagurinn stystur.  Þau sem búa milli hárra fjalla geta farið að hlakka til sólarkomunnar eftir nokkrar vikur og rjómapönnukakanna sem bakaðar eru í tilefni af sólarkomunni.   

 

Á nýju ári horfum við fram.  Gamla árið er að baki og við berum þá von í brjósti að allt það sem gerði okkur lífið leitt fylgi okkur ekki á nýju ári.  Að á nýju ári takist okkur að feta brautu bjarta og að okkur auðnist að taka því af æðruleysi og styrk sem við ráðum ekki við. 

  

Guðspjall fyrsta dags ársins er aðeins eitt vers í beinu framhaldi af frásögu Lúkasar af fæðingu Jesú og segir frá því er gerðist á 8. degi lífs hans hér á jörðu.  Þá var hann umskorinn að hætti þjóðar sinnar og látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.    

 

Við þekkjum það vel að leita að merkingu nafna. Til dæmis merkir Guðrún, eitt algengasta kvenmannsnafnið á Íslandi leyndardómur, eða vinátta Guðs og eitt algengasta karlmannsnafnið, Jón, er norræn mynd nafnsins Jóhannes, sem merkir Drottinn er náðugur. Nöfnin aðgreina einstaklinga.    

 

Síðast liðin tvö ár höfum við heyrt ýmist nöfn á veirunni sem veldur covid 19 sjúkdómnum.  Veiran stökkbreytir sér og fær hið nýja afbrigði nýtt nafn.  Fellibyljir ganga yfir og allir fá þeir nafn.  Þannig eru nöfn ekki aðeins á fólki og fyrirbærum, heldur einnig á hlutum og án nafnanna allra væri óhugsandi að finna út við hvað er átt og hvern er átt. 

 

Nafnið Jesús merkir Drottinn frelsar.  “Yður er í dag frelsari fæddur”, sagði engillinn við hirðana á Betlehemsvöllum.  Í nafni hans hefjum við nýtt ár.  Við sungum áðan sálm sr. Valdimars Briem  

 

Í Jesú nafni áfram enn 

með ári nýju, kristir menn, 

það nafn um árs- og ævispor 

sé æðsta gleði og blessun vor. 

 

Öll berum við í brjósti bænir, vonir og óskir um gott ár framundan.  Öll væntum við þess að það sem unnið hefur verið á árinu sem er að líða megi skila sér í meiri árangri á komandi ári.  Öll vonum við að minni hörmungar verði á komandi ári en hafa verið á nýliðnu ári.  Að færri þurfi að syrgja um næstu jól og fleiri geti þakkað gott ár og happasælt. 

 

Skáldið Alfred Lord Tennyson ávarpar nýjársklukkurnar í kvæði sínu In Memoriam, en hann var þekkt skáld á sinni tíð í lok nítjándu aldar.  Í kvæðinu skorar hann á klukkurnar að hringja út ýmis konar mein, harma og ósiði en hringja inn dyggðir, hamingju og góða kosti.  Hringja út lygar, hringja inn sannleik.  Hringja út þúsund styrjaldarár, hringja inn þúsund ára ríki friðarins.  

 

Mörgu getum við ráðið í lífi okkar en ekki öllu.  Mörgu getum við stjórnað í eigin lífi en annarra lífi getum við ekki stjórnað og eigum ekki að gera nema hafa umboð til þess.  Alþingi hefur fengið umboð fólksins í landinu til að setja lög sem okkur ber að fara eftir hvort sem við erum sammála þeim eða ekki.  En við búum líka í landi þar sem lýðurinn ræður og hver og einn einstaklingur hefur leyfi til að segja skoðun sína og benda á það sem betur má fara.  Það er miður að frelsið til að tjá sig sé ekki alltaf notað á uppbyggilegan hátt heldur til niðurrifs á mönnum og málefnum í skjóli skjás. 

 

Nýjársklukkan íslenska má í ár hringja út þann harm sem margar fjölskyldur reyna vegna misnotkunar á áfengi og neyslu fíkniefna.  Hver fréttin á fætur annarri segir frá atvikum þar sem þessi efni ráða för. Neysla þeirra virðist geta tekið í burtu mennskuna hjá þeim sem neita og voðaverk hljótast jafnvel af. Þjáning þeirra sem fyrir verða er mikil.  Það ætti að vera sameiginlegt átak okkar hér á þessu landi að skoða ástæður þess að svo margir þjást vegna ofneyslu áfengis og neyslu fíkniefna og hvers vegna fólk berst við þennan vágest sem færir enga gleði eða hamingju.  Í viðtali við Valgerði Rúnarsdóttur framkvæmdastjóra lækninga hjá SÁÁ segir hún  „Hin stórkostlegu viðbrögð við faraldrinum kalla á að fólk vakni líka af sinnuleysi gagnvart ýmsum vímugjöfum sem leggja fleiri en faraldurinn ár hvert.“ Jafnframt segir hún: „Á ári hverju deyja .... þrjár milljónir úr ofneyslu áfengis samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. En við erum samdauna því og afar lítil stemning til að taka á þeim vanda með samtakamætti heimsins.“  

 

Nýjársklukkan má hringja út því kynferðisofbeldi sem margir hafa orðið fyrir, konur, karlar, transfólk, ofbeldi sem meiðir og deyðir, ofbeldi sem hefur svo sannarlegar verið sett í orð og umræðu á nýliðnu ári. Það mun skila árangri þegar fram líða stundir en sársaukafull er sú vegferð sem hafin er eins og ávallt þegar sár er hreinsað svo það geti gróið um heilt. 

