Pétur postuli segir í fyrra bréfi sínu til kristinna safnaða í Litlu-Asíu: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ (1Pét 5.7)
Hversu oft stöndum við okkur að því mannanna börn að hafa áhyggjur. Langflestar þeirra eru óþarfar. Jesús talar líka um áhyggjurnar eins og allt annað er viðkemur okkur mannfólkinu og bendir okkur á fugla himinsins sem engar áhyggjur hafa af fæðuöflun sinni og á liljur vallarins sem engar áhyggjur hafa vaxtarmöguleikum sínum. Pétur postuli tekur í sama streng þegar hann lætur samverkamann sinn skrifa fyrir sig bréfið til hinna ungu safnaða.
Eftir nokkrar mínútur munuð þið kæru systur vígjast til þjónustu í kirkjunni okkar. Þið munuð án efa mæta áhyggjufullu fólki í söfnuðum ykkar sem þarfnast styrks og ráða varðandi líf sitt og framtíð. Þá er gott að minnast þess að þið eruð ekki einar í þjónustunni, því fyrir utan samstarfsfólk ykkar megið þið treysta því að sá Guð sem hefur kallað ykkur til þjónustu í kirkjunni, er með ykkur. Hann skyldi lærisveina sína ekki eftir eina þegar hann var festur á kross. Hann sendi þeim andann heilaga og nefndi hann hjálpara og huggara. Heilagur andi er enn að verki í lífi okkar og í kirkju okkar. Jesús sýndi lærisveinum sínum umhyggju og hann sýnir fólkinu sínu umhyggju, sem birtist meðal annars í því að senda trúa verkamenn á akurinn. Fólk sem tilbúið er að sýna umhyggju og ganga fram í anda Krists, sem kom fram við fólk í kærleika, leiðbeindi og fyrirgaf.
„Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ Í gær söfnuðust saman hundruðir kristinna manna, karla og kvenna í Hörpunni hér í Reyjavík. Fólk kom víða að af landinu og bað fyrir fólki, stofnunum, landshlutum, já öllu því er snertir land og þjóð. Þarna var fólk úr ýmsum kirkjudeildum. Þar mátti sjá nunnur í klæðum sínum, Hjálpræðisherfólk í búningum sínum, prúðbúið fólk og hversdags klætt fólk, svo fátt eitt sé nefnt. Þarna voru viðhafðar mismunandi hefðir við bænahaldið og mismunandi stíll var í tónlistinni.
Samstaða er af hinu góða. Það eru ekki mjög mörg ár síðan óhugsandi var að kristnar kirkjudeildir gætu sameinast í bæn og trúariðkun. Í rúm 40 ár hefur verið starfandi samstarfsnefnd kristinna trúfélaga og hefur það samstarf leitt af sér góða samvinnu, til dæmis stofnun bænahóps, sem undirbjó Kristsdeginn í gær. Það sem sameinar er trúin á Jesú Krist. Við erum ólík og þarfir allra eru ekki þær sömu. Einum hentar að tjá trú sína á einn hátt og öðrum á annan hátt, en öll erum við elskuð börn Guðs.
Þessa helgi er þess líka minnst að 40 ár eru liðin frá vígslu fyrstu konunnar til prestsþjónustu á landi okkar. Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir vígðist hér í Dómkirkjunni þann 29. september árið 1974. Í dag 40 árum síðar er áttugasta konan vígð til prestsþjónustu í kirkju okkar. Elín Salome, þú ert kona númer 80 í röð þeirra kvenna sem hafa tekið prestsvígslu hér á landi. Og til gamans má geta þess, af því nefnd er hér tala, að þú Kristín ert 52. djákninn sem vígist til þjónustu í kirkju okkar. Og það er líka gaman að geta þess að einn vígsluvotturinn hér í dag, sr. Örn Bárður hefur bæði hlotið djákna- og prestsvígslu í kirkju okkar.
Þetta tvennt, þjónusta djákna og prestsþjónusta kvenna hefur auðgað kirkju okkar og aukið fjölbreytni í þjónustunni.
„Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur“ sagði postulinn í bréfi sínu. Hann var búinn að reyna sannleiksgildi þessara orða og vildi miðla þeim áfram til safnaðanna.
Þið hafið kæru vígsluþegar fengið köllun til að segja frá honum sem postulinn nefnir í bréfi sínu. Hann er Jesús sem þið viljið þjóna í orði og verki. Prédikunin er ekki eingöngu í orðum. Við prédikum líka í og með verkum okkar. Við leitumst við að sýna umhyggu þeim er til okkar leita og mætum fólki af virðingu og sanngirni. Í dag játist þið því að þjóna kirkju Krists af trúmennsku. En þið megið líka vita það að Jesús ber umhyggju fyrir ykkur og leyfir ykkur að varpa allri áhyggju ykkar á sig.
Orðið og bænin eru bestu hjálpartækin í þjónustunni. Orð Guðs mætir okkur á lífsins leið og hjálpar okkur í aðstæðum lífsins. Orðið veitir styrk og þessu orði komið þið á framfæri í þjónustu ykkar.
Við megum treysta því að bænir okkar eru heyrðar og hafa áhrif. Í bæninni tölum við við þann er við vitum að elskar okkur hvert og eitt eins og við erum. Þess vegna komum við óhrædd fram fyrir Jesú og treystum honum fyrir öllu okkar. Getum talað við hann eins og okkar besta vin sem við trúum fyrir öllu.
Bænin snertir við tilfinningum okkar og hjartalagi. Við getum beðið Drottinn að miskunna okkur eins og blindi beiningamaðurinn sem heyrði að Jesús var nærri. Þessi elsta bæn kristinna manna hefur sennilega verið beðin oftar en allar aðrar bænir. „Drottinn Jesús Kristur, miskunna þú mér.“
Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja þegar einn þeirra bað hann um það. Hann kenndi þeim bænina Faðir vor sem beðin er hvern dag um allan hinn kristna heim. Arfur kynslóðanna birtist meðal annars í því bænamáli og það má ekki gerast að kunnáttan hætti að vera til staðar og hætti að berast frá einni kynslóð til annarrar. Í hraða nútímans er verðugt verkefni kirkjunnar að kynna leiðir til kyrrðar og íhugunar. Okkar evengelíska lúterska þjóðkirkja rúmar alla, er breiðfylking fólks sem er ólíkt og nærist trúarlega og andlega á mismunandi máta. Fjölbreytileiki í helgihaldi er því leyfilegur og nauðsynlegur. Kirkjan hefur verk að vinna og sendir nú fleiri þjóna á akur sinn.
Kæru systur. Þið hafið verið kallaðar til þjónustu í kirkjunni, til að prédika Guðs orð í orði og í verki. Kallaðar til að þjóna náunganum í kærleika. Ykkur er falið mikið verkefni, sem er í senn gleðiríkt og krefjandi. Það eru forréttindi að fá að þjóna í kirkju Krists hér á jörð. Fá að starfa í anda hans sem er fær um að gera alla hluti nýja. Þið þurfið engu að kvíða því þið megið varpa „allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ Gangið því fram í djörfung, fullvissar um að bænir ykkar verða heyrðar og að Guð mun senda ykkur hjálp og styrk á þann hátt er ykkur er fyrir bestu. Minnist orða Jesú: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning“ og orða postulans: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“
Til hamingju með vígsluna. Guð blessi ykkur. Amen.
Vígsluræða flutt við prests- og djáknavígslu 28. sept. 2014. 1. Pét. 5:7