Sáðkornið geymir upplýsingar

Sáðkornið geymir upplýsingar

Það virtist vera kraftaverk í augum forfeðra okkar en fyrir tilstilli vísindanna hefur okkur opnast heimur sem ber með sér ekki minna kraftaverk. – Innri bygging frækornsins, þessi þétti harði massi – hefur í sér að geyma svo ótrúlega flókna byggingu þannig að allt erfðamengi lífverunnar er þar að finna og bíður þess eins að verða að veruleika.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
27. janúar 2008
Flokkar

Við höfum lifað tíma mikilla umskipta hér undanfarið. Og ég veit ekki með ykkur en það er eins og ég sé hættur að kippa mér upp við það þegar stórfelldar breytingar verða í kringum mig. „Hananú“, segi ég, þegar róstur og köll berast frá áhorfendapöllum í ráðhúsinu og allt virðist í uppnámi á þeim bænum. „Ja sei sei“, hnussar í mér þegar verðbréfin hrynja um milljarðatugi á viku hverri, og ég bíð enn eftir því að skilningur minn opnist fyrir þeim heimi öllum. „Uss uss uss“ fussa ég þegar pólitíkusarnir renna sér tungulipir í stórsvigi framhjá öllum kjarnaatriðum í hneykslismálum daganna og flytja langar ræður án þess að svara nokkru því sem máli virðist skipta.

Stórtíðindi  

 

Ég minnist þess vart hvenær rólegt var yfir Fróni síðast. Það er orðið alllangt síðan. Og vísast á maður eftir að kunna því hálfpartinn illa ef líða vikur eða jafnvel mánuðir án þess að eitthvað stórbrotið reki á fjörur fjölmiðlanna. Tilfinningin verður eins og að bíða í logni eftir storminum. Þetta er hið viðvarandi ástand: sífelld stórtíðindi. Og úr mistri ókominna ára berast þungir bassatónar sem læða að okkur óþægilegri kennd þegar hlé gefst á orrahríð tíðarandans. Reglulega flytja spámenn okkur fregnir af yfirvofandi ógn: drepsóttir, loftslagsbreytingar, styrjaldir og annað það sem mun skekja undirstöðurnar og láta samfélögin riðla til falls.  

Já, undirstöðurnar bifast. Við erum stöðugt minnt á fallvaltleika þess umhverfis sem við tökum sem gefnu. Þar er óstöðugleikinn stundum slíkur að við erum farin að gera ráð fyrir honum sem sjálfsögðum hlut. Við höldum áfram í þægindum vanans. Hávaðinn í kringum okkur verður smám saman að stöðugum klið og við áttum okkur ekki á honum fyrr en hann þagnar. Og smám saman myndast í huga okkar óþol fyrir drungalegum spádómum sem berast með reglulegu millibili af hulinni framtíð.  

Sáðkornið geymir upplýsingar

 Textinn sem við heyrðum áðan greinir frá ólíkum viðbrögðum við merkilegum tíðindum. Kristur líkir orði sínu við sáðkorn og hann líkir sjálfum sér við sáðmann sem dreifir því út um allt án þess að gefa því sérstaklega gaum hverjar viðtökurnar eru. Sáðkornið er allt hið sama: auðugt að frjómagni. Ber það vissulega ekki með sér þegar frásögnin hefst. Í einu lófafylli komast fyrir óteljandi eintök af þessum litlu svörtu kornu. Og þeim er varpað út – rétt eins og Kristur fór sjálfur af stað og miðlaði boðskapnum til allra þeirra sem á vegi hans urðu.  

En það er auðvitað ekki allt sem sýnist. Fræin sem virðast í fyrstu vera eins og hver önnur mylsna hafa í sér einhvern ólýsanlegan kraft. Það virtist vera kraftaverk í augum forfeðra okkar en fyrir tilstilli vísindanna hefur okkur opnast heimur sem ber með sér ekki minna kraftaverk. – Innri bygging frækornsins, þessi þétti harði massi – hefur í sér að geyma svo ótrúlega flókna byggingu þannig að allt erfðamengi lífverunnar er þar að finna og bíður þess eins að verða að veruleika. Í frjókorninu er öll verðandin. Þar höfum við slíkt magn upplýsinga að það kæmist aðeins fyrir í hnausþykkum doðröntum. Þetta eru upplýsingar sem hægt er að umorða með bókstöfunum D, N og A og það hvernig þeir para sig saman ræður því hvernig lífveran lítur út!  

Unnið úr upplýsingum

 Orðið sem Kristur flytur og orðið sem fylgjendur hans, kirkjan, boða okkur á í raun meira sammerkt með frjókorninu en upphaflegir áheyrendur Krists hafa getað gert sér grein fyrir. Allt það sem lifir er í raun það hvernig unnið er úr slíkum upplýsingum. Þær ráða því hvernig lífveran er – hvort útkoman verður afríkufíll eða hveitikorn. Allt veltur það á upplýsingunum.  

Kristur lýsir því hvernig fór fyrir þessum frjókornum. Þau hlutu flest þau örlög að eyðast áður en þessum dýrmætu og mikilvægu skilaboðum var komið á framfæri. Fyrir vikið varð ekkert úr þeim. Lífið sem þau áttu að tengdra varð ekki til. Og Kristur rekur ástæðurnar: Sumt var fótum troðið; annað féll á klöpp; sumt féll meðal þyrna – ekkert af því korni sem þangað endaði náði að vaxa upp og bera sjálft ávöxt. Upplýsingarnar sem þarna voru samankomnar fóru forgörðum og urðu ekki að neinu.  

