Hlustum með hjartanu

Hlustum með hjartanu

Það er merkilegt að kristindómurinn hefur oft verið tengdur við gleðisnautt líf. Líf þar sem skemmtanir og gleðskapur eru sett á bannlista. Raunar hafa hópar innan kirkjunnar á öllum tímum og enn í dag litið svo á að veislur og gleðskapur væru verkfæri hins illa og þar með flokka sem synd.

Það er ánægjulegt að vera boðin til veislu. Það er gott að gleðjast með góðu fólki, eiga samfélag í gleði. Við heyrðum um óvenjulega veislu í guðspjalli dagsins í dag. Gestirnir sem boðnir voru í konunglegt brúðkaup vildu ekki koma.

Systkini okkar í gegnum aldir og árþúsund hafa spurt, ég hef spurt og þú hefur spurt : Hvernig er himnaríki? Jesús fékk oft þesssa spurningu og svörin voru mörg og margvísleg. “Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn”, “líkt er himnaríki fjársjóði , sem maður fann og leyndi”, “líkt er himnaríki neti er safnar alls kyns fiski”, “líkt er himnaríki kaupmanni sem leitaði að fögrum perlum”. Í dag fengum við enn eina lýsinguna á himnaríki. “Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns”. Þetta hljómar nú ekki sem verst. Getum við ekki glaðst yfir því ef við leyfum okkur að túlka dæmisöguna á þann veg að við getum séð fyrir okkur himnaríki eins og konunglegt brúðkaup? Það er einmitt þetta sem skemmtilegt að boða, fagnaðarerindið, okkur er öllum boðið til veislu í ríki Guðs. Í brúðkaupsveislu dæmisögunnar skiluðu boðsgestirnir sér ekki og þjónar voru sendir á stræti og torg og þar áttu að safna saman öllum sem voru á ferli, vondum jafnt sem góðum. Það er meginboðskapur Jesú sem skín í geng aftur og aftur: Hjá Guði erum við jöfn. Þar er ekki spurt um mánaðarlaun, ekki stöðu eða stétt, ekki kyn, kynþátt eða kynhnegð. Við erum öll boðin í veisluna og það er Guð sjálfur sem er gestgjafinn.

Það er merkilegt að kristindómurinn hefur oft verið tengdur við gleðisnautt líf. Líf þar sem skemmtanir og gleðskapur eru sett á bannlista. Raunar hafa hópar innan kirkjunnar á öllum tímum og enn í dag litið svo á að veislur og gleðskapur væru verkfæri hins illa og þar með flokka sem synd. Oftar hefur það þó verið fólk utan kirkju sem hefur talið að innan veggja kirkju og í samfélögum henni tengd væri heldur dauft og leiðinlegt. Ef það er tilfellið þá erum við að minsta kost ekki að fylgja þeim sem við kennum trú okkar við og viljum byggja líf okkar á, sjáfum Jesú Kristi. Hann tók þátt í veisluhöldum, þegar veisluföng þrutu, breytti hann vatni í vín, og líkir sjálfu guðsríkinu við konunglegt brúðkaup. Brúðkaup einsog heimsbyggðin fær að fylgjast með í beinni útsendingu þegar kóngafólkið gengur í heilagt hjónaband.

En hvað um öll þau sem ekki eiga sjónvarp?

Börnin sem vakna svöng og eiga ekki von á að fá hungur sitt satt í dag heldur. Þau sem sofna og vakna í skugga hryðjuverka. Þau sem búa við örbygð og ofbeldi hvar sem er í heiminum. Þar er Jesús. Hjá þeim. Og hann býður þeim til konunglegrar veislu og skaffar þeim veisluklæði.

Það er freistandi að dvelja lengur við brúðkaupið. Það er freistandi að láta þessi orð guðspjallsins vera yfirskrift og meginmál prédikunarinnar: “Líkt er um himnaríki og konung einn sem gjörði brúðkaup sonar síns”. En Jesús sagði fleira í dæmisögunni: Þegar konungur sá að í veislunni var maður sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Eftir nokkur orðaskipti biður konungur þjóna sína að “binda hann á höndum og fótum og varpa honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna”. Harkaleg orð þetta. Hvað er hann að segja? Er hann að vísa til þess að ef við erum ekki klædd eins og Guði þóknast þá muni okkur verða úthýst úr himnaríki? Samrýmist það kærleiksboðskapnum sem okkur er falið að útbreiða um alla jörðina?

