Eins og Fönixinn

Eins og Fönixinn

Í dag er öskudagur. Nú er tími fyrir börn að trítla um í allskonar búningum, syngjandi Gamla Nóa eða Bahama lagið. Sum hafa ef til vill saumað litla poka í skólanum og laumast á víxl að festa þá á hvort annað. En nú eru líka tímaskil í kirkjuárinu; með öskudeginum hefst langafasta
fullname - andlitsmynd María Guðrún Ljungberg
18. febrúar 2010
Flokkar

Skapa í oss hreint hjarta Ó Guð. Hreint líkt og fannhvíta vængi dúfunnar og veit oss nýjan, stöðugan anda. Gef oss, faðir, frið þinn og kærleika, sem þú þráir að gefa okkur. Íklæð oss krafti frá hæðum. Að við megum beina augum okkar til fjallanna. Þar sem lindirnar streyma er oss þyrstir í líkt og hindin.

Í dag er öskudagur. Nú er tími fyrir börn að trítla um í allskonar búningum, syngjandi Gamla Nóa eða Bahama lagið. Sum hafa ef til vill saumað litla poka í skólanum og laumast á víxl að festa þá á hvort annað. En nú eru líka tímaskil í kirkjuárinu; með öskudeginum hefst langafasta, en það er sjö vikna föstutímabil sem er partur af undirbúningnum fyrir Páskanna. Þessar 7 vikur eða rúmir 40 dagar eru vísun í fjörutíu daga föstu Jesú í eyðimörkinni.

Öskudagur á einnig sess í kirkjuári kaþólsku kirkjunnar en nafn hans er einmitt dregið af því að sumstaðar er ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta og til þess jafnvel notaður sérstakur vöndur. Annarsstaðar þekkist að aska er smurð á enni kirkjugesta. Í Biblíunni táknar askan hið forgengilega og óverðuga en að auki er hún talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar en íhugunarefni sunnudaga föstunnar er fylgdin við Krist. Fastan hefur það markmið, að undirbúa okkur fyrir Páskana, svo að við megum rísa upp í hið nýja líf, sem er Kristur. Í lífinu sem Kristur gefur er ómældur styrkur og öllum er frjálst að leita á náðir hans.

Langafastan er ætluð sem nokkurs konar ganga, þar sem gengin er krossgangan með Jesú, með því að fasta, hugleiða og biðja. Þá tekur maður niður eigin grímu og búning og kastar frá sér. Þá horfir maður í iður sín, eða iðrast eins og sumir kalla, til þess að rísa síðan upp úr öskunni eins og Fönixinn, þroskaðri, sáttari og tilbúnari andspænis lífinu.

Í guðspjalli dagsins er sagt frá því þegar Jóhannes skírir Jesú. Jesús er skírður með öðrum við ánna Jórdan og er því lagður að jöfnu við alla þá sem meðtaka skírn Jóhannesar og lýsa yfir þrá eftir nýju upphafi með Guði. Jesú á að vera málsvari þeirra, en fyrst verður hann að samsama sig þeim. Heilagur Andi Guðs sveif yfir vatninu í fyrstu sköpunarsögunni í fyrsta kafla Gen. Nú kemur Heilagur Andi kemur að ofan líkt og dúfa til að blessa Krist, Son Guðs, í upphafi nýrrar sköpunar. Jesús verður ekki Sonur Guðs á þessum degi; heldur er hin eilífi Sonur Guðs opinberaður í Skírninni, afhjúpaður öllum mönnum. Þessi dagur markar hið nýja líf, hina nýju sköpun. Vonina.

Þegar Andi Guðs stígur niður vísar það í vel þekkta messíanska spádóma úr Jesaja sem segja að Guð muni leggja anda sinn á hinn útvalda þjón. Eins og segir í 61. kafla:

Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn.

Þetta markar tímamót í lífi Jesú, hann er tilbúinn að taka á sig frelsunarhlutverk sitt. Hvergi annars staðar er talað um að andinn birtist í formi dúfu. Sumir vilja meina að hér sé verið að meina að hann steig niður eins og dúfa. Í léttum, þokkafullum vængjatökum.

Hér er kannski verið að vísa í dúfu Nóa, sem sveif yfir ólgandi ringulreið hafsins. Dúfan færði Nóa von í formi trjágreinar. Allar þessar vísanir tengjast nýrri sköpun, en það er einmitt ný sköpun sem á sér stað í skírn Jesú. Þessari nýju sköpun fylgir vonarljós. Vonarljósið á að leiða okkur gegnum lönguföstuna. Þó horft sé innávið, fastað og minnst krossgöngu Jesú gerum við það í von og trú á það sem koma skal. Vonin leiðir okkur gegnum iðrunina og beinir sjónum okkar að óbilandi kærleika Guðs. Mér þykir Jónas Hallgrímsson komast vel að orði í þýðingu sinni á Sólsetursljóði George PR James.

Vonin vorblíða, vonin ylfrjóva drjúpi sem dögg af dýrðarhönd þinni, döpur mannhjörtu í dimmu sofandi veki, sem vallblómin vekur þú á morgni.

Mynd guðs hin máttka! mjúkir draumar glaðlega vakna við geisla þína, eins og náttöldur norðurstrauma bláljósar blika birtu þína við.

Megi Guð blessa ykkur þennan dag og alla daga.