Vitringarnir

Vitringarnir

Hér mætast tveir heimar. Í vitringunum heimur vísinda og leitar, en í Heródesi heimur valds og ótta. Vitringarnir eru komnir til að veita hinum sanna konungi, sem ekki er að finna í Jerúsalem, lotningu.
fullname - andlitsmynd Sigurjón Árni Eyjólfsson
06. janúar 2011

Three Wise Men

Fáar frásögur Ritningarinnar eru jafnvel þekktar á Íslandi eins og sagan af vitringunum og Jesúbarninu (Mt 2.1–12). Á hinn bóginn er sjaldan sérstaklega fjallað um hana eða lagt út frá henni í prédikunum. Því veldur ef til vill staða textans innan kirkjuársins en samkvæmt því ber að prédika út frá honum 6. janúar eða á þrettándanum. Það gefur að skilja að sá dagur fellur ekki oft á sunnudag. Frásagan er aftur á móti það merkileg að nauðsynlegt er að gera sérstaka grein fyrir henni enda finnst mörgum hún forvitnileg.

Þegar borin eru saman jólaguðspjall Lúkasar (Lk 2.1–20) og Matteusar (Mt 1.18–2.12) kemur fram áherslumunur. Lúkas greinir frá atburðunum í mikilli nánd við fjölskyldu Jesúbarnsins og í hringiðu stjórnmála rómverska heimsveldisins. Matteus aftur á móti staðsetur sína frásögu í Palestínu mitt í stjórnmálalegum átökum þar. Hann tengir hana líka við atburð sem á stað langt utan við landamæri heimsveldisins. Lúkas dregur upp mynd af mikilfengleika jólanna mitt í fábreytileika hversdagsins. Matteus aftur á móti setur þau í samhengi þess sem er framandi og fjarlægt eins og við vitringana og dýrð og mikilleik valds Heródesar.

Þegar frásaga Matteusar er skoðuð kemur í ljós að hún er meistaralega uppbyggð. Henni má skipta í þrjá hluta. Fyrst er í inngangur (vers 1–2). Í honum er greint frá komu vitringanna til Jerúsalem. Í öðrum hluta (vers 3–9a) er sagt frá viðbrögðum við komu þeirra og boðskap hjá valdastétt Gyðinga með Heródes í broddi fylkingar. Vitringarnir mæta í honum slóttugum, grimmum og stórhættulegum konungi. Og loks í þriðja hlutanum (vers 9b–12) er greint frá því þegar vitringarnir finna barnið og falla fram fyrir því.

Koma vitringana til Jerúsalem

„Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu?““ (Mt 2.1–2). Einungis þessi vers innihalda efni í nokkrar greinar, en skoðum aðeins hverjir mættast hér og fulltrúar hvaða heima eru þeir? Heródes I (73–4 f.Kr) eða „hinn mikli“ ríkti sem konungur yfir Palestínu árin 37 til 4 fyrir Krist. Hann var stjórnmálalegur raunsæismaður.1

Heródesi er jafnan lýst sem stjórnmálaref, miskunnarlausum og slóttugum valdapólítíkusi. Um hann segir á einum stað: „Hann er ofsamaður í skapi, og verður að hafa fram vilja sínum við hvern sem í hlut á, ella fylgir ber ógæfa.“2 Heródes var laginn við að haga seglum eftir vindi og reyndist Rómverjum mikill vinur. Hann nýtti sér stjórnmálatengsl sín og tókst að nota þau – er Rómverjar lögðu undir sig Palestínu og leifarnar að hinu helleníska heimsveldi Alexanders mikla – til að gerast konungur undir þeirra verndarvæng. Heródesi ríkti síðan yfir nær allri Palestínu. Hann reisti byggingar, hallir og borgir út um allt ríki sitt og leið enga andstöðu við sig. Hún var kæfð þegar í fæðingu. Heródes hikaði ekki við láta dæma til dauða þá er hann áleit ógna veldi sínu. Meðlimum úr eigin fjölskyldu var ekki hlíft ef svo bar undir. Tengdamóður, seinni eiginkonu og tvo syni sína lét hann taka af lífi, er Heródesi þótti þeir skyggja á veldi sitt.3 Þegar Matteus getur um fyrirskipun Heródesar um að myrða sveinbörn tveggja ára og yngri í Betlehem (Mt 2.13–18), var það í fullu samræmi við stjórnarhætti hans.4 Vitringarnir koma til Jerúsalem í leit að hinum nýfædda konungi Gyðinga. Og við getum vel gert okkur hugmynd um hvers konar konung og hirð vitringarnir sækja heim.