Það góða við þessa aðferð Jesú að nota dæmisögur til að fræða okkur að hann gefur okkur tækifæri til að hugsa skapandi. Það gefur okkur frelsi til að túlka. Við getum lesið líf okkar og reynslu inní söguna og þær aðstæður sem þar er lýst. Ein slík saga sögð þúsunum gefur þúsundir möguleika á túlkunum. Við erum ekki bundin bókstafnum. Þetta er ekki stærfræðiformúla, ekki lög og reglur. Við erum frjáls. Það er eitt af mörgum gersemum krisinnar trúar. Frelsið.

Jesús var alltaf meira upptekin af innri verðmætum en þeim ytri. Kærleikur og umhyggja skipti svo millu meira máli en auður og völd. Látalæti og yfirborðsmennsku sá hann í gengum á augabragði. Hann leitaði inná við. Leitaði þeirra gæða og kosta sem mölur og ryð hafa engan aðgang að.

Þegar hann býður okkur til veislu eigum við að vera veisluklædd. Það er ekki átt við síðkjól eða kjólföt. Það er verið að tala um að við mætum opnum huga tilbúin að gleðjast með glöðum. Við mætum í sorgarklæðum í sorgarhús. Grátum með þeim sem gráta.

Það er svo margt sem átt getur sér stað í sálartetrinu okkar. Við getum fallið í fen depurðar. Áföll, sorg, álag, erfðir, allt geta þetta verið ástæður sem leiða til þunglyndis. Slíkri líðan er gjarnan lýst líkt og Jesús nefnir í dæmisögunni. Það er líkt og að vera varpað í ystu myrkur. Þar er grátur og gnístran tanna.

Við eigum val. Það er mikið talað um pólítiskt val þessa dagana í prófkjörsbaráttu þeirra sem vilja komast á þing. En hér er talað um annarsskonar val. Það var verið að tala um að jafnvel þau sem greinst hafa með illvígan sjúkdóm eiga val. Hópur óvenju kraftmikils fólks stofnaði með sér félagsskap fyrir okkrum árum sem þau kalla Kraft. Ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og lætur ekki bugast. Stendur saman, velur lífið.

Ég held að Jesús hafi einmitt verið að tala um þetta. Að við sleppum taki á óttanum og láti hann ekki varpa okkur í ystu myrkur.

Þau sem glíma við erfiða geðsjúkdóma hafa sannarlega komist í kynni við ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna. Myrkrið getur orðið svo yfirþyrmandi að lífsviljinn svíkur. Þá er gott að eiga góða vini. Þá er gott að eiga góða geðlækna og sálfræðinga, lyf og meðferðir sem hjálpa til við að ná bata. Gott að til skuli verað félagsskapur eins og Geðhjálp sem vinnur að því að gera líf fólks bæilegra með samstöðu og samhjálp. Þá er gott að eiga trú. Trú á þann sem veit hvað það er að vera í ystu myrkrum. Trú á þann sem eftir myrkur og dauða krossins reis upp til að geta reist þig upp. Til að geta reist upp börnin sín öll og boðið til veislu. Sú veisla á að eiga sér stað hér og nú. Hún hófst með komu Jesú sem deildi með okkur kjörum, gleði og sorg. Við erum boðin og við eigum að koma saman, vera saman, gleðjast saman, syrgja saman. Klæðum okkur eftir tilefninu. Tökum ofan grímu óttans.

Horfumst í augu og mætum hvert öðru óttalaus.

Við erum sköpuð til samfélags. Samfélags hvert við annað og við góðan Guð. Hvert getum við leitað. Hvernig þekkjum við Guð?

Því er vel svarað í fallegum sálmi eftir Sigurbjörn Einarsson biskup:

Þú heyrir spurt er hjálp að fá, og hvar er ljós og dag að sjá? Ef hjartað týnir sjálfu sér hvar sé ég leið, hver bjargar mér? Þú heyrir svar ef hlustar þú af hjartans þörf, Í barnsins trú Því Kristur Jesús þekkir þig og þú ert hans, hann gaf þér sig.

Við þurfum ekki að leita. Hlustum með hjartanu.

Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.