Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Gleðilega hátíð. Gleðileg jól.
Það var á aðventufagnaði hjá eldri borgunum fyrir mörgum árum. Þar var fjölmennt og þar var sýndur helgileikur. Svo hafði verið á samkomu þessari til margra ára. Jósef og María með barnið í maganum, gengu inn í salinn og á eftir fylgdu hirðar, vitringar og englakór. Það átti sem sé að flytja jólaguðspjallið með leik og söng. Sem hinn fríði hópur gekk inn í salinn heyrðist frá einum viðstaddra: „Alltaf sami helgileikurinn“.
Já, það er víst þannig að á sama tíma að ári, síðustu vikuna á hverju ári höldum við jól. Við óskum hvert öðru gleðilegra jóla, bregðum út af vana hversdagsins og höldum hátíð. Jólin eru hátíð minninga. Við búum til minningar. Minningar koma upp í hugann, minningar um jól í foreldrahúsum, minningar um jólin með stórfjölskyldunni, minningar um jólaböllin í æsku. Það er gott að eiga ljúfar og góðar minningar. Við sem fullorðin erum biðjum þess að við getum skapað börnunum fallegar og gleðilegar minningar. Jólin eru hátíð minninga.
„Jólin eru hátíð kærleikans“ sagði söngkonan Sissel Kyrkjebö um leið og hún heilsaði áheyrendum á jólatónleikum sínum í Hörpunni í Reykjavík nýverið. Það er sem kærleikurinn fái vængi og fari á flug í aðdraganda jóla. Við hugsum til þeirra sem okkur eru kær, lífs og liðin. Þeirra sem búa við erfið kjör. Þeirra sem stríða við veikindi. Þeirra sem misst hafa. Þeirra sem sakna. Þeirra sem búa við ófrið og ósætti. Kærleikurinn hvetur okkur til góðra verka og fallegra hugsana.
Jólin eru hátíð barnanna. Við viljum gleðja börnin. Við viljum búa þeim griðastað þar sem öryggi og kærleikur eru til staðar. Við viljum skapa þeim gleði- og friðarjól. Hver eru þessi við? Það erum við sem fullorðin erum. Það er sammannlegur veruleiki að vilja vernda og styðja börnin til að verða hamingjusamir og dugandi einstaklingar. Það er því harmsefni að vita af börnum sem búa við erfið kjör og börnum sem lifa í ótta og við ófrið. Börnum sem fá ekki að þroskast og dafna án áhyggja um framtíð sína og sinna. Börnum sem geta ekki gengið að því vísu að fá að borða sig södd á hverjum degi. Börnum og foreldrum sem lifa við stöðugar áhyggjur af því að búa ekki í öruggu húsnæði eða geta greitt mánaðarlega reikninga.
Um allan heim er lagið heims um ból spilað eða sungið á fæðingarhátíð frelsarans. Á íslensku er það sungið við sálminn hans Sveinbjarnar Egilssonar Heims um ból, helg eru jól, signuð mær son Guðs ól. Mærin unga María, fæddi frumburð sinn. Þess vegna heldur kristið fólk jólahátíð um heim allan og margir sem eru annarrar trúar eða engrar trúar gera það einnig.
Boðskapurinn sem hirðunum var fluttur og mannkyni öllu er skýr. Þér er frelsari fæddur. Þér gefst tækifæri til breytinga. Nú hefur þú tækifæri til að hefja nýtt líf. Hver nýr dagur er tilboð um líf sem þú mótar að eigin vild svo fremi sem þú tekur tillit til samferðafólksins og hugsar til þess í kærleika. Tilboð um að lifa í því ljósi sem upplýsti dimma nóttina þegar engillinn og kórinn hans birtust á Betlehemsvöllum. Tilboð um samfylgd Guðs í dagsins önn, í hverju sem að höndum ber. Barninu sem lagt var í jötu hin fyrsu jól fylgdi fyrirheit um frið á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Því miður er það ekki svo að allir jarðarbúar lifi við frið, en fyrirheitið er samt til staðar. Þær hörmungar sem fólkið í Sýrlandi hefur mátt þola eru fyrirbænarefni okkar allra og bágt til þess að vita að grimmd og illska skuli ráða för. Hið sama á því miður við á fleiri stöðum. Afleiðingarnar eru skelfilegar og er það verkefni alls heimsins að vinna gegn því sem meiðir og deyðir með kærleikann að vopni.
„Verið óhræddir“ sagði engillinn við hirðana á Betlehemsvöllum og mannkyn allt. Ótti má aldrei stjórna og koma í veg fyrir að lífið og kærleikurinn sigri dauðann og illskuna. Því miður virðist vera alið á ótta við margt. Kristið fólk hefur ekki farið varhluta af því. Kristið fólk er að sönnu ofsótt til dæmis í Sýrlandi og fjöldi fólks lætur lífið fyrir kristna trú sína. Það er alið á ótta við þau sem boða kristna trú. Það væri engin kirkja ef fólk fylgdi ekki barninu í jötunni að málum. Ef fólk gengi ekki fram í nafni þess kærleika sem kristin trú í grunninn er. Kirkjan er að starfi úti um allt land, því kirkjan er ekki bara hús og kannski allra síst hús. Kirkjan er fólkið sem vill sýna trú sína í verki og segja frá henni með orðum.