En hverjir voru þessir vitringar?5 Upphaflega var þetta gríska orð μαγος, (magos) sem þýtt er vitringur, notað um meðlimi prestastéttarinnar í Persíu. Nauðsynlegt er að hafa í huga að prestastétt sú sameinaði í starfi sínu vísindi þess tíma. Þau innihéldu náttúruvísindi, stjörnufræði, guðfræði, heimspeki og stjörnuspeki. Í þeirra verkahring var að setja fram marktæk dagatöl, en samkvæmt þeim var hægt að segja fyrir um flóð m.a. í Efrat og Tigris. Samfélag sem byggði á landbúnaði þarfnaðist þekkingar þeirra og má segja að „vitringarnir“ hafi haft svipaða stöðu og fiskifræðingar á Íslandi. Þeir lásu auk þess í stjörnur og réðu drauma fólks. Þannig sinntu þeir störfum sem sálfræðingar, félagsráðgjafar og alls kyns menningarfrömuðir fást við nú á dögum, en undir öðrum formerkjum. Samkvæmt Matteusi eru hér vísindamenn á ferð sem sinna vinnu sinni af alúð og taka mark á þeim lærdómi sem þeir draga af rannsóknum sínum. Stjörnufræðin var mikilvægur hluti þeirra og þess vegna hefja þeir leit sína.

Hugtakið sem Matteus notar um stjörnu (gr. αστηρ (astër)) er óljóst. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvaða fyrirbrigði á himinhvolfinu hann er tala um. Stjörnufræðingar nútímans hafa bent á nokkur atriði frá þessum tíma sem sáust á himni. Það getur verið um að ræða supernova eða þegar sól springur. Í annan stað halastjörnu, en ein slík var sjáanleg á himinhvolfinu um 12 f. Kr. Loks hefur verið vísað til vissrar stöðu Júpíters og Satúrnusar sem sást vel í maí, oktober og nóvember 7 f. Kr. Samkvæmt útbreiddri skoðun innan gyðingdóms og í hellenískum heimi væntu menn komu endurlausnara og friðarhöfðingja sem fæðast ætti og koma myndi frá Júdeu. Þessari von tengdust annars vegar konungsstjarnan Júpíter og hins vegar sabbatsstjarnan Satúrnus. Í Persíu voru miklar gyðingabyggðir og Matteus getur hér verið að höfða til þeirrar þekkingar sem vitringanna hafa haft á vonum Gyðinga. Þetta eru skemmtilegar vangaveltur6 og það getur verið um að eitthvað allt annað fyrirbrigði að ræða en það sem hér er nefnt. Alla vega var það svo í fornöld að við fæðingu stórmenna var oft bundin skin stjörnu sem komu fram á himinhvolfið og sáust svo lengi sem þeirra naut við.

Hvernig sem á að fá botn í þetta, þá eru vitringarnir komnir vegna rannsókna sinna og stjörnurnar sem þeir fylgja. Hugmyndir þeirra voru Gyðingum í Jerúsalem þekktar. Í Þriðju Mósebók er að finna spádóm um komu Messíasar: „Stjarna rennur upp af Jakob, og veldissproti af Ísrael“ (3M 24.17).

Þrátt fyrir að bæði í gyðingdómi og kristni sé stjörnuspeki litin hornauga, er greinlegt af frásögu Matteusar að þó svo stjörnuspeki sé hafnað að stjörnufræðin eru virt sem mikilvægi vísindi. Kristninni er stjörnufræðinni ekki fjandsamleg. Þessu er haldið fram einmitt vegna þess að Kristur táknar lok allrar stjörnuspeki. Hún er líka allt annars eðlis en stjörnufræði.

Matteus dregur hér fram hvernig tveir heimar mætast, í vitringunum heimur vísinda og leitar, en í Heródesi heimur valds og ótta. Áherslan er skýr að vitringarnir eru komnir til að veita hinum sanna konungi, sem ekki er að finna í Jerúsalem, lotningu.

