Kenn oss að telja daga vora

Kenn oss að telja daga vora

Sigurbjörn brosti og svaraði síðan af sinni alkunnu og markvissu yfirvegun og rósemi: “Já, vinur minn, þetta hafa menn sagt um aldir, að kirkjan væri að fara í hundana, en alltaf fór það nú svo að hundrarnir dóu en kirkjan lifði!”
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur A. Jónsson
09. maí 2018

Flutt 9. maí 2018 · Listahátíð í Seltjarnarneskirkju 6. maí 2018

Þegar Íslendingar komu saman 2. ágúst 1874 til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar var lofsöngur Matthíasar Jochumssonar (1835-1920) út frá 90. sálmi Saltarans í fyrsta sinn fluttur opinberlega. Sá flutningur átti sér stað í Dómkirkjunni í Reykjavík. Lofsöngur þessi, sem Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1927) samdi lagið við, átti síðar eftir að vera þjóðsöngur okkar Íslendinga. Það er meginástæða þess að 90. sálmurinn hljómar kunnuglega í eyrum flestra Íslendinga.

Þjóðsöngurinn var fagurlega sunginn í lok velheppnaðra tónleika Kammerkórs kirkjunnar okkar síðdegis í gær við setningu listahátíðarinnar. Við höfum minnt á það við kynningu hátíðarinnar að Sveinbjörn Sveinbjörnsson var fæddur í Nesi við Seltjörn og sérstök dagskrá helguð Sveinbirni og tónlist hans verður flutt á annan í hvítasunnu, 21. maí sem hluti listahátíðarinnar.

Hér var þó ekki ætlunin að ræða um þjóðsönginn fyrst og fremst heldur minna á að í 90. Davíðssálmi sem þjóðsöngurinn er ortur út af er að finna einkunnarorð Listahátíðar Seltjarnarneskirkju 2018, “Kenn oss að telja daga vora…” Listahátíðir hafa verið haldnar hér í kirkjunni allt frá árinu 1992, annað hvert ár, og jafnan undir ákveðnni yfirskrift sem oftar en ekki hefur verið sótt í Biblíuna. Myndlistin hefur jafnan skipað veglegan sess og svo er enn og nú eru sýnd verk eftir kunnar listakonur af Seltjarnarnesi, þær Herdísi Tómasdóttur og Ingunni Benediktsdóttur.

Forgengileiki mannsins og eilífð Guðs
90. Davíðssálmur er einn áhrifamesti sálmur Saltarans og er mikið notaður við jarðarfarir, minningarathafnir og við áramót enda eiga forgengileiki mannsins og eilífð Guðs, meginstef sálmsins, vel við á slíkum stundum. Í 12. versi sálmsins segir svo: “Kenn oss að velja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Bænin „Kenn oss að telja daga vora“ (v. 12) felur í sér þá bón að manninum megi verða ljóst hversu stutt líf hans er, þ.e. í samanburði við Guð, og draga af því réttar ályktanir. Lúther skildi þetta vers þannig: „Kenndu okkur að minnast þess að við munum deyja svo að við verðum vitur.” „Viturt hjarta“ felur það í sér að þekkja eigin takmarkanir og takmarkanir mannlegrar tilveru. Hjartað var að hebreskum skilningi álitið aðsetur hugsunar, eins og ráða má af samhenginu hér. En Gamla testamentið var eins og kunnugt er upphaflega ritað á hebresku og þar með Saltarinn, öðru nafni Davíðssálmar. Og samkvæmt hinum hebreska skilningi var hjartað ekki fyrst og fremst aðsetur tilfinninga, eins og okkur er svo tamt að hugsa, heldur fremur hugsana, þekkingar og vitsmuna. Viskan var ekki álitin hæfileiki sem maðurinn öðlaðist af sjálfum sér heldur með bæn til Guðs. Ég held að merking þessa vers sé ekki síst sú að við ættum að gera okkur grein fyrir því að tími okkar er takmarkaður hér á jörð og ættum því að kappkosta að verja honum vel og skynsamlega.