Manni finnst þetta nú í fljótu bragði ekki mjög skynsamlega farið með sáðkornið. Flest myndum við vanda okkur – leggja rákir í frjóan jarðveginn og planta korninu vanlega þar ofan í svo við megum eiga von á beinum og réttum röðum sem hægt er að þreskja og sækja meira korn sem sjálft ber svo ávöxt. Flest létum við það eiga sig að henda því á stéttina eða innanum þyrnigróðurinn. En þarna lýsir hann þrátt fyrir allt starfi sínu. Hann kemur með boðskapinn til fólksins og flytur því hann.  

Allir fá að heyra

 Jesús fór ekki í manngreinarálit. Hann var bjartsýnn rétt eins og sáðmaðurinn sem gerði sér greinlega vonir um að jafnvel í þeim jarðvegi sem ólíklegastur virtist – gæti þrátt fyrir allt reynst næringarríkur fyrir kornið sem í honum lenti. Með sama hætti er Guð óþreytandi að boða okkur orð sitt. Hann boðar okkur það í heilegri ritningu. Að henni höfum við aðgang og Guð fer ekki í manngreinarálit. Kristur átti samfélag með þeim sem á leið hans urðu, hvort heldur þeir voru tollheimtumenn, skækjur, hórsekir eða aðrir þeim sem samfélagið dæmdi óverðuga.   Og þar reyndist oft frjórri jarðvegur fyrir boðskap hans heldur en hjá þeim sem frómastir þóttu og merkilegastir en voru illa í stakk búnir til þess að taka við lífgefandi boðskap hans. Í þeim hópi leyndist menn sem áttu eftir að flytja orðið lengra, margfalda það og efla.  

Ný Biblía

 Já, þetta er boðskapur Biblíudagsins. Og á árinu 2008 er enn unnið að því að bera út frjókorn þessi sem hafa að geyma svo dýrmætar upplýsingar til allra lýða. Boðskapurinn  nær svo víða bæði í tíma og rúmi. Við sýnum fermingarbörnunum gjarnan Biblíur af ýmsum stærðum og gerðum í fræðslunni. Þau fá að bera saman þessar ólíku bækur, halda á þeim, opna þær og velta fyrir sér þeim tíma sem fékk hverja þeirra í hendurnar.  

Mesta athygli vekur sú sem fyrir aftan mig stendur, Guðbrandsbiblían sjálf og ég reyni að útskýra fyrir þeim hversu miklu hún breytti fyrir þjóðina. Þeim þykir það líka merkilegt hvað hún kostaði – eina belju, segi ég þeim, en það var einmitt verðið á sínum tíma: eitt kýverð. Lítið þýddi víst að dreifa slíku riti nú í dag. Nú í fyrra kom út ný þýðing sú sjötta í röðinni og hún er ekki bara létt, smekkleg og meðfærileg. Hún er líka á því máli sem fólk á Íslandi í dag talar og skilur. Þannig fær hver tími sína Biblíu sem hæfir aðstæðum hans og kröfum.  

Á auglýsingum fyrir nýju Biblíuna voru landsþekktir einstaklingar fengnir til þess að segja álit sitt á hinni helgu bók. Þar er m.a. bæjarstjórinn okkar sem segist lesa hana reglulega og finni í henni styrk og leiðsögn í dagsins önn. Skáldin tala um hana sem jarðveg og uppsprettu helstu bókmennta þjóðarinnar, stjórnmálamenn segja hana sameina menningu okkar og gildi og leikarar finna í henni óþrjótandi lind innblásturs og andagiftar.

Hlúum að jarðveginum 

 

Boðskapur Biblíunnar er öllum hollur. Hann setur líf okkar í stærra samhengi og bendir okkur á þann sem öllu ræður. En kröfur hans til okkar eru öðru fremur þær að við ölum önn fyrir þeim sem minni máttar er og þarf á liðsstyrk okkar að halda. Og hún færir okkur vonina sem auðgar líf okkar og eflir. Allt er þetta satt og rétt og hvert okkar hefur það verkefni að miðla þessum boðskap áfram til þeirra sem okkur er falin ábyrgð yfir. Hér í kirkjunni er til dæmis frjór vettvangur starfs þeirra sem vilja láta gott af sér leiða.  

En hvað, þegar skynfæri okkar eru svo útsett fyrir endalausum viðburðum, stórtíðindum, yfirvofandi hamförum að við eins og mettumst og missum skynbragðið á það sem skiptir máli og hitt sem er minna virði?  Frjókornið sem fellur á okkar dögum, hversu vel það er undir það búið að falla til jarðar og bera ávöxt, lendir oftar en ekki innan um þykkan gróðurinn sem kæfir það og varnar því að það nái birtu og næringu. Það er okkar að hlúa að því og fyrir ykkur, ágætu foreldrar fermingarbarna, er það sífellt hlutverk að rækta með börnum ykkar þá dýrmætu sannfæringu sem Biblían vill færa þeim.  

Það er undir okkur komið að tryggja að jarðvegurinn sé frjór og móttækilegur fyrir orðinu. Þá erum við líka betur í stakk búin til þess að mæta þeim kröfum sem samtíminn gerir til okkar hverju sinni.  

Guðspjall: Lúk 8.4-15