Liljur vallarins og græðgin

Liljur vallarins og græðgin

Lengi hefur græðgin verið ofarlega á lastaskrám kristninnar. Hún er á topp sjö listanum yfir svonefndar dauðasyndir. Nútíminn hefur á hinn bóginn gert græðgina að dyggð. Þar er hún talinn drifkraftur almennra hagsbóta - gjarnan uppdubbuð í búning svonefndrar "skynsamlegrar sjálfselsku".
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
08. júní 2007

Lengi hefur græðgin verið ofarlega á lastaskrám kristninnar. Hún er á topp sjö listanum yfir svonefndar dauðasyndir.

Nútíminn hefur á hinn bóginn gert græðgina að dyggð. Þar er hún talinn drifkraftur almennra hagsbóta - gjarnan uppdubbuð í búning svonefndrar "skynsamlegrar sjálfselsku". Afleiðingar þess láta ekki á sér standa. Þeir ríku verða sífellt ríkari hvort sem um er að ræða einstaklinga eða þjóðir. Það hriktir í stoðum velferðarkerfanna. Sjálft vistkerfið er að gefa sig. Það þolir ekki þá endalausu neysluaukningu sem hagkerfi græðginnar hvetur til.

Öflugustu andstæðingar græðginnar eru þakklætið og trúin.

Dyggustu samherjar græðginnar eru á hinn bóginn vanþakklætið og vantrúin.

Vantrúin er í því fólgin að treysta ekki Guði heldur leggja allt undir eigið framlag. Allt stendur og fellur með því sem við gerum, árangrinum sem við náum og sigrunum sem við vinnum. Þetta skapar þann ómanneskjulega heim sem við þekkjum. Þar er lögmál frumskógarins í gildi og þess vegna nauðsynlegt að olnboga sig í gegnum lífið. Sá sterki mun sigra. Og sterkur er sá sem getur reitt sig á eiginn mátt og megin.

Vanþakklætið lýsir sér í því að við gerum okkur ekki grein fyrir því að okkur er svo ótalmargt gefið. Vanþakklætið er að telja sig ekki hafa þegið neitt af neinum og því engum skuldbundinn. Sá vanþakkláti er ekki upp á aðra kominn að neinu leyti.

Þakklátur er sá sem finnur að hann á ekki heimtingu á neinu - en fær engu að síður dýrar gjafir. Þakklátur er sá sem veit að ekkert er sjálfsagt eða sjálfgefið.

Trúin er síðan þetta andartak þegar ég finn að ég er háður Guði og það er allt í lagi. Hönd hans er sterk, faðmur hans víður og hann mun annast mig, því ég er barnið hans, sama hvað gerist, í ljósi og myrkri, í lífi og dauða.

"Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra."

Pistillinn birtist einnig á bloggi Svavars Alfreðs og þar er hægt að ræða um efni hans.