Frá myrkri til ljóssins
Ein af tíu teikningum Herdísar Tómasdóttur hér á hátíðinni af trúarlegum táknum ber nafnið “Stundaglasið”. Herdís hefur tjáð mér að þar hafi hún verið með í huga einkunnarorð hátíðarinnar og þess skilnings sem hún lagði í þau, þ.e. að njóta þeirra stunda sem okkur eru gefnar. Ég neita því ekki að það veitir mér alltaf mikla ánægju þegar myndlistarmenn vinna með biblíulegt efni og heimfæra boðskapinn til okkar tíma í nýjum búningi. Og það hefur Herídís sannarlega gert áður. Allt frá árinu 1999 höfum við haft fyrir augum verk hennar “Frá myrkri til ljóssins” fyrir augum á veggnum hægri megin við prédikunarstólinn., þrír og hálfur x 2 metrar á stærð. Verkið er hlaðið trúarlegu táknmáli að miklu leyti sótt umfjöllun2. kafla 1. Pétursbréfs um “Hinn lifandi stein.” Og þangað er m.a. sótt heiti verksins “Frá myrkri til ljóssins.” En þetta fallega veflistaverk er jafnframt látið kallast á við form kirkjunnar sjálfrar, þakhallann, lit innan kirkjunnar, bláa liti himinsins og fjallanna í fjarska. En með því að lesa 2. kaflann í 1. Pétursbréfi lýkst margt í þessu magnaða veflistaverki betur upp, en Herdís studdist við þann biblíutexta við vinnu sína. Textinn felur í sér hvatningu til safnaðarins um að hann “láti uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til til heilags prestdóms til að vera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar” (1Pét 2.5). Hinir dökku og rauðu litir verksins niðri til hægri mynda nokkurs konar hornsteina sem síðan lýsast upp við krossana þrjá og ljósir litir eru ríkjandi efst. Þá hefur Herdís tjáð mér að hún hafi notað rauða litinn sem tákn fyrir blóð Krists, sbr. “fyrir hans benjar eruð þið læknuð” (1Pét 2.24).

Hið sama er að segja um Ingunni Benediktsdóttur. Trúarleg glerlistaverk hennar hafa hafa frá árinu 2006 prýtt gluggana hægri megin við aðaldyra kirkjunnar.Verkin voru gjöf Kvenfélagsins Seltjarnar til kirkjunnar. Og nú sýnir Ingunn í gluggunum vinstra megin við aðaldyrnar myndþrennu úr gleri sem bera hin biblíulegu heiti Trú, von og kærleikur sem augljóslega eru sótt í Óð Páls postula til kærleikans í 1. Korintubréfi 13, einhvern fallegasta texta Biblíunnar. En ekki ætla ég að taka fram fyrir hendur Rakelar Pétursdóttur sem mun fræða okkur um listaverkin hér á eftir, uppruna þeirri, einkenni og tengsl við stefnur og strauma innan listfræðinnar.

Það er vert að taka eftir því að niðurlag 90. sálmsins er bæn. “Gæska Drottins, Guðs vors, sé með oss., blessa þú verka handa vorra (v. 17). Megi sú blessun fylgja handaverkum í formi listar þeirra Herdísar og Ingunnar hér í kirkjunni. Sagt hefur verið að eðli þessarar bænar í sínu upphaflega samhengi sé að Guð sýni „sitt rétta andlit“ á ný, láti sólina skína eftir undangengna erfiðleika og ávaxti verkin til góðs.

Trésmíði í miklum metum í páfagarði
Skemmtileg saga hefur verið sögð í tengslum við lokavers sálmsins: „Blessa þú verk handa vorra.“ Þegar Golda Meir, forsætisráðherra Ísraels (1898-1978), var í opinberri heimsókn í páfagarði árið 1973, kveið hún tilstandinu og sagði við páfann: „Mér finnst það hreint úr sagt ótrúlegt að dóttir trésmiðs frá Milwaukee sé stödd hér á fundi páfans.“ Páfinn, sem þá var Páll páfi sjötti (1897-1978), svaraði: „Má ég minna yður á það, frú Meir, að hér um slóðir er iðngreinin trésmíði í miklum metum!“ Þarna vísar páfinn að sjálfsögðu til þess sem Nýja testamentið fræðir okkur um að Jesús sjálfur var alinn upp á heimili þar sem heimilisfaðirinn var trésmiður og hefur því sjálfur nær örugglega numið þá iðn.

Athvarf frá kyni til kyns
Svo aftur sé vikið að yfirskrift hátíðarinnar “Kenn oss að telja daga vora…” þá er mikilvægt að hafa í huga einkenni 90. Davíðssálmsins í heild. Sálmurinn hefst á orðunum: “Drottinn þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.” Um þetta upphaf sálmsins hefur verið sagt (Tillich): “Áður en litið er niður er sjónum okkar beint uppá við. Aðeins með því að bera saman hið endanlega við hið óendanlega sjáum við takmörkun okkar. Með því að beina huga okkar að eilífðinni skynjum við okkar takmarkaða tíma.” En orðin um að Drottinn hafi verið okkur athvarf frá kyni til kyns minnir á samleið kristni og þjóðar hér á landi allt frá árinu 1000. Og um leið má minna á samleið trúar og listar allt frá upphafi kristni. Þarf ekki að undra að oft hefur verið talað um trúna og listina sem systur. - Í 4. versi sálmsins segir: “Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já eins og næturvaka.” Þarna er sú hugsun sett fram að sem átti eftir að leggja til efniviðinn í þjóðsöng okkar Íslendinga. Hann var saminn á þeim tímamótum þegar fagnað var þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar, eins og áður sagði. Textinn þótti því vel við hæfi.