 

Nýjársklukkan má einnig hringja út heimsfaraldurinn sem enginn mun sakna og afleiðingum loftslagsbreytinganna sem valda meðal annars breyttu veðurfari.  Klukkan sú má einnig hringja út öllu því sem ógnar og rænir fólk lífshamingjunni.  Það er af nógu að taka. 

 

Í hinu undurfallega Aðventuljóði Ragnars Inga Aðalsteinssonar segir meðal annars: 

Við lifum í dimmum og hörðum heimi 
með hungur, fátækt og neyð 
þar sem einn er að farast úr ofáti og drykkju 
en annar sveltur um leið 
þar sem einn er þjakaður andlegu böli 
en annar ber líkamleg sár. 
Og samt hefur lausnin frá þjáning og þraut 
verið þekkt í tvö þúsund ár. 
 
Tvö þúsund ár segir skáldið. Greinilegt er, eins og raunar kemur fram í öðrum erindum þessa ljóðs að lausnina er að finna hjá Jesú, frelsaranum.  

Löngu áður en Jesús fæddist sagði Jesaja spámaður: “Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.” Immanúel þýðir Guð með okkur. Guð, æðri máttur, er með okkur. Margir hafa reynt það í lífi sínu og fundið styrk og huggun þess máttar á erfiðum tímum. Hafa fundið gleði og frið, auðmýkt og þakklæti, sælu og gott gengi sem trúin og traustið til Guðs veitir.  

 

Í athyglisverðu viðtali við Björn Hjálmarsson barnageðlækni í síðdegiútvarpi nýverið um börn og netnotkun sagði hann m.a.: „Ég held að trúrækni þjóðarinnar fari minnkandi.  Þeir sem eru sanntrúaðir þeir geta sótt svo mikinn kraft í trúna.“ „Að geta sótt styrk í æðri mátt, trúin á hið góða og hið fagra og hið fullkomna, er mjög góður styrkursegir hann.

 

Það er ekki óþarfi að kenna börnum að treysta á æðri mátt.  Það lífsviðhorf sem trúin færir getur hjálpað þeim lífið á enda til að öðlast styrk og kraft í ólgusjó lífsins.  Fyrir mörgum árum var átakið Verndum bernskuna sett af stað til að hjálpa foreldrum og uppalendum að koma börnum sínum til manns.  Nú hefur ríkisstjórnin með barnamálaráðherra í broddi fylkingar sett málefni barna á oddinn og er það vel.  Börnin eru framtíð þessa lands og fyrir þeim og velferð þeirra hringir nýjársklukkan inn.  Guð blessi börnin og hjálpi foreldrum og öllum þeim sem með málefni barna fara að búa þau undir gott og farsælt líf.

 

Barnið skal nefnt Immanúel.  Guð er með okkur.  Þess vegna er kirkjan hans hér í heimi, hvort sem  hún nefnist þjóðkirkjan á Íslandi, Mekane Yesus kirkjan í Eþýópíu eða rómsversk kaþólsk kirkjan í Mexíkó.  Um allan heim er kirkjan hans að störfum því hann sagðist vera með okkur alla daga, allt til enda veraldar. 

 

Margar áskoranir munu mæta þjóðkirkjunni vegna nýs skipulags sem kirkjuþing samþykkti á nýliðnu ári. Verkefnin eru fjölmörg og ólík.  Eitt mesta gleðiefnið verður þó útgáfa nýrrar sálmabókar sem út kemur næsta haust.  Vandað hefur verið til verka við sálmaval, nótna- og hljómsetningar og höfundaréttar gætt.  Sálmabókin mun auðga kirkjulífið og menningarlífið í landinu og innihalda bæði gamla og nýja sálma og sálmalög. Megi nýja sálmabókin verða þeim sem henni kynnast til uppörvunar, gleði, styrks, huggunar.

 

Við biðjum þess að á hinu nýbyrjaða ári hringi nýjársklukkan inn ráðum og leiðum til að sætta fólk og koma á friði á jörðu. Hringi inn meiri trú og minni efa.  Hringi inn farsæld og gjöfulu lífi. Hringi inn visku og seiglu til að takast á við verkefni lífsins.  Með þá sýn og bæn í huga bið ég Guð að blessa okkur nýtt ár.

 

Gleðilegt ár í Jesú nafni og þakkir fyrir liðna tíð.

 

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda  svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.

 

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.  Amen.