Í kvöld hafa fjölmargir hér á landi og út um allan heim sótt kirkjuna sína. Komið saman til að fagna fæðingu frelsarans, syngja honum lof og biðja til hans. Hafa í bænum sínum hugsað til þeirra sem eru nær og fjær og þakkað fyrir þá miklu gæfu að mega koma saman í nafni hans.
Ungur vinur minn vildi ekki fara með fjölskyldunni í aftansönginn á aðfangadag í kirkjunni sinni eitt árið. Það var í fyrsta og síðasta skiptið sem hann valdi það því næstu jól var hann tilbúinn í sparifötunum í tæka tíð vegna þess að hann gat ekki hugsað sér að missa af fagnaðarboðskapnum í kirkjunni sinni. Honum fannst hann hafa misst af jólunum í fyrra. Hann hefur kannski sönglað texta Baggalútsins, loks þegar aðfanganna dag að drífur / ég dreg fram spariföt og flibbahnapp / þá mega jólin koma fyrir mér.
Fólkinu í kirkjunni er annt um kirkjuna sína, tekur þátt í starfi hennar og vill að boðskapurinn sem hún flytur berist áfram til samferðafólksins og næstu kynslóða. Fólkið í kirkjunni vill að þau gildi sem sonurinn hennar Maríu, birti og boðaði verði ráðandi í samfélagi sínu og samfélagi þjóðanna. Barnið sem fæddist og var vafið reifum og í jötu lagt fékk snemma að kynnast illsku heimsins. Sem kornabarn flúði hann með fjölskyldu sinni til annars lands undan ofsóknum Heródesar konungs. Og síðar sagði hann við fylgjendur sína „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ Í ljósi þessara orða hans og margra annarra sem hann sagði líta fylgjendur hans svo á að það sé skylda hvers kristins manns að reynast náunganum vinur og sýna kærleika í verki án þess að spyrja um lífsafstöðu þess sem andspænis stendur. Kristið fólk leitast við að feta í fótspor Jesú frá Nasaret og reynast náunganum vel, ekki vegna þess að náunginn er kristinn, heldur vegna þess að það er innbyggt í kristna trú að sýna kærleikann í verki.
„Yður er í dag frelsari fæddur“ sagði engillinn við hirðana á Betlehemsvöllum. Orðunum er beint til hirðanna sem eru tákn mannkyns alls. Skilaboðin sem þeir meðtóku voru og eru ætluð öllum sem fæðast hér á jörð. Það eru miklar andstæður sem koma fram í jólafrásögu Lúkasar guðspjallamanns eins og svo oft í lífinu. Hirðarnir gættu hjarðar sinnar í myrkrinu þegar engillinn og hinir himnesku herskarar sem fylgdu honum lýstu upp dimma nóttina. Þeir voru umluktir birtu. Og þannig er það oft í lífi okkar. Við eygjum ekki von eða bjarta framtíð vegna þess sem þjakar okkur eða gerir okkur lífið erfitt. En svo greiðist úr og ljósið lýsir og vonin kviknar um möguleika í stöðunni. Það er að sönnu fagnaðarefni og því lýkur jólaboðskapurinn upp fyrir okkur fyrir trú og í trú. Jólin segja okkur að Guð hefur tekið sér bústað í heimi mannanna. Því megum við trúa, því megum við treysta. Það er komið undir hverjum og einum einstaklingi hér á jörð hvort hann lifir í þeirri trú eða ekki. Við sem búum hér á landi erum heppin að njóta frelsis til að trúa og iðka trú okkar. Það getur enginn tekið það frelsi frá okkur og ekki heldur trúnna, vonina og kærleikann sem kristin trú færir okkur. Sú andlega næring sem trúin á frelsarann gefur, færir miskunn og mildi inn í heim sem oft ber með sér hið gagnstæða.
Það gerðust undur og stórmerki nóttina sem fregnin barst um fæðingu Jesúbarnsins. Heill hópur fylgdi sendiboðanum góða, englinum, eins og segir í guðspjallstexta Lúkasar: “Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ Þarna, eins og oftar í Biblíunni er það orðið sem hefur áhrif. Boðskapur var fluttur, dýrðarboðskapur, friðarboðskapur. Hann er öllu mannkyni ætlaður en ekki fáum útvöldum. Boðskapurinn um frið á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Orðin sem sögð eru og heyrð beina sjónum hirðanna og þar með alls mannkyns að hinum nýja veruleika sem brýst fram í barninu sem fætt er. Og er það ekki merkilegt að fyrstu viðbörgðin við tíðindunum er óttinn. En engillinn tekur óttann burt og færir gleðitíðindin um fæðingu barnsins. Gleðitíðindin, fagnaðarerindið yfirvinnur óttann og erindið hefur borist mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð allt til okkar dags vegna þess að það hefur verið sagt, lifað og iðkað. Megi svo áfram verða á landi hér og um heim allan. Leyfum gleðinni að fylla huga okkar og líf og gefa okkur frið í sál og frið í sinni. Gleðileg jól, í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með yður öllum. Amen.