Menning er minning
Í nýútkomnu prédikanasafni Karls Sigurbjörnssonar biskups, afmælisriti hans, er ber titilinn Í helgum steini, frábæru riti bæði að útliti og efnislegu innihaldi, ræði Karl á nokkrum stöðum um menninguna. Hann skrifar m.a.. “Menning er minning, sameiginleg minning. Ekkert samfélag þrífst án minninga, sameiginlegra minninga” (s. 185). Og hann bætir við: “Hlutverk hátíða, eins og þjóðhátíðarinnar, - eins og hátíða yfirleitt – er að rifja upp og reyna að muna, og staðsetja sig í samhenginu sem við eigum öll hlutdeild í.” – Undir þessi orð Karls Sigurbjörnssonar skal heilshugar tekið. Og einmitt á þessari listahátíð okkar í ár, beinum við sjónum okkar talsvert til liðinnar tíðar. Við minnumst þess t.d. að hundrað ár eru liðin frá því að íslensk þjóðhátíð fékk fullveldi með sérstakri dagskrá um Arið 1918 í sögu Íslands.

Dagskrá hátíðarinnar hefur nú verið borin út í öll hús á Seltjarnarnesi og er að auki aðgengileg á vefsíðu kirkjunnar og bæklingar liggja einnig frammi í anddyri kirkjunnar. Hvet ykkur öll til að kynna ykkur innihald hennar.
Ljóst er að Biblían lifir enn góðu lífi á vettvangi bókmennta og lista samtímans þrátt fyrir að það fari ekki framhjá nokkrum manni að margvíslegt andóf er gegn trúnni og einkum kristinni trú hér á landi. “Það er lenska að gera lítið úr trú hér á landi, það ríkir áberandi óþol gegn trú af hálfu þeirra sem ráðandi eru í orðræðu dagsins.” (KS s. 105). En trúin hefur gegnum aldir gengið í gegnum þrengingar og mun lifa andófið af eins og áður.

Hundarnir dóu en kirkjan lifir
Ég minnist þess sem ungur guðfræðistúdent er guðfræðinemar voru boðnir í biskupsgarð, heim til Sigurbjörns Einrssonar biskups á Bergstaðastræti, einhvers áhrifamesta kennimanns íslenskrar kristnisögu. Einn yngri nemanna í hópnum sem sest hafði á gólfið með krosslagðar fætur spurði biskup dálítið ögrandi: “Nú er því haldið fram Sigurbjörn að kirkjan sé að fara í hundana. Er það ekki einfaldlega rétt?” Sigurbjörn brosti og svaraði síðan af sinni alkunnu og markvissu yfirvegun og rósemi: “Já, vinur minn, þetta hafa menn sagt um aldir, að kirkjan væri að fara í hundana, en alltaf fór það nú svo að hundrarnir dóu en kirkjan lifði!”
Vel og skemmtilega að orði komist hjá hinum kunna kennimanni. Kirkjan hefur oft lent í miklum mótbyr, jafnvel mætt hreinum ofsóknum og gerir enn um víða veröld en reynist alltaf lifa af. Og Biblían lifir m.a. í menningunni. Það á jafnt við um tónlist, skáldsögur, kveðskap, kvikmyndir og myndlist. Listamenn úr öllum þessum listgreinum róa á mið Biblíunnar og reynast yfirleitt fengsælir.

Reglulegur lestur Biblíunnar
En mestu varðar fyrir okkur hvert og eitt að verða handgengin Ritningunni við reglulegan lestur hennar og íhugun. Þessari listahátíð er m.a. ætlað að vekja athygli á framlagi Biblíunnar til íslenskrar menningar og um leið að vekja áhuga fólks á lestri hennar og tileinkun boðskaparins. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóginn við undirbúning þessarar hátíðar og um leið láta þess getið að hér í bæ hefur um langt árabil ríkt mikið og gott samstarf milli kirkju og bæjaryfirvalda sem við sem unnum kirkjunni erum afar þakklát fyrir.

Listahátíðin 2018 var formlega sett með velheppnuðum vortónleikum Kammerkórsins síðdegis í gær (5. maí), og nú er þessi listasýning þeirra Herdísar og Ingunnar formlega opnuð og á eftir fáum við að hlýða á erindi Rakelar Pétursdóttur um listsköpun þessar tveggja listkvenna héðan af Seltjarnarnesinu. Hátíðin stendur svo til 24. maí og er dagskrá hennar að finna á vefsíðu kirkjunnar.

“Kenn oss að telja ævidaga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Drögum læridóm af þessum fornu orðum 90. Davíðssálms, njótum daganna, verjum þeim vel, lærum af reynslunni og ekki síður Ritningunni og leitumst við að láta gott af okkur leiða. - Amen.