Í textanum er einungis sagt að vitringarnir hafi komið frá Austurlöndum. Í gegnum tíðina hefur helgisagan verið dugleg við að fylla inn í frásöguna. Snemma urðu úr vitringunum konungar en í spádómsbók Jesaja segir: „Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem rennur upp yfir þér“ (Jes 60.3). Einnig var tekið svo til orða: „Konugarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Sabe og Seba skulu færa skatt“ (Sl 72.10). Í framhaldi af því er farið að tala um vitringana sem þrjá konunga. Þeir eru fulltrúar þriggja kynslóða, ungur, miðaldra og gamall. Við það bættist að vitringarnir eru gerðir að staðgenglum, hver fyrir sinn kynstofn, hvíta, gula og svarta. Þeir fengu loks nöfnin Kasper sem er ungur og skegglaus, Melchior er aftur á móti skeggjaður öldungur en Baltasar miðaldra og dökkur á hörund.7 Greinilegt er af helgisögunni að vitringarnir eru fulltrúar mannkyns. Þeir koma sem slíkir til Jesúbarnsins og veita því lotningu. Í helgisögunni eru teknir saman og mótuð mynd af meginvitnisburðum Ritningarinnar um undur jólanna.

Vitringarnir og Heródes

Í öðrum hlutanum (vers 3–9a) er lýst samskiptum þessara tveggja mismunandi sviða mannlegs lífs. Fulltrúar hinnar leitandi, fróðleiksfúsu og lotningarfullu stöðu mannsins í samtali við Guð eru vitringarnir. Umræða manns og Guðs á sér stað þegar menn rannsaka veruleikann sem sköpunina hans. Hins vegar er það Heródes, fulltrúi hins útsmogna valds, sem sér óvin í hverju horni og svífst einskis til að viðhalda og auka vald sitt og auð.

Það kemur því ekki á óvart að þegar Heródes heyrir erindi vitringanna að hann varð „skelkaður og öll Jerúsalem með honum“ (v. 3). Gríska orðið ταρασσω (tarassó), þýðir að vera sleginn út af laginu, óttasleginn, órólegur, áttalaus, skelfdur og jafnvel að missa fæturna. Spurning og leit vitringanna setur sem sé Heródes og valdakerfið í Jerúsalem í uppnám. Það stendur frammi fyrir hruni. Vitringarnir átta sig ekki strax á hættu spurningarinnar. Heródes sem slægur og útsmoginn stjórnandi kann að fela ótta sinn undir slæðu kurteisi. Hann kallar saman æðstu presta og fræðimenn í Jerúsalem til að svara. Um er að ræða fulltrúa þeirra fjölskyldna sem fylgja Heródes að málum og fá að launum æðstu embætti innan stjórnkerfisins, þar á meðal í musterinu. Samkvæmt Matteusi kunna þeir til verka og þekkja spádóma Gamla testamentisins og túlkanir á þeim. Kristur, konungur Gyðinga, á að fæðast í Betlehem í Júdeu. Þeir opna Ritninguna og lesa boðskapinn, en loka henni svo. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki eins og síðar segir í guðspjallinu (Mt 13.13). Á meðan nema heiðingjarnir rödd Guðs í sköpuninni og fylgja stjörnunni. Það nægir þeim til að halda af stað til að sýna barninu lotningu. Þeir skriftlærðu í Jerúsalem, hafa Ritninguna og túlka rétt, en orð hennar ná ekki til þeirra. Bókin er þeim lokuð.

Vitringarnir grípa orðið og fylgja því. Rétt áður en þeir halda af stað, kallar Heródes þá til sín og biður þá um að segja sér hvar barnið sé að finna, eftir að þeir hafi sýnt því lotningu. Hann vilji gera hið sama. Lesandinn veit hvaða vilji og áætlun býr að baki. Öll Jerúsalem krefst dauða lausnara síns eins og síðar er lýst í guðspjallinu. Hvernig á að taka svona skjalli og umgangast slíka ógn, er svarað í textanum með eftirfarandi orðum: „Þeir hlýddu á konung og fóru“ (vers 9).

Vitringarnir og barnið

Vitringarnir halda burt frá Jerúsalem og Heródesi. Það er merkilegt að þrátt fyrir allt veitti hann vitringunum orðið sem leiddi þá til Jesú. Þannig sannast enn á ný að það er Guð sem hefur allt í hendi sér. Það er sama hve rotinn maðurinn er — honum tekst ekki að koma í veg fyrir þá blessun sem Guð hefur bundið við sköpun sína. Hún er einnig til staðar í stjórnarfari ríkja veraldar.

Þegar vitringarnir finna friðarhöfðingjann og endurlausnarann falla þeir fram og veita Jesúbarninu lotningu. Gríska orðið προσκuνεω (proskuneó) sem er notað, þýðir að kasta sér flötum fram á gólfið. Í fornöld átti slíkt athæfi við frammi fyrir konungum, keisurum og guðum. Í Matteusarguðspjalli er orðið notað í tengslum við játningu manna á guðdómi Jesú (Mt 8.2; 8.18; 14.33; 15.25; 20.20). Orðið kemur fyrir við lok guðspjallsins þegar Jesús birtist lærisveinum sínum upprisinn og þeir falla fram fyrir honum (Mt 28.9,17). Þá mælir Jesús orðin sem eru flutt við hverja skírn: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ Sömu orðin eiga við um barnið í jötunni, það er því ofureðlilegt að vitringarnir gleddust „harla mjög“ þegar þeir sjá barnið. Vitringarnir lúta þeim Guði sem gerðist maður til að kenna okkur mönnum hvað felst í því að vera maður. Jesúbarnið lýkur hér upp fyrir okkur að við erum börn, elskuð af Guði. Í Jesú gengur Guð inn í daglegt líf mannsins, sem er oft gegnumsýrt af hættum sem stafa af blindu manna. Rót hennar er að leita í því að við menn greinum ekki að við og náungi okkar erum börn Guðs.

Gjafirnar

Það er ekki hægt að ljúka þessari umfjöllun án þess að tala um gjafirnar. Gull, reykelsi og myrra voru þekkt í fornöld sem fórnargjafir. Reykelsi og myrra voru notuð við guðsþjónustur og höfðu í vitund fólks græðandi og hjálpræðislegt hlutverk. Innan hefðarinnar hefur þeim verið eignuð táknræn merking. Gullið er guðlegur málmur. Hann vísar til guðdóms Jesú, reykelsið til Guðs og myrran til manndóms Jesú. Það kemur líka fyrir að reykelsið sé tengt við hlutverk Jesú sem sanns æðsta prests. Önnur túlkun er að tengja gjafirnar við starf Jesú, gullið merkir verkin, reykelsið fyrirbænina og myrran fórnardauðann.8 Marteinn Lúther tengir gjafirnar við það sem allir menn, jafnt ríkir sem fátækir, geta fært Jesú. Gullið stendur fyrir trúna á Krist, reykelsið vonina og myrran kærleikann. Allir geta ræktað trú, von og kærleika, sem bætir öll samskipti manna.9

Í þessari vissu halda vitringarnir heim og láta slóttuga konunga þessa heims eiga sig og halda sig við þá von sem þeir fengu áþreifanlega staðfesta í Jesúbarninu. Með þeim orðum læt ég þessum vangaveltum mínum lokið.

Tilvísanir

1 Günther Baumbach, „Herodes/Herodeshaus“, í: TRE 15, Berlin 1993,159–162.

2 Ásmundur Guðmundsson: Saga Ísraels, Reykjavík 1948, 326.

3 Werner Foerster: „Herodes und seine Nachfolger“, í RGG 3. útg., 3. bindi Tübingen 1989, 266–269.

4 Werner Foerster: „Herodes und seine Nachfolger“, 267.

5 Ulrich Luz: Das Evangelium nach Matthäus (Mt 1–7), I/1, Zürich 3. útg., 1992, 118. Gerhard Delling, „μαγος“, í: THWNT, 4. bindi, 2.útg. Köln 1990, 361 [361–363].

6 Ulrich Luz: Das Evangelium nach Matthäus (Mt 1–7), 114–115.

7 Ulrich Luz: Das Evangelium nach Matthäus (Mt 1–7), 123.

8 Joachim Gnilka: Das Matthäusevangelium 1. Teil, Vín 1988, 41. Ulrich Luz, Das Evangelium nach Matthäus (Mt 1–7), 121.

9 Góða og ítarlega úttekt Lúthers á þessum texta er m.a að finna í Kirkjupostillu Lúthers. Walch XI 295–429. (Walch = Luthers Sämliche Schriften XI Band, útgefandi Johann Georg Walch 2. endurbætt útg., St. Louis USA 1910, Groß Oesingen